Morgunblaðið - 12.12.2004, Side 36

Morgunblaðið - 12.12.2004, Side 36
36 SUNNUDAGUR 12. DESEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ V iðeyjarsund er það sund kallað þegar synt er úr Viðey til Reykja- víkurhafnar. Fyrstur manna til þess að synda þetta sund var Benedikt G. Waage fyrir réttum 90 árum. Þetta sundafrek hans vakti mikla athygli enda lengsta sund sem synt hafði ver- ið á Íslandi til þess tíma ef horft er framhjá afrekum fornkappa eins og Grettis Ásmundssonar. Sjö ár voru liðin frá því tveir Akureyringar syntu yfir Oddeyrarál. Annar þeirra var Lárus Rist sem stakk sér til sunds al- klæddur. Sund hans átti mikinn þátt í sundvakningunni næstu árin. Benedikt var hálfþrítugur að aldri og á þessum tíma meðal fræknustu íþróttamanna þjóðarinnar. Sjósunds- maður hafði hann verið lengi. Árið 1909 synti hann frá Örfirisey til lands, um 600 m langt sund á 12 mínútum. Sjávarhitinn var 11 gráður. Sama ár varð hann þriðji bæði í 100 m og 500 m sundi á móti sem haldið var þegar Sundskálinn í Skerjafirði (Grettisskál- inn) var vígður. Þegar fyrsta nýárs- sundið fór fram í Reykjavíkurhöfn, 1. janúar 1910, varð hann annar á eftir Stefáni Ólafssyni. Það var 50 m langt sprettsund. Sundkóngur Íslands varð Benedikt svo árið 1911 eftir sigurinn í öðru Íslendingasundinu sem fram fór í Skerjafirði. Engeyjarsund, þ.e. frá Engey til Reykjavíkurhafnar (um 2,7 km) synti hann einnig fyrstur manna árið 1912 á 59 mín. Sjávarhitinn var 10 gráður. Lengra sund hafði enginn af seinni tíma mönnum synt í sjó. Benedikt var ekki við eina fjölina felldur í íþróttum. Hann sigraði í stangarstökki á Landsmóti UMFÍ 1911 og varð árið eftir (og 1919) Ís- landsmeistari með KR í knattspyrnu. Árið 1924 var hann í sveit ÍR sem sigr- aði á fyrsta Fimleikameistaramóti Ís- lands (flokkakeppni). Sundið tók nær tvær klukkustundir Um tíma og langt fram á vorið 1914 átti Benedikt við fótmeiðsli stríða. Hann gat því ekki byrjað æfingar fyr- ir sundið fyrr en komið var fram á sumarið. Hinn 23. ágúst tók hann góða æfingu. Synti þá frá Viðey að Kleppi (um 1 km) á 19 mínútum. Bátur fylgdi honum alla leiðina en kalt var í sjónum og allmikill innstraumur. Um morguninn sunnudaginn 6. september lögðu tveir árabátar frá bæjarbryggjunni í Reykjavíkurhöfn og héldu til Viðeyjar. Benedikt hafði boðið nokkrum vinum sínum að fylgj- ast með sér á sundinu. Í þeim hópi voru m.a. dr. Helgi Pjeturss, Ólafur Björnsson ritstjóri Ísafoldar, Egill Guttormsson verslunarmaður, Jónas Jónsson frá Hriflu og Helgi Jónasson frá Brennu, einnig kallaður Brennu- Helgi. Sigurjón Pétursson glímu- kappi, sem síðar var kenndur við Ála- foss, kom út í eyna á kappróðrarbáti sínum. Sá bátur var frægur frá árinu áður þegar danskir sjóliðar hertóku hann við Reykjavíkurhöfn vegna þess að Einar, bróðir Sigurjóns, sem reri honum, hafði lítinn bláhvítan fána á stöng í skut bátsins. Þegar út í Viðey kom var bátunum lagt að landi vest- anvert við Viðeyjarhúsin. Þar fyrir of- an gengur hellir inn í Virkishöfða. Gengu Benedikt og félagar hans að honum og gáfu honum nafnið