Morgunblaðið - 07.02.2004, Blaðsíða 50
MINNINGAR
50 LAUGARDAGUR 7. FEBRÚAR 2004 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Ólafur Guð-brandsson fædd-
ist á Akureyri 13.
mars 1924. Hann lést
á Fjórðungssjúkra-
húsinu á Akureyri
27. janúar síðastlið-
inn. Foreldrar hans
voru hjónin Guðrún
Svanhildur Flóvents-
dóttir, f. 31. júlí 1886,
d. 3. október 1974, og
Guðbrandur Jóhann
Sigfússon, f. 12. júlí
1888, d. 10. febrúar
1951. Systir Ólafs var
Sigurlaug Þóra Guð-
brandsdóttir, f. 13. október 1919,
d. 5. ágúst 2001. Hennar maður
var Sigþór Guðjónsson, f. 24. febr-
úar 1908, d. 25. janúar 1990. Þau
eignuðust þrjú börn.
Ólafur var kvæntur Guðrúnu
Guðmundsdóttur frá Vattarnesi,
f. 20. júní 1923. Börn Ólafs eru
þrjú: 1) Guðrún Jakobína, f. 1952,
gift Hrafnkeli Hall. Þau eiga fjög-
ur börn og þrjú barnabörn. Móðir
Guðrúnar Jakobínu er Daisy
Karlsdóttir. 2) Regína, f. 1952 og
er hún gift Sigurði Sigurðssyni.
Börn þeirra eru fjögur og barna-
börn sex. 3) Guðbrandur Jóhann,
f. 1956. Eiginkona hans er Sigríð-
ur Elva Ólafsdóttir. Þau eiga þrjú
börn og eitt barnabarn.
Ólafur ólst upp á Siglufirði.
Hann fór snemma að
vinna og var sendill
hjá Kaupfélagi Sigl-
firðinga ungur að
árum. Um tvítugt fór
hann á Héraðsskól-
ann í Reykholti og
var þar tvo vetur.
Þegar heim kom fór
Ólafur til sjós og var
á togurum og bátum
meðan hann var
ungur. Hann var til
sjós þegar dætur
hans fæddust 1952.
Síðan þegar hann
fór í land starfaði
hann hjá Síldarverksmiðjum rík-
isins á Siglufirði í mörg ár. Einnig
starfaði hann í frystihúsi hjá fyr-
irtækinu Ísafold hf. Samhliða
þessum störfum hafði Ólafur
kindur og var það hans helsta
ánægja og afþreying, auk þess að
vera drjúg búbót fyrir heimilið.
Hann var einn af stofnendum
Fjáreigendafélags Siglufjarðar
og starfaði á vegum þess félags
nokkur haust.
Á efri árum, þegar heilsa hans
var tekin að bila, reri hann til
fiskjar á trillu ásamt syni sínum
og var það hans síðasti starfsvett-
vangur.
Útför Ólafs fer fram frá Siglu-
fjarðarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Elskulegur tengdafaðir minn
Ólafur Guðbrandsson lést á Sjúkra-
húsi Akureyrar eftir stutta en
snarpa baráttu þar sem hófst á
sjúkrahúsi Siglufjarðar, við manninn
með ljáinn, Óli Brandar eins og hann
var yfirleitt nefndur, var Siglfirðing-
ur í húð og hár, og þekkti hann þar
hverja þúfu og hvern stein. Óli var
hinn sanni Íslendingur sem hvergi
mátti neitt aumt sjá. Og ef hann vissi
af einhverjum sem var minni máttar
brást hann skjótt við án þess að láta
af sér vita. Má segja að Óli hafi verið
ærbóndi þó ekki hafi verið í stórum
stíl þar sem ær voru hans áhugamál
af lífi og sál alla ævi. Hann starfaði
lengst um hjá Síldarverksmiðjum
ríkisins og var þar virtur af vinnu-
félögum og vinnuveitendum og þótti
góður starfskraftur. Fólu þeir hon-
um ýmis störf og var hann meira að
segja sendur til annarra landshluta
til að koma lagi á tæki sem þar höfðu
bilað eða þurftu aðhlynningar og
með yfirvegun sinni og athyglisgáfu
tókst honum oftast en ekki að koma
skikki á þau tæki sem margir aðrir
höfðu gefist upp á. Þrátt fyrir anna-
söm störf hjá SR gaf Óli sér alltaf
tíma til að sinna því, sem hann tók í
arf frá föður sínum, það var að sjá
um kindur sem faðir hans hafði átt.
