Morgunblaðið - 21.04.2006, Blaðsíða 41
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 21. APRÍL 2006 41
MINNINGAR
Elsku amma. Ég veit ekki hvernig
lífið verður án þín. Þú hefur alltaf ver-
ið svo stór þáttur í lífi mínu, en ég
verð að læra að sætta mig við það eins
og allir aðrir sem missa kæra ástvini.
Öll mín uppvaxtarár voruð þið afi
hluti af mínu daglega lífi. Ég bjó hjá
ykkur ásamt mömmu fyrstu þrjú ár
ævi minnar og tengdist ykkur sterk-
um tilfinningaböndum. Þú passaðir
mig og sást til þess að ég þyrfti ekki
að fara á leikskólann sem mér var svo
illa við. Í staðinn lögðum við okkur
saman á daginn, litla og stóra kerl-
ingin, ásamt Dísu dúkku. Þegar ég
flutti með mömmu og pabba inn í
Njarðvík var það mjög erfitt fyrir
mig, því ég vildi hafa ykkur öll. Lík-
lega heyrði það til undantekninga
næstu árin ef liðu einhverjir dagar án
þess að við hittumst.
Amma og afi byggðu sér hús í sömu
götu og ég átti heima við í Njarðvík.
Ekki leiddist mér það, þegar ég var
að alast upp, að geta labbað upp götu
til afa og ömmu hvenær sem ég vildi.
Alltaf var jafn gott að koma til þeirra.
Alltaf svo mikill friður og öryggi.
Amma vann ekki utan heimilis og var
alltaf til staðar þegar ég þurfti á henni
að halda. Hún gaf sér alltaf tíma til
þess að ræða málin og talaði við mig
og okkur krakkana eins og fullorðið
fólk. Ég og frændsystkini mín, Bogga
og