Morgunblaðið - 21.05.2005, Síða 30
30 LAUGARDAGUR 21. MAÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MENNING
Það er erfitt að lýsa með orðum stemningunni ííþróttasalnum á Litla-Hrauni á miðvikudags-
kvöld, skömmu áður en sýning hófst
þar á leikriti Hávars Sigurjóns-
sonar, Grjóthörðum. Leikritið var
sýnt í Þjóðleikhúsinu í vetur við
góðar undirtektir, en nú voru áhorf-
endur um sjötíu fangar.
Grjótharðir gerist innan veggja
fangelsis og lýsir samskiptum fimm
fanga: Jóa (Gísli Pétur Hinriksson)
sem á við geðræna sjúkdóma að
stríða; Jónasar (Jóhann Sigurð-
arson) lögfræðings á besta aldri sem
situr inni fyrir fjárdrátt; Kjartans
(Atli Rafn Sigurðsson) ófyrirleitins
ofbeldismanns með langa sögu af-
brota; Guðjóns (Pálmi Gestsson)
kynferðisbrotamanns og Péturs
(Valdimar Flygenring) sem banaði
barni þegar hann ók á það ölvaður.
Sjötti maðurinn í hópnum er fanga-
vörðurinn (Hjalti Rögnvaldsson).
Samskipti hópsins markast að miklu
leyti af ofbeldishneigð Kjartans,
sem lætur engan í friði og heldur
deildinni í spennitreyju með ógn-
unum og ofbeldi, en heldur þó hlífi-
skildi yfir Jóa, meðan honum finnst
það henta sér.
Fangarnir í verkinu eiga allir sína
sögu, og allir hafa þeir á takteinum
skýringar og jafnvel réttlætingar á
þeim gjörðum sínum sem hafa kom-
ið þeim í þessa vist. Þeir eru mis-
sáttir eins og gengur og fara hver
sína leið við að takast á við veru-
leikann innan múrsins. Spennan á
milli þeirra stigmagnast í verkinu,
því í ljós kemur að leiðir þriggja
þeirra hafa legið saman áður. Það
stefnir í uppgjör.
Það voru ekki einungis blaðamað-
ur og starfsmenn Þjóðleikhússins
sem voru mættir á Litla-Hraun;
sýningin var jafnframt kvikmynduð,
en til stendur að gera um hana
heimildarmynd.
Ekkert venjulegt við þetta
„Hvernig ætli þeir bregðist við?“
… klukkan að verða átta og enn
engir fangar mættir, og mikill
spenningur í leikurunum, og Hávari,
sem jafnframt leikstýrði verkinu.
Ofangreind spurning læddist hljóð-
lega út í svalt kvöldið á tröppum
íþróttasalarins – og örugglega hefur
hver aðstandenda sýningarinnar
hugsað sitt. Það er ekki venjulegt að
sýna leikrit fyrir fanga – ekki venju-
legt að sýna föngum verk um fanga
– ekki venjulegt að vera yfirhöfuð
allt í einu stödd í rammgerðasta
fangelsi Íslands – og ekki venjulegt
að vera eina konan í áhorfendasal
fullum af föngum. Síðast en ekki síst
– þá getur það varla talist venjulegt
að vera fangi að horfa á verk um
menn sem eiga jafnvel svipaða for-
tíð að baki og hann sjálfur.
Kæri lesandi – þú lest eflaust úr
þessum skrifum bæði spenning og
jafnvel óttablandinn skrekk minn,
en vonandi líka forvitni. Þannig var
þetta. Á svona stundu horfist maður
í augu við eigin kviku, tekst á við
eigin fordóma, eigið líf – og líf ann-
arra, og ég viðurkenni að ég finn til
vanmáttarkenndar. Ég veit fullvel
að ég þarf ekki að óttast þessa
menn – skrekkurinn snýst frekar
um það að til sé svona líf sem öðru
fólki er svo gjörsamlega ókunnugt.
Líf innan veggja. Líf í bið eftir því
að „hitt lífið“ taki aftur við.
