Fréttablaðið - 26.07.2007, Side 26

Fréttablaðið - 26.07.2007, Side 26
greinar@frettabladid.is Þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var gerð að hlutafélagi var ég í hópi þeirra sem andæfði því; taldi að helsta flugstöð Íslendinga ætti að vera í eigu þjóðarinnar og á forræði hennar. Hún ætti að lúta eft- irliti og aðhaldi frá Alþingi og heyra undir þau lög sem um opinberan rekstur gilda. Vildu menn aðkomu einkaaðila að rekstr- inum væri nóg svigrúm til slíks innan þeirrar umgjarðar sem flughöfnin er. Mitt sjónarmið varð undir. Flugstöð Leifs Eiríks- sonar var gerð að hlutafélagi og var ein röksemdin sú að eðlilegt væri að losa hana úr tengslum við pólitík- ina. Upp væri runnin stund hinna faglegu sjónarmiða, eins og það var kallað, enda ætti rekstrarstjórn flug- stöðvarinnar einvörðungu að huga að rekstrarlegum þáttum. Það væri hins vegar löggjafans að setja henni almennar reglur og ramma. Nú gerist það fyrir nokkrum dögum að boðað er til fundar í stjórn hlutafélagsins að undirlagi nýs utan- ríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Var þá skipt út í stjórninni og skipaðir tveir fyrrum þing- menn Samfylkingarinnar. Um þetta var utanríkisráð- herrann spurður í Kastljósi Sjónvarpsins. Þetta er fullkomlega „eðlileg“ ráðstöfun svaraði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráð- herra: „Þetta er pólitísk stjórn. Þetta er fyrirtæki, það er skipað pólitískt í stjórn- ina. Þar voru inni í stjórninni, vegna þess að það heyrði undir utanríkisráðuneytið, þrír Framsóknarmenn og tveir Sjálfstæðis- menn. Ég hafði enga aðkomu að stjórn Flugstöðvarinnar og vissi ekki um það sem þar væri verið að véla um og taldi ég full- komlega eðlilegt að þar sætu einstaklingar sem ég væri í beinu sambandi við og ég treysti.“ Treysti til hvers? Að segja satt og rétt frá? Að færa ráðherranum völd og áhrif í rekstrarstjórninni? Þurfa menn að hafa flokks- skírteini Samfylkingarinnar til að vera traustsins verðir? Ef Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur er alvara að þarna eigi að sitja pólitísk stjórn, er þá ekki rétt að sú stjórn endurspegli pólitísk hlutföll á þingi? Og ef þetta er meiningin, hvers vegna þá ekki færa starf- semina undir beinan ríkisrekstur að nýju? Væri það ekki betra en að búa við valdstjórnar- og bitlingapól- itík Samfylkingarinnar sem hér er greinilega í upp- siglingu? Höfundur er þingflokksformaður Vinstrihreyfing- arinnar - Græns framboðs. Pólitísk rekstrarstjórn yfir Leifsstöð? Suður-Afríka ein stendur á bak við meira en þriðjung allrar framleiðslu Afríkulanda sunnan Saharaeyðimerkurinnar. Hlutfall- ið hefur haldizt stöðugt síðan 1960, en það hefur þó farið heldur lækkandi síðan 1985. Suður-Afríka er iðnríki: þeir smíða bílana sína sjálfir, þar á meðal bæði Merced- es-Benz og BMW í samvinnu við Þjóðverja. Hagur Afríku allrar er nátengdur afkomu Suður-Afríku. Mannfjöldi Suður-Afríku, sem er tólf sinnum stærri en Ísland að flatarmáli, er þó aðeins um sex prósent af heildarmannfjölda Afríku sunnan Sahara. Hvað breyttist 1985? Aðskilnað- arstefna Þjóðarflokksins, sem hafði stjórnað landinu með harðri hendi síðan 1948 og svipt svarta meiri hlutann menntunarmögu- leikum og öðrum mannréttindum, hafði vakið svo hyldjúpa andúð um heiminn, að erlendir fjárfestar og lánardrottnar kipptu að sér hendinni. Þeir höfðu gert