Morgunblaðið - 19.12.2004, Blaðsíða 57
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19. DESEMBER 2004 57
MENNING
i8 Gallerí
Klapparstíg 33
101 Reykjavík
sími 551 3666
www.i8.is
VAXTALAUS LÁN TIL LISTAVERKAKAUPA
Nú bjó›ast vaxtalaus lán frá KB Banka til allt a› 3 ára til kaupa á listaverkum hjá i8.
Lánsupphæ› getur veri› frá kr. 36.000 til kr. 600.000.
19-23. desember er i8 opi› frá 14 - 22
HLJÓMPLATA með rómantískum
verkum fyrir selló og píanó er komin
út hjá Smekkleysu, og ber yfirskrift-
ina Gunnar og Selma. Heitið vísar til
flytjendanna, hinna landskunnu
hljóðfæraleikara Gunnars Kvaran
og Selmu Guðmundsdóttur, sem
glatt hafa hlustendur um árabil með
samleik sínum.
Á nýju plötunni þeirra er að finna
sónötu fyrir selló og píanó í g-moll
eftir Frédéric Chopin, Rondo og
Skógarklið eftir Antonín Dvorák,
Ljóð án orða eftir Felix Mendels-
sohn og Fantasíustykki eftir Robert
Schumann.
Eina kammerverk Chopins
Upptakan er orðin liðlega þriggja
ára gömul, en hún var unnin í
tengslum við tónleika sem Gunnar
og Selma héldu í Salnum í Kópavogi
á þeim tíma. „Upphaflega ætluðum
við að safna saman fallegum róm-
antískum verkum fyrir þessa hljóð-
færaskipan, enda erum við mjög
rómantísk bæði,“ segir Gunnar og
brosir. „En síðan kom upp sú spurn-
ing af hverju við tækjum ekki þessa
stóru sónötu eftir Chopin með, sem
við vorum þá að æfa, og það varð
úr.“ Selma bætir við að sónatan hafi
ákveðna sérstöðu meðal verkanna á
plötunni, enda langstærsta verkið.
„Þetta er stórkostlegt verk,“ segir
hún.
Sónatan hefur líka sérstöðu meðal
verka Chopins – hún er hans eina
kammerverk að undanskildu píanó-
tríói sem hann samdi mjög ungur að
árum. Hún er líka eitt síðasta verkið
sem Chopin lék opinberlega. „Hann
samdi það fyrir vin sinn, sellóleikar-
ann Auguste-Joseph Franchomme,
og þeir léku það saman á tónleikum
árið 1948, ári áður en Chopin lést,“
segir Gunnar
Ólík en þó tilfinningarík
Þrátt fyrir að öll verkin á plötunni
teljist til rómantískra verka, og þrjú
af fjórum séu skrifuð nokkurn veg-
inn á sömu árunum í kringum miðja
19. öldina, eru þau afar ólík að yfir-
bragði að sögn flytjendanna. „Þessi
tónskáld hafa öll svo sterk höfund-
areinkenni hvert fyrir sig – maður
heyrir undir eins hvort um er að
ræða Schumann eða Mendelssohn.
Verkin sem við völdum eru því mjög
ólík innbyrðis,“ segir Selma.
Að sögn þeirra Gunnars eiga
verkin það þó sameiginlegt að vera
hlaðin tilfinningum. „Þau spila á
nánast allan tilfinningaskalann – þar
er að finna ljóðrænu og kátínu í
bland við mikil og dramatísk átök.
Þetta er aldeilis engin rómantísk
lognmolla,“ segja flytjendurnir.
Verk eins og þau sem platan hefur
að geyma láta eflaust fáa ósnortna,
og Gunnar segist telja að það hljóti
að vera ljúft og gott fyrir sálina að
hlusta á tónlist af þessum toga.
„Þannig virkar hún að minnsta kosti
á mig. Hún umlykur sálina og gerir
henni eitthvað gott,“ segir hann.
„Það hefur verið skrifað mikið af
slíkum rómantískum verkum fyrir
píanó en líka dálítið fyrir selló, og
þau eru mjög yndisleg. Mér finnst til
dæmis mikil gersemi fyrir sellóleik-
ara að eiga þessa Chopin-sónötu, því
við eigum ekkert of mikið af svona
stórum, rómantískum sónötum.“
Jafnréttisgrundvöllur
Sellóið og píanóið hafa svipað
vægi í verkunum á plötunni, og það
gildir um þau öll, að sögn flytjend-
anna. „Píanóparturinn í Chopin-
sónötunni er sérstaklega stór og eig-
inlega frægur fyrir það – hann er
nánast eins og konsert. En þeir sem
skrifuðu á þessum tíma fyrir tvö
hljóðfæri létu þau vera á jafnréttis-
grundvelli og það hefur tíðkast allt
fram á 20. öldina. En fyrir það hafði
tíðkast að hafa píanóið í algjöru aðal-
hlutverki,“ segir Gunnar.
Samleikurinn er þeim Gunnari og
Selmu mikils virði, enda hafa þau
leikið nokkuð saman áður eins og
fyrr sagði. Hin rómantísku verk sem
þau bæta í útgáfusafn sitt nú eru
þeim kær. „Það er svo gefandi að
leika svona tónlist,“ segja þau að síð-
ustu.
