Morgunblaðið - 05.03.2005, Síða 4

Morgunblaðið - 05.03.2005, Síða 4
4|Morgunblaðið Sæmundur Rögnvaldsson hefur meira en nóg að gera. „Ég hef varla tíma til að læra. Ég æfi badminton og borðtennis og síðan hef ég lært á trompet síðan ég var sex ára og því fylgir tónfræði og lúðra- sveitaræfing.“ Sæmundur er nemandi í Valhúsaskóla og ætlar að fermast í Seltjarnarneskirkju 13. mars, eftir hádegi. Hann er einn heima þegar hann tekur á móti blaðamanni, sem er líklega sjaldan því hann á þrjú systkini og mikið líf er á heimilinu. „Þetta er eini vikudagurinn sem ég á frí eftir skóla og þá er ég einn heima,“ segir hann. Guðfræði og heimspeki líkar – Hefurðu tíma til að læra fyrir ferm- ingarfræðsluna? „Það er ekkert að læra. Við komum bara til prestsins og hann spjallar við okkur um Jesú, verkin hans og Guð, einn- ig um kærleika og fyrirgefningu. Svo lær- um við um lífið, erfiðar ákvarðanir og hvernig á að fyrirgefa. Þetta er svona smá heimspeki, enda eru guðfræði og heimspeki mjög líkar greinar. Fyrir jól lærðum við mest um Jesú og nú eftir jól erum við meira að tala um heimspeki og vinnum athyglisverð verkefni upp úr bók.“ – Hvort er skemmtilegra? „Mér finnst eiginlega skemmtilegra núna. Um daginn gerðum við verkefni um fólk var statt uppi á heiði þar sem mikill bylur kom, og björgunarsveitin gat bjargað öllum nema sjö manns. Við áttum að velja fólk úr hópnum til að skilja eftir á heiðinni. Mér fannst mjög gaman að pæla í hverjum maður ætti að bjarga og ekki. Sumir eins og nasistar eiga kannski skilið að deyja. Svörin eftir hópunum voru mjög mismunandi. Ég var mjög ósammála einum hópnum sem vildi skilja eftir samkynhneigðan gaur. Samfélagið hefur þróast einhvern veginn þannig að það eru mjög miklir fordómar gagnvart samkynhneigðu fólki, sem ég skil ekki. Við í mínum hóp völdum fólk eftir því hverjir gætu mögulegast lifað af og hjálp- að öðrum að lifa af. Sumir voru t.d. úti- vistarmenn og aðrir verkfræðingar. Þeir ættu einfaldara með að redda sér en hin- ir.“ – En á einhver skilið að deyja? „Nei, auðvitað á enginn skilið að deyja. Samt hugsum við oft þannig. Það er held ég einn af göllum okkar mannanna. Mað- ur hugsar kannski að mann langi til að einhver deyi af því að hann hefur jafnvel myrt einhvern fjölskyldumeðlim. En ef hann lægi svo bundinn fyrir framan mann og maður hefði hníf í hendi, myndi maður drepa hann? Ég held ekki. Ég held að það sé í eðli mannsins að hugsa til hefnda, en svo þegar á hólminn er komið er það ekki svo einfalt. Nema maður sé eitthvað bilaður.“ Trúir mjög mörgu í Biblíunni – Kom þér eitthvað á óvart í ferm- ingarfræðslunni t.d. um Jesú? „Nja … þegar ég las Da Vinci lykilinn, já,“ svarar Sæmundur eftir smá umhugs- un. Það er rosalega góð bók. Ég trúi al- veg sumu sem stendur um Jesú í bókinni, en þetta eru mest skemmtilegar kenn- ingar. Eftir að hafa lesið bókina vissi ég ekki lengur hvort ég ætti að láta ferma mig kirkjulega eða borgaralega. Sam- kvæmt bókinni hefur Biblíunni verið breytt á alls konar vegu.“ – Af hverju ákvaðstu svo að fermast inn í kristna kirkju? „Af því að ég er skírður og þegar ég fór að hugsa málið þá er það sem stendur í bókinni alls ekki allt satt. Svo finnst mér ekki nógu spennandi að fermast í Há- skólabíói.“ – Trúirðu á Guð? „Já, ég trúi á Guð,“ segir Sæmundur og tekur sér tíma til að hugsa. „Ég sé hann fyrir mér sem mann með langt hvítt skegg sem situr í hásæti,“ segir Sæ- mundur og brosir, „stundum sé ég hann sem einhvern anda.