Fréttablaðið - 23.02.2007, Blaðsíða 65
Um áramótin birtist grein eftir mig í Fréttablaðinu þar sem
ég færði sterk rök fyrir því að það
væri rangt sem ítrekað væri hald-
ið fram að hægt væri að kenna
veiði umfram ráðgjöf um algjört
árangursleysi núverandi kvóta-
kerfis við að byggja upp þorsk-
stofninn.
Rökin voru þau að niðurstöður
úr þorskmerkingum Hafrann-
sóknastofnunar sem gerðar voru
fyrir meira en áratug – en
úrvinnslu gagna lauk nú í desem-
ber – gefa mjög skýrt til kynna að
mun minna hafi verið veitt en
25% af veiðistofni árlega. Ef
veiðin hefði verið svo mikil, þ.e.
fjórðungur af stofninum, mætti
ætla að sama hlutfall af merkjun-
um hefði skilað sér inn innan árs,
og alls eftir nokkurra ára veiði
hefðu um 60% af merkjum átt að
skila sér.
Niðurstöðurnar úr merkingar-
tilrauninni voru allt aðrar en
búast mátti við þar sem heildar-
skil fiskmerkja á fimm ára tíma-
bili voru einungis 14% í stað 60%
sem bendir til þess að um 80% af
merktum fiski drepist af öðrum
orsökum en fiskveiðum.
Þessi munur er mjög sláandi
og það væri rétt að fram færi
rækileg rannsókn á því hvers
vegna þessi merkingartilraun
gefur allt aðrar niðurstöður en
reiknilíkön Hafró gera ráð fyrir.
Það sem er einkar merkilegt
við þessar niðurstöður er að þær
koma heim og saman við gagnrýni
frá Jóni Kristjánssyni fiskifræð-
ingi og Kristni Péturssyni, fisk-
verkanda frá Bakkafirði, á líf-
fræðilegar forsendur
kvótakerfisins til uppbyggingar
þorskstofnsins.
Einar Hjörleifsson fiskifræð-
ingur á Hafró svaraði því til í
grein sem birt var í Fréttablaðinu
þann 30. janúar sl. að rökrétt nið-
urstaða mín um að miklum mun
minna hefði verið veitt en ráðlagt
var væri markleysa.
Í greininni segir Einar Hjör-
leifsson að lausleg greining hans
á merkingargögnum Hafró frá
síðustu árum gefi það til kynna.
Mín skoðun er sú að það geti
varla verið sæmandi að greina
þessi gögn með lauslegum hætti,
sér í lagi gögn sem gefa augljós-
lega til kynna að pottur sé brotinn
í stofnlíkönum Hafró.
Kjarninn í grein Einars er sá
að það sé svo mikið merkjatap og
vanskil á merkjum að ályktanir
mínar séu marklausar. Hann segir
að þessir þættir séu áhugaverðir
en órannsakaðir. Hvers vegna eru
þeir órannsakaðir?
Eftir því sem ég kemst næst
hefur lítið verið um birtingu nið-
urstaðna úr merkingartilraunum
þótt Hafró hreyki sér sífellt af
umfangsmiklum merkingum.
Þess má geta að skýrsla um merk-
ingarnar frá 1994 og 1995 birtist
ekki fyrr en rúmum 11 árum eftir
að merking-
um lauk, þá
vegna eftir-
reksturs
míns á
Alþingi við
sjávarút-
vegsráð-
herra.
Ég lét
ósagt í fyrri
grein minni
um þorsk-
merkingar
að ég væri nokkuð hissa á ýmsum
ágöllum við úrvinnslu umræddr-
ar merkingartilraunar Hafró.
Í fyrsta lagi eru endurheimtur
ekki skoðaðar sem fall af tíma sbr.
merkingar Jóns Jónssonar 1948-
1969 þar sem hann fann að heild-
arafföll af hrygningarþorski væru
um 80% á ári. Þetta sá Jón með
því að skoða endurheimtur sem
fall af tíma (árafjölda) frá merk-
ingu að endurheimtu. Jón kallaði
þetta sýndarafföll, innifelur
merkjatap. Aðferðin er hins vegar
óháð dauða vegna merkingar svo
og merkjaskilum sjómanna, sem
er mjög mikilvægt. Ekki þarf að
nota endurheimtuhlutfall fyrsta
hálfa árið, aðferðin byggist á því
að mæla hvernig merkin hverfa
úr stofninum. Að sjálfsögðu er
merkjatap með í því, merki sem
losna af fiskinum af einhverjum
ástæðum. Þó Jón Jónsson hefði
mælt afföllin um 80% á ári voru
heildarheimtur merkja ekki nema
um 15%. Lágt hlutfall miðað við
að í þá daga voru hefðbundnar
vertíðarveiðar enn í gangi og sótt
var í hrygningarfiskinn af fullum
þunga. Það sem er sláandi við
þessar niðurstöður Jóns Jónsson-
ar sem fram fóru að mestu á sjö-
unda áratugnum er að endur-
heimtur merkjanna eru
sambærilegar við það sem fram
fór 25 árum síðar. Í framhaldinu
er rétt að spyrja hvort Hafró trúi
ekki eigin athugunum.
Í öðru lagi eru grunngögn ekki
birt svo að erfitt er fyrir aðra að
rýna í þau eða mynda sér sjálf-
stæða skoðun. Það ætti að vera
krafa útgerðar- og sjómanna að
þessi gögn séu birt með skýrum
hætti en niðurstöður sem hafa nú
þegar verið birtar gefa ótvírætt
til kynna að miklum mun minna
hafi verið veitt en ráðlegt var.
Kvótakerfið sem byggir á ráð-
gjöf Hafró hefur ekki skilað þeirri
uppbyggingu þorskstofnsins sem
vænst var en þorskafli nú er helm-
ingi minni en fyrir daga kerfis-
ins.
Það er mjög mikilvægt að veita
öðrum en þeim sem hafa ráðið
ferðinni undanfarin ár greiðan
aðgang að gögnum um fiskmerk-
ingar.
Þessi gögn geta svipt hulunni
af reiknilíkönum Hafró, líkönum
sem stangast á við viðtekna vist-
fræði.
Höfundur er alþingismaður.
Trúir Hafró ekki eigin niðurstöðum?