Morgunblaðið - 19.06.2005, Qupperneq 14
14 SUNNUDAGUR 19. JÚNÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
Einar Arnórsson ráðherra hélt af staðtil Kaupmannahafnar á konungs-fund með skipinu „Vestu“ hinn 25.maí 1915 með ýmis frumvörp semAlþingi hafði samþykkt en þörfn-
uðust undirskriftar konungs til að verða að
lögum. Meðal þeirra var frumvarp um kosn-
ingarétt kvenna. Eftir nokkrar tafir á höfum
úti lagðist „Vesta“ við bryggju í Kaupmanna-
höfn hinn 7. júní. Ráðherra Íslands var skylt
að mæta á fundi danska ríkisráðsins ef hann
var í Kaupmannahöfn, jafnvel þótt hann hefði
ekkert mál að leggja fram. Í þetta sinn hafði
ráðherra mikilsverð mál að bera undir konung
og hélt því á næsta boðaða fund sem haldinn
var í ríkisráðinu danska hinn 19. júní. Þar
skrifaði konungur undir ný stjórnskipunarlög
frá Alþingi. Þar með var kosningaréttur
kvenna á Íslandi í höfn, þótt með miklum tak-
mörkunum væri.
Konur kætast
Þegar tíðindin bárust með símanum til Ís-
lands ákváðu Kvenréttindafélag Íslands og
Hið íslenska kvenfélag að halda minning-
arhátíð og fengu með sér formenn flestra
kvenfélaga í Reykjavík. Setja átti Alþingi hinn
7. júlí og konurnar ákváðu að gera sér daga-
mun þann dag. Minningarhátíðin fór fram á
Austurvelli og hófst kl. 5.20 síðdegis með því
að fylking kvenna raðaði sér upp í Barna-
skólagarðinum og hélt af stað„í skínandi sól-
skini og stafalogni og gleðibrag á öllum andlit-
um“ eins og Bríet Bjarnhéðinsdóttir skrifaði í
blað sitt, Kvennablaðið. Fremst gengu 200
ljósklæddar smámeyjar með litla íslenska fána
í höndum sér en á eftir kom aðalfylkingin og
gengu 3 konur samhliða. Fyrir göngunni fór
hornaflokkur og lék ýmis íslensk lög. Fylk-
ingin gekk eftir Lækjargötu, Austurstræti,
Pósthússtræti og Kirkjustræti og inn á Aust-
urvöll sem var allur fánum skreyttur. Sendi-
nefnd kvenna gekk inn í þinghúsið með ávarp
frá íslenskum konum á fund sameinaðs þings.
Ingibjörg H. Bjarnason las upp skrautritað
ávarp til þingsins. Forseti Sameinaðs Alþingis,
sr. Kristinn Daníelsson, þakkaði með stuttri
ræðu og sömuleiðis ráðherra, Einar Arn-
órsson. Síðast bað séra Sigurður Gunnarsson
konur lengi að lifa og tók þingheimur undir
það með þreföldu húrra.
Eftir þessa athöfn í þinghúsinu var tekið til
við hátíðahöldin á Austurvelli þar sem söng-
flokkur kvenna söng kvæði sem Guðmundur
Magnússon orti í tilefni dagsins, lesið var upp
skeyti til Kristjáns konungs X og drottningar
frá kvennafundinum og ávarpið til Alþingis.
Síðan fluttu þær Bríet Bjarnhéðinsdóttir og
Ingibjörg H. Bjarnason ræður en á milli var
sungið kvæði eftir frk. Maríu Jóhannsdóttur.
Að lokum var sungin Eldgamla Ísafold. Um
kvöldið var svo hátíðarsamkoma í Iðnó og var
öllum heimilt að koma sem það vildu og veitt
kaffi, te, mjólk og gosdrykkir.
Þessi minningarhátíð er athyglisverð fyrir
margar sakir. Samkoman var ein sú fjölmenn-
asta sem sést hafði hér á landi, ef ekki sú fjöl-
mennasta – og aldrei höfðu áður sést svo
margar og jafn prúðbúnar konur. Þá er þetta
sennilega í fyrsta sinn sem íslenski fáninn eins
og við nú þekkjum hann var hafður uppi við
opinbera samkomu sem viðurkenndur sérfáni
Íslands, en Kristján konungur X hafði einnig
undirritað frumvarp um sérfána Íslands hinn
19. júní. Smámeyjarnar héldu allar á íslenska
fánanum, Austurvöllur var fánum skrýddur og
sömuleiðis Iðnó þar sem íslensku flöggin og ís-
lensku litirnir voru yfirgnæfandi bæði á borð-
unum undir veisluföngin og salurinn allur.
