Morgunblaðið - 12.12.2004, Blaðsíða 14
14 SUNNUDAGUR 12. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Reynir Ragnarsson starfaðilengi í lögreglunni í Vík íMýrdal, en er nú kominn á
eftirlaun. Hann lærði ungur að fljúga
og aflaði sér síðar atvinnuréttinda.
Um tíma átti hann tveggja hreyfla
flugvél og annaðist útsýnisflug,
sjúkraflug og leiguflug í hjáverkum.
Hlaup kom skyndilega í Jökulsá á
Sólheimasandi hinn 18. júlí 1999.
Líkur eru taldar á að þá hafi orðið
lítið gos undir jöklinum, en ekki náð
að bræða sig upp úr honum. Reynir
hafði flugvél til umráða og flaug
strax yfir jökulinn. Hann sá hvar sig-
ketill hafði myndast, þar sem hitnað
hafði undir.
„Síðan hef ég flogið nokkuð reglu-
lega yfir Mýrdalsjökulinn,“ segir
Reynir. „Raunvísindastofnun Há-
skóla Íslands bað mig að fylgjast
með þessu. Ég reyni að fara því sem
næst hálfsmánaðarlega. Stundum
fer ég þéttar og stundum líður aðeins
lengra á milli. Það fer eftir veðri. Ef
það er mjög bjart stenst ég sjaldnast
freistinguna að kíkja á þetta.“
Þegar veðrið er sérstaklega gott
tekur Reynir lengri hring og flýgur
einnig yfir Eyjafjallajökul. Hann sit-
ur vinstra megin í flugvélinni og tek-
ur ljósmyndir út um rennilúgu sem
hann hefur útbúið á hliðargluggann.
Flugleiðin er alltaf sú sama, rang-
sælis kringum jökulinn og í um 1.000
feta (um 300 m) hæð yfir jökul-
hjarninu. Sigkatlarnir í Kötluöskj-
unni hafa hver sitt númer, Reynir
skoðar hvern og einn og tekur mynd-
ir. Honum þykir best að fara rétt eft-
ir sólarupprás, þá fellur sólarljósið
skáhallt eftir jöklinum. Sólarhæðin
ræður því hve áberandi skuggarnir í
sigdældunum verða. Við myndatök-
urnar leitast Reynir við að hafa
þekkt kennileiti í bakgrunni sem
auðveldar að átta sig á staðsetning-
unni.
„Ef ég sé eitthvað sem mér þykir
frábrugðið því venjulega eða athygl-
isvert sendi ég myndir af því inn á
vísindavefinn. Þetta er samráðsvefur
vísindamanna í sambandi við Kötlu.
Ég tek 50 til 100 myndir í hverri
flugferð. Eftir árið brenni ég allar
myndirnar á disk og sendi til dr.
Magnúsar Tuma Guðmundssonar á
Raunvísindastofnun,“ segir Reynir.
Flugvélin sem hann notar til eft-
irlitsflugsins, TF-FAR, er eins
hreyfils Aero Commander, fjögurra
sæta, með 150 ha Lycoming-hreyfli,
árgerð 1968. Reynir á hana með ná-
granna sínum, sem einnig á heima í
Vík. Vélin er geymd í flugskýli við
flugvöllinn austur undir Höfða-
brekkum. En skyldi flugvélinni vera
óhætt ef gysi?
„Hún er eiginlega í hættu þar sem
hún er, í svokölluðum Höfðabrekku-
jökli,“segir Reynir. „Þar strandaði
gríðarmikil jakahrönn sennilega í
gosinu 1721 eða 1755. Jakahrönnin
var kölluð Jökullinn eða Höfða-
brekkujökull og festist nafnið við
svæðið. Hluti sandhólanna var jafn-
aður og gerður flugvöllur. Hólarnir
eru helsta vörnin fyrir því að flóð-
vatn komist að austan hingað til Vík-
ur.“
Reynir segist ekki hafa merkt
neinar stórbreytingar á Mýrdals-
jökli að undanförnu. Ekkert sem
hann myndi telja fyrirboða þess að
eitthvað væri í aðsigi. „Seinnipart
sumars, þegar snjórinn fer að hlána,
koma oft í ljós sprungur í kringum
sigkatlana. Þær eru mismiklar milli
ára. Sigkatlarnir verða líka mis-
djúpir.“
Auk eftirlits úr lofti með jöklinum
starfar Reynir einnig fyrir vatna-
mælingar Orkustofnunar. Hann
kannar leiðni og rennsli í Múlakvísl
og Jökulsá á Sólheimasandi. Það eft-
irlit er til viðbótar eftirliti með sjálf-
virkum mælum.