Óli sem var mjög kærleiksríkur og
elskaði bæði dýr og menn tók að sér
hlutverk bóndans við fráfall föður
síns, hann hugsaði einstaklega vel
um kindur sínar allt árið um kring. Á
sumardögum naut hann þess að fara
upp í Hvanneyraskál með brauð og
annað góðgæti og þar stóð hann oft
góða stund og kallaði á kindurnar
sínar í blíðum róm sem komu að
vörmu spori eftir að heyra rödd hans
og þáðu veitingar úr hendi hans.
Ég hygg að það hafi verið mikið
gæfuspor hjá Óla Brandar þegar
hann ákvað að framtíð sinni skyldi
hann eyða með Guðrúnu Guðmunds-
dóttir frá Eskifirði, sem lifir mann
sinn og harmar hið snögga fráfall
hans. Gunna mín, það er staðföst trú
mín að látnir lifi og guð faðir vor mun
sjá svo um að við hittumst á ný í ríki
hans. Ég bið góðan guð að gefa
Gunnu og börnunum styrk til að tak-
ast á við það sem framundan er. Alls
þessa bið ég og þakka í Jesú nafni.
Megi styrkur hins æðsta gefa þér
frið og blessun í minningu um þenn-
an góðan mann. Minningin um Óla
mun aldrei hverfa og hans mun ég
ætíð minnast er ég heyri góðs manns
getið.
Elsku Gunna og börn, megi guð
veita ykkur styrk á þessum erfiða
tíma.
Sigurður.
Elsku afi. Það eru margar ljúfar
minningar sem koma upp í huga okk-
ar systkina við andlát þitt, fyrir þær
dýrmætu stundir erum við ævinlega
þakklát. Oft hringdum við í þig og
báðum þig að sækja okkur upp í
skarð og alltaf komst þú og keyrðir
okkur heim með bros á vör, jafnvel
vini okkar líka. Á leið heim úr
íþróttahúsinu var oft komið við hjá
afa og ömmu og spjallað við eldhús-
borðið eða bara horft á sjónvarpið.
Þangað var gott að koma og alltaf
dekrað við mann. Afi hafði gaman af
því að segja sögur og sagði okkur
ófáar frá því í gamla daga. Afi fræddi
okkur heilmikið um ættfræði en
hann var snillingur á því sviði.
Við minnumst afa sem frábærrar
manneskju og mun minningin um
hann alltaf skipa stóran sess í hjört-
um okkar. Við kveðjum afa með
söknuði og trega. Guð blessi minn-
ingu hans.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem)
Elsku amma, guð styrki þig í þess-
um mikla missi og veiti þér festu og
styrk til að horfa fram á við björtum
augum.
Guðrún Sif, Jóhann Örn
og Ólafur Guðmundur.
Elsku afi minn. Þú varst alveg ein-
stakur, ljúfur og góður maður. Það
er mér svo minnisstætt þegar ég var
yngri, því þá komum við fjölskyldan
alltaf norður á hverju sumri og
dvöldum jafnan í mánuð í senn. Það
var svo mikil tilhlökkun að koma til
ömmu sem beið með lærið í ofninum
og afa sem sagði okkur sögur af
kindunum sínum sem honum þótti
svo vænt um, að hann hefði viljað
sofa með þær uppí hjá sér. Afi hafði
líkan einstakan áhuga á ættfræði
sem gat verið ansi gaman að hlusta
á, þó maður hafi ekki alltaf náð að
fylgja þræðinum.
Amma og afi voru alveg einstök,
þau hafa alla tíð verið svo samrýnd
og miklir vinir.
Það er alltaf erfitt að kveðja ástvin
sem hefur fylgt manni í gegnum lífið
en, elsku afi minn, ég veit að þú átt
eftir að fylgja okkur alla tíð.
Ég kveð að sinni og bið Guð að
geyma ömmu, mömmu, Gunnu Bínu,
Guðbrand og fjölskyldur.
Guð veri með ykkur.
Mér finnst ég varla heill né hálfur maður
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður
verða betri en ég er.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
(Vilhj. Vilhj.)
Þín
Nína.
Elsku afi. Minningar um þig eru
margar og allar eru þær ljúfar og
góðar. Ég man svo vel eftir öllum
ferðunum með þér út á Strönd að
gefa kindunum, sem þér þótti svo
vænt um að þú þekktir þær allar með
nafni. Einnig eru mjög minnisstæðar
allar ferðirnar upp í Hvanneyrarskál
þar sem bílnum var lagt og tekinn
smágöngutúr sem endaði oftar en
ekki með flikk-flakk eða öðrum slík-
um leikfimiæfingum sem allir öfund-
uðu þig af þótt áratugum yngri
væru, margar aðrar góðar minning-
ar eiga eftir að kalla fram bros hjá
mér um ókomna tíð. Afi og amma
voru alltaf jafn stolt og ánægð með
barnabörnin svo ég tali nú ekki um
langafabörnin sem nú eru tíu talsins
og fer fjölgandi, söknuður þeirra er
mikill því þau fengu svo stuttan tíma
með þér.
Afi minn, mikið rosalega er sárt að
kveðja þig á þessari stundu en ég
veit að það hefur verið tekið vel á
móti þér af Laugu systur þinni og nú
munuð þið saman vaka yfir okkur
öllum.
Elsku amma mín, mamma, Gunna
Bína, Guðbrandur og fjölskyldur.
Sorg ykkar og okkar allra er mikil en
við stöndum þétt saman og veitum
hvert öðru styrk á þessari erfiðu
stund.
Elsku afi minn, sofðu rótt.
Saknaðarkveðja.
Sigríður Gróa.
Þá er komið að því að maður
kveðji ástkæran afa minn hann Ólaf
Guðbrandsson, Óla Brandar eins og
hann var oftast kallaður. Og þakka
ég honum allar yndislegu stundirnar
sem ég hef átt með honum og eru
það margar skemmtilegar minn-
ingrnar sem maður getur rifjað upp
þegar maður hugsar til baka, eins og
þegar það var verið að reyna að
kenna manni að slá með orfi og ljá
sem gekk nú frekar hægt ef nokkuð
en alltaf situr nú eitthvað eftir eins
og nú þegar maður er að reyna að
herða upp hugann og láta tímann
reika til baka. Minningarnar eru ótal
margar sem koma upp í hugann og
læt ég hugann reika á meðan ég rifja
þær aðeins upp og geymi allar hinar,
eins og gull. Að fara upp í Hvanneyr-
arskál á Subaru og sjá hversu langt
hann gæti komist og eftir að upp var
komið og ekki lengra hægt að kom-
ast á bílnum þá var bara lagt og kall-
að á kindurnar hans sem hlýddu með
ólíkindum á köllin hans og komu
skömmu síðar og fengu sér brauð-
bita eða annað góðgæti sem var ekki
langt undan, eins og þegar kindun-
um var sleppt á fjall voru það ófáar
stundirnar sem það var notaður kík-
irinn til að skoða hvaða kindur væru
uppi í fjalli og alltaf þekkti hann sín-
ar úr hópnum þó margar aðrar væru
í kringum hans kindur.
Hann afi minn var einstaklega
góður í ættfræðinni. Hann var það
góður í ættfræði að maður skildi
stundum ekkert í því hvernig hann
vissi allt þetta, sem hann gat frætt
mann á, en mér er mjög minnisstætt
eina verslunarmannahelgina þegar
ég ásamt nokkrum vinum mínum
fékk að gista í garðinum hjá afa og
ömmu og vini mína langaði til Ak-
ureyrar en ég ákvað að verða eftir og
var þá hjá afa og ömmu alla helgina.
Er þetta ein skemmtilegasta versl-
unarmannahelgi sem ég hef farið á
og hefur maður nú farið á þær
nokkrar. Að tala við afa um ættfræði,
kindur og spil og allt milli himins og
jarðar. Elsku afi minn, takk fyrir all-
ar góðu stundirnar. Ég votta ömmu
Gunnu og Gunnu Bínu, Regín og
Guðbrandi samúð mína.
Ólafur Rúnar.
Elsku langafi.
Vertu yfir og allt um kring,
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring,
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson.)
Karen Sól og Ísak Máni.
Elsku langafi.
Ó, Jesú bróðir besti,
og barna vinur mesti,
Æ, breið þú blessun þína,
Á barnæskuna mína.
Aron Þór og Eva Ösp.
Elsku afi og langafi, minning þín
lifir í hjörtum okkar. Við erum ríkari
fyrir að hafa átt þig að.
Láttu nú ljósið þitt
loga við rúmið mitt.
Hafðu þar sess og sæti,
signaði Jesú mæti
(Höf. ók.)
Vertu nú yfir og allt um kring
með eílífri blessun þinni,
sitji guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni
(Sig. Jónsson)
Megi guð styrkja hana ömmu okk-
ar á þessum erfiðu tímum.
Ólafur og Telma Sól, Gunnar
og fjölsk., Hafdís og fjölsk.
og Fannar Snær.
Ólafur Guðbrandsson fluttist
hingað til Siglufjarðar með foreldr-
um sínum innan við eins árs aldur.
Þau Guðrún Flóventsdóttir og Guð-
brandur Sigfússon létu byggja
Hvanneyrarbraut 21c og var húsið
ekki tilbúið fyrr en um sumarið 1924.
Í þessu húsi ólst Ólafur upp og átti
heimili alla sína ævi. Ólafur lauk
skólagöngu hér í bænum, en fór síð-
an í Reykholtsskóla og var þar í tvo
vetur ásamt fleiri Siglfirðingum.
Hann var góður íþróttamaður á
þessum tíma og naut þess lengst ævi
sinnar.
Ólafur vann alla algenga verka-
mannavinnu bæði til sjós og lands,
síðustu starfsárin hjá SR hér í Siglu-
firði.
Ég sem þessar línur rita var í fé-
lagsskap með Ólafi. Það var Sam-
eignarfélag fjáreigenda, sem við svo-
kallaðir fjáreigendur stofnuðum
eftir að Kaupfélag Siglfirðinga varð
gjaldþrota 1970. Þar vann Ólafur
nokkur haust í sláturtíðinni. Árið
1984 var Sameignarfélagið lagt niður
vegna þess að stjórnarmenn í land-
búnaðarráðuneytinu neituðu okkur
um leyfi til áframhaldandi starfs-
rekstrar. Þá hættu langflestir fjár-
eigendur hér í Siglufirði fjáreign.
Ólafur var vel lesinn, ættfróður í
betra lagi og var vel heima í orðræð-
um hvar sem borið var niður. Hér
innan þessa þrönga en fagra fjalla-
hrings bjó og starfaði Ólafur og vildi
hvergi annars staðar vera, enda á
hann margar ferðir hér í fjöllunum í
kringum Siglufjörð, Hvanneyrar-
skál, Ófæruskál og fyrir Strákafjall
og komst ávallt klakklaust úr þeim
ferðum.
Við Ólafur erum búnir að þekkjast
í nokkra áratugi, enda fjölskyldurn-
ar tengdar því dóttir mín er gift Guð-
brandi syni Ólafs. Að lokum sendi ég
eiginkonu hans, börnum, tengda-
börnum og barnabörnum samúðar-
kveðjur. Enda ég þessi fátæklegu
orð með minningu um félaga okkar í
Sameignarfélaginu eftir Þórarin
Hjálmarsson:
Ég þakka okkar löng og liðin kynni,
sem lifa, þó maðurinn sé dáinn.
Og ég mun alltaf bera mér í minni
þá mynd sem nú er liðin út í bláinn.
Und lífsins oki lengur enginn stynur
sem leystur er frá sinnar æviþrautum.
Svo bið ég Guð að vera hjá þér, vinur
og vernda þig á nýjum ævibrautum.
Ég vona að Ólafur hafi átt góða
heimkomu með hækkandi sól og vax-
andi birtu.
Hvíl í friðarfaðmi og guði falinn.
