Morgunblaðið - 03.04.2005, Side 26

Morgunblaðið - 03.04.2005, Side 26
26 SUNNUDAGUR 3. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ Afi hennar fæddist 1781,faðir hennar fæddist1835, sjálf situr hún ígóðu yfirlæti á heimilisínu við Reynimel og heklar örfína barnasokka fyrir Rauða krossinn þegar mig ber að garði. Þór- unn Anna María heitir hún eftir tveimur ömmusystrum sínum sem fóru til Ameríku og höfðu aldrei skil- ið. „Móður minni Helgu Jónasdóttur þótti því eðlilegt að skilja þær ekki að og því fékk ég öll þessi nöfn. En ég hef jafnan gengið undir nafninu María,“ segir þessi glæsilega kona sem á sér einna lengstan starfsaldur tannsmiða á Íslandi, æði margir Ís- lendingar skarta enn tanngörðum sem hún smíðaði upp í þá. María er yngsta barn stjórnmála- og athafna- mannsins Tryggva Gunnarssonar bankastjóra, þess hins sama sem lét smíða fyrstu brúna á Ölfusá og var frumkvöðull að gerð Alþingisgarðsins í Reykjavík og plantaði mörgum af þeim trjám sem enn standa í garð- inum. „Systir mín elsta fór stundum þangað að hitta hann, þá gaf hann henni smáaura, þau töluðu oft saman og hún mundi vel eftir honum, hún var samt ekki nema 5 ára þegar hann dó,“ segir María. Sjálf hitti hún föður sinn aldrei. „Hann dó 21. október 1917 en ég fæddist 17. nóvember það sama ár, mamma var ekki við jarðarförina, henni hefur líklega fundist það óþægilegt, hún var orðin svo fram- sett,“ segir María. Helga móðir Mar- íu átti þrjár dætur með Tryggva Gunnarssyni á fimm árum, en þau voru ekki gift og bjuggu aldrei sam- an. Milli foreldra Maríu var mikið miseldri, þegar hún fæddist var móð- ir hennar þrítug en faðir hennar nýdáinn, 82 ára að aldri. María ólst upp á Laufásvegi 37. „Móðuramma mín Rannveig Gísla- dóttir keypti þetta hús árið 1903, þá var hún orðin ekkja. Afi minn séra Jónas Björnsson hafði verið prestur í Sauðlauksdal en að honum látnum flutti amma suður með börn sín í þetta hús, það hefur hýst marga gegnum árin, það er lítið en garður- inn er stór og fallegur, “ segir María. Þetta sögufræga hús hefur ekki gengið úr ættinni. Nú býr þar yngri sonur Maríu og Gunnars Kristinsson- ar eiginmanns hennar, sem nú er lát- inn. Foreldrar Maríu kynntust í Laufási, á þeim var 50 ára miseldri „Mamma bjó á Laufásvegi 37 frá 16 ára aldri og þar til hún dó 1962. Hún var kennari að mennt og stundaði kennslu um tíma áður en hún eignaðist Lilý Guðrúnu, elstu systur mína 25 ára, Áslaug kom í heiminn í mars 1916 og ég í nóvember 1917, sem fyrr gat. Faðir okkar átti einn son með ráðskonu sinni, Ólafur hét hann og dó úr berklum árið sem Lilý systir fæddist. Með konu sinni Halldóru Þorsteinsdóttur eignaðist faðir minn engin börn en þau ólu sem fyrr sagði upp fósturdótturina Val- gerði Jónsdóttur. Foreldrar mínir kynntust í húsinu Laufási. Þar bjó einmitt Valgerður fósturdóttir föður míns ásamt eigin- manni sínum Þórhalli Bjarnasyni biskupi og fjórum börnum þeirra. Mamma var mikil vinkona Svövu dóttur þeirra og Dóru. Þegar ég man eftir mér bjó í Laufási Tryggvi Þór- hallsson ásamt konu sinni, ég minnist þess að hún vildi ekki leyfa mér að koma inn í garðinn til að leika við börn þeirra og aldrei vissi ég til að mamma færi í Laufás eftir að ég fór að muna eftir mér. Vildi ekki vera í vist og passa börn – og komst upp með það Ég