Fréttablaðið - 26.07.2007, Blaðsíða 74
David Beckham-æðið er
skollið á í Los Angeles og það sést
ekki síst á sölu Beckham-treyja.
Nýja félagið hans, LA Galaxy, er
þegar búið að selja 200 þúsund
treyjur númer 23 þrátt fyrir að
enski knattspyrnumaðurinn sé
aðeins búinn að spila 12 mínútur
fyrir sitt nýja lið.
„Við höfum aldrei upplifað annað
eins. Í augnablikinu er LA Galaxy-
treyja Davids Beckham mest selda
treyja í heimi,“ sagði markaðstjór-
inn Chris McGuire.
200 þúsund
treyjur seldar
HK leikur í kvöld sjötta
útileik sinn í Landsbankadeild
karla þegar liðið sækir Skaga-
menn heim upp á Akranes.
Nýliðarnir hafa aðeins náð í eitt
af ellefu stigum sínum utan
Kópavogs í deildinni í sumar og
það sem meira er þá eiga HK-
ingar enn eftir að skora á útivelli
í sumar. Liðið hefur nú leikið í 450
mínútur án marks á útivelli og
markatalan er ekki glæsileg, 0-11.
Eina stig HK á útivelli kom í
markalausu jafntefli við Víkinga í
leik sem fram fór í Fossvogi í
fyrstu umferð og spurning hvort
að nálægðin við Fagralund hafi
haft eitthvað að segja.
HK á eftir að
skora á útivelli
Landsbankadeild karla
FH og HB gerðu marka-
laust jafntefli í síðari leik liðanna
í fyrstu umferð Meistaradeildar
Evrópu í Færeyjum í gær. FH
vann leikinn 4-1 og er þar með
komið áfram en leikurinn í gær
þótti ekki mikið fyrir augað.
„Þetta var enginn glansfótbolti,
einhverjir myndu kalla þetta
vinnusigur,“ sagði Guðlaugur
Baldursson, sem gegndi stöðu
aðstoðarþjálfara hjá FH í gær í
fjarveru Heimis Guðjónssonar.
„Þetta var frekar jafn leikur en
við kannski ívið sterkari. Við
fórum varlega inn í leikinn og
sáum hvað þeir ætluðu að gera en
þeir ógnuðu okkur ekki mikið.
Þeir sóttu ekki mikið og færðu sig
ekki framarlega á völlinn og því
vorum við frekar rólegir í leikn-
um. Við hefðum getað sett mark
eða mörk á þá þegar leið á leik-
inn,“ sagði Guðlaugur sem sýndist
sem leikmenn HB væru nánast
búnir að gefast upp fyrir leikinn
enda þremur mörkum undir eftir
fyrri leikinn.
„Maður fékk það svolítið á til-
finninguna að þeir vildu bara ekki
fá á sig mörg mörk og því voru
þeir mjög varfærir í sínum
aðgerðum. FH spilaði ágætlega í
leiknum, sýnu betur í síðari hálf-
leik en þeir fyrri. Við ákváðum
bara að vera ekki að gera neina
skandala í þessu og það tókst,“
sagði Guðlaugur.“
Íslandsmeistararnir mæta FC
Bate frá Hvíta-Rússlandi í næstu
umferð. Hún byrjar strax í næstu
viku og verður lokið 8. ágúst en
endanlegar dagsetningar á leikina
eru ekki komnar í ljós. Bate er
meistaraliðið í sínu landi og er
byggt nánast algjörlega upp á
heimamönnum. Þeir hafa sterkan
heimavöll en Alexander Hleb,
sem nú leikur með Arsenal, gerði
garðinn frægan hjá félaginu á
uppvaxtarárum sínum. Það er
ljóst að ærið verkefni bíður FH í
næstu umferð.
FH kláraði verkefnið örugglega
Víkingar stigu stríðsdans
fyrir framan stuðningsmenn í
gærkvöldi og fögnuðu, því sem
gæti á endanum orðið ómetanleg-
ur sigur, sigri á Frömurum. Mun-
urinn á liðunum er nú kominn í
fjögur stig auk þess sem KR-ingar
nálgast þá bláklæddu óðfluga á
stigatöflunni. Leikur Fram í gær
var endurtekning frá því oft áður í
sumar og er ljóst að illa mun fara
ef Framarar fara ekki að nýta
færin.
Magnús Gylfason, þjálfari Vík-
ings, stillti upp í eins konar 3-4-3
leikkerfi sem gafst liðinu einstak-
lega vel í fyrri hálfleik. Sinisa
Kekic naut sín til fullnustu uppi á
toppi með hina eldfljótu Gunnar
Kristjánsson og Egil Atlason sitt-
hvorum megin við sig á köntunum.
Dagskipun Magnúsar virtist vera
að nýta hraða þeirra, en sú taktík
reyndist liðinu heilladrjúg í fyrri
leik liðanna í sumar.
Heimamenn voru betri á öllum
sviðum fótboltans í fyrri hálfleik
og komust yfir með marki Kekic
úr vítaspyrnu, sem þótti reyndar
umdeild í meira lagi. Sá gamli
bætti við öðru marki á 43. mínútu
þegar hann batt endahnútinn á frá-
bæra sókn Víkings þar sem Fram-
arar voru gjörsamlega sundurspil-
aðir.
Sóknarleikur Fram náði nýjum
lægðum í fyrri hálfleik og náði
liðið varla að ógna marki heima-
manna í fyrri hálfleik. Mark Jónas-
ar Grana Garðarssonar, úr fyrsta
skoti Fram á markið, á síðustu and-
artökum fyrri hálfleiks kom því
eins og þruma úr heiðskíru lofti og
galopnaði leikinn á ný.
Hjálmar Þórarinsson hressti
mikið upp á spilamennsku Fram í
síðari hálfleik og virtist sem algjör
hugarfarsbreyting hafi átt sér stað
hjá leikmönnum liðsins. Gestirnir
pressuðu stíft og freistuðu þess að
jafna um leið og heimamenn drógu
sig smám saman aftar á völlinn.
Framarar fengu sannarlega færin
til að bæta við mörkum en það var
alveg sama hvað reynt var - inn
vildi boltinn ekki.
Kekic, í sérflokki á vellinum
eins og svo oft áður í sumar, var
hins vegar hinn kátasti. „Þetta var
yndislegt kvöld en ég er svekktast-
ur með að hafa ekki náð í þrenn-
una, það munaði ekki miklu,“ sagði
hann með bros á vör. „Ég er mjög
sáttur viðð spilamennsku okkar í
fyrri hálfleik og ef við spilum svo-
leiðis það sem eftir er sumars
þurfum við engar áhyggjur að
hafa. Við bökkuðum um of í þeim
seinni en sem betur fer hafðist
þetta.“
Kóngurinn Sinisa Kekic gekk frá Frömurum
KR náði í stig fjórða leik-
inn í röð þegar liðið gerði 1-1 jafn-
tefli við Breiðablik í 11. umferð
Landsbankadeildar karla á Kópa-
vogsvellinum í gær. Blikar voru
mun meira með boltann og fengu
fjölda færa en það munaði þó engu
að fjölmennur og skynsamur varn-
arleikur KR-inga hefði fært þeim
fyrsta útisigur sumarsins. Blikar
hafa ekki unnið KR-inga í tæp ell-
efu ár og hafa sjaldan fengið betra
tækifæri en í gær.
„Mér fannst það gott að koma til
baka og jafna leikinn gegn 11
manna varnarmúr en ég vildi fá
meira út úr leiknum. Við erum að
byggja upp lið og verðum ennþá
öflugri í restina á þessu tímabili
og svo á því næsta. Við stefnum á
að komast í topp fjögur en það
verður erfiðara þegar við gerum
bara jafntefli og vinnum ekki
leiki,“ sagði Ólafur H. Kristjáns-
son, þjálfari Breiðabliks. „Við
erum að reyna að spila fótbolta
eins og ég vil sjá hann spilaðan.
Liðið sem ég var með í fyrra var
með mann sem gerði 11 mörk í 13
leikjum og ég vildi gjarnan vilja
hafa einn svoleiðis í þessu liði. Þá
værum við á allt öðrum stað í töfl-
unni,“ sagði Ólafur.
Blikar byrjuðu mjög vel og
fengu meðal annars tvö dauðafæri
í röð á 6. mínútu sem Stefán Logi
Magnússon varði í bæði skiptin
mjög vel. KR-ingar hugsuðu fyrst
og fremst að loka svæðum, sóttu á
fáum mönnum og reyndu síðan að
nýta vel föstu leikatriðin sín. Þeir
á leið hálfleikinn fóru þeir að ógna
Blikavörninni sem sofnaði síðan á
verðinum í hornspyrnu
Kristinn Magnússon stóð einn
og yfirgefinn fyrir framan mark-
teiginn og skallaði boltann aftur
fyrir sig og í markið eftir að horn
Rúnars Kristinssonar hafði verið
skallað aftur inn á teiginn. KR-
ingar voru komnir yfir gegn gangi
leiksins. Blikar voru mun meira
með boltann og sköpuðu sér fjölda
færa en KR voru samt ávallt beitt-
ir þegar þeir loksins komust
örsjaldan inn á vallarhelming
þeirra grænklæddu.
Hafi áhorfendum fundist KR-
ingar vera aftarlega í fyrri hálf-
leik sáu þeir þá detta ennþá oftar í
þeim seinni. Gunnlaugur Jónsson
og Ágúst Gylfason gekk vel að
stýra varnarvinnu liðsins og smá
saman var eins og Blikar misstu
þolinmæðina. Það var ekki fyrr en
að Ólafur Kristjánsson sendi inn
varamanninn Steinþór Þorsteins-
son að eitthvað fór að gerast
aftur.
Steinþór var ekki lengi að setja
mark sitt á leikinn. Aðeins tveim-
ur mínútum eftir að hann kom inn
á komst hann upp að endamörkum
og gaf fyrir þar sem Arnór Aðal-
steinsson skallaði boltann fyrir
fætur Nenad Zivanovic í mark-
teignum og Blikar höfðu loksins
náð að koma boltanum yfir mark-
línuna.
Blikar fengu góð tækifæri til
þess að skora sigurmarkið en líkt
og áður í leiknum varði Stefán
Logi Magnússon ítrekað frá þeim
úr úrvalsfærum.
Teitur Þórðarson, þjálfari KR
vildi fá fleiri stig. „Það var klaufa-
legt að fá á okkur þetta mark í
lokin því við erum að verjast vel í
gegnum allan leikinn. Við lögðum
upp með að verjast vel og fá okkar
færi úr skyndisóknum. Við höld-
um áfram að taka stig úr okkar
leikjum en því miður bara eitt því
við vildum gjarnan fá öll þrjú úr
þessum leik. Þegar þú tapar ekki
leikjum byggir þú upp sjálfstraust
í liðinu og þetta mjakast svona
hægt og rólega,“ sagði Teitur.
KR-ingar voru nálægt því að vinna fyrsta útisigurinn í Kópavogi í gær. Blikar náðu að jafna í lokin en þeir
áttu öll stigin skilin. KR-ingar sitja enn sem fastast á botni Landsbankadeildar karla.