Sund- hellir. Að sögn Örlygs Hálfdánarson- ar, sem manna best þekkir Viðey og sögu hennar, heitir þessi hellir öðru nafni Hákarlabás. Lítill austankaldi var þegar róið var út í eyna en brátt lygndi og gerði þá sléttan sjó. Bene- dikt var kunnáttusamlega búinn und- ir sundið. Blaðið Ísafold segir svo frá hinn 9. september að hann hafi verið „roðinn svínafeiti hátt og lágt um all- an líkamann og þar yfir helt lýsi miklu“. Var þetta gert til að húðin þyldi betur sjávarkuldann. Þá fór Benedikt í sundbol og stakk vatns- þéttri bómull í eyru sér. Að síðustu lét hann sundhettu á sig. Þannig gekk hann út þarahrönnina og lagðist til sunds frá Sundhelli kl. 12.18. Hann fylgdi Sigurjóni Péturssyni sem fór fremstur á báti sínum og gaf stefnuna til lands. Benedikt tók þegar rösklega til sundtaka og miðaði svo vel áfram að fyrsta km synti hann á 20 mín. Eft- ir það fór sundhraðinn minnkandi. Ýmist synti hann hliðarsund eða bringusund. Skriðsundi beitti hann aðeins við og við í hálfa mínútu eða svo til þess að hita sér. Hitinn í sjón- um var 10,7 stig. Í skut báts Sigurjóns var drengur sem geymdi flösku með heitu kaffi í. Þegar Benedikt var nær hálfnaður með sundið fékk hann sér kaffi en án þess þó að hvíla sig. Hélt hann á kaffiílátinu með annarri hendi en synti með hinni. Eftir það fékk hann kaffisopa við og við. Þegar Benedikt var kominn inn í Reykjavík- urhöfn sótti svo kuldi að honum að honum miðaði um hríð býsna lítið áfram. Seinustu skorpuna til lands sótti hann sig aftur og synti nánast hraðsund í lokin. Klukkan 14.14 kom hann að Völundarbryggju (sem var við enda Ingólfsstrætis). Hann hafði þá verið 1 klst. og 56 mínútur á leið- inni. Sund Benedikts mældist um 3,5 km í beinni línu en menn áætluðu að það hefði verið mun lengra eða um 4,4 km vegna strauma sem ýmist voru á móti eða báru hann af leið. Helgi frá Brennu taldi og skráði sundtök Benedikts meðan á sundinu stóð. Samkvæmt honum var fjöldi þeirra þessi: Kl. 12.30 40 (eftir 12 mín. sund) " 12.45 37 " 13.00 39 " 13.15 38 " 13.18 39 (eftir klukkutíma sund) " 13.30 36 " 13.45 37 " 14.00 40 Þegar Benedikt nálgaðist land komu áhugasamir róandi á bátum til að fylgjast með honum og hvetja til dáða. Á bryggjunni var þyrping manna samankomin og þegar Bene- dikt tók land gullu við margföld húrrahróp viðstaddra. Benedikt var að vonum þreyttur og kaldur eftir sundið. Sigurjón tók hann því á herðar sér og bar hann upp bryggj- una til baðhússins á Hverfisgötunni. Þegar þangað kom var svínafeitin nudduð af honum og hann lagður í baðkar með 35 gráðu heitu vatni. Þá var hann nuddaður upp úr salti um alla húðina til að fá hita í hana. Eftir það fór hann í sturtu, fyrst heita og síðan kalda og var loks nuddaður um allan skrokkinn. Öll þessi meðferð tók um klukkutíma. Þá hafði hann náð sér að fullu og fékk sér hálftíma göngu inn að Laugarnesi. Dæmafár vaskleikur Blöðin í Reykjavík spöruðu ekki hrósyrðin í garð Benedikts. Morgun- blaðið segir svo 7. sept., daginn eftir sundið: „Þetta er svo mikið sundafrek að annálsvert má heita. Þess ber að gæta, að sundmenn annars staðar sem frægir hafa orðið fyrir lengdar- sund, eru í sjó sem er þetta 16–18 st. heitur. – Vaskleikur Benedikts dæmafár að synda svona langa leið í jafnköldum sjó.