þótti raunar óþekkur krakki að því leyti að ég vildi ekki passa börn sem þá var helsta viðfangsefni telpna, ég var einu sinni ráðin í vist á heimili á Laufásveginum, en þegar mér var gert að borða í eldhúsinu en ekki með heimilisfólkinu fór ég heim og sagði mömmu að ég væri veik, sagðist vera með hálsbólgu og lagaði til hitamæl- inn – og neitaði svo að fara í vistina aftur eftir að hafa legið í þessum til- búnu veikindum í þrjá daga. Ég komst upp með þetta, mamma var mér afar góð. Amma mín var á heimilinu hjá okk- ur þangað til ég var þriggja ára, þá fór hún til Haraldar sonar síns, prests á Kolfreyjustað og dó þar – í kirkj- unni hjá honum, leið út af meðan hann var að messa. Af erfingjum hans keypti mamma og við systurnar hans hlut í húsinu okkar á Laufásveginum. Jónas hét yngri bróðir mömmu. Börn hans fimm voru í miklu sambandi við okkur. Hann átti myndarlega konu sem saumaði allt á börn sín. Þessi fjölskylda bjó um tíma með okkur í litla húsinu á Laufásveginum. Séra Haraldur móðurbróðir minn gisti líka alltaf hjá okkur þegar hann kom til Reykjavíkur. Það voru ekki gerðar miklar kröfur í húsnæðismálum á þeim tímum. Mamma fór alltaf til Péturs borgarstjóra til að sækja peninga Meðan við systurnar vorum litlar knipplaði mamma og baldíraði og svo hef ég grun um að við systurnar höf- um fengið arf eftir föður minn. Mamma fór alltaf með vissu millibili til Péturs Halldórsson borgarstjóra og mér finnst endilega að hann hafi látið hana hafa peninga, líklega hefur hann verið fjárhaldsmaður okkar. Sennilega hefur faðir minn gengið frá þessu svona. En enga hluti áttum við úr hans eigu, nema ef vera kynni tvo stóla gamla. Tryggvi keypti búslóð Jóns Sigurðarsonar en mamma fékk ekkert af því. Sú búslóð var lengi geymd uppi á Grímstaðaholti veit ég. Þegar við systurnar eltumst fór mamma að stunda sölumennsku, hún seldi hreinlætisvörur og átti fasta við- skiptavini. Við bárumst sannarlega ekki mikið á og aldrei man ég til að ættfólk föður míns hafi skipt sér nokkurn hlut af okkur meðan við vor- um að vaxa upp. Raunar vissi ég varla að ég hefði átt föður. Mamma talaði aldrei um hann og ég hugsaði ekkert um hann lengst af, fannst eins og ég hefði bara engan föður átt. Þegar ég varð eldri fór ég aðeins að hugsa út í þetta og spurði mömmu eitt sinn að því hvort ég væri ábyggilega dóttir Tryggva Gunnarssonar, mér fannst það svo óraunverulegt af því að hann var dáinn þegar ég fæddist og líka svo gamall, en hún varð svo reið yfir því að mér dytti í hug, hvað þá meira, að spyrja svona, að ég nefndi aldrei meira neitt í sambandi við hann. Mamma sýndi mér annars sérlega mikið ástríki, hún hélt mikið upp á mig, yngsta barn sitt, kannski af því ég þótti laglegt barn með sérlega fal- legt rautt og hrokkið hár. Þegar ég hugsa um hlutskipti mömmu núna er mér ljóst að það hlýtur að hafa verið örðugt. Það þykir enn í dag erfitt að vera ein með þrjú óskilgetin börn, hvað þá í þá daga þegar fólk var dómharðara. Og án efa hefur það þótt sérkennilegt að ung stúlka væri að eiga þrjú börn í lausa- leik með fimmtíu árum eldri manni. En svona var þetta, við systurnar átt- um þennan gamla og þjóðþekkta föð- ur og víst er að aldrei varð ég vör við að mamma væri nokkurn tíma við annan mann kennd. Systur mínar hugsuðu meira um föður