Morgunblaðið - 26.11.2005, Page 81

Morgunblaðið - 26.11.2005, Page 81
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. NÓVEMBER 2005 81 HARRY Potter er mættur aftur á hvíta tjaldið í kvikmyndaútgáfu fjórðu sögunnar í Potter- ævintýrinu, Harry Potter og eldbikarinn. Þegar hér er komið sögu eru Harry og félagar að hefja fjórða skólaárið sitt við Hogwarts-galdraskólann og ber veturinn ýmislegt ævintýralegt í skauti sér. Ber þar hæst Heimsbikarkeppnina í Quid- ditch og Þrígaldraleikana sem haldnir eru á heimavelli þetta árið og glæsilegur dansleikur sem haldinn er til heiðurs gestaskólunum sem sækja Hogwarts heim í tilefni af galdraleikunum. En eins og allir vita sem eitthvað kunna fyrir sér í göldrum er ógn myrkraaflanna nokkuð sem ekki verður léttvægt fundið, og ef marka má martrað- irnar sem taka að ásækja hetjuna okkar Harry Potter er þess ekki langt að bíða að hinn ógnvæn- legi Voldemort finni farveg fyrir sína illu krafta á ný. Það er breski leikstjórinn Mike Newell sem spreytir sig á Potter-sögunni í þetta sinn og ferst verkið vel úr hendi. Þessi þáttur ævintýrisins fel- ur í sér mikilvæga áfanga, hér þurfa þau Harry, Ron og Hermione ekki aðeins að glíma við galdra- formúlur, heimalærdóm og ásókn myrkravera, heldur eru hormónin farin að gera usla og sjálfs- myndin að ókyrrast sömuleiðis. Einkum eru það þau Hermione og Ron sem eiga erfitt með að að- lagast yfirvofandi unglingsárum meðan Harry Potter hefur stærri hluti til að hafa áhyggjur af, eins og til dæmis eldspúandi dreka, þó svo að hann fari ekki varhluta af spenningnum sem fylgir því að fá heilan árgang af stúlkum úr frönskum galdrastúlknaskóla í heimsókn. Í þess- ari sögu fá upprennandi kynslóðir galdramanna jafnframt að finna fyrir fullum þunga þeirra ógna sem bíða þeirra, og þeirri staðreynd að enginn seiður er svo máttugur að geta vakið hina látnu til lífsins á ný. Ævintýri Potters í þessum hluta sög- unnar eru í anda þeirra tímamóta í þroska sem söguhetjurnar eru að fara í gegnum, þau standa á þröskuldi fullorðinsáranna og líkt og í sígildum ævintýrum fer hetjan í gegnum miklar mann- dómsraunir til að sanna sig verðuga þeirra verk- efna sem hennar bíða í framhaldinu. Potter lendir óvænt í hópi fjögurra útvalinna keppenda í Þrí- galdraleikunum, sem felur í sér þrjár lífshættu- legar þrautir: Að berjast við eldspúandi dreka, að kafa niður í undirdjúpin til bjargar sínum nánustu og að lokum að halda inn í völundarhús í leit að gralinu, þar sem mesta hættan er þó sú að týna sjálfum sér. Potter stenst raunirnar með erf- iðismunum og uppsker óvæntan fund við höfuðó- vininn, hinn illa Voldemort. Harry Potter og eldbikarinn hefur talsvert minna Hollywood-yfirbragð en t.d. hin erki- hollywoodíska útgáfa Chris Columbus í fyrstu Harry Potter-myndinni. Myrkur tónn er sleginn þegar í upphafi myndarinnar sem læðir þeirri til- finningu inn hjá áhorfanda að nú blasi alvara lífs- ins við fyrir Harry og aðra Hogwart-liða. Engu að síður er vel farið með tæknibrellur og tölvugrafík í myndinni sem ljær henni sannkallaðan stór- myndabrag þegar kemur að útfærslu æv- intýraheimsins. Þar virðist leikstjórinn vilja ná fram meiri fullorðinstóni