“ Og Vísir segir hinn 8. sept. „Eins og áður er sagt er þetta mesta sundafrek, sem menn vita til að framið hafi verið hér á landi síðan Grettir svam úr Drangey forðum, sér- staklega þegar þess er gætt, að Bened. iðkar ekki sundíþróttina sem aðalstarf, heldur aðeins í hjáverkum.“ Síðar í sömu frétt segir blaðið: „Þessa vegalengd synti Waage á l klt. og 56 mín. og er það afbragðs hraustlega gert og íslenskri sundíþrótt til mikils sóma.“ Íþróttaleiðtoginn mikli Í frásögninni af sundinu í Ísafold hinn 9. sept. (og hér er stuðst við) var því spáð að hinn ungi sundkappi myndi ekki láta þar við sitja og ekki láta mörg ár líða þar til hann reyndi við Drangeyjarsund. Sú varð ekki raunin á. Benedikt synti ekki fleiri langsund í sjó. Það gerði hins vegar vinur hans Erlingur Pálsson sem næstur varð til að synda Viðeyjarsund árið 1925 og bætti svo um betur tveimur árum síðar er hann synti Drangeyjarsund eins og Grettir Ás- mundarson hafði gert tæpum 900 ár- um áður. Benedikt sneri sér að félagsmálum íþróttamanna og átti eftir að verða einn af helstu íþróttaleiðtogum þjóð- arinnar fram yfir miðja 20. öldinni. Þegar hann synti úr Viðey var hann nýkjörinn formaður Íþróttafélags Reykjavíkur og hafði verið formaður Knattspyrnufélags Reykjavíkur í rúmt ár (1912–1913). Árið 1915 var hann kjörinn í stjórn ÍSÍ og sat í henni til ársins 1962 eða í alls 47 ár. Formað- ur sambandsins var hann í 36 ár, frá 1926 til 1962. Benedikt gegndi fjöl- mörgum ábyrgðarstörfum fyrir íþróttahreyfinguna. Yrði það langt mál að telja þau öll upp. Alþjóða- ólympíunefndin valdi hann í sínar rað- ir árið 1946 og í henni átti hann sæti til dauðadags (1966). Fyrsta Viðeyjarsundið Sigurjón Pétursson og Benedikt Waage. Benedikt G. Waage var í fremstu röð í sundi og fimleikum. Höfundur er íþróttafræðingur. Benedikt G. Waage var meðal fræknustu íþróttamanna þjóð- arinnar og mikill sundmaður. Hann fór oft í sundlaugarnar í Laugardal þar sem aðstaðan var ekki sérlega beysin. Völundarbryggja. Neðst fyrir miðju er Kveldúlfsstöðin við Skúla- götu um 1930. Kveldúlfsbryggjan er fram undan Vatnsstíg, en vestar og ofar Trésmiðjan Völundur og Olíustöð BP á Klöpp. Þátttakendur í nýárssundi í Reykjavíkurhöfn 1910. F.v. Sigurjón Sigurðsson, Guðmundur Kr. Guðmundsson, sigurvegarinn Stefán Ólafsson með bikarinn, Sigurjón Pétursson og Benedikt Waage. Ljósmynd/ÍSÍ Ljósmynd/Íþróttablaðið Benedikt G. Waage var fyrstur manna til að synda Viðeyjarsundið fyrir réttum 90 árum. Ingimar Jónsson rifjar upp afrek ofurhugans, sem síðar varð einn af helstu íþróttaleiðtogum þjóðarinnar.                                     Heimildir Vísir. 26. ágúst. 1914 (Synt úr Viðey) Vísir. 8. sept. 1914 (Viðeyjarsundið) Morgunblaðið. 7. sept. 1914 (Mikilsháttar sundafrek) Ísafold. 9. sept. 1914 (Mikil sundþraut) Óðinn. 2. tbl. (maí) 1918 (Benedikt G. Waage)

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.