Tónlist | Gunnar Kvaran og Selma Guðmundsdóttir gefa út rómantísk verk á geislaplötu
Ljóðræna í bland
við mikil átök
Morgunblaðið/Golli
Gunnar Kvaran og Selma Guðmundsdóttir segja verkin á nýju plötunni
sinni eiga það sameiginlegt að vera hlaðin tilfinningum. „Þau spila á nán-
ast allan tilfinningaskalann – þar er að finna ljóðrænu og kátínu í bland við
mikil og dramatísk átök. Þetta er aldeilis engin rómantísk lognmolla.“
ingamaria@mbl.is
ÁRLEGIR jólatónleikar Kammer-
sveitar Reykjavíkur verða í Ás-
kirkju í dag, sunnudag, kl. 17, en
þetta eru 31. jólatónleikar sveit-
arinnar. Sem kunnugt er hreppti
Kammersveitin Íslensku tónlistar-
verðlaunin fyrr á árinu fyrir plötu
sína með Brandenborgarkons-
ertum Bachs undir stjórn Jaaps
Schröders, og af því tilefni verður
einn þeirra, sá fyrsti, í F-dúr, leik-
inn á tónleikunum. Þessi konsert
varð fyrir valinu, að sögn Rutar
Ingólfsdóttur leiðara Kamm-
ersveitarinnar, vegna þess að
hann er fjölmennastur þeirra, og
þar leika bæði horn og óbó með
strengjunum. „Þetta er mjög há-
tíðlegur og skemmtilegur konsert,
og það má segja að efnisskráin að
öðru leyti miðist við hann, með
blásarana í öndvegi. Þess vegna er
yfirskrift tónleikanna: Blásið til
hátíðar. Við byrjum á Trompet-
konsert fyrir tvo trompeta eftir
Manfredini. Þá leikum við mjög
spennandi verk, Konsert fyrir tvö
óbó, tvö klarinett, strengi og fylgi-
rödd, eftir Vivaldi. Þetta er með
því allra fyrsta sem klarinettið er
notað, því það var alveg nýtt þeg-
ar Vivaldi samdi konsertinn. Þótt
þetta séu 31. jólatónleikarnir okk-
ar, er þetta í fyrsta skipti sem
klarinettið kemur við sögu á jóla-
tónleikum hjá okkur. Ég vissi ekki
af tilvist þessa konserts fyrr en í
haust, og fannst þá alveg upplagt
að bæta tveimur klarinettum við
blásarahópinn á tónleikunum.“
Fjórði konsertinn sem Kammer-
sveitin leikur á tónleikunum er
hljómsveitarkonsert eða Concerto
Grosso, eftir Manfredini, Jóla-
konsertinn, með hjarðljóði í anda
jólanæturinnar.
Trompetleikarar verða Eiríkur
Örn Pálsson og Ásgeir Stein-
grímsson; Daði Kolbeinsson, Peter
Tompkins og Eydís Franzdóttir
leika á óbó; Einar Jóhannesson og
Rúnar Óskarsson leika á klarinett-
ur og Rúnar Vilbergsson á fagott.
Þær Rut, Unnur María Ingólfs-
dóttir og Inga Rós Ingólfsdóttir
leika svo einleikshlutverk í Jóla-
konsert Manfredinis. „Við reynum
að hafa alltaf upplífgandi og
skemmtilegt prógramm á jóla-
tónleikum okkar, og það hefur
tekist vel til í ár. Þetta verður
bæði hátíðlegt og hressilegt og við
hlökkum mikið til.“ Rut rifjar upp
fyrstu árin sem Kammersveitin
hélt jólatónleika, en þá var tón-
leikalífið í borgin með talsvert
öðrum brag en nú er.
„Á fyrstu árum Kammersveitar-
innar var ekkert um tónleikahald
á þessum árstíma, nema þegar
Pólýfónkórinn flutti Jólaórator-
íuna. Það er ótrúlegt hvað margt
hefur breyst og tónleikar eru
orðnir margir á aðventunni. Það
hefur þó haldist, að það er ekki
mikið um hljóðfæratónleika, því
mest eru þetta kórtónleikar. Fyrir
marga koma jólin með tónleikum
okkar, og við sjáum sömu gesti
koma ár eftir ár.“
Morgunblaðið/Kristinn
Kammersveit Reykjavíkur heldur 31. jólatónleika sína í Áskirkju í dag, sunnudag, kl. 17.
Klarinettið var glænýtt
þegar Vivaldi samdi verkið
Tónlist | Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur
Jólasnótirnar
þrettán er
vísnabók eft-
ir Davíð Þór
Jónsson.
Jean Ant-
oine Pos-
occo mynd-
skreytti.
Vísurnar vöktu athygli þegar þær
voru fluttar á Rás 2 fyrir jólin 2003
en jólasnótirnar eru systur jóla-
sveinanna og hefur tilvera þeirra
hingað til farið hljótt. Þær eru enn
varhugaverðari en bræður þeirra og
nútímalegri. Til að mynda hafa
flestir einhvern tíma orðið fyrir
barðinu á Lyklakrækju, Rógtungu
og Bílklóru svo nokkrar séu nefnd-
ar.
Útgefandi er 21 12 kúltúr komp-
aní.
Nýjar bækur