en hingað til og er minna púður sett í að útfæra og útmála hinar ýmsu galdrabrellur og meiri áhersla lögð á að knýja hetjusöguna áfram, byggja upp spennuþrungið andrúmsloft og þróa persónur sögunnar á þessum tímamótum í lífi þeirra. Útkoman er vönduð Harry Potter-kvikmynd, þar sem komist er vel frá því krefjandi verkefni að laga um 750 bls. skáldsögu að kvikmyndaforminu, þ.e. ef frá er tal- in ögn stikkorðakenndur upphafskafli. Daniel Radcliffe vex vel með hlutverki sínu og gæðir hann hetjuna Harry Potter bæði þroska og al- vöruþunga. Aðrir leikarar styrkja jafnframt sög- una, bæði þeir fullorðnu úrvalsleikarar sem finna má í hverju rúmi og þeir sem yngri eru. Það er ekki annað að sjá en Harry Potter sé að styrkjast sem kvikmyndafígúra, og fer þroskinn og alvöru- þunginn bæði söguhetjunni og ævintýrinu vel. Manndómsraunir Potters KVIKMYNDIR Sambíóin Reykjavík, Keflavík og Akureyri, Háskólabíó, Selfossbíó og Ísafjarðarbíó. Leikstjórn: Mike Newell. Aðalhlutverk: Daniel Radcliffe, Rupert Grint, Emma Watson, Michael Gambon, Robert Pattinson og Ralph Fiennes. Bandaríkin, 157 mín. Harry Potter og eldbikarinn (Harry Potter and the Goblet of Fire)  Reuters „Útkoman er vönduð Harry Potter-kvikmynd, þar sem komist er vel frá því krefjandi verkefni að laga um 750 bls. skáldsögu að kvikmyndaforminu [...] Daniel Radcliffe vex vel með hlutverki sínu og gæðir hann hetjuna Harry Potter bæði þroska og alvöruþunga,“ segir í dómi. Heiða Jóhannsdóttir MAGADANSHÚSIÐ verður með árlegar nóvembersýningar sínar í dag í Tjarnarbíói. Hefst fyrri sýn- ingin kl. 17 og er tileinkuð byrj- endahópum. Einnig koma fram á þessari sýningu þær maga- dansmeyjar sem sigruðu í áhuga- mannahópi í Íslandsmeist- arakeppninni í magadansi í ár sem og Josy Zareen, eigandi Maga- danshússins. Seinni sýningin hefst kl. 20 og þá stíga á svið framhaldshópar hússins auk Arabian Dance Company ásamt Josy Zareen. Verður þá mik- ið um dýrðir og sýndur hefðbund- inn magadans, slæðudans, maga- dans með spænsku ívafi og Bollywood-dans. Einnig koma fram á þessari seinni sýningu sigurveg- ararnir í Íslandsmeistarakeppninni í magadansi í atvinnumannahópi, þær Rosanna Ragimova, Waraporn Chanse og Jóhanna Jónas. Aðgangseyrir er 1.000 kr. og hvetur Magadanshúsið áhugafólk um dans að mæta á staðinn. Magadans í Tjarnarbíói Josy Zareen MYNDIR KL. 12 UM HELGAR Í SAMBÍÓUNUM KRINGLUNNI KRINGLANÁLFABAKKI HARRY POTTER OG ELDBIKARINN B.i. 10 ára kl. 1 - 2 - 4.05 - 5.05 - 7.10 - 8.10 - 10.15 - 11.15. HARRY POTTER AND THE... VIP kl. 2 - 5.05 - 8.10 - 11.15 LORD OF WAR kl. 8 - 10.30 B.i. 16 ára. Litli Kjúllin m/Ísl. tali kl. 2 - 4 - 6 CHICKEN LITTLE m/ensku tali kl. 2 - 4 TIM BURTON´S CORPSE BRIDE kl. 4 - 6 ELIZABETH TOWN kl. 5.45 - 8 - 10.30 TWO FOR THE MONEY kl. 10.30 B.i. 12 ára. FLIGHT PLAN kl. 8 B.i. 12 ára. WALLACE AND GROMIT m/Ísl. tali kl. 2 HARRY POTTER OG ELDBIKARINN kl. 12 - 2 - 4 - 6 - 8 - 10 B.i. 10 ára SERENITY kl. 8 - 11 B.i. 16 ára. Litli Kjúllin m/Ísl. tali kl. 12 - 2 - 4 CHICKEN LITTLE m/ensku tali kl. 6 KISS KISS BANG BANG kl. 10.30 B.i. 16 ára. WALLACE AND GROMIT m/Ísl. tali kl. 2

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.