Morgunblaðið - 14.09.2005, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. SEPTEMBER 2005 27
UMRÆÐAN
BRÉF TIL BLAÐSINS
Morgunblaðið Kringlunni 1 103 Reykjavík Bréf til blaðsins | mbl.is
MINNINGAR
✝ Hafdís Matt-híasdóttir fædd-
ist á Patreksfirði 9.
maí 1941. Hún lést
á Landspítalanum
3. september síðast-
liðinn. Foreldrar
hennar eru Lilja
Ólafsdóttir, f. 1923
og Matthías Jóns-
son, f. 1913, d.
1980. Systkini Haf-
dísar eru Ólafía
Matthíasdóttir,
maki Þórarinn B.
Gunnarsson, Jón
Axel Matthíasson, f. 1942, d.
2003, maki Matthildur Jóhanns-
dóttir, Oddný Matthíasdóttir,
maki Guðmundur Ingimarsson, f.
1949, d. 2004, Ólafur Stefánsson,
maki Steinfríður Alfreðsdóttir,
Einar Stefánsson, maki Guðlaug
Jónsdóttir, Magnea Stefánsdótt-
ir, maki Þorsteinn Sæmundsson,
Jón Stefánsson, maki Anna
Jenný Einarsdóttir,
og Rán Stefánsdótt-
ir, f. 1956, d. 1976.
Hafdís giftist 25.
september 1965
Bjarka Friðgeirs-
syni. Foreldrar
hans voru Friðgeir
Steingrímsson, f.
1914, d. 2000 og
Hulda Stefánsdótt-
ir, f. 1921, d. 1974.
Börn þeirra Hafdís-
ar og Bjarka eru
Friðgeir, maki
Ingibjörg Zoëga,
börn þeirra Bjarki, f. 1992 og
Tara Líf, f. 1997, Ísabella Björk,
maki Reynir Þorsteinsson, dætur
þeirra Hafdís Rán, f. 1990 og
Vigdís Rún, f. 1996, og Viktor
Elfar, sonur hans Davíð Máni, f.
1997.
Hafdís verður jarðsungin frá
Vídalínskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Hafdís Matthíasdóttir, tengda-
móðir mín, veiktist skyndilega í
Króatíu, þar var hún lögð inn á
sjúkrahús og síðan flutt heim til
Íslands með sjúkraflugi. Kvöldið
áður en hún var flutt heim, átti ég
stutt samtal við hana sem endaði
eitthvað á þennan veg: „Jæja, við
sjáumst svo á klakanum.“
Hefði mig órað fyrir því að þetta
væri okkar síðasta samtal, þá hefði
ég nýtt þessa stund betur og sagt
eitthvað gáfulegra.
Hefði mig órað fyrir því sem
koma skyldi, þá hefði ég þakkað
tengdamóður minni fyrir að halda
haus þegar dóttir hennar birtist,
fyrir hartnær tveimur áratugum,
með þennan durt sem þetta skrifar
upp á arminn.
Hefði mig órað fyrir því sem
koma skyldi, þá hefði ég þakkað
tengdamóður minni fyrir margan
ánægjulegan sunnudagseftirmið-
daginn, yfir fréttablöðum helgar-
innar, þar sem málefni líðandi
stundar voru krufin yfir kaffibolla
og vöfflum.
Hefði mig órað fyrir því sem
koma skyldi, þá hefði ég þakkað
tengdamóður minni fyrir langvar-
andi vinskap og virðingu okkar í
milli, sem endurspeglaðist í því, að
oftar en ekki vorum við tvö sam-
mála, þegar einhver mál komu upp
sem ræða þurfti í fjölskyldunni.
Hefði mig órað fyrir því sem
koma skyldi, þá hefði ég þakkað
tengdamóður minni fyrir hlýlegt
og elskulegt viðmót, öll þau ár sem
við höfum tengst fjölskyldubönd-
um. Hefði mig órað fyrir því sem
koma skyldi, þá hefði ég sagt
tengdamóður minni að ég væri
löngu búinn að sjá í gegnum harða
og ákveðna brynju þessa netta lík-
ama hennar, og mér væri það full-
komlega kunnugt, að þar undir
niðri tifaði risahjarta úr skíra
gulli.
