Morgunblaðið - 17.04.2005, Side 35
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17. APRÍL 2005 35
Sýn þjóðarinnar á skólakerfið er að breytast.
Það er ekki lengur jafn lokað og óumbreyt-
anlegt og það var. Einkaskólar eru að byrja að
festa sig í sessi og skilningur á mikilvægi þeirra
að aukast. Þeir stuðla að fjölbreytni og val-
kostum í skólakerfinu en margt fleira stuðlar að
því. Kennarastéttin er að hefjast til vegs. For-
eldrar skilja betur en áður mikilvægi góðra
skóla fyrir börn þeirra. Og þeir skilja betur að
það verður ekki til góður skóli nema með góðum
kennurum og að góðir kennarar fást ekki nema
þeir búi við viðunandi launakjör.
Það má búast við vaxandi umræðum um
skólamál á næstu árum, um hið innra starf skól-
anna. Um stöðu kennaranna. Og foreldrar og af-
ar og ömmur gera sér grein fyrir því, að þeim
peningum er vel varið, sem þeir hinir sömu
leggja til skólanna. Þetta á við um skóla á öllum
stigum, allt frá leikskólum til háskóla. Það eru
ekki mörg ár síðan Vinstri grænir settu fram þá
stefnumörkun, að ekki ætti að greiða gjald fyrir
veru barna á leikskólum. Sú hugsun nýtur nú
víðtæks stuðnings og kemur áreiðanlega til
framkvæmda á næstu árum enda augljóst rétt-
lætismál.
Allir þeir, sem hafa notið þjónustu heilbrigð-
iskerfisins gera sér grein fyrir mikilvægi þess.
Stöðugar deilur um fjárveitingar til Landspítala
– háskólasjúkrahúss eru þreytandi fyrir sam-
félagið. Endalausir biðlistar árum saman vegna
tiltekinna aðgerða eða þjónustu eru fornald-
arfyrirbæri. Morgunblaðið hefur áður lýst þeirri
skoðun, að til greina komi að eyrnamerkja til-
tekna skatta heilbrigðiskerfinu og þá jafnvel
leggja það undir dóm þjóðarinnar, hvort hækka
skuli slíka skatta ef þörf er á. En það má full-
yrða, að í þjóðmálaumræðum næstu ára muni
athyglin beinast æ meir að heilbrigðiskerfinu.
Afbrot af margvíslegu tagi vekja meiri og
meiri athygli og eru að verða alvarleg mein-
semd. Umræður um fangelsismál eru að verða
meiri og margvíslegar spurningar settar fram
um þá starfsemi. Þjóðin verður að horfast í augu
við þennan vanda, ræða hann og takast á við
hann. Það hefur ekki verið gert nema að tak-
mörkuðu leyti.
Líklegt má telja, að málefni innflytjenda og
nýbúa verði meira til umræðu á næstu árum en
áður. Engin spurning er um, að það fólk, sem
hingað hefur flutt á undanförnum árum hefur
haft jákvæð áhrif á íslenzkt samfélag. Auðvitað
þarf þetta fólk tíma til þess að laga sig að nýju
umhverfi og nýjum aðstæðum. Nú hefur örlað
á því, að neikvæð viðhorf kunni að vera að
skapast í samfélaginu til nýbúa. Við þurfum að
taka á þeim vanda strax í upphafi. Neikvæð af-
staða til fólks frá öðrum löndum eða af öðrum
litarhætti er til marks um þröngsýni og for-
dóma. Við því er ekki hægt að bregðast nema
með upplýsandi umræðum. Við Íslendingar
eigum ekki að láta það henda okkur að þessi
mál fari í svipaðan farveg og hjá sumum öðrum
þjóðum. Við erum upplýst og vel menntuð þjóð
og slík þjóð á ekki að hafa neikvæða afstöðu til
fólks, sem hingað flytur frá öðrum löndum eða
af öðrum litarhætti. Við viljum geta tekið okk-
ur búsetu í öðrum löndum og að okkur sé vel
tekið þar. Við hljótum að gera sömu kröfur til
sjálfra okkar þegar fólk annars staðar frá vill
flytja hingað.
Afstaða
flokkanna
Það eru þingkosning-
ar að tveimur árum
liðnum. Nýir straum-
ar eru á ferðinni í
samfélagi okkar og þeir eru að brjótast upp á
yfirborðið. Málefni, sem hingað til hafa verið á
hliðarlínu vegna átaka og umræðna um grund-
vallarmál á borð við sjálfstæði, yfirráð yfir auð-
lindum og náttúruvernd munu komast í brenni-
depil í næstu þingkosningum.
Þeir stjórnmálaflokkar, sem verða fyrstir til
að laga sig að nýjum straumum eru líklegastir
til að ganga með sigur af hólmi í þeim kosn-
ingum. Þeir stjórnmálaflokkar, sem átta sig
ekki á þeim breytingum, sem eru að verða í
þjóðarsálinni sitja eftir.
Við getum ekki haldið áfram að ræða um og
takast á um ágreiningsefni 20. aldarinnar. Við
getum ekki haldið áfram að heyja stríð fortíð-
arinnar. Við verðum að fjalla um málefni fram-
tíðarinnar.
Þjóðin er ekki að skiptast í tvær fylkingar,
sem skipa sér annars vegar yzt til vinstri og
hins vegar yzt til hægri. Meginþorri fólks skipar
sér á miðju stjórnmálanna. Einu sinni var talað
um miðjumoð. Það er miðjumoðið, sem máli
skiptir. Hvort sem stjórnmálaflokkar spanna yf-
ir sviðið frá hægri eða vinstri verða þeir að ná
inn á miðjuna til þess að ná viðunandi árangri.
Úrslit þingkosninganna að tveimur árum liðn-
um fara eftir því, hverjum gengur bezt að ná inn
á miðjuna með skýrri stefnumörkun á sviði
þeirra vandamála velferðarríkisins, sem hér
hafa stuttlega verið gerð að umtalsefni. Kosn-
ingarnar vinnast eða tapast á miðjunni.
Morgunblaðið/RAX
Íris og Anna á trampólíni í Árbænum.
„Það er til fátækt á
Íslandi. Hún er af-
stæð að því leyti til
að það er ekki sams
konar fátækt og við
þekkjum til í þróun-
arlöndunum en fá-
tækt engu að síður á
okkar mælikvarða.
Þessa fátækt er að
finna meðal aldr-
aðra, öryrkja, ein-
stæðra mæðra og
annarra, sem minna
mega sín. Þessi fá-
tækt er blettur á
okkar samfélagi.“
Laugardagur 16. apríl