okkar en ég, einkum Áslaug, hún átti myndir af honum. En í æsk- unni var mér þetta allt svo fjarri, það er varla fyrr en síðustu árin að ég hef gefið mér tíma til að lesa um föður minn og ég hef farið að hugsa um hann sem persónu. Systur mínar voru duglegar að passa börn öfugt við mig. Þegar ég var 12 ára var ég send í sveit að Kára- stöðum og þar fann ég mig, það var svo gaman að ég ætlaði ekki að vilja koma heim. Mamma kvartaði aldrei yfir einu eða neinu, hún var afar dul og sagði fátt, en ég veit að hún átti við mis- lyndi að stríða. Þegar henni leið illa fór hún út í garð að vinna, garðurinn okkar var líka mjög fallegur. En mamma lagði mörgum lið sem minna máttu sín. Það fólk var sérlega vel- komið á okkar heimili. Ég man t.d. eftir bróður Kjarvals sem kom jafnan til okkar með harðfisk sem hann barði á steini sem hann kom með og setti í garðinn. Ég man líka eftir konu sem átti við geðvandamál að stríða og mamma skaut skjólshúsi yfir. Góðir nágrannar á Laufásveginum gæddu æskuárin gleði En mamma átti líka góðar vinkon- ur, ekki síst á Laufásveginum. Katrín Viðar bjó í næsta húsi með sinni fjölskyldu, hún var okkur mæðgunum afar góð, hún bauð okkur t.d. alltaf í mat á aðfangadagskvöld og alltaf gat ég komið til hennar ef mamma var ekki heima á daginn þeg- ar ég kom úr skólanum, hún, móðir hennar Jórunn Norðmann og önnur börn hennar gæddu æskuár mín gleði, í félagi við þetta fólk fór ég oft að Brúsastöðum í Þingvallasveit. Á kvöldin fórum við að sofa við píanó- leik Katrínar. Jórunn Viðar dóttir Katrínar var mikil vinkona mín, en við vorum minna saman eftir að hún fór í menntaskóla en ég í tannsmíð- ina. Ég átti aðra einkavinkonu sem ég var alltaf mikið með, Nönnu Hall- dórsdóttur, systur Sigfúsar tón- skálds, við vorum jafnöldrur og sam- an í skóla. Við vorum mikil Reykjavíkurbörn, lékum okkur í görðunum við Lauf- ásveginn og renndum okkur á sleða alveg niður á Tjörn. Við systurnar vorum ekki mikið saman á æskuárunum þótt við vær- um á svona svipuðum aldri, við vorum ólíkar. Áslaug systir mín erfði mis- lyndi móður minnar og fleiri ætt- menna okkar, en í miklu ríkari mæli en flest það fólk. Hún þurfti að leggj- ast á sjúkrahús vegna þessa, ég man að ég fór eitt sinn með hana í stræt- isvagni á spítalann en þurfti svo að ganga heim – gat ekki farið í vagninn af því ég grét svo mikið yfir sjúkleika systur minnar. Seinna komu góð lyf sem hjálpuðu henni til að ná meira jafnaðargeði. Við Lilý systir fundum aldrei fyrir þessu, við vorum báðar fremur glaðlyndar og jafnlyndar. Lilý systir var óvenjulega góð mann- eskja, hún mátti ekkert aumt sjá. Hún átti sænskan kærasta sem ung stúlka en átti bágt með að fara frá mömmu. Það endaði með því að hann Af athafnamanni komin Hún kynntist aldrei föður sínum, Tryggva Gunnars- syni, hann dó 82 ára, rétt áður en hún fæddist. Guðrún Guðlaugsdóttir ræðir við Maríu Tryggva- dóttur tannsmið, sem á einna lengstan starfsaldur hér á landi í þeirri grein. Hún ólst upp á Laufásveg- inum hjá einstæðri móður ásamt tveimur systrum sínum og hefur lifað góðu og gjöfulu lífi. María og Hörður Sævaldsson við tannsmíðar. Morgunblaðið/Sverrir María Tryggvadóttir. Litlu sokkarnir sem María var að prjóna fyrir Rauða krossinn.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.