Minningarhátíðin var því eins „íslensk“ og
hugsast gat.
Hinn séríslenski „búhnykkur“
Annað „íslenskt“ atriði stingur hér mjög í
stúf. Íslenskar konur fengu að sönnu kosn-
ingarétt hinn 19. júní 1915 – en aðeins þær sem
voru 40 ára og eldri. Samtímis fengu vinnu-
menn kosningarétt með sömu skilyrðum og
konur. Þetta hlýtur að vekja þeim mun meiri
athygli sem engin önnur þjóð, hvorki fyrr né
síðar, beitti viðlíka aldursákvæði í lögum sín-
um um kosningarétt kvenna.
Nýsjálenskar konur öðluðust kosningarétt
fyrstar kvenna í veröldinni árið 1893 og um
svipað leyti unnu konur kosningarétt í ein-
staka ríkjum Bandaríkjanna. Árið 1903 unnu
ástralskar konur kosningarétt til sam-
bandsþingsins í Ástralíu. Finnskar konur
fengu kosningarétt fyrstar Evrópukvenna
1906 og árið 1907 fengu norskar konur kosn-
ingarétt, þó með því skilyrði að vera giftar
skattgreiðanda eða greiða nokkurn (lágan)
skatt sjálfar. Algengt var að skattgreiðslur
væru skilyrði fyrir kosningarétti í sveit-
arstjórnum en slík ákvæði hurfu úr lögum þeg-
ar kom fram á 20. öldina og aðeins í Noregi var
slíku ákvæði beitt í þingkosningum. Heims-
styrjöldin fyrri, aðdragandi hennar og eftirmál
stöðvuðu kosningaréttarmálið um hríð en eftir
1920 voru flest lönd í Evrópu sem og Banda-
ríkin komin með kosningarétt kvenna.
Bríet Bjarnhéðinsdóttir sagði í Kvenna-
blaðinu 7. maí 1915 að allir stjórnmálaflokkar í
Danmörku hefðu komið sér saman um að taka
upp „hinn nafnfræga, íslenzka, stjórnvizkulega
búhnykk“ að veita konum ekki fullan kosn-
ingarétt heldur skammta þeim hann úr hnefa,
líkt og á Íslandi. Þessi skilningur hefur með
einhverjum hætti ratað inn í fræðirit. Danskar
konur fengu hins vegar kosningarétt 5. júní
1915 með sömu skilyrðum og karlmenn.
Aldurstakmark settu aðeins tvær þjóðir: Ís-
land og Bretland. Í Bretlandi var markið sett
við 30 ára aldur árið 1918 en á Íslandi við 40
ára aldur árið 1915. Aldursmarkið skyldi
lækka um eitt ár á ári þannig að árið 1931
stæðu konur og karlar jafnfætis að þessu leyti.
Engin fordæmi finnast fyrir viðlíka ákvæði í
veröldinni og því hlýtur að vakna sú spurning
hvaðan það er sprottið. Hvaðan kom þing-
mönnum norður í Dumbshafi sú hugmynd að
njörva þingskosningarétt kvenna niður við 40
ára aldur – og það tiltölulega skömmu eftir að
þeir höfðu samþykkt kosningarétt kvenna í
sveitarstjórnum um allt land án viðlíkra skil-
yrða? Það má svo bæta því við að ekki verður
betur séð af umræðum á Alþingi en að þing-
menn hafi verið býsna vel upplýstir um gang
mála úti í heimi um kosningarétt kvenna. Ekki
verður því fáfræði um kennt.
Ótti við kvennaflokk
Árið 1911 hafði Alþingi samþykkt frumvarp
sem gerði ráð fyrir jöfnum atkvæðisrétti karla
og kvenna til Alþingis. Í umræðum um frum-
varpið lagði Jón Jónsson í Múla fram breyting-
artillögu þess efnis að konur skyldu fá kosn-
ingarétt, en við 40 ára aldur. Rök Jóns voru
þau helst að óráðlegt með öllu væri að fjölga
kjósendum um 2/3 hluta í einu. „Engin mennt-
uð þjóð hefur þorað að gera þessu líka tilraun“,
sagði Jón í Múla, en vitnaði hins vegar til
Wyoming þar sem konur höfðu haft kosninga-
rétt og kjörgengi um hartnær 40 ára skeið og
„hafa bæði blöð og þing þess ríkis verið orð-
lögð fyrir siðprýði jafnan síðan“.
Breytingatillaga Jóns í Múla var felld í neðri
deild Alþingis og þingið samþykkti frumvarpið
með jöfnum atkvæðisrétti. Það hlaut hins veg-
ar ekki náð fyrir augum danskra stjórnvalda
fremur en önnur stjórnskipunarákvæði þetta
árið því sambandsmál Dana og Íslendinga
voru í hnút.
Árið 1913 komu þingmenn sér saman um
nýtt frumvarp varðandi kosningarétt kvenna.
Nú sveif andi Jóns í Múla yfir vötnum að hon-
um látnum. Meirihluta nefndar neðri deildar
sagði svo í athugasemdum sínum við frum-
varpið að varhugavert væri að „fjölga svo kjós-
endum alt í einu, að núverandi kjósendur sjeu
sviftir mest öllu valdi yfir landsins málum.“
Hér bregður fyrir ótta við yfirvofandi breyt-
ingar hjá nefndinni. Sams konar ótta má finna
í máli Jóns Magnússonar sem sagði í um-
ræðum að hætt yrði við að konur myndu skoða
sig sem sérstakan flokk sem aðeins mætti
kjósa konur á þing ef þær fengju kosningarétt-
inn allar í einu. Síðan klykkti hann út: „Að
minsta kosti höfum við Reykvíkingar dæmi
fyrir okkur í þessu.“
Í Reykjavík höfðu verið bornir fram kvenna-
listar við bæjarstjórnarkosningar árin 1908,
1910 og 1912 þegar hér var komið sögu við
góðar undirtektir. Kosningastarfið og vinnan í
bæjarstjórninni hleypti konum kappi í kinn og
sýndu hvers þær voru megnugar er þær stóðu
saman. Sennilega var það þetta kapp sem
þingmenn voru farnir að óttast. Og óttinn
greip fleiri. Í landsmálablöðunum Ísafold og
Þjóðólfi fóru að birtast greinar er kom fram á
vorið 1911 þar sem beinlínis var ráðist að kon-
um og þær ekki taldar hafa neitt það til mála
að leggja sem ætti erindi í stjórnmál. Í kosn-
ingafélaginu Fram, félagi Heimastjórn-
armanna, hafði Jón Þorláksson borið upp
snemma árs 1912 og fengið samþykkta tillögu
um að ráða Alþingi frá því að samþykkja
rýmkun kosningaréttarins fyrirvaralaust.
Hér var nýr tónn sleginn. Kvenréttindabar-
áttan hafði verið tiltölulega meinlítil hér á
landi fram að þessu. Nú urðu kynslóðaskipti í
umræðunni og meinleysisgríman rann af þeim
karlmönnum sem komu nærri stjórn landsins.
Fordæmið frá Reykjavík mátti ekki endurtaka
sig í landsmálunum.
Danir til bjargar
Eins og áður sagði skyldi aldurstakmark
kvenna lækka um eitt ár árlega og því hefði
jafn kosningaréttur karla og kvenna náðst árið
1931. Ísland hefði þar með lent ansi aftarlega í
röðinni hvað þetta varðar. En ákvæðið sem
Bríet Bjarnhéðinsdóttir kallaði í háði „hinn
nafnfræga, íslenzka stjórnvizkulega búhnykk“
var afmáð með sérstökum hætti. Með sam-
bandslagasamningum milli Dana og Íslend-
inga fylgi ákvæði um að jafna skyldi ríkisborg-
araréttindi landanna á þann veg að þeirra
réttinda er Danir nytu í Danmörku skyldu þeir
einnig njóta á Íslandi – og öfugt. Í kjölfarið var
nokkrum lagaákvæðum breytt á Íslandi, þar á
meðal ákvæðum um kosningarétt kvenna og
hann færður til jafns við rétt karla árið 1920.
Það má því segja að Danir hafi skorið íslenska
þingmenn úr þessari sérkennilegu snöru. Fyr-
ir þetta hefur þeim aldrei verið almennilega
þakkað – en úr því er bætt hér og nú.
„Hinn nafnfrægi, íslenzki
stjórnvizkulegi búhnykkur“
Ljósmynd/ Magnús Ólafsson – Þjóðminjasafn
Hvítklæddar smámeyjar leggja af stað í skrúðgöngu úr Barnaskólaportinu til að fagna kosningarétti kvenna.
Sjaldan eða aldrei hafði verið svo mikill mannfjöldi saman kominn í Reykjavík sem 19. júní 1915, en
myndin var tekin á Austurvelli þann dag.
Kvenréttindabaráttan hefur
tekið á sig ýmsar myndir í gegnum
tíðina, þó að baráttan fyrir kosn-
ingarétti sé efalítið með þeim merk-
ari. Auður Styrkársdóttir rifjar hér
upp er íslenskar konur fengu
kosningarétt árið 1915.
Höfundur er forstöðumaður
Kvennasögusafns Íslands.