Morgunblaðið - 05.03.2005, Síða 14
14|Morgunblaðið
Ferming virðist oft vera eitthvert hóp-
fyrirbrigði. Heilu árgangarnir ganga til
prests eða leiðbeinenda og útskrifast í
þúsundatali. Yfirbragðið er ólíkt öðrum
kristnum athöfnum eins og skírn, gift-
ingu og jarðarför, sem eru allar ein-
stakar. Borgaraleg ferming fer einnig
fram í hópum.
Frá Evrópu, Asíu og Afríku
En ferming er, þegar betur er að gáð,
persónuleg og þegar grannt er skoðað er
hún einnig háð menningu og trúarkenn-
ingum. Ég sá það glögglega þegar ég
hitti Nínu Magnúsdóttur, deildarstjóra
móttökudeildar í Austurbæjarskóla, og
fékk að spjalla um stund við fjórar stúlk-
ur, innflytjendur, um fermingu. Þær eru
bókstaflega hver úr sinni áttinni.
Þær eru Donna Vergara frá Filipps-
eyjum, fædd 1990. Hún mun fermast í
Maríukirkju í Breiðholti; Kaja Daria
Agnieszka Szyszka frá Póllandi, fædd
1990, fermdist í fyrra í Maríukirkju; Liya
Yrga Behaga frá Eþíópíu, fædd 1991,
sem mun fermast í Hallgrímskirkju og
Kamile Eitmanaviciute frá Litháen, fædd
1990, sem mun fermast í heimalandi sínu
í haust.
Heimalönd þeirra eru í Evrópu, Asíu
og Afríku. Litháen er í Austur-Evrópu
og liggur að Eystrasalti, milli Lettlands
og Rússlands. Pólland er við Eystrasalt
og að landinu liggja Rússland, Litháen,
Hvítarússland, Úkraína, Slóvakía, Tékk-
land og Þýskaland. Filippseyjar eru í
Suðaustur-Asíu, milli Filippseyjahafs og
Suður-Kínahafs, fyrir austan Víetnam.
Eþíópía er í Austur-Afríku. Erítrea ligg-
ur austan við Eþíópu og liggur að Rauða-
hafi, þá er Djíbútí við botn Adenflóa og
austan við landið er Sómalía. Sunnan við
það er Kenía og Súdan er í vestri.
Verður að fermast til að giftast
Þær eru allar ánægðar með fermingar-
fræðsluna, sem reyndar er bæði af lút-
erskum og kaþólskum toga. Donna, Kaja
og Kamile eru kaþólskar og Liya lútersk.
Kamile segir mér að ekki sé hægt að gift-
ast nema hafa jafnframt fermst, og nefn-
ir dæmi um tvítugan mann sem bað konu
en fékk hennar ekki nema með því að
fermast fyrst. Donna segir að vissulega
séu ólíkir síðir á Filippseyjum og á Ís-
landi, en þó sé einnig margt líkt.
Kaja og Donna segja að nunna veiti
þeim fræðslu í Maríukirkju ásamt prest-
inum, en að öðru leyti sé fermingar-
fræðslan ekki öðruvísi en hjá öðrum.
Fermingar í kaþólsku geti einnig verið
bæði fyrir yngri og eldri, allt frá átta ára
aldri. Þær nefna að í sumum kaþólskum
löndum þurfi fermingarbörn að taka próf
í fræðslunni sem þau verði að ná til að fá
að fermast.
„Mér finnst mikið talað um fermingar
hér á landi, og mér sýnist að flestir ferm-
ist, þó nokkrir fermast einnig borgara-
legri fermingu,“ segir Liya. Kamile segir
frá fatnaði fermingarbarna í Litháen, þar
sem hvítir kyrtlar eru áberandi. Hún
segir að þau geti bætt við sig miðnafni.
Þær nefna flestar veislur í kjölfar ferm-
ingar, en þó ætlar Liya ekki að vera með
veislu, enda er það alls ekki nauðsynlegt.
Komin til að mennta sig
Nína kennari segir að Liya hafi komið
til Íslands til að mennta sig og Liya segir
mér að fjölskylda hennar hafi kynnst ís-
lenskum kristniboðum í Eþíópíu. „Þau
bjuggu rétt hjá okkur og elsta systir mín
var þjónustustúlka í húsinu þeirra,“ segir
hún og að kristniboðarnir hafi boðið syst-
ur sinni til Íslands þar sem hún stofnaði
heimili. Stóra systir bauð svo Liyu til sín
og ákvað hún að þiggja það með það í
huga að hér væri gott að mennta sig. „Ég
hef verið hér núna í tvö og hálft ár,“ seg-
ir hún og Nína bætir við að hún taki
námið mjög alvarlega. „Mér finnst
skemmtilegt að læra,“ segir hún og nefn-
ir að þegar hún heyri íslenska unglinga
vera með slangur hugsi hún: „Það er allt
í lagi fyrir Íslendinga að tala svona, en
við innflytjendur megum það ekki, því þá
segir fólk að við kunnum ekki málið.“
Mér fannst áhugavert að spjalla við
stúlkurnar. Þær taka allar ferminguna
alvarlega og geta miðlað til annarra
hvernig fermingin er í þeirra menningar-
heimi.
Morgunblaðið/ÞÖK
Kaja frá Póllandi, Liya frá Eþíópu, Donna frá Filippseyjum og Kamile frá Litháen.
Ferming og fjölmenning
Það fermast ekki allir á
sama hátt. Fermingin er
háð menningu og trúar-
kenningum.
gunnars@hi.is
Í Grunnskóla Húnaþings vestra á Lauga-
bakka eru 15 krakkar í 8. bekk sem öll
ætla að fermast.
Þótt sumum þyki 15 manna bekkur
ekki stór, þá fermast þau hvorki meira né
minna en í 6 kirkjum alls og tveir prestar
sjá um verkið.
„Ástæðan er sú að við búum ekki öll á
sama stað, heldur víða í sveitinni. Sr.
Guðni Þór Ólafsson fermir í fimm kirkjum
og sr. Sigurður Grétar Sigurðsson á
Hvammstanga,“ útskýrir Elísabet Sif
Gísladóttir frá Staðarbakka í Miðfirði
sem er í þessum merka bekk sem er víst
bæði samhentur og skemmtilegur.
Reyndar mun föðurbróðir hennar, sr.
Magnús Magnússon prestur á Skaga-
strönd, ferma hana, svo enn flækjast
málin.
– Fermist þú með mörgum?
„Ég fermist bara ein,“ segir Elísabet
og er ánægð með það. Ég á fjölskyldu í
Danmörku sem hentar betur að koma að
sumri til og því fermist ég frekar seint eða
12. júní.“
Skólasystkini hennar fermast 26. mars,
23. og 30. apríl og 1. maí og Elísabet rekur
lestina.
15 börn
í 6 kirkjum
Morgunblaðið/Karl Sigurgeirsson
Fremri röð f.v.: Aðalheiður Einarsdóttir, Andri Páll Guðmundsson, Aron Vignir Sveinsson, Elísabet Sif Gísladóttir, Kristrún
Kristjánsdóttir, Ragnheiður Rún Sveinbjörnsdóttir og Sylvía Rún Rúnarsdóttir. Aftari röð f.v.: Ármann Pétursson, Þorgrímur
Guðni Björnsson, Kristinn Arnar Benjamínsson, Helga Margrét Þorsteinsdóttir, Lóa Dís Másdóttir, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir,
Bryndís Björk Hauksdóttir og Margrét Eik Guðjónsdóttir.