Fréttablaðið - 13.11.2003, Blaðsíða 39
35FIMMTUDAGUR 13. nóvember 2003
Þróttur:
Átaki hrint
af stað
ÍÞRÓTTASTARFSEMI Íþróttafélagið
Þróttur er að fara í gang átak þar
sem starfsemi félagsins verður
kynnt íbúum Þróttarahverfisins.
Á næstu dögum verður sent
fréttabréf til allra íbúa hverfisins
þar sem meðal annars kemur fram
að fjöldi iðkenda hafi tvöfaldast hjá
félaginu á undanförnum árum og að
rekstur félagsins sé þungur. Tölu-
vert vanti upp á til að endar nái
saman. Óskað er eftir því að fólk
styrki starfsemina með 300, 500 eða
700 króna fjárframlagi á mánuði í
eitt ár. Hringt verður í fólk, en
áhugasamir geta einnig haft sjálfir
samband í síma 590 8000. ■
RIO FERDINAND
Sepp Blatter, forseti FIFA, er pirraður út í
Enska knattspyrnusambandið vegna seina-
gangs í máli Rio Ferdinand.
Lyfjapróf Ferdinands:
Blatter
byrstir sig
FÓTBOLTI „Ég er ekki ánægður með
hraðann, eða öllu heldur hægagang-
inn í þessu máli,“ sagði Sepp Blatter,
forseti FIFA, um mál Rio Ferdin-
ands, leikmanns Manchester United,
sem skrópaði í lyfjaprófi í septem-
ber. „Slík mál á að vinna strax svo
hægt sé að leiða þau til lykta.“
„Það er á hreinu að það að neita
að fara í lyfjapróf, eða skrópa í
lyfjaprófi, er litið jafn alvarlegum
augum og jákvæð niðurstaða í lyfja-
prófi,“ sagði Blatter og bætti því við
að svona mál eigi að nota til þess að
senda öðrum viðvörun. ■
Ólympíunefndin:
THG-sterar
í frostinu?
LYFJAMÁL Jacques Rogge, forseti Al-
þjóða Ólympíunefndarinnar, IOC,
tilkynnti í gær að öll lyfjapróf sem
tekin voru á Vetrarólympíuleikun-
um í Salt Lake City fyrir nærri
tveimur árum verði rannsökuð á ný.
Lyfjaprófin eru öll geymd í frosti og
að þessu sinni verður leitað að
THG-steranum sem skaut upp koll-
inum fyrir skemmstu og í ljós hefur
komið að fjölmargir íþróttamenn
hafa notað. Þar sem THG kom ekki
fram á lyfjaprófum er ekki vitað
með vissu hversu lengi sterinn hef-
ur hefur verið í umferð, né heldur
hver útbreiðsla hans var. Rogge
segist telja að steralyfið hafi ekki
verið komið til skjalanna fyrir tæp-
um tveimur árum og leitar nú eftir
staðfestingu á þeim grun. ■
Lýsingarbikarinn:
Njarðvík
gegn KR
KÖRFUBOLTI Íslands- og bikarmeist-
arar Keflavíkur leika gegn Þrótti
frá Vogum á Vatnsleysuströnd í 32
liða úrslitum bikarkeppni karla í
körfubolta. Keppnin í vetur ber
nafn Lýsingar, sem er styrktaraðili
keppninnar, og heitir Lýsingarbik-
arinn.
Í tveimur leikjum mætast félög
úr INTERSPORT-deildinni. Njarð-
vík leikur við KR og Grindavík
gegn Breiðabliki. Haukar mæta 1.
deildarfélagi ÍG, Snæfell keppir við
Stjörnuna, Hamar við Skallagrím,
Tindastóll við Þór frá Akureyri, Þór
frá Þorlákshöfn við sameiginlegt lið
Ármanns og Þróttar, KFÍ við Selfoss
og ÍR við ÍS. Félögin úr úrvalsdeild-
inni leika öll á útivelli í þessari um-
ferð keppninnar. ■
Ólafur Ingi Skúlason:
Er mjög stoltur og ánægður
FÓTBOLTI „Ég var mjög stoltur og
ánægður þegar ég heyrði að það
væri möguleiki að ég yrði valinn,“
sagði Ólafur Ingi Skúlason, einn
nýliðanna í landsliðshópnum sem
mætir Mexíkó í næstu viku. „En
ég átti ekki sérstaklega von á því
að vera valinn vegna þess að Ás-
geir Sigurvinsson sagði að hann
ætlaði með sitt sterkasta lið. Þetta
kom í raun skemmtilega og þægi-
lega á óvart.“
„Þetta hefur alltaf verið mitt
takmark í gegnum tíðina að spila
landsleik. Þá yrði ég sáttur við
ferilinn hvernig sem hann færi.
Mig óraði ekki fyrir því þegar ég
var yngri að ég myndi ná því tví-
tugur, það er að segja ef ég fæ að
vera með á móti Mexíkó.“
Ólafur hefur verið á mála hjá
Arsenal síðan 2001 en hann lék
með Fylki í sumar. „Samningurinn
við Arsenal rennur út í júní og
framtíð mín hjá félaginu verður
að öllum líkindum rædd í janúar.
Það verður bara að koma í ljós
hvað kemur út úr því. Það er ekki
jafn gott að vera í varaliði og í að-
alliði svo ég á allt eins von á að
leið mín muni liggja eitthvert ann-
að, jafnvel í janúar eða næsta
vor.“
Ólafur var í leikmannahópi
Arsenal gegn Rotherham í lok
október. „Það var alveg stórkost-
leg upplifun að vera á Highbury
og 27 þúsund manns að horfa á
leikinn. Mér hefur gengið mjög
vel að undanförnu. Þetta er búið
að vera mjög gott eftir að ég kom
til baka og ég hef náð að fylgja því
eftir sem ég var að gera heima í
sumar. Mér gekk mjög vel og hef
náð að halda því uppi eftir að ég
kom út.“ ■
ÓLAFUR INGI SKÚLASON
Ólafur Ingi Skúlason (númer 22) gaf ekki
sitt eftir baráttulaust í leik Fylkis gegn sæn-
ska félaginu AIK í UEFA-bikarnum í haust.