Morgunblaðið - 11.02.2006, Page 4
4 LAUGARDAGUR 11. FEBRÚAR 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
ÍSFIRÐINGURINN Hjalti Ragn-
arsson, sem búið hefur síðustu 17 árin
í Danmörku og hlotið frama innan
danska hersins, verður sendur til
Íraks, þann 14. febrúar n.k. Hann
mun gegna hlutverki stýrimanns og
skyttu á léttum skriðdreka og segist
óbanginn vegna fararinnar. Hjalti er
22 ára gamall og náði þeim áfanga ár-
ið 2004 að komast í Konunglegu
dönsku lífvarðasveitina. Þess má geta
að bróðir hans Gísli Ragnarsson er
einnig hermaður í danska hernum og
er í lokaþjálfun fyrir lífvarðasveitina.
Hjalti er nýkominn heim frá her-
þjónustu í Kosovo þar sem hann hlaut
heiðursmerki fyrir störf sín þar, auk
þess sem hann hefur fengið fjögur
önnur heiðursmerki. Hann stefnir á
tveggja ára nám í dönskum liðsfor-
ingjaskóla að lokinni sex mánaða dvöl
í Írak en hann verður staðsettur
ásamt hersveit sinni í nágrenni
Basra.
Spennandi að takast á við þetta
„Það verður spennandi að takast á
við þetta. Fólk er hjálparþurfi og ég
vil vera til staðar fyrir það,“ segir
hann. Af spámannsdeilunni og ólgu
meðal múslíma í garð Dana hefur
hann ekki miklar áhyggjur þótt hann
segi teikningarnar í Jótlandspóst-
inum ekki munu beinlínis hjálpa upp
á ástandið.
Hermennskuferil Hjalta má rekja
til desember 2003 þegar hann hóf
fyrst þjálfun sína og komst síðar meir
í þjálfun fyrir lífvarðasveit drottn-
ingar. Færri komust að en vildu en
þeir sem eru valdir til þjálfunar eru
látnir „taka vel á því“ eins og Hjalti
orðar það. „Í síðasta prófinu gengum
við 120 km með bakpoka auk þess
sem kennd eru bókleg fræði líka.“
Sumarið 2004 komst hann síðan í líf-
varðasveitina og verður nú stutt að
bíða uns tveir ísfirskir bræður verða
lífverðir dönsku drottningarinnar
þegar Gísli lýkur prófi.
Hlutirnir ekki eins
einfaldir og maður heldur
Hjalti segir herþjónustuna í Kos-
ovo hafa verið mjög spennandi og
segist hann hafa fengið mjög lær-
dómsríka sýn á heiminn. „Hlutirnir
eru ekki eins einfaldir og maður held-
ur en þarna niðurfrá er rosagott
fólk.“ Hjalti lenti aldrei í alvarlegum
átökum þar sem þurfti að beita skot-
vopnum en hann segir þó hafa hitnað
rækilega í kolunum nokkrum sinnum
án þess þó að upp úr syði. „Við vorum
með góða liðsforingja sem gátu leyst
málin og róað ástandið með samræð-
um. Danir eru snillingar í því. Ég var
feginn því að þurfa ekki að hleypa af
skoti á meðan ég var í Kosovo.“
Sýn Hjalta á herþjónustu snýst
einkum um að geta orðið að gagni þar
sem þörf er á, segir hann. „Mig lang-
ar til að fara á vettvang og hjálpa þar
sem ég get hjálpað. Mér finnst það
mjög spennandi og er góður í því.
Tíminn mun leiða í ljós hversu langt
ég fer í þeim efnum.“
Eins og fyrr gat verður Hjalti
stýrimaður og skytta á léttum skrið-
dreka í Írak en um er að ræða tíu
manna dreka sem ætlaður er til her-
mannaflutninga en er einnig útbúinn
fallbyssu. Hjalti verður í Írak fram
yfir verslunarmannahelgi og byrjar
þá strax í liðsforingjaskólanum. Hann
er ókvæntur og barnlaus. „Ég hef
ekki tíma fyrir það,“ segir hann og
hlær við.
Hjalti Ragnarsson, hermaður í danska hernum, á leið til Íraks
„Fólk er hjálparþurfi“
Eftir Örlyg Stein Sigurjónsson
orsi@mbl.is
Hjalti Ragnarsson fremstur í flokki stjórnar hér vaktaskiptum hjá lífvarðasveit drottningar við Amalienborg.
Bræðurnir Hjalti og Gísli Ragnarssynir, báðir hermenn í danska hernum.
NOKKUR óánægja ríkir meðal sumarbústaðaeig-
enda í Miðengi í Grímsnesi með vinnubrögð sveit-
arstjórnarinnar í Grímsnes- og Grafningshreppi í
tengslum við auglýsingu á deiliskipulagi fyrir lóð
nr. 200 við Álftavatn í Grímsnesinu bæði nú í jan-
úar sl. sem og í maímánuði árið 2002. Hafa þeir
ráðið til sín lögfræðing til að kanna réttarstöðu
sína í tengslum við auglýsingu sveitarfélagsins á
breyttu deiliskipulagi fyrir umrædda lóð.
Hinn 11. janúar sl. birtist í Morgunblaðinu aug-
lýsing sveitarfélagsins um tillögu að breytingu á
deiliskipulagi lands þar sem bústaðurinn stendur,
en tillagan gerir ráð fyrir að hámarksstærð frí-
stundahúss verði 496 m² í stað 380 m², auk þess
sem gert sé ráð fyrir 64 m² bílskúr og 86 m² sum-
arhúsi sem muni standa á sérlóð innan marka
skipulagsins.
„Við erum ósátt við að sveitarfélagið skuli ekki
hafa séð ástæðu til að upplýsa nágranna lóðarinn-
ar um þær viðamiklu breytingar sem fyrirhugaðar
voru. Okkur finnst það ekki eðlilegir stjórnsýslu-
hættir að sveitarfélagið skuli ekki hafa séð ástæðu
til að kynna þetta almennilega fyrir eigendum í
ljósi þess hversu umfangsmiklar breytingar verið
var að leggja til,“ segir Jóna K. Kristinsdóttir,
einn eigenda sumarbústaðar í Miðengi í Gríms-
nesi, og bendir á að þegar deiliskipulag fyrir lóð-
ina var auglýst árið 2002 hafi hvergi komið fram
að til stæði að reisa byggingu á umræddri lóð, en
með því deiliskipulagi var samþykkt 470 m² hús-
næði á lóðinni. Bendir hún á að alls séu rúmlega
þrjátíu sumarhús við 5. braut við Álftavatn sem
séu byggðir upp úr 1940, auk tveggja nýrra bú-
staða frá því í kringum 1985.
„Þetta er mjög gamalt svæði og þarna eru flest
húsin á bilinu 50–70 m² timburhús, þannig að nýja
húsið stingur algjörlega í stúf við þá byggð sem nú
er á svæðinu og allt umhverfið. Það á bara ekki
heima í þessu umhverfi, en landið sem húsið er
byggt á er ekki nema 2,5 hektarar. Frístundahús
af þessari stærðargráðu eiga ekki heima í svona
gömlu hverfi,“ segir Jóna og tekur fram að sum-
arhúsaeigendum á svæðinu finnist sveitarfélagið
hafa komið aftan að sér í þessu máli.
Deiliskipulagið var kynnt
með lögformlegum hætti
„Ef húsum er vel fyrirkomið í landinu og gott
tillit tekið til umhverfisins, líkt og við á um þetta
hús, á stærðin ein ekki að skipta neinn mann máli
nema þann sem byggir það, býr í því og borgar af
því eðlileg fasteignagjöld til sveitarfélagsins,“ seg-
ir Ívar Örn Guðmundsson arkitekt, sem teiknaði
umrætt hús á lóð nr. 200, en hann átti fund með
sumarhúsaeigendum við 5. braut sl. mánudag.
Bendir hann á að þó að samþykkt deiliskipulag
frá árinu hafi verið kynnt með lögformlegum
hætti virðist það hafa farið framhjá fólki. Segir
hann ekki hægt að áfellast sveitarfélagið því eftir
sinni bestu vitund hafi verið staðið rétt að öllum
kynningarmálum á sínum tíma. Að sögn Ívars
sneru athugasemdir sumarhúsaeigenda á fyrr-
nefndum fundi fyrst og fremst að skipulagsferlinu
og því að þeir vissu ekki að þarna yrði byggt hús,
hins vegar ætti fólki að vera ljóst að auglýsing á
deiliskipulagi feli sjálfkrafa í sér tillögur um upp-
byggingu. Segir hann hins vegar engar athuga-
semdir á fundinum hafa snúið beint að núverandi
breytingu.
Að mati Ívars er óeðlilegt að verið sé að fjarg-
viðrast út af stærð eins húss vegna samanburðar
við önnur hús í nágrenninu. Bendir hann á að kröf-
ur manna til sumar- og frístundahúsa hafi tekið
miklum breytingum í áranna rás.
„Sumarhús nýttust fyrir um 20 árum án hita,
rafmagns og heits vatns. Þau hús sem byggð eru
með þessum nútímaþægindum, sem þykja eðlileg í
dag, eru annars konar en þau hús sem voru byggð
áður,“ segir Ívar og bendir jafnframt á að frí-
stundahús hafi annað notagildi í dag, þar sem þau
séu notuð allan ársins hring öfugt við sumarhús
fyrri tíma sem nýttust aðeins í tvo til þrjá heitustu
mánuði ársins. Segir hann umrætt hús vera heils-
árshús. „Góð hús, hvar sem þau eru byggð, auka,
eins og vitað er, verðgildi eignanna í kring. Þetta
hús er byggt eftir sveitarómantík dagsins í dag og
hefur það markmið að falla vel að náttúrunni.“
Vill fá að stækka sumarbústað í Grímsnesi í 496 fermetra
Óánægja með vinnubrögð
sveitarstjórnarinnar
Á SÍÐASTA ári bárust barnavernd-
arnefndum landsins 5.879 tilkynn-
ingar en þær voru 5.555 árið 2004.
Tilkynningum hefur því fjölgað um
5,8% milli ára. Þetta kemur fram á
vefsíðu Barnaverndarstofu.
Alls bárust 73% tilkynninga til
barnaverndarnefnda á höfuðborg-
arsvæðinu en 27% til nefnda á
landsbyggðinni.
Á árinu 2005 var tilkynnt um
5.679 börn en um 4.021 barn árið
2004. Tilkynnt var því um 41,2%
fleiri börn árið 2005 en árið 2004.
Neyðarlínan 112 tekur á móti
barnaverndartilkynningum í um-
boði nefndanna. Alls barst 221 til-
kynning í gegnum Neyðarlínuna
árið 2005. Það er um 3,8% af öllum
tilkynningum.
Ástæður tilkynninga skiptust
þannig að 30,3% voru vegna van-
rækslu, 15,8% vegna ofbeldis, 53,8%
vegna áhættuhegðunar barna og
0,2% vegna þess að heilsu eða líf
ófædds barns var í hættu. Alls var
talið að 164 börn (2,9% allra barna
sem tilkynnt var um) hefðu verið í
yfirvofandi hættu.
Flestar tilkynningar komu frá
lögreglu eða 54,4% allra tilkynn-
inga.
Tilkynnt um mál
41% fleiri barna
á síðasta ári
HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness hef-
ur sýknað karlmann á þrítugsaldri
af ákæru fyrir líkamsárás með því
að hafa ráðist á mann í Sandgerði
og slegið hann með skóhillu í líkam-
ann og nefbrotið hann með hnefa-
höggi. Dómurinn komst hins vegar
að þeirri niðurstöðu að sá sem fyrir
höggunum varð hefði átt upptökin
að átökunum og ákærði hefði verið
að verja hendur sínar.
Ákærði sagði manninn hafa kom-
ið á móti sér í dyragætt og ógnað
sér með hníf samtímis því sem ann-
ar maður hefði nálgast sig aftan
frá. Sagðist ákærði þá hafa orðið
hræddur og gripið upp tréhillu sem
hefði verið á ganginum og slegið
manninn tvisvar í hnéð. Ákærði
sagði manninn enn hafa ógnað sér
með hnífnum og hann hefði því kýlt
hann einu sinni með krepptum
hnefa í andlitið. Héraðsdómur taldi
að þessi árás hefði verið lögmæt og
þar með refsilaus eins og á stóð í
umrætt sinn.
Málið dæmdu héraðsdómararnir
Sveinn Sigurkarlsson sem dóms-
formaður,
Finnbogi H. Alexandersson og
Guðmundur L. Jóhannesson.
Verjandi var Vilhjálmur Þórhalls-
son hrl. og sækjandi Júlíus Kristinn
Magnússon, fulltrúi sýslumannsins í
Keflavík.
Nefbraut mann
í sjálfsvörn
VERULEGA dró út atvinnuleysi
meðal félagsmanna í Verzl-
unarmannafélagi Reykjavíkur á
seinasta ári. Þannig fengu fjórðungi
færri félagsmenn VR greiddar at-
vinnuleysisbætur árið 2005 en á
árinu á undan. Atvinnuleysi sem
hlutfall af fjölda félagsmanna er nú
minna en verið hefur síðustu þrjú ár.
Vísbendingar eru þó um að at-
vinnulausum sé eitthvað að fjölga á
nýjan leik því samkvæmt upplýs-
ingum sem fengust á skrifstofu fé-
lagsins í gær hefur aðeins borið á
fjölgun umsókna um atvinnuleys-
isbætur á seinustu vikum.
Alls fengu 1.969 félagsmenn VR
greiddar atvinnuleysisbætur á síð-
asta ári. Það er rúmlega 650 færri
en árið áður eða 25%. Fækkunin á
milli ára er mun meiri meðal kvenna
en karla, eða 33% á móti 21%. Hlut-
fallslegt atvinnuleysi, þ.e. fjöldi at-
vinnulausra félagsmanna sem hlut-
fall af fjölda félagsmanna, var 3,6% í
fyrra samanborið við 5,3% árið 2004
og 5,7% árið 2003.
Atvinnulausum
í VR fækkaði
mikið milli ára