það áður, til dæmis 1979, en nú var höggið svo þungt, að undan sveið. Erlend fjárfesting var nauðsynleg driffjöður efnahagslífsins, þar eð innlendur sparnaður dugði ekki til, og nú hætti hún skyndilega að streyma inn í landið. Gengi randsins kolféll, og erlendar skuldir þrefölduðust á skömmum tíma miðað við landsframleiðslu. Valdastéttin í Þjóðarflokknum sá sína sæng upp reidda og stal öllu steini léttara, og flúðu sumir land með þýfið meðferðis. Þjóðarflokk- urinn var siðlaus inn að beini, líkt og William Heinesen sagði um Sambandsflokkinn í Færeyjum, og er nú ekki til lengur, ekki frekar en Kristilegi demókrataflokkurinn á Ítalíu. Afríska þjóðarráðið (ANC) undir forustu Nelsons Mandela hafði einmitt mælt fyrir viðskiptabanni til að hrekja Þjóðarflokkinn frá völdum. Mandela átti að vísu ekki hægt um vik, því að hann hafði setið í lífstíðarfangelsi síðan 1963, en samherjar hans sumir, til dæmis Desmond Tútú erkibiskup í Höfðaborg, gengu lausir og hvöttu til viðskiptabanns. Tútú var sæmdur friðarverðlaunum Nóbels 1984 fyrir hetjulega framgöngu sína í friðsömu andófi blökku- manna gegn aðskilnaðarstjórninni. Stjórnarandstæðingar höfðu lengi átt á brattann að sækja, enda höfðu blökkumenn ekki kosningarrétt. Síðasta hálmstrá stjórnarinnar var að lýsa sjálfri sér fyrir umheimin- um sem brjóstvörn gegn framsókn heimskommúnismans í Afríku. En nú var Mikhaíl Gorbachev kominn til valda í Kreml. Á fáeinum árum fjaraði undan kommúnismanum, enda var hann gjaldþrota. Þegar Berlínarmúrinn hrundi 1989, stóð ríkisstjórn Suður-Afríku uppi varnarlaus og vinalaus. Þá gerðist nokkuð, sem enginn átti von á. Willy de Klerk tókst að bola P. W. Botha, forhertum, óhefluðum og heilsulausum forseta landsins og flokksbróður sínum, frá völdum og var kjörinn forseti 1989. De Klerk skildi, að taflið var tapað. Hann sannfærði flokksmenn sína og hvíta minni hlutann (tíu prósent af mannfjöld- anum) um nauðsyn þess að aflétta lögbanninu af ANC, leysa Nelson Mandela og aðra pólitíska fanga úr haldi og hefja samninga við þá um nýja stjórnarskrá, nýtt líf. Það gekk eftir. Þessum atburðum er lýst í kvikmyndinni Mandela and de Klerk (1997), þar sem Sidney Poitier og Michael Caine leika hlutverk höfuðandstæðinganna. Það er fín mynd. Hrun kommúnismans hafði einnig þau áhrif, að ANC hvarf frá þjóðnýtingarstefnu sinni og eyddi þar með að miklu leyti þeirri tortryggni, sem ráðið hafði áður mætt utan lands. Bandamenn ANC í Suður-afríska kommúnista- flokknum létu sér einnig segjast. ANC vann stórsigur í kosningun- um 1994, hlaut 63 prósent atkvæða og myndaði stjórn með Þjóðar- flokknum, sem fékk 20 prósent atkvæða (margir Indverjar og aðrir „litaðir“ kjósendur greiddu Þjóðarflokknum atkvæði af ótta við yfirburði ANC). Þjóðarflokk- urinn hvarf úr stjórninni 1996 og fjaraði út. Landið var frjálst. Nú streymir erlent fram- kvæmdafé aftur til Suður-Afríku. Framleiðsla á mann hefur vaxið um rösk 40 prósent síðan 1994. En það er ekki nóg. Sumir ferðamenn forðast landið og heimamenn flýja vegna tíðra glæpa, sem virðast stafa einkum af auknu atvinnu- leysi, miklum ójöfnuði og inn- streymi örvæntingarfullra flóttamanna frá Simbabve. Friður ríkir, en fortíðin er ekki gleymd. Í bók sinni Engin framtíð án fyrirgefningar (1999) lýsir Desmond Tútú, sem stýrði Sannleiks- og sáttanefndinni 1995- 98, nauðsyn þess, að sökudólgar fortíðarinnar gefi sig fram: fyrirgefning útheimtir iðrun. Þeir, sem gáfu sig ekki fram við nefndina, eiga nú málsókn yfir höfðum sér. Fyrrum dómsmála- ráðherra var nýlega ákærður fyrir morðtilræði. Hann reynir að verjast með því að varpa samá- byrgð á félaga sína, þar á meðal Willy de Klerk. De Klerk segist vera saklaus. Fortíðin er geymd Tilvalið í ferðalagið Án viðbætts salts!