“ – Og skapaði hann heiminn? „Það eru miklar pælingar í þessu. Ég veit ekki hvort ég trúi því. Það er eins og með svo margt annað, þá stundum trúir maður því og svo allt einu skiptir maður um skoðun.“ – Trúir þú flestu sem stendur í Biblí- unni? „Það er ekki hægt að trúa alveg öllu, en samt mjög mörgu. Það eru hins vegar til mörg guðspjöll sem ættu að vera í Biblíunni. En maður veit aldrei fyrir víst hvað vantar í Biblíuna.“ – Finnst þér þú sjá lífið öðrum augum eftir fermingarfræðsluna? „Já, það er mikið af hlutum sem ég pæli öðruvísi í núna, þótt ég opinberi það kannski ekki alltaf. En það er svo mikið sem ég er að hugsa og pæla.“ Gaman að syngja og lesa þykkar bækur – Muntu gera eitthvað við fermingar- athöfnina? „Nei, ég held ekki, en allir þurfa að að- stoða einu sinni við messu, og ég las ný- lega upp ritningargrein í útvarpsmessu ásamt vini mínum. Það var alveg gaman. Það var búið að finna flottan texta handa okkur, því það hefði orðið of mikið vesen að fara að velja úr allri Biblíunni, það er of mikið efni.“ – Já, Biblían er þykk. „Það er gaman að lesa þykkar bækur. Ég er að lesa Hringadróttinssögu í annað skipti núna.“ – Ætlarðu að lesa Biblíuna einhvern tímann? „Ja, ég veit það ekki. Ég get ekki ekki sagt til um hvað ég ætla að gera í fram- tíðinni. – Ertu búinn að ákveða hvað þú ætlar að verða þegar þú ert orðinn stór? „Það er svo margt sem kemur til greina.“ – Tónlistarmaður? „Já, og nú er ég t.d. að taka þátt í Sam- fés. Ég söng Don’t Worry Be Happy eftir Bobby McFarren án nokkurs undirleiks og fékk mjög góðar undirtektir og komst í úrslit. Svo er ég að fara að taka þátt í uppfærslu á söngleiknum Moulin Rouge. Ég veit ekki enn hvaða hlutverk ég fæ, en ég veit að ég fæ hlutverk,“ segir Sæ- mundur sem er alvanur að koma fram og skemmta fólki. – Kvíðir þú fyrir úrslitakvöldinu? „Nei, það verður bara eins og á undan- úrslitunum. Ég kveið mjög mikið fyrir þegar ég var að bíða eftir því að stíga á svið, en svo var það bara æðislegt. Allir klöppuðu með og það var rosa gaman.“ – Finnst þér þú orðinn fullorðinn? „Nei, ekki alveg. Maður verður bara fullorðinn á vissu stigi. Maður verður full- orðinn innan í sér á misjöfnum aldri. Sumir í áttunda bekk og aðrir ekki fyrr en þeir verða sextán ára eða jafnvel eldri. Maður getur aldrei vitað hvenær maður verður fullorðinn.“ – Hefurðu pælt mikið í öðrum trúar- brögðum? „Ég veit heilmikið um önnur trúar- brögð. Einu sinni var ég með æði fyrir búddisma, og las nokkrar bækur um hann. Það er mjög áhugavert að lesa um annað en það sem við trúum. Svo hafði ég einnig mikinn áhuga á ásatrú, en ég hef hins vegar aldrei hugsað mér að skipta um trú. Ég vildi bara kynna mér önnur trúarbrögð.“ – Hver vegna finnst þér flestir krakkar vera að fermast? „Af því að þau langar til þess. Ég held að mjög fáir séu að láta ferma sig fyrir pakkana, kannski einhverjir en mjög fá- ir,“ svarar Sæmundur hiklaust. – En verður ekki gaman að fá pakka? „Jú, það er alltaf gaman að fá pakka, en það er ekki það sem fermingin snýst um. Ekki frekar en jólin snúast um pakk- ana eða páskarnir um páskaegg.“ – Hvað viltu fá út úr fermingunni? „Ekkert meira en að fermast og stað- festa mína trú,“ segir Sæmundur að lok- um og er áreiðanlega farinn að æfa sig á trompetið eða búinn að sökkva sér ofan í þykka bók um leið og blaðamaðurinn hverfur út um dyrnar. Mikið að pæla og hugsa Sæmundur hefur lesið um Jesú í Da Vinci lyklinum, kynnt sér búddisma og ásatrú. „Ég vil fermast og staðfesta mína trú,“ segir hann. Morgunblaðið/Árni Sæberg

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.