Fréttablaðið - 03.02.2007, Qupperneq 30
Þ
að hefur ekki farið
fram hjá áhugafólki
um stjórnmál að
mikil ólga er í íslensk-
um stjórnmálum um
þessar mundir. Frjáls-
lyndir sleikja sárin eftir innan-
flokksátök og Jón Baldvin Hanni-
balsson hefur komið inn í
umræðuna með eftirtektarverðum
hætti. Finnst þér það óheppilegt að
hann kom fram með gagnrýni á
Samfylkinguna sem kristallast í
orðum hans um að flokknum hafi
mistekist að vera valkostur við
Sjálfstæðisflokkinn?
Ég lít svo á að Jón Baldvin sé að
brýna okkur til dáða. Jón Baldvin
er ákafamaður og það er greinilegt
að hann er mjög óþreyjufullur að
sjá þessa ríkisstjórn fara frá. Hins
vegar mega menn ekki gefast upp
þó á móti blási. Við höfum áður séð
vondar tölur í skoðanakönnunum
og það er engin ástæða til að fara á
taugum yfir því. Ég er sannfærð
um að ný ríkisstjórn verður ekki
mynduð án þess að Samfylkingin
fái það góðan stuðning að hún
gegni þar lykilhlutverki. Þetta eru
sennilega mikilvægustu kosningar
í marga áratugi og því skiptir
miklu máli að menn stökkvi ekki
frá borði þó það gefi tímabundið á
bátinn.
Þú hefur tjáð þig um að umræða
um sérframboð Jóns Baldvins eða
að hann sé að safna til sín fólki sé
tilhæfulaus. Veistu það með vissu
að hann ætli sér ekki að taka hönd-
um saman undir merkjum annars
framboðs en Samfylkingarinnar?
Ég myndi láta segja mér það
tvisvar. Ég átti mjög langt og
hreinskiptið samtal við Jón Bald-
vin og við komumst að sameigin-
legri niðurstöðu eftir það samtal.
Samfylkingin mun einfaldlega
halda sínu striki.
Má eiga von á því að sjá Jón
Baldvin með sýnilegri hætti í starfi
Samfylkingarinnar? Það hefur
verið sagt að hann yrði hugsanlega
utanþingsráðherra komist Sam-
fylkingin í ríkisstjórn. Hafa slíkir
möguleikar verið ræddir ykkar á
milli?
Nei, en ég vil ekki tjá mig frek-
ar um það sem okkur Jóni fór á
milli. Hitt er annað mál að ég er
ekki að stilla upp ráðherralista
núna. Fyrst þarf að vinna kosning-
arnar.
Það hafa verið miklar sviptingar
innan Frjálslynda flokksins. Mar-
grét Sverrisdóttir hefur sagt sig frá
flokknum og ætlar eigin leiðir.
Hafið þið Margrét talað saman um
að hún komi til samstarfs við Sam-
fylkinguna?
Margrét hefur verið geðþekkt
andlit í þessum flokki á undanförn-
um árum og ég held að það hafi
verið pólitísk mistök sem þarna
áttu sér stað með brotthvarfi henn-
ar. Ég er þeirrar skoðunar að hún
sé jafnaðarmaður í eðli sínu og
ætti mjög vel heima í okkar flokki.
En hún verður auðvitað sjálf að
taka ákvörðun um það hvernig hún
hagar sínu lífi og hvort hún vill
bera einhvers staðar niður pólit-
ískt eða ekki. En hún og fólkið í
kringum hana er í mínum huga
jafnaðarfólk í eðli sínu og sinni
lífssýn.
Þú hefur sagt að kosningarnar í vor
megi sjá sem ögurstund í íslensk-
um stjórnmálum. Næsta ríkis-
stjórn skuli skoðast í þessu ljósi.
Núna þegar Frjálslyndir eru vart
hluti af svokölluðu kaffibandalagi,
gæti hugsast að Framsóknarflokk-
urinn kæmi í þeirra stað?
Ég kannast ekki við að Frjáls-
lyndir séu ekki ennþá hluti af svo-
kölluðu kaffibandalagi enda er það
ekki kosningabandalag heldur
samstarf stjórnarandstöðunnar á
þingi og sammæli um að við
munum tala fyrst saman eftir
kosningar ef ríkisstjórnin fellur. Á
því hefur enn engin breyting orðið.
Ég lít svo á að enginn geti útilokað
neitt í þeim efnum. Það er fátítt í
íslenskum stjórnmálum að flokkur
útiloki samstarf. Við verðum ein-
faldlega að lúta þeim dómi sem
kjósendur fella í kosningum og
taka mið af þeirri niðurstöðu sem
þar fæst. Hins vegar er alveg
ljóst að ég er þeirrar skoðunar að
Framsóknarflokkurinn hafi alltof
mikil völd í íslensku samfélagi og
langt umfram það sem lýðræðis-
legt umboð hans hrekkur til.
Þú sagðir í ræðu nýlega að Sam-
fylkingin gyldi fyrir að vera of pól-
itískur flokkur. Hvað áttirðu við
með því?
Eitt er að hafa skoðanir og
annað er að benda á lausnir til að
leiða mál til lykta. Þar stendur
Samfylkingin sterkust allra flokka.
Ég fullyrði að enginn flokkur hefur
mótað jafn skýra stefnu eins og
birtist til dæmis í virkjana- stór-
iðju- og náttúruverndarmálum.
Við erum óhrædd við að tala um
pólitík. Þetta er pólitík; að setja
fram sýn og benda á leiðir í stað
þess að þegja og bíða af sér kosn-
ingar. Kjósendur eiga rétt á því að
vita fyrir hvað flokkarnir standa,
hvaða grunngildi þeir hafa og
hvernig þeir ætla að standa að
framkvæmd þeirra. Sjálfstæðis-
flokkurinn hefur hins vegar verið
gjarn á að fela sitt raunverulega
eðli fyrir kosningar en fram-
kvæma svo hefðbundna hægri pól-
itík sem hefur stóraukið ójöfnuð á
Íslandi á sama tíma og stórir hópar
eins og eldri borgarar og öryrkjar
hafa mátt sætta sig við smánarleg
kjör. Samfylkingin lítur á það sem
forgangsverkefni nýrrar ríkis-
stjórnar að endurreisa velferðar-
kerfið svo allir geti lifað mann-
sæmandi lífi – ekki bara sumir.
Nú hefur gagnrýni á Samfylk-
inguna verið áberandi að undan-
förnu. Hver er þín sýn á þessa
gagnrýni?
Já, það er ekkert ofmælt að
spjótin standa á okkur þessa dag-
ana og það er heldur ekkert óeðli-
legt við það. Samfylkingin er
flokkur sem á góða möguleika á
því að taka frjálslynt fylgi frá
öllum hinum flokkunum og þeir
reyna að verjast því. Samfylkingin
er framsækin og setur mál á dag-
skrá. Hún er umbótaflokkur sem
vill stuðla að breytingum þar sem
almannahagsmunir eru hafðir að
leiðarljósi í stað sérhagsmuna. Því
verðum við að taka upp umdeild
mál sem þarf að ryðja braut.
Tekur þú gagnrýni á flokkinn til
þín persónulega?
Nei, ekki umfram það sem eðli-
legt er. Það er auðvitað erfitt að
aðgreina flokk og formann þannig
að gagnrýni á flokkinn beinist líka
að mér. En ég hef ekki tekið það
persónulega, nei. Sá sem vill setja
mark sitt á pólitíkina verður að
þola gagnrýni. Ég reyni að segja
það sem ég meina og meina það
sem ég segi.
Af hverju er Samfylkingarfólk í
sveitarstjórnum ekki í öllum tilfell-
um samstíga flokkslínunni í virkj-
ana- og stóriðjumálum, eins og með
virkjun jökulánna í Skagafirði?
Ríkisstjórnin firrir sig ábyrgð í
stefnumótun í virkjana- og stór-
iðjumálum og er búin að tvístra
henni til orku- og stóriðjufyrirtækj-
anna og sveitarfélaganna. Ég er
þeirrar skoðunar að það eigi að
vernda jökulárnar í Skagafirði og
treysti okkar fólki í sveitarstjórn
til að leysa það mál farsællega. Rík-
isstjórnin hefur hins vegar att fólki
og fyrirtækjum saman, efnt til
kapphlaups, sem þýðir að sveitar-
stjórnarmenn á landsbyggðinni ótt-
ast það að ef þeir hafa sig ekki í
frammi þá sitji þeir eftir. Ýmsir
sveitarstjórnarmenn liggja undir
ámælum fyrir þetta en ég veit að
tvennt er rauði þráðurinn í þeirra
starfi. Að sjá til þess að það sé
atvinna í byggðarlaginu og hins
vegar þjónusta. Ég hef ekki enn
kynnst þeim sveitarstjórnarmanni
sem ber ábyrgð á rekstri sveitarfé-
lags sem treystir sér til þess að
hafna atvinnutækifæri sem býðst
fyrir byggðarlagið.
Hver telur þú verða mikilvægustu
málin í komandi kosningabaráttu?
Mennta- og samgöngumál eru í
mínum huga meðal mikilvægustu
kosningamálanna því þau eru
afgerandi fyrir framtíðina. Ég er
sannfærð um að framundan sé
mikið vaxtarskeið og það er verk-
efni stjórnmálamanna að sjá til
þess að vöxturinn verði stöðugur
og í jafnvægi þannig að allir hópar
samfélagsins njóti góðs af honum.
Einnig málefni aldraðra og öryrkja
sem eru dæmdir til fátæktar sökum
gallaðs bótakerfis og harðra tekju-
tenginga. Það verður að gefa fólki
kost á því að afla sér aukatekna og
taka þátt í samfélaginu á sínum for-
sendum.Það er ekki mikil mannúð
að setja fólki stólinn fyrir dyrnar
með þessum hætti.
Á Ísland að ganga í Evrópusam-
bandið? Treystir þú þér til að svara
því afdráttarlaust?
Ég er þeirrar skoðunar já, að
við eigum að láta reyna á umsókn
um aðild að Evrópusambandinu.
Við eigum að vera þar sem ákvarð-
anir eru teknar. Það skiptir máli
fyrir okkur sem þjóð og alla okkar
hagsmuni. Við verðum að tryggja
hér jafnvægi og ég held að krónan
sé ekki gott tæki til þess. Við
eigum að láta reyna á samninga
við ESB en svo er það þjóðarinnar
að dæma um hvort þeir samningar
sem nást séu fullnægjandi. Það
má síðan spyrja hvort íslenskt við-
skiptalíf sé ekki að taka þessa
ákvörðun fyrir okkur. Mér sýnist
allt benda til þess að fyrirtækin
leiði þessa þróun en stjórnmála-
menn muni í fyllingu tímans fylgja
í humátt á eftir. Samfylkingin
nýtur þar algjörrar sérstöðu sem
eini flokkurinn með skýra og
jákvæða afstöðu til Evrópusam-
bandsins. Evrópumálin munu samt
ekki brenna á fólki sem kosninga-
mál núna, því þau eru í eðli sínu
langtímaverkefni.
Ef horft er fram yfir kosningar og
Samfylkingin nær ekki sínu kjör-
fylgi munt þú þá líta á það sem van-
traust á þig og jafnvel snúa þér að
öðrum verkefnum?
Ég vinn út frá þeirri fullvissu að
Samfylkingin nái góðum árangri í
næstu kosningum og verði ekki með
minna fylgi en hún hafði í síðustu
kosningum. Það er það verkefni
sem við munum einhenda okkur í
fram að kosningum. Eftir kosning-
ar tekst ég á við þann veruleika sem
þá blasir við. En ég hlakka mjög til
baráttunnar, nú fer í hönd spenn-
andi og skemmtilegur tími.
Ég meina það sem ég segi
Ég átti mjög langt og hreinskiptið samtal við Jón Baldvin
og við komumst að sameiginlegri niðurstöðu eftir það sam-
tal. Samfylkingin mun einfaldlega halda sínu striki.
Gagnrýnisröddum á
Samfylkinguna virðist
fjölga, ef mark er tekið
á niðurstöðum nýlegra
skoðanakannana. Teikn
eru á lofti í íslenskum
stjórnmálum og Svavar
Hávarðsson spurði því
Ingibjörgu Sólrúnu
Gísladóttur, formann
Samfylkingarinnar,
hvernig hún læsi í þau.