Þó mig hafi ekki órað fyrir því,
að í Króatíu myndum við eiga okk-
ar síðasta samtal, þá er það mér
huggun harmi gegn að tengdamóð-
ir mín skyldi komast heim, þar
sem ástvinir hennar gátu átt með
henni hinstu augnablik. Fyrir það
verð ég ævinlega þakklátur.
Kæra tengdamamma, það er
með söknuði og þessum fábrotnu
játningum sem ég kveð þig.
Þinn fyrsti, síðasti og eini
tengdasonur.
Reynir Þorsteinsson.
Elsku systir mín er farin frá
okkur eftir stutta sjúkdómslegu.
Engan grunaði þegar hún fór í
sumarfrí með manni sínum að
heim kæmi hún helsjúk og ekkert
yrði við ráðið. Mikið var hún þó
fegin að komast heim. Hafði þó
undurgaman af því að ferðast
ásamt honum Bjarka sínum.
Við erum ekki enn farin að trúa
þessu og skilja hvernig þetta gat
gerst. Hugur minn er hjá mömmu
sem nú horfir á eftir þriðja barni
sínu sem er hverrar móður sárasta
raun.
Hafdís, eða Hadda padda eins
og ég kallaði hana alltaf, var pen
og falleg kona. Heillandi kímin og
yndisleg manneskja. Nú vantar
allan hláturinn í systkinakaffið
sem við höldum einu sinni á ári.
Hún var mikið fyrir heimilið og
fjölskylduna alla. Fór ekki hratt
yfir en komst allt sem hún ætlaði
sér, enda ákveðin.
Nú fæ ég ekki grautinn hjá
henni lengur. Það var hlutverk
Höddu pöddu að passa mig í sveit-
inni enda eldri, þótt ég hafi verið
stærri og feitari en hún. Henni
þótti gaman að klípa mig í hand-
arbökin eftir að hún var búin að
gefa mér grautinn enda mjúkur
krakki. Þá gaf hún mér nafnið
„Grauta“ enda tók ég lengi við.
Minningarnar úr sveitinni á
Langanesi eru góðar. Þar var allt-
af gott veður og alltaf gaman.
Hadda hóf búskap á Raufarhöfn
þar sem hún kynntist Bjarka og
átti með honum þrjú börn sem
eiga samúð mína alla í dag. Seinna
fluttu þau hjónin til Reykjavíkur
og undi Hadda sér vel þar.
Nú kveð ég þig, kæra systir. Þú
fórst frá okkur of fljótt en kannski
kunna þeir gömlu dansana þar
sem þú ert núna.
Ég og fjölskylda mín sendum
innilegar samúðarkveðjur til
mömmu, Bjarka, Friðgeirs, Ísa-
bellu og Viktors sem og maka og
barna þeirra. Megi ljósið vísa ykk-
ur veginn og styðja á þessum erf-
iðu tímum.
Magnea Guðný.