Ólafur Jóhannsson.
Í dag kveðjum við góðan sam-
ferðamann, vin í gegnum lífið og
móðurbróður, hann Óla frænda. Það
er einhvern veginn þannig að kallið
kemur alltaf á óvart þótt hár aldur
gefi til kynna að frekar megi maður
búast við því.
Óli frændi var svo lánsamur að
hann þurfti ekki að dveljast lengi á
sjúkrastofnumum. Hann var alltaf
svo hress og gat gert það sem hann
hafði gaman af, eins og að aka um
bæinn á sínum fjallabíl með Guðrúnu
sína sér við hlið. Guðrún og Óli voru
einstaklega náin og máttu ekki hvort
af öðru sjá, það var aðdáunarvert
hvað þau voru miklir vinir og alltaf
saman.
Siglufjörður var bærinn og enginn
ástæða til að fara nokkuð annað,
nema ef til vill upp á Akranes til
Regínu dóttur sinnar og fjölskyld-
unnar hennar. Það var því ákaflega
ánægjulegt þegar þau heiðurshjón
voru stödd í Reykjavík síðasta sum-
ar, ásamt Guðbrandi syni sínum og
fjölskyldu, til að fagna 80 ára afmæli
Guðrúnar, að fá þau í heimsókn í
Hafnarfjörðinn til Guðbjargar
frænku sinnar. Þá var glatt á hjalla
og var það öllum mikið gleðiefni.
Þegar við systkinin vorum að alast
upp á Sigló var daglegur samgangur
á milli heimilanna á Hólaveginum og
Hvanneyrarbrautinni. Amma og afi
bjuggu á Hvanneyrarbrautinni og
síðar eftir lát afa bjuggu þar Óli,
Guðrún og amma ásamt Gunnu
Bínu, Regínu og Guðbrandi og voru
þau okkar nánasta fjölskylda.
Það var alltaf gott að koma til Óla
og Guðrúnar, enda var oft litið inn til
þeirra, þegið kaffi og heimabakað
brauð að hætti hússins. Ávallt þegar
Óli var sóttur heim var maður dott-
inn inn í allsherjar ættfræði og ætt-
irnar raktar saman eins og honum
einum var lagið. Honum var mikið í
mun að vera í nánu sambandi við
börnin sín og barnabörn.
Ekki má gleyma blessuðum kind-
unum sem voru hans vinir, oft greip
hann í kíkinn og skannaði yfir fjöllin í
leit að kindunum sínum sem hann
þekkti langt að.
Móðir okkar átti bara eitt systkini,
hann Óla frænda, og það var alltaf
mjög sterkt samband á milli þeirra.
Síðustu vikurnar í lífi þeirra voru um
margt svipaðar. Líkt og systir hans
fór Óli í sína hinstu för til Akureyrar.
Við viljum að lokum þakka Óla
frænda fyrir allt, þá umhyggju og
frændsemi sem hann sýndi okkur
ætíð. Sérstaklega viljum við þakka
honum fyrir að annast eftirlit með
íbúðinni okkar á Hólavegi 19 og þá
alúð sem hann sýndi heimili foreldra
okkar.
Við vottum Guðrúnu og afkom-
endum þeirra hjóna samúð okkar.
Guðbrandur, Guðbjörg,
Páll Marel og fjölskyldur.
ÓLAFUR
GUÐBRANDSSON
MORGUNBLAÐIÐ birtir afmælis- og minningargreinar endurgjalds-
laust alla daga vikunnar. Greinunum má skila í tölvupósti (netfangið er
minning@mbl.is - svar er sent sjálfvirkt um leið og grein hefur borist)
eða á disklingi og þarf útprentun þá að fylgja. Nauðsynlegt er að til-
greina símanúmer höfundar og/eða sendanda (vinnusíma og heima-
síma). Tekið er á móti afmælis- og minningargreinum á 1. hæð í húsi
Morgunblaðsins, Kringlunni 1 í Reykjavík, og á skrifstofu Morgun-
blaðsins Kaupvangsstræti 1 á Akureyri. Ekki er tekið við handskrif-
uðum greinum.
Birting afmælis- og
minningargreina