Fréttablaðið - 01.03.2007, Qupperneq 32
Íumræðu um innflytjendamál á Íslandi virðist ríkja ákveðinn
misskilningur varðandi réttindi
innflytjenda innanlands og rétt-
indi útlendinga sem eru ekki enn
komnir til Íslands. Ég held að
flestir Íslendingar þekki aðstæð-
ur en svo virðist sem fáir, áhrifa-
miklir einstaklingar vaði í villu
og svíma og gefi afbakaðar upplýsingar
um málefni innflytjenda á opinberum vett-
vangi. Misskilningurinn er að íslenskum
stjórnvöldum sé algerlega í sjálfsvald sett
hvaða réttindi útlendingar geta öðlast hér
á landi og hverjir fá að koma.
Þetta er ekki rétt. Auðvitað er Ísland
sjálfstætt, fullvalda ríki en við höfum
undirgengist ýmsar skuldbindingar á evr-
ópskum- og alþjóðlegum vettvangi sem
tryggja útlendingum ákveðin réttindi hér
á landi, s.s. samninginn um EES, mann-
réttindasamninga SÞ, Mann-
réttindasáttmála Evrópu o.fl.
Því miður er það þannig að þjóð-
réttarlegar skuldbindingar eru
hunsaðar í sumum heimshlut-
um en í Evrópu er hefð fyrir
virðingu fyrir mannréttindum
borgaranna, og á það við á
Íslandi almennt. Við verðum að
standa við skuldbindingar
okkar samkvæmt alþjóðasamn-
ingum og innlendri mannrétt-
indalöggjöf. Við getum ekki
valið og hafnað eftir hentugleikum og
aðstæðum innanlands hverju sinni; mann-
réttindi sveigja menn ekki að vild.
Í nýsamþykktri stjórnmálayfirlýsingu
Frjálslynda flokksins stendur: „Yfirvöld
verða á öllum tímum að hafa stjórn á því
hverjir og hvað margir innflytjendur
koma til landsins“. Mér finnst „hverjir ...
koma til landsins“, nokkuð sérstakt.
Frjálslyndi flokkurinn vill ekki einungis
hafa stjórn á því „hvað margir innflytj-
enda koma“, heldur einnig „hverjir
koma“. Hvað er átt við? Í samhengi við
umræðu sem Frjálslyndi flokkurinn hefur
haldið á lofti mætti ætla að flokkurinn
ætli að loka fyrir komu múslima til lands-
ins. Og ætlar flokkurinn kannski líka að
loka landamærunum fyrir útlendingum
frá „fátækum löndum“ þar sem berkla er
að finna sbr. orð Sigurjóns Þórðarsonar
þingmanns?
Mig langar til að leggja einfalda spurn-
ingu fyrir fylgjendur Frjálslynda flokks-
ins. Hvernig samræmist þessi stefna
ákvæðum stjórnarskrárinnar og Mann-
réttindasáttmála Evrópu t.d., en þar segir:
„Réttindi ... skulu tryggð án nokkurs
manngreinarálits, svo sem vegna … kyn-
þáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða …“
(14. gr), í alþjóðasamningi Sameinuðu
þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg
réttindi segir: „Lögin skulu því í þessu
skyni banna hvers konar mismunun og
ábyrgjast öllum mönnum jafna og raun-
hæfa vernd gegn mismunun svo sem
vegna kynþáttar, … tungu, trúarbragða
…“ (26. gr). Þá langar mig að spyrja, hvað
finnst þeim um eftirfarandi ákvæði sama
samnings: „Allur málflutningur til stuðn-
ings haturs af þjóðernis-, kynþáttar- eða
trúarbragðalegum toga spunnið sem felur
í sér hvatningu um mismunun, fjandskap
eða ofbeldi skal bannaður með lögum“
(20. gr.)?