Án viðbætts sykurs! Kjarngóð næring í þægilegum umbúðum barnamatur.is Á misjöfnu þrífast börnin best,“ segir í gömlu íslensku máltæki sem enn á 21. öldinni virðist lifa góðu lífi. Þetta gamla máltæki lýsir enda nokkuð vel viðhorfi íslensku þjóðarsálarinnar til barna, eða í það minnsta viðhorfi sem hefur verið í fullu gildi til skamms tíma. Vissulega hefur hagur barna á Íslandi að mörgu leyti batnað síðustu ár og áratugi. Samt er það viðhorf enn sterkt á Íslandi að eitthvert besta atlæti sem hægt er að veita barni sé sem minnst atlæti. Íslensk börn eiga að vaxa eins og laukar í túni og þroskast og læra af mótlæti og reynslu, fremur en að njóta handleiðslu foreldra og annarra uppalenda. Of mikið af slíku geti í versta falli verið skaðlegt og gert ungt fólk ósjálfbjarga. Barnæska á Íslandi var lengi vel, og er kannski enn, styttri en tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þannig hafa íslensk börn til dæmis farið að vinna miklu fyrr en tíðkaðist meðal nágranna- þjóða, safna í reynslubankann. Ekki skal gert lítið úr þeirri reynslu sem íslensk ungmenni hafa hlotið á vinnumarkaðnum í fjölbreytilegu sumarstarfi. Hún hefur aukið víðsýni margra. Hitt er annað mál að börnum hér voru fram undir lok síðustu aldar falin störf sem þau höfðu ekki aldur né þroska til að sinna, í verstu tilvikum með hörmulegum afleiðingum. Þetta er sem betur fer liðin tíð en það má þakka evrópskum reglugerðum fremur en íslenskum hugsunarhætti. Forstöðumaður Barnaverndarstofu hefur kallað eftir stefnu ríkis og sveitarfélaga í málefnum barna en talað fyrir daufum eyrum. Stöku sinnum rofar til í stjórnmálaheiminum og skurkur er gerður í afmörkuðum málum. Eftir stendur að opinber stefna er engin í málefnum barna. Iðulega er málefnum fjölskyldna blandað saman við málefni barna. Vitanlega eru skýrir hagsmunir barna fólgnir í því að vel sé búið að fjölskyldum í landinu. Það er hins vegar ekki nóg. Stefnumótun um málefni fjölskyldna er iðulega ákaflega for- eldramiðuð og fyrir kemur að hagsmunir barna víki fyrir hags- munum foreldra þeirra. Erum við til dæmis sannfærð um að lenging skóladags yngstu nemenda grunnskólans á síðustu tíu árum sé börnunum fyrir bestu, eða ræður þarna ferðinni þörf foreldra fyrir barnagæslu? Þessarar spurningar og fleiri verðum við að spyrja okkur. Íslenska þjóðin verður að líta í eigin barm og spyrja sig hvern- ig hún vill halda á málefnum barna. Óskandi er að ríki og sveit- arfélög taki málefni barna ákveðnum tökum á næstu árum. Á sama tíma verðum við hvert og eitt að taka okkur tak og setja börnin í fyrsta sæti. Öfugmæli þau sem fólgin eru í hinni gömlu íslensku speki sem rifjuð er upp hér að ofan eru meinsemd í samfélagi okkar. Í raun ættum við Íslendingar 21. aldarinnar að snúa þessu máltæki alveg við og segja: Á kærleika, virðingu og góðu atlæti þrífast börnin best. Og standa svo við það. Þrífast börnin best á misjöfnu?

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.