Þegar minningarbrotum er sam-
an safnað um mágkonu mína og
góða vinkonu okkar hjóna beggja,
sem nú hefur horfið okkur allt of
skyndilega, kemur upp í huga mér
mynd af gestrisinni, kattþrifinni
fyrirmyndarhúsmóður sem lagði
sig í líma við að láta gestum sínum
líða vel. Konu sem ræktaði vina-
og frændgarð sinn þannig að eftir
var tekið en sinnti ekki síður um
sína nánustu sem alltaf áttu á vís-
an að róa þegar til hennar var leit-
að. Ég kynntist Hafdísi strax á
fyrstu sambúðarárum mínum við
Ólafíu systur hennar og þótt sam-
skiptin yrðu síðar stopulli þau lið-
lega tuttugu ár sem hún bjó með
manni sínum og börnum norður á
Raufarhöfn þá héldust tengslin og
þegar þau fluttu „suður“ efldist
vináttan á nýjan leik. Dagleg um-
gengni ásamt skemmtunum og
ferðalögum jókst og tók kipp þeg-
ar við hjónin dvöldumst í eitt ár í
norður Svíþjóð og höfðum haft bíl-
inn okkar meðferðis þangað. Þegar
leið að því að við færum til baka,
varð úr að Hafdís og maður henn-
ar kæmu til okkar og við færum
síðan í sumarleyfi um Svíþjóð og
þau færu síðan fljúgandi heim frá
Kaupmannahöfn en við frá Rotter-
dam þaðan sem við áttum flutning
heim fyrir bílinn. Þetta sameig-
inlega ferðalag okkar varð sam-
felld sæla sem aftur leiddi til enn
frekari sameiginlegra samvista hér
og sumarferða um Evrópu alla, en
Þýskaland var samt landið þar
sem Hafdís undi sér alltaf best
sem ferðamaður. Sumarferð okkar
fyrir ári og dvöl okkar í suðaustur
Þýskalandi allt frá alpahéruðunum
til bæversku skóganna norðan við
Dóná er ógleymanleg bæði sakir
félagsskaparins og dvalarstaðanna.
Nú verða ferðirnar sem við
sjáum fyrir ekki fleiri, en minn-
ingar ylja um ókomin ár. Ég vil í
lokin votta Bjarka, börnunum öll-
um og barnabörnum, ásamt Lilju
tengdamóður minni sem nú sér á
bak þriðja barni sínu, mína dýpstu
samúð um leið og ég sendi sam-
úðarkveðjur til systkinanna allra
og fjölskyldna þeirra. Ég bið Guð
að blessa minningu Hafdísar og
gefa eftirlifendum styrk.
Þórarinn B. Gunnarsson.
Látin er á besta aldri góður
vinnufélagi til margra ára, Hafdís
Matthíasdóttir.
Hafdís vann hjá Osta- og smjör-
sölunni í tæp fjórtán ár.
Hið sviplega fráfall hennar kom
okkur vinnufélögunum á óvart. Við
vissum ekki betur en að hún hefði
farið frísk og kát í sumarfrí, en
eigi má sköpum renna. Þessi bros-
milda, geðþekka kona er okkur
sem unnum með henni mikill
harmdauði. Hún var ljúfur félagi
sem hafði notalega nærveru og
vann störf sín af samviskusemi og
trúnaði.
Osta- og smjörsalan þakkar
henni trygga samfylgd. Fjölskyldu
Hafdísar eru sendar innilegar
samúðarkveðjur.
Magnús Ólafsson.
Elsku Hafdís, ekki hvarflaði að
mér þegar þú fórst glöð og kát í
sumarfrí hinn 4. ágúst að ég sæi
þig ekki aftur.
Við vissum að þér leið ekki alltaf
vel í sumar eftir þessa stóru að-
gerð í apríl, en í vinnunni ætlaðir
þú að vera.
Við vorum samstilltur hópur og
ófá voru matarboðin heima hjá
mér og síðasta boðið var aust-
urlenskt og allar mættum við í
austurlenskum búningum, þú og
Ólöf fenguð lánuð föt í japanska
sendiráðinu og kínverski þjónninn
mætti óvænt.
Þú byrjaðir að vinna hjá Osta-
og smjörsölunni sf. fyrir tæpum 14
árum. Enga konu hef ég haft í
vinnu sem var eins iðin og þú
varst, um leið og það kom pása þá
varst þú farin að þrífa eða gera
eitthvað sem þú vissir að þurfti að
gera. Meira að segja þegar við
vorum með Ostadagana í Perlunni
og við vorum að útbúa smakkið í
eldhúsinu þar, þá fórst þú að þrífa
þar í pásum þar sem þér fannst
ekki nægilega hreint hjá kokkun-
um.
Þú hélst spilunum þétt upp að
þér, en þó settist þú stundum hjá
mér og spjallaðir. Við erum sex
sem áttum eftir að fara tvisvar út
að borða saman og erum búnar að
draga það í rúmt ár.
Áður en þú fórst tókst þú af mér
loforð að við færum ekki fyrr en
þú kæmir til baka og lofaði ég að
við færum ekki án þín. Núna ósk-
um við þess að við hefðum farið
fyrir löngu.
Hafdís var lágvaxin kona og
mjög nett og smábeinótt og vorum
við oft búnar að hlæja þegar ég
þurfti að rétta þér eitthvað sem
var uppi á skáp eða í efstu hillunni
og töluðum um að þú þyrftir að fá
skúffur í sökklana. Eða þá litlir
skór og stórir, þetta skilur kannski
enginn nema ég og þú og er það í
góðu lagi.
Við samstarfskonur þínar í
Veislueldhúsi, mötuneyti og Osta-
búð Osta- og smjörsölunnar sf.
sendum Bjarka, börnum, tengda-
börnum og barnabörnum samúðar-
kveðjur og þökkum þér fyrir þessi
ár sem þú vannst með okkur.
Samstarfskonur í Osta-
og smjörsölunni sf.
HAFDÍS
MATTHÍASDÓTTIR
ÞEKKTU þitt sanna sjálf! Í þess-
ari setningu kristallast meginboð-
skapur jógafræðanna. Í dag
þekkja flestir líkamsæfingar eða
asönur sem jóga en þegar Vivek-
ananda og Paramahansa Yog-
ananda hófu ferðir sínar til Vest-
urlanda snemma á síðustu öld var
meginboðskapurinn sá að í jóga-
fræðunum fælist aðferðafræði
sem gerði mönnum kleift að
þekkja sitt innra sjálf án tillits til
kynþáttar eða trúarbragða. Í dag
má sjá myndir af að því er virðist
pollrólegum og oftar en ekki
grannvöxnum módelum í lót-
usstellingunni á síðum glans-
tímarita. Ímynd jógans hefur
breyst úr síðskeggjuðum hellis-
búa á lendaskýlu yfir í fram-
úrskarandi liðuga einstaklinga af
báðum kynjum með þvottabrett-
ismagavöðva og stálrasskinnar. Í
vinnu minni sem jógakennari
lendi ég oft í því að rekast á stað-
alímyndir almennings um hinn
pollrólega jóga sem aldrei skiptir
skapi. Ég má ekki sýna kraft,
dugnað og þor án þess að fá skýr
skilaboð um að það sé ekki mjög
„jógalegt“, hvað sem það nú þýð-
ir í huga viðmælandans. Við lest-
ur á frumbókmenntum jógafræð-
anna kemur sterklega í ljós að til
þess að feta hina andlegu braut
þurfi kraft stríðsmannsins svo að
hægt sé að horfast í augu við eig-
in breyskleika og vera tilbúinn til
að gera breytingar. Í upphafi á
jógasútrum Patanjali segir hann
að jóga snúist um að ná stjórn á
sveiflum hugans. Til þess þarf að
yfirstíga ótta, græðgi, hatur, af-
brýðisemi og aðrar lægri hvatir
sem ekki láta undan án baráttu.
Sálin er sögð fullkomin innra með
okkur. Við þurfum einungis að
fjarlægja hulur framkallaðar af
huga og líkama til að verða vitni
að því sem við erum. Sálin er
alltaf til staðar. Við erum meðvit-
undarlaus í örmum hennar í djúp-
um draumlausum svefni. Til þess
að upplifa hana meðvitað þurfum
við að tileinka okkur andlega
ástundun í formi hugleiðslu. Ég
hef kerfisbundið stúderað jóga-
fræðin í rúm átta ár og mér
finnst ég enn vera byrjandi á því
sviði. Því meira sem ég skil, því
minna veit ég. Ég veit það eitt að
til þess að öðlast innri frið og
mögulega hugarró þarf kraft,
dugnað og reglulega ástundun.
Jógafræðin eru heildræn heim-
speki sem geta gagnast öllum.
Þeim sannindum má ekki gleyma
þegar rætt er um jóga. Þótt jóga-
æfingarnar séu heildræn heilsu-
rækt þá eru þau aðeins lítill hluti
af miklu stærri og í mörgum til-
fellum ókönnuðum ísjaka.
GUÐJÓN BERGMANN,
Blönduhlíð 4, 105 Reykjavík
Andlega hliðin
á jóga
Frá Guðjóni Bergmann, jógakenn-
ara og rithöfundi:
MÉR þykir mjög leiðinlegt að sjá
þessar fréttir í íslensku blöðunum.
Ég held að Íslendingar geri sér ekki
nokkra grein fyrir því hvað fólk
verður að gera til að bjarga sér í 35
stiga hita þar sem borgin þín er að
mestu leyti horfin undir vatn og þú
hefur ekki fengið neitt að borða eða
drekka í 3 til 4 daga og börnin eru að
deyja í höndunum á þér. Ég horfi á
þessar hörmungar og skil ekki hvað
það tekur stjórnina langan tíma að
koma þessu fólki til hjálpar. Ung-
börn sem voru á spítölum af því að
þau voru fyrirburar hafa dáið af því
það er ekkert rafmagn. Allt sem fólk
hefur verið að taka úr verslunum
hefur verið matur, vatn, ávaxtasafi,
bleiur og þess háttar. Ég segi fyrir
mig þó að ég sé mjög heiðarleg
manneskja að ég mundi ekki hugsa
mig tvisvar um að brjótast inn í
verslun til að bjarga lífi barna minna
eða barnabarna. Hjálp er loksins að
berast þessu fólki en því miður allt
of seint fyrir suma.
Ég vona að Íslendingar skilji að
flestir þeirra sem eru að ræna versl-
anir eru að því til að halda lífi. Ég bið
guð að hjálpa þessu fólki og þakka
hinum sama að ég og mín fjölskylda
er ekki stödd þarna.
INGUNN
INGVADÓTTIR MENCY,
Canton MI, USA.
Náttúruhamfarirnar,
rán og gripdeildir
Frá Ingunni Ingvadóttur Mency:
FORSTJÓRI Björgunar rómar
mjög ræktarsemi Örlygs Hálfdan-
arsonar við hinn viðeyska uppruna
sinn en þeir Örlygur hafa að und-
anförnu leitt saman hesta sína hér
á síðum blaðsins. Það er í þessari
sem mörgum öðrum deilum að all-
ir hafa nokkuð til síns máls. Sig-
urður Helgason hefir um árabil
útvegað Reykvíkingum ódýrt
byggingarefni. Björgun hf. hefir
að ósekju veri sökuð um að hafa
valdið húseigendum milljarðask-
aða vegna einhvers sem kallað er
alkalískemmdir. Sigurður hefir
bent á að þegar öldurnar fara yfir
námurnar á botninum þá lækki
þær, þetta er rétt hjá Sigurði, en
áhrif botnsins minnka og aldan
sveigir ekki að nærliggjandi
ströndum í sama mæli og áður.
Árið 1907 var reist lýsisbræðslu-
stöð á Sundabakka í Viðey, á fáum
árum hefir grafið undan stöðinni,
hún er að nokkru hrunin og múr-
steinarnir hafa borist norður með
ströndinni. Einu sjávarkraftarnir
sem geta borið þessa steina til
norðurs eru úr haföldu sem berst
þarna inn.
Strendur Viðeyjar eru ekki þær
einu í heiminum sem spillst hafa
vegna hafnargerðar og dýpkana.
Sandurinn og mölin dragast rétt
út fyrir fjöruborðið. Hægt er að
gera við svona með garði gerðum
úr 50–100 mm stórum steinum.
Garðurinn þarf að vera u.þ.b. 3 m
hár og leggist eftir ytri mörkum
stórstraumsfjöru, glötuðu fjörunni
er svo bara dælt inn fyrir garðinn.
Margir félagar í Viðeyingafélag-
inu hafa notað þessar hverfandi
fjörur til útivistar og baða alla
ævi, sumir hátt í 90 ár, eiga þeir
því þarna fullan rétt samkvæmt
lögum um hefð frá 1905.
GESTUR GUNNARSSON,
Flókagötu 8, 105 Reykjavík.
Viðeyjarsund
Frá Gesti Gunnarssyni: