Fréttablaðið - 07.06.2008, Page 16

Fréttablaðið - 07.06.2008, Page 16
16 7. júní 2008 LAUGARDAGUR Dragana, eiginmaður hennar og dóttir urðu landflótta eftir að átökin brutust út á Balkanskaga, fyrir þær sakir einar að Dragana er Króati en maður hennar Serbi. Hún segir komuna til Íslands hafa gefið sér annað tækifæri. „Ég átti áhyggjulausa æsku í Króatíu. Þegar ég var 17 ára gömul giftist ég og allt var svo gott og yndislegt. Allt lífið var fram undan og við vorum mjög hamingjusöm. Skömmu síðar eignuðumst við heilbrigða og fallega dóttur,“ segir Dragana. Ekki leið þó á löngu þar til óveðursský hrönnuðust upp við sjóndeildarhringinn. „Fjórum árum síðar, þegar ég var 21 árs, braust stríðið út. Allt í einu vorum við orðin landflótta fyrir það eitt að vera Króati og Serbi í hjónabandi. Við flýðum frá heima- slóðum okkar til Krajina-héraðs í Króatíu. Þar fengum við inni hjá foreldrum hans. Þau eiga stórt og gott hús þannig að það var ekki vandamál. Spennan og þrýstingurinn sem var í samfélaginu var hins vegar mjög erfiður.“ Í miðju stríði Í fjögur ár var skothríð og sprengjudynur daglegt líf þeirra hjóna. „Þótt ótrúlegt sé þá vandist maður þessu. Hins vegar hefur þetta haft áhrif á okkur. Mér var hugsað til þess þegar jarðskjálftinn kom, en þá urðu allir í kringum mig hræddir. Ég sýndi hins vegar engin viðbrögð og maður spyr sig af hverju; þetta er eitthvað sem veldur skelfingu hjá fólki. Stríðið heimsækir mann líka stundum í draumi.“ Í ágúst árið 2005 kom króatíski herinn inn í Krajina-hérað og um 250 þúsund manns voru reknir yfir landamærin til Serbíu. Það átti að heita að fólkið fengi að fara í friði, en raunin var sú að loftherinn gerði árásir á flóttafólkið. „Þarna skildumst við maðurinn minn að, en sem betur fer var dóttir okkar hjá frændfólki okkar í Serbíu. Ég paufaðist 500 kílómetra leið á dráttarvél og fótgangandi. Rétt áður en að landamærunum kom hittumst við hjónin sem betur fer aftur. Í Serbíu vorum við fyrst hjá frændfólki mannsins míns, en það bjó í mjög litlu húsnæði. Svo kom mamma og borgaði leigu fyrir okkur og okkur leið skár. Síðan var maðurinn minn kallaður í herinn aftur, þrátt fyrir að hann væri skráður sem flóttamað- ur, en það er bannað. Við skildumst því aftur að með þeim þjáningum, kvíða og svefnlausu nóttum sem því fylgdi. Loks kom hann aftur og við fórum fyrir flóttamannanefnd Sameinuðu þjóðanna og skráðum okkur í sendiráð. Við vorum skilgreind þannig að við þyrftum að komast í burtu, gætum hvorki snúið heim né verið kyrr, þar sem við vorum í blönduðu hjónabandi. Það að hann var kallaður í herinn þrátt fyrir stöðu flóttamanns hafði líka áhrif.“ Haldið til Íslands „Ég gleymi aldrei 8. mars árið 1996, en þá fengum við tilkynningu um að við yrðum aðstoðuð við að komast í burtu. Í byrjun júlí fengum við síðan að vita að förinni væri heitið til Íslands. Ég starfaði sem kennari þannig að ég vissi nokkuð um landið, en aðeins nokkrar grundvallarstaðreyndir. Við hittum Íslendinga og kviðum því strax að þurfa að læra þetta óskiljanlega tungumál. Ein vinkona okkar þekkti þó flugfreyju sem komið hafði nokkrum sinnum til landsins og hún bar landi og þjóð vel söguna. Við vorum því mjög spennt.“ Fjölskyldan lenti í Keflavík 28. júlí klukkan hálf tvö um nóttina. Þar beið þeirra flugvél sem flaug með þau til Ísafjarðar. Þau voru þreytt, spennt og ferðalúin þegar lent var á Ísafirði, en umfram allt glöð. „Það er ekki hægt að útskýra þessar tilfinningar. Þessu fylgir svo mikil gleði en jafnframt óvissa fyrir framtíðinni. Samt á jákvæðan hátt því maður veit að maður er að fara í eitthvað betra. Okkur var gefið annað tækifæri. Á Ísafirði var vel tekið á móti okkur; stuðningsfjölskyldan mætti með blómvönd og okkur var fylgt í íbúðina okkar. Það var ekkert smásjokk að fara í nýja íbúð í bænum með nýjum húsgögnum og vera sagt: „Þetta er ykkar!“ Það var ótrúlegt og við spurðum okkur að því hvort okkur væri að dreyma. Síðan áttum við að fara að sofa því allir áttu að mæta á fund daginn eftir. En maður sofnar ekkert sisona þegar lífið hefur tekið algjörum stakkaskiptum á nokkrum klukkutímum. Þar að auki skein sólin alla nóttina sem okkur þótti mjög sérstakt,“ segir Dragana og hlær. Góðar móttökur Það hlýtur að vera erfitt að koma með fjölskyldu sína í nýtt land sem maður þekkir lítið og eiga að hefja nýtt líf. Dragana segir viðmót Ísfirðinga hafa gert það auðveldara. „Allt fólkið sem tók á móti okkur var yndislegt; við skildum ekki orð en orð eru óþörf þegar bros og góðar kveðjur eru annars vegar. Svipurinn sagði allt sem segja þurfti. Vissulega voru heimamenn forvitnir og vildu sjá okkur flóttafólkið. Mér fannst það bara fyndið. Flestallir bæjarbúar höfðu aðstoðað við undirbúning komu okkar og því eðlilegt að þeir hafi viljað sjá framan í okkur. Við byrjuðum fljótlega í íslenskukennslu og vorum svo heppin að kennarinn talaði serbó-króatísku. En raunar voru allir Ísfirðingar í hlutverki kennarans. Þeir lögðu sig í framkróka við að aðstoða okkur. Töluðu hægt í búðinni: „Þetta er brauð“, nokkuð sem ég er viss um að við hefðum ekki notið hefðum við verið í Reykjavík. Smæð staðarins hjálpaði því til í okkar tilfelli. Síðan voru allir svo almennilegir. Ég man alltaf eftir sýslumanninum, Ólafi Helga Kjartanssyni, sem heilsaði manni alltaf að fyrra bragði í fullum skrúða. Sjálfur sýslumaðurinn! En svona er þetta í svona litlum bæjarfélögum, allir þekkja alla og það er mikill kostur.“ Dragana fór fljótlega að kenna börnunum móðurmálið, en eiginmaður hennar hóf störf hjá fyrirtæki í byggingariðnaði. Hann er menntaður lögreglumaður úr heimalandinu, en lærði til smiðs á Ísafirði og hefur nú stofnað eigið fyrirtæki. Erum Íslendingar Fjölskyldan bjó á Ísafirði til ársins 2006, lengst þeirra sem komu í hópi flóttafólks- ins. „Já, við fluttum á endanum suður. Dóttir okkar var farin suður í nám og við vildum vera með henni eins lengi og við gætum. En það var ekki auðvelt að yfirgefa Ísafjörð og allt það yndislega fólk sem þar er. Þar var vel tekið á móti okkur og meira að segja vildi bæjarstjórinn banna okkur að fara,“ segir Dragana hlæjandi. Hún segir fólk fyrir vestan hafa varað hana mjög við stressinu og hraðanum fyrir sunnan. „Ég væri til í að bjóða þeim til Belgrad. Þar búa tvær milljónir og stundum er maður fastur hálfan daginn í hringtorgi og kemst ekki út. Mér líður vel hér í Kópavogi, enda sagði víst einhver: Það er gott að búa í Kópavogi.“ Dragana og fjölskylda hennar fengu ríkisborgararétt árið 2001. Hún segir að þau líti á sig sem Íslendinga, en þau reyni að halda í króatískar hefðir þar sem það er hægt. Þau hafa ekki í hyggju að snúa aftur til Króatíu. „Þegar maður hefur upplifað það sem við höfum gert, þá óttast maður ætíð að það geti endurtekið sig. Kannski ekki á morgun, en jafnvel eftir þrjátíu ár.“ Nýtt líf Dragana er ekki í vafa um að Íslendingar eigi að taka á móti fleira flóttafólki. Hún segir þá sem gagnrýnt hafa verkefnið oftar en ekki hafa sýnt vanþekkingu sína á því. „Þetta snýst um að veita fólki tækifæri til að hefja nýtt líf. Ég stóð allt í einu uppi sem manneskja án ríkisfangs og án heimalands. Ég fékk annað tækifæri. Fólkið sem kemur er ekki að biðja um lúxus; bara um öruggt líf fyrir sig og börnin sín. Ég var svo ánægð með allt sem ég fékk – ég á til dæmis enn pottana sem biðu eftir mér. Vissulega getur verið kostnaður í heilbrigðiskerfinu, en snýst þetta ekki um að hjálpa fólki?“ Okkur var gefið annað tækifæri Dragana Zastavnikovic kom til Ísafjarðar ásamt fjölskyldu sinni sem flóttamaður árið 1996. Óvissan var algjör en þeim var ekki lengur vært í heimalandi sínu. Hún segir móttökurnar hafa verið yndislegar og lítur nú á sig sem Íslending. Hún segir það að taka á móti flóttafólki snúast um að hjálpa fólki að hefja nýtt líf. Það sé gríðarlega mikilvægt. SÁTT HEIMA Dragana og hundurinn Brútus heima í Kópavoginum. FRÉTTABLAÐIÐ/RÓSA FRÉTTASKÝRING: Flóttamenn á Íslandi 3. hluti FRÉTTASKÝRING KOLBEINN ÓTTARSSON PROPPÉ kolbeinn@frettabladid.is ÞRIÐJA GREIN AF FJÓRUM Á mánudag: Staða flóttafólks á alþjóðavísu NÝTT HEIMALAND Dragana við komuna til Íslands í júlí árið 2007. Komin til nýs lands en ferðalagið rétt að byrja. Páll Pétursson félagsmálaráðherra tekur á móti flóttafólkinu. FRÉTTABLAÐIÐ/SV.Þ Flúðu stríðið Þrjátíu flóttamenn komu hingað frá Krajina-héraði í Króatíu árið 1996. Fólkið flúði stríðs- átökin sem geisuðu á Balkanskagan- um í kjölfar falls Júgóslavíu. Þáttaskil Koma flóttamannanna markaði ákveðin þáttaskil í stefnu íslenskra stjórnvalda. Þetta var fyrsti hópurinn sem kom eftir stofnun flóttamannaráðs – nú flóttamanna- nefndar – samkvæmt kerfi um nána samvinnu ríkisvalds, móttökusveitar- félags og Rauða kross Íslands. Koma flóttamannanna vakti mikla athygli hérlendis og færri komust að en vildu til að aðstoða þá. HÆLIS LEITAÐ Í ÓKUNNU LANDI VELKOMIN Flóttafólk sem hefur komið hingað til lands er á öllum aldri, bæði börn og fullorðnir. Flóttafólkið sem kom frá Krajina var þar engin undantekning.

x

Fréttablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.