Vel æfð viðbrögð
Auk þess að starfa í lögreglunni
um árabil er Reynir í björgunar-
sveitinni Víkverja og í svæðisstjórn
hennar. Hann segir að ein fyrsta við-
bragðsáætlun Almannavarna rík-
isins, eins og starfsemin hét þá, hafi
verið gerð fyrir Vík í Mýrdal vegna
mögulegs Kötlugoss. „Þá var ég for-
maður björgunarsveitarinnar og
vann að gerð áætlunarinnar með
Guðjóni Petersen, þáverandi fram-
kvæmdastjóra almannavarna, og
nefndinni sem hér var. Áætlunin
gengur út á að rýma láglendið hér í
Vík, ef kemur til goss.“
Reynir segir mikið hafa breyst
síðan fyrsta áætlunin var gerð, ekki
síst hvað varðar alla tækni. „Þá var
ekki einu sinni kominn sjálfvirkur
sími, heldur var hér símstöð sem var
lokað á nóttunni og sveitasímar. Það
voru settar upp nokkrar loftvarna-
sírenur til að vara fólk við ef eitthvað
gerðist. Einnig var sérstök vakt á
Kötlu í gegnum lóranstöðina á Reyn-
isfjalli, því þar var vakt allan sólar-
hringinn. Settur var strengur inn
undir jökli. Hann átti að slitna ef
kæmi hlaup og þá hringdi bjalla í lór-
anstöðinni. Strengurinn vildi slitna
vegna hruns, bæði grjóts og snjó-
flóða, og bjallan hringdi oft og gaf
falska viðvörun.“
Nú er tæknin öll önnur. Katla er
vöktuð með jarðskjálftamælum og
landmælingum auk eftirlits úr lofti.
Reynir er á úthringilista hjá Neyð-
arlínunni og fær sjálfkrafa boð ef
dregur til tíðinda. Til er viðbragðs-
og rýmingaráætlun fyrir Vík sem
heimamönnum er vel kunnugt um og
hefur verið æfð.
Reynir segir nokkur dæmi þess að
falskar tilkynningar hafi komið um
Kötlugos. Stundum hafi ekki þurft
meira til en smávægis jarð-
skjálftakipp til þess að hleypa af stað
viðbúnaðarstigi. „Einu sinni varð
snarpur skjálfti hér og almanna-
varnanefndin kölluð saman. Ég var
þá í nefndinni. Þá var hringt og sjón-
arvottur taldi sig sjá mökk. Skýja-
myndun er þannig að þau geta stigið
hratt upp norður af jöklinum. Það
hefur gerst oftar en einu sinni að fólk
hefur talið sig sjá mökk bólstrast
upp af jöklinum. Menn hafa jafnvel
talið sig sjá flóð koma niður skriðjök-
ulinn, en allt hafa þetta reynst vera
falskar aðvaranir,“ segir Reynir. En
er Katla mjög nálæg í daglegri til-
veru Mýrdælinga?
„Mér finnst fólk yfirleitt ekki ótt-
ast Kötlu,“ segir Reynir. „Það hefur
ekki orðið manntjón hér af hennar
völdum, svo maður viti um. Einu
sinni fyrir löngu fórust tvær mann-
eskjur af völdum eldingar úr gos-
mekkinum. Ég er helst á því að eld-
ingarnar séu það sem maður þyrfti
helst að óttast við gos.“
Dreymir Kötlugos
Reynir nefnir að nú sé langt um
liðið síðan Katla gaus. Þá hafi húsa-
kostur að mestu verið torfbæir.
Hann segist spyrjandi yfir því
hvernig færi ef gysi og eldingunum
slæi niður í járnklædd hús. „Þegar
mökkinn leggur yfir virðist gríð-
armikið rafmagn í honum. Þorsteinn
Magnússon í Þykkvabæjarklaustri
lýsti því mikla rafmagni sem fylgdi
gosmekkinum 1625, bæði eldingum
og stöðurarafmagni.“
En hvernig nágranni er Katla?
„Ég held að hún sé spennandi ná-
granni. Maður ber kannski ótta-
blandna virðingu fyrir henni. Ég segi
fyrir mig, þótt margir telji það nán-
ast guðlast, að mig langar að lifa það
að sjá Kötlugos. Mig hefur oftar en
einu sinni dreymt Kötlugos. Það hef-
ur verið æði raunverulegt, að mér
hefur fundist. Meira að segja
dreymdi mig einhvern tímann Kötlu-
gos og var þá að horfa á hlaupið í
draumnum og hugsa um að þetta
væri alveg eins og mig hafði dreymt.
Þetta var þá tvöfaldur draumur!“
Katla er
spennandi
nágranni
Ljósmynd/Reynir Ragnarsson
Horft austur yfir Mýrdalsjökul, Goðabunga í forgrunni. Myndin var tekin í könnunarflugi yfir jökulinn 27. nóvember síðastliðinn.
Reynir Ragnarsson í Vík í
Mýrdal flýgur reglulega á
eigin flugvél yfir Kötlu og
aðgætir hvort sjáanlegar
breytingar hafa orðið á
eldstöðinni.
gudni@mbl.is
Morgunblaðið/RAX
Reynir Ragnarsson við flugvélina TF-FAR. Hann flýgur á henni yfir Mýrdals-
jökul og stundum Eyjafjallajökul til eftirlits með jöklunum.
Nágrannar Kötlu
Mýrdælingar eru næstu nágrannar Kötlu og hafa lært að lifa með eldstöðinni, sem sumir telja eina þá hættulegustu hér á
landi. Mýrdælingar láta það þó ekki raska ró sinni. Guðni Einarsson og Ragnar Axelsson fóru í Mýrdalinn.