Leikararnir eru komnir í sínar
stöður, og áhorfendurnir hópast inn,
rétt fyrir klukkan átta. Hvert sæti
er senn skipað, og jafnvel staðið upp
við veggi. Hávar Sigurjónsson
kynnir verkið og býður gesti vel-
komna. Ljósin slokkna. Sýningin
rúllar af stað. Það var léttir að sjá
hve hópurinn var glaðbeittur og kát-
ur – hlátur í loftinu – og spenningur.
Það slær mig hve ungir og bráð-
myndarlegir menn þetta eru. Gerð-
arlegir piltar, massaðir af lang-
vinnum lóðalyftingum, „... er það
það eina sem hægt er að gera hér?“
– hugsa ég, meðan einbeitingin kú-
vendir yfir á sviðið þar sem Jói lyft-
ir með miklum látum og hljóðum.
Ég finn að það kemur leikurunum
jafnmikið á óvart og mér, hversu líf-
legur salurinn er. Það er mikið hleg-
ið, miklu meira en á sýningunni sem
ég sá í leikhúsinu. Ég er heldur ekki
frá því að það sé hlegið á öðrum
stöðum hér en þar var gert. Þessi
tilfinning ágerist, og mér sýnast
ábúendur á Litla-Hrauni bæði
frjálsari í gleði sinni og jafnframt
mun sneggri að átta sig á lúmskum
orðaleikjum og gamansamri tví-
ræðni í texta verksins en gestir
Þjóðleikhússins. Á dramatískustu
augnablikunum í uppgjöri persón-
anna á sviðinu er þó ljóst að þetta er
alvörumál. Það er orðið nánast
óbærilega heitt í salnum, og and-
rúmsloftið rafmagnað.
Sýningunni lýkur, og fagn-
aðarlætin eru einlæg og mikil. Blíst-
ur, hróp og klapp óma um salinn –
þakklátir áhorfendur.
Samskipti persóna
sannfærandi
Þá er komið að eftirmálanum:
umræðum. Það eru ekki allir sem
hafa áhuga á að taka þátt í þeim, en
stór hópur situr eftir, raðar sér á
fremstu bekkina, meðan leikararnir
pústa baksviðs áður en þeir koma
fram aftur og setjast andspænis
föngunum.
„Hvernig fékkstu eiginlega hug-
myndina að þessu verki?“ – er
fyrsta spurningin sem beint er til
höfundarins, Hávars Sigurjóns-
sonar, „...hefurðu setið inni?“. Háv-
ar segir frá því að fyrst og fremst
hefði hann haft áhuga á að fjalla um
samskipti karlmanna sem hefðust
við í lokuðu umhverfi – það var ekki
ætlunin í upphafi að það umhverfi
yrði endilega fangelsi – en það æxl-
aðist þó þannig. Margir áhorfenda
sögðu leikritið lýsa aðstæðum fanga
ótrúlega vel. Persónurnar þekktu
þeir vel – líka fangavörðinn sem
hnuplar klámblöðum fanganna þeg-
ar lítið ber á. Þeir könnuðust líka
vel við það samskiptamunstur sem
skapaðist milli persónanna í verk-
inu; – valdabaráttuna, átökin, af-
neitun þeirra sem telja sig ekkert
rangt hafa gert og telja sína aðstöðu
ekki eiga neitt skylt við líf „glæpa-
mannanna“ á staðnum. „Maður hef-
ur séð allar þessar persónur hérna,“
segir einn ungu mannanna, en bætir
því við, að lætin séu þó aldrei jafn-
mikil á deildunum hjá þeim og í
verkinu. Auðvitað er Hávar að
þjappa mörgum atriðum inn í eitt
leikverk, atriðum sem aldrei myndu
henda öll á jafnskömmum tíma í
fangelsinu.
Samræðurnar komast á skrið, og
talsvert flug, og leikararnir láta sitt
ekki eftir liggja, og spyrja fangana
jafnmargvíslegra spurninga og þeir
spyrja leikarana. Leikararnir eru
forvitnir að vita meira um það
hversu raunsanna mynd þeim finnst
leikritið gefa, þeim finnst hún trú-
verðug. Þeir segja aðstöðuna ekki
ósvipaða. Hafi menn ekki áhuga á
skólanáminu sem í boði er, er fátt
annað við að vera en leikfimi og
sjónvarp. Það brestur í mikla gleði
þegar einn fanganna upplýsir að
hann hafi verið að ljúka stúdents-
prófi, og það er klappað. Annar
sækir iðnnám á Selfoss, nám sem
ekki er hægt að stunda á Hrauninu
sjálfu.
Stubbakallar og
karamelluþjófar
Aðstæður þessara manna eru
misjafnar, en þeir eru sammála um
það sem þeim finnst leikritið sýna
svo vel og hægt er að heimfæra upp
á þeirra eigin aðstæður. Einn fang-
anna segir það vandamál þegar
menn eins og persóna Kjartans
koma inn á rólegar deildir. Þeim
finnst ekki alltaf að mönnum sé rétt
raðað saman á deildir – ekki hugað
að því hvort þeir passi saman á ein-
hvern hátt. Þeim sem eru í langri
afplánun finnst til dæmis ómögulegt
að fá „stubbakalla“ á sína deild – en
stubbakallar eru þeir sem koma
með stutta dóma ... „karamelluþjóf-
ar“, eins og annar orðar það, fíklar
sem teknir eru við innbrot í sjoppur
og slíka staði. Einn mannanna vek-
ur athygli leikaranna á því að Litla-
Hraun sé öryggisfangelsi, og margir
fanganna þyrftu í raun ekki á slíkri
ofurgæslu að halda. Það væri miklu
nauðsynlegra fyrir þá að fá aðstoð
við að búa sig undir lífið hinum meg-
in aftur, en föngunum finnst þeim
undirbúningi augljóslega ábótavant.
„Maður er kannski búinn að vera
hér lengi, en finnur svo að veggirnir
úti eru miklu þykkari.“
Annar ungur maður spyr Hávar
og leikarana hvort þeim hafi fundist
öðruvísi að sýna fyrir fanga en gesti
Þjóðleikhússins. Þeir jánka því, og
segja að meira hafi verið hlegið, og
jafnvel á öðrum stöðum. Þeir segja
föngunum líka að fyrir þá hafi þetta
verið sérstök reynsla – því ekki
hefði verið hægt að segja fyrirfram
til um viðbrögðin.
Það sem snertir mig, er hversu
þessar umræður eru eðlilegar og
hispurslausar. Aðstandendur sýn-
ingarinnar og fangarnir ná vel sam-
an, eru forvitnir hvorir um annarra
hagi, og þrátt fyrir alvarlegan und-
irtón er spjallið glaðlegt.
Búinn að sjá verkið þrisvar
„Við fáum allt of lítið af svona
uppákomum,“ segir snaggaralegur
ungur maður, og félagar hans lýsa
áhuga sínum á að fá oftar afþrey-
ingu af þessu tagi í fangelsið.
Það var reyndar einn fangavarð-
anna, deildarstjórinn Jón Sigurðs-
son, sem átti hugmyndina að því að
sýna Grjótharða á Litla-Hrauni.
Hann sá forsýningu á verkinu ásamt
fleiri fangavörðum – var reyndar
búinn að sjá verkið þrisvar fyrir
miðvikudagskvöldið, og var viss um
að sýningin myndi heppnast meðal
hans manna. „Þetta var allt öðruvísi
sýning en í bænum,“ segir Jón.
„Þegar fangarnir fóru að hlæja voru
leikararnir ekki alltaf viðbúnir – en
þetta var alveg magnað – mjög
magnað.“
Það virðast allir sammála um að
það hafi verið einstaklega sterk
upplifun að sjá Grjótharða á Litla-
Hrauni. Mér finnst það léttir að sjá
að menn glata ekki skopskyni sínu í
þeim aðstæðum sem þar eru og
jafnframt er ánægjulegt að sjá
hversu fúsir strákarnir eru að tjá
sig um lífið innan veggja. Margar
spurningar vakna í mínum huga –
spurningar um lífið og örlög mann-
fólksins. Allt er þetta líf, hvernig
sem við lifum því. Breyskleikinn er
víst partur af því að vera mennskur,
en hugurinn staðnæmist óneit-
anlega við þá tilhugsun, að ef til vill
gætum við staðið okkur miklu betur
í því að koma fólki til hjálpar eftir
að það hefur misstigið sig. Mér
finnst þau í það minnsta þungur
dómur, orð unga mannsins sem
sagði að veggirnir úti væru miklu
þykkari en þeir á Litla-Hrauni. Þau
orð eru óþægilegur ferðafélagi á
leiðinn í bæinn aftur.
Leikhús | Grjótharðir eftir Hávar Sigurjónsson sýnt á Litla-Hrauni
Allt öðruvísi en í Þjóðleikhúsinu
Eftir Bergþóru Jónsdóttur
begga@mbl.is
Morgunblaðið/ÞÖK
„Þú ferð beina leið í steininn. Þú færð engar 2.000 krónur þótt þú farir yfir byrjunarreit.“ Grjótharðir spila
Matador; Jónas (Jóhann Sigurðarson), Jói (Gísli Pétur Hinriksson) og Kjartan (Atli Rafn Sigurðsson).
EINN þekktasti nýsirkus heims,
Cirkus Cirkör frá Svíþjóð, kemur
til Íslands í júní og verður með
fjórar sýningar í Borgarleikhúsinu
á nýrri uppfærslu, sem ber heitið
99% unknown. Sirkusinn hefur áður
heimsótt Ísland, árið 2001 þegar
hann fyllti Laugardalshöllina í tví-
gang.
„Þessi sirkus, sem var stofnaður
fyrir 10 árum, fylgir í kjölfarið á
nýrri hefð þar sem listfjölleikahúsið
er í forgrunni, þannig að þar er
mikið um rólur og sveiflur og jafn-
vægislistir – allt þar sem mannslík-
aminn nýtur sín,“ segir Sigrún Val-
bergsdóttir, kynningarstjóri hjá
Borgarleikhúsinu.
Hún segir það til marks um
hversu mikillar virðingar Cirkus
Cirkör nýtur að sýning hans hafi
verið valin sem framlag Svía á
þjóðardeginum á heimssýningunni í
Japan fyrir stuttu. Sirkusinn kemur
hingað til lands beint úr sýning-
arferðalagi um Asíu sem farin var í
kjölfarið og heldur áfram ferðalagi
sínu vestur um haf. „Það er mjög
gaman að ná honum hingað og geta
haft fjórar sýningar, vegna þess
hve vinsæll hann var þegar hann
kom hér á sínum tíma. Þá komust
færri að en vildu.“
Mannslíkaminn í forgrunni
Nýja sýningin Cirkör, 99% un-
known eða 99% óþekkt, byggist á
pælingum tengdum læknavísind-
unum. „Hún fjallar eiginlega um
hversu mikið við vitum um DNA,
erfðaefnið,“ útskýrir Sigrún. „Það
er eiginlega 99% óþekkt af því, og
til þess vísar titillinn.“
Engin dýr eru með í Cirkus
Cirkör, heldur eru mannslíkaminn
og möguleikar hans í forgrunni, en
vídeólist, tónlist, dansi og töluðu
máli er beitt jöfnum höndum til að
koma innihaldinu á framfæri. „Það
er það sem einkennir nútímasirk-
usinn að bangsarnir og tígrisdýrin
eru eftir heima. Hópurinn er að
reyna að skilja líkamann og tengsl
hans við umhverfið,“ segir Sigrún
að síðustu.
Leiðarljós Cirkus Cirkör hefur
frá upphafi verið að breyta heim-
inum, með list, leik og menntun.
Sirkusinn gerir nokkrar sýningar á
hverju ári, sem eru sýndar jafnt í
Konunglega leikhúsinu í Stokk-
hólmi sem á götuleikhúshátíðum.
Að hverri sýningu hópsins kemur
fjöldinn allur af listamönnum og
blanda saman leikhúsi, söngleikja-
formi, óperu, dansi og sirkus-
brögðum. Fyrir fimm árum stofnaði
hópurinn sinn eigin skóla, sem
þjálfar fólk í aðferðafræði hópsins.
Cirkus Cirkör hafði mikil áhrif á
uppsetningu Vesturports á Rómeó
og Júlíu og var unnin í samvinnu
hópanna tveggja.
Sirkus | Cirkus Cirkör
heimsækir Borgarleik-
húsið í júní
Fjallað
um DNA
í sirkus-
sýningu
Cirkus Cirkör kemur með nýja sýn-
ingu, 99% unknown, hingað til
lands í júní.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur
ingamaria@mbl.is
TENGLAR
..............................................
www.cirkor.se