Að lokum segir í stjórnmálayfirlýsingu
Frjálslynda flokksins: „Jafnframt ber
öllum, sem sækja hér um dvalarleyfi, að
skuldbinda sig til að hlíta íslenskum lögum
og stjórnarskrá“. Ég held að flokkurinn
ætti að líta sér nær áður en hann krefst
þess af öðrum sem hann stendur ekki við
sjálfur. Það er aldrei sniðugt að kasta
steinum ef maður býr í glerhúsi.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.
Réttindi innflytjenda á Íslandi og mannréttindasáttamál
Oft spyr ég mig þess, hvers vegna umræða hér á Íslandi er eins og allt
sé á hverfanda hveli? Er það svo að
Íslendingar séu efnahagslega eða félags-
lega verr settir en aðrar þjóðir? Eru 60
ára+ illa staddur hópur sem á það eitt
sameiginlegt að vera fátækur, með léleg-
an lífeyri? Ég tel það öllum fyrir bestu
að brjóta þessa umræðu til mergjar og
ræða staðreyndir.
Meginþorri allra Íslendinga býr við betri efna-
hag, meira frelsi, betra heilbrigðiskerfi og batnandi
framlög til allra úr ríkissjóði. Bæði aldraðir og
ungar barnafjölskyldur fá mikla félagslega sam-
hjálp í dag, meiri en nokkru sinni fyrr. Ég ætla hér
að minna á nokkrar staðreyndir í þessari auknu
samhjálp, sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir.
Munum eitt áður, að ríkið sækir tekjur sínar til
almennings, öflugra fyrirtækja og skattþegna.
Þann dag sem kreppa kemur eru stjórnvöld hætt
að hirða sínar mjólkurkýr, fólkið og fyrirtækin. Þá
flytja fyrirtækin úr landi. Þá hefst á ný niðurskurð-
ur til allra hópa sem njóta og þurfa á félagslegri
samhjálp að halda. Þá verður Ísland ekki á því
græna ljósi, þar sem lífskjör eru hvað best. Þá fær-
umst við yfir á gult eða rautt ljós versnandi lífs-
kjara. Allir hugsandi menn vita að með valdatöku
Vinstri grænna hefst stórt stopp á Íslandi. Erlend
fjárfesting heyrir sögunni til og öflug íslensk fyrir-
tæki munu hugsa sinn gang, komist slíkur aftur-
haldsflokkur í oddaaðstöðu.
Íslendingar 60 ára og eldri láta Samfylkinguna
ekki blekkja sig. Þetta fólk veit að mikið hefur áunn-
ist í málefnum aldraðra og öryrkja á síðustu árum.
Þetta lífsreynda fólk ræðir líka oft um mikilvæga
samhjálp til barna sinna og barnabarna. Það er eins
og mikilvæg undirritun samnings ríkisstjórnar-
innar frá því síðastliðið sumar sé með öllu einskis
virði. Þar var í raun sáttmáli gerður um að fast að
30 milljarðar fari á næstu fjórum árum í
málefni sem snúa að öldruðum og öryrkj-
um. Þar voru skattleysismörk hækkuð,
tekjuskerðingar minnkaðar í bótakerfi
Tryggingastofnunar, tekið upp frítekju-
mark fyrir þá sem geta og vilja vinna,
upp á 300 þúsund á ári og vasapeningar
aldraðra á stofnunum voru hækkaðir um
25%. Ákveðið var að byggja 374 rými í
öldrunarþjónustu og þar með, að því
verki loknu, heyrðu biðlistar sögunni til.
Við framsóknarmenn höfum stefnt að
því að færa málaflokkinn um málefni
aldraðra til sveitarfélaganna. Sjálfur hef ég tekið
undir það að við viljum skoða hvernig tekjur úr líf-
eyrissjóðum eru skattlagðar, þess vegna samkvæmt
fjármagnstekjuskatti, alla vega vaxtahlutann,
vegna þess að stór hluti þessara tekna eru fjár-
magnstekjur í lífeyrissjóðunum.
Að langstærstum hluta eru aldraðir ágætlega
settir efnalega, það er samt í þessum hópi fólk sem
býr við erfiða afkomu og þeim hópi þarf að sinna
sérstaklega. Aldrað fólk í fullu fjöri tekur mjög
virkan þátt í þjóðfélaginu, sé heilsan góð. Þetta
hefur Framsóknarflokkurinn haft að leiðarljósi.
Okkar heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar hafa náð
góðum árangri. Þess vegna er mikilvægt að Ísland
verði áfram á grænu ljósi hagvaxtar og framfara.
Látum ekki holtaþokuvæl öfgamanna villa okkur
sýn. Umræðan um lífskjör aldraðra er mikilvæg, en
hana ber að ræða á málefnalegum forsendum. Það
vill hin ábyrga eldri kynslóð að sé gert öfgalaust.
Höfundur er landbúnaðarráðherra.
Ísland á grænu ljósi framfara
Ídag keppast íslenskir háskólar við að bjóða
uppá nám í Lýðheilsu-
fræði og Lýðheilsustöð
er tekin til starfa. Þegar
Íslendingar taka til
hendinni eru það engin
vettlingatök. Skútan
alltaf undir fullum segl-
um og stefnan tekin þangað sem
vindurinn blæs og nú er góður byr
til fyrirheitna lýðheilsulandsins.
Landsins Shangri-La. Það er mikil
þörf fyrir hagnýtt lýðheilsunám á
Íslandi eins og annarsstaðar en
stýrið þarf að vera í lagi og stefn-
an á hreinu í leitinni að Shangri-
La.
Þó ekki sé til nein altæk skilgrein-
ing á hugtakinu lýðheilsa eru flest-
ir sammála um að hugtakið vísi til
þeirra vísinda, fræða, stjórnsýslu-
aðgerða og samskipta sem stefna
að því að fyrirbyggja sjúkdóma,
lengja líf og auka lífsgæði. Áhættu-
þættir vanheilsu og vanlíðunar eru
rannsakaðir og skilgreindir. Leitað
er leiða til að fá fólk til að snið-
ganga það sem stuðlar að vanheilsu
og vanlíðan meðan settar eru regl-
ur, áróður rekinn, byggð upp kerfi
og boðið uppá stuðning til að upp-
hefja þá þætti sem stuðla að heilsu-
hreysti, langlífi og vellíðan. Lýð-
heilsufræði sem ekki taka tillit til
allra þessara þátta eru hálf fræði.
Þó flestir geti verið sammála um
að þetta séu háleit og æskileg
markmið rekast þau stundum hvort
á annað. Það er til að mynda ekki
sjálfgefið að það sem lengir lífið
auki lífsgæðin. Þannig eru auka-
verkanir meðferða sumra sjúk-
dóma svo slæmar að fólk velur
frekar að lifa með sjúkdóminn og
deyja eitthvað fyrr. Dæmi um hið
gagnstæða eru efni sem veita
magnaða vellíðan í stuttan tíma en
tæra lífslengd, heilsu og lífsgæði
neytandans í lengdina. Auðvitað
leita flestir eftir einhverri millileið
þar sem lífslengd og lífsgæði eru í
jafnvægi, en reynslan sýnir að oft
er slík millileið ekki til í raunveru-
leikanum. Þú neyðist til að velja.
Lýðheilsufræði sem ekki taka jafnt
tillit til lífsgæða og lífslengdar eru
hrokafull fræði.
Annað vandamál í lýðheilsuland-
inu góða er sá árekstur sem oft
verður milli óska og þarfa ein-
staklingsins á ákveðnum tíma og
sjálfskipaðs foreldrahlutverks
ríkisvaldsins. Nýlegt dæmi um
þetta er ákvörðun stjórnvalda um
að öll verkjalyf með kódíni (sem
getur verið ávanabindandi) skuli
vera lyfseðilsskyld til að draga úr
neyslu slíkra lyfja. Spurningin er
hvort fíkn sé hættuleg í sjálfri sér
eða hvort það séu þeir
sjúkdómar sem langvar-
andi neysla veldur sem
séu vandamálið? Marg-
ir þurfa líklega á kódín-
lyfjum að halda til að
líða vel (eða minna illa).
Enginn veit hvaða áhrif
þessi ákvörðun hefur
haft á lífsgæði þessa
fólks. Né hvaða önnur
úrræði fólkið fór að
nota þegar aðgangur
var takmarkaður að lyfjunum. Ef
fólk sem er háð kódíni leitar fró-
unar í tóbaki, sætindum eða
áfengi, þegar kódínlindin þornar,
er þá farið úr öskunni í eldinn?
Þetta eru spurningar sem lýð-
heilsufræðin verða að fást við ef
þau eiga að standa undir nafni.
Lýðheilsufræði eru því líka fræðin
um „býtti“ (trade-off), þ.e. að vega
og meta eitt á móti öðru. Lýð-
heilsufræði sem ekki spyrja slíkra
spurninga eru slæm fræði.
Oft er forsjárhyggja í nafni lýð-
heilsu vel grunduð í lýðræðisleg-
um gildum, t.d. bann við sölu
áfengis til unglinga. Samfélag án
einhverrar forsjárhyggju er tæp-
lega mögulegt. Stjórnvaldsákvarð-
anir í anda forsjárhyggju eru
hvorki neikvæðar né jákvæðar í
sjálfu sér. Hinsvegar má færa að
því sterk rök að forsjárhyggja
sem bara er grunduð í vísindum,
en ekki í siðfræði og lýðræði, beri
í sér fræ illgresis. Það er því af og
frá að veita vísindamönnum og
lýðheilsufræðingum einræðisvald
í að kveða á um boð og bönn í nafni
lýðheilsu. Vísindablind lýðheilsu-
fræði úr tengslum við siðfræði og
lýðræði eru hættuleg fræði.
Klínísk lýðheilsufræði er það starf
sem unnið er á akrinum við að
aðstoða fólk til lífsstílsbreytinga,
t.d. að hætta að reykja, draga úr
ofneyslu áfengis, hreyfa sig reglu-
lega, minnka streitu og borða holl-
an mat. Rannsóknir undanfarna
áratugi sýna að hefðbundnar
aðferðir lýðheilsufræðanna í
formi upplýsingaherferða, hóp-
kennslu og áróðurs af ýmsum toga
nái aðeins til viss hóps samfélags-
ins. Því er nauðsynlegt að þróa
aðferðir sem beinast að einstakl-
ingnum í klínísku samtali. Þrátt
fyrir það gleymist þessi mikil-
vægi klíníski þáttur lýðheilsu-
fræðanna oft í lýðheilsunámi.
Markviss þjálfun þar sem tvinnað
er saman samtalstækni og aðferð-
um úr smiðju hugrænnar atferlis-
meðferðar og íþróttasálfræði ætti
að vera einn af máttarstólpunum í
hagnýtu lýðheilsunámi. Lýðheilsu-
fræði án úrræða eru slöpp fræði.
Höfundur er dósent við Lýðheilsu-
deild Karolinska háskólans í
Stokkhólmi og kennari við
Lýðheilsudeild Háskólans í
Reykjavík.
Lýðheilsulandið
Shangri-La
Allir hugsandi menn vita að með valdatöku
Vinstri grænna hefst stórt stopp á Íslandi.
Erlend fjárfesting heyrir sögunni til og öflug
íslensk fyrirtæki munu hugsa sinn gang, komist
slíkur afturhaldsflokkur í oddaaðstöðu.
Við getum ekki valið og hafnað eftir
hentugleikum og aðstæðum innanlands
hverju sinni; mannréttindi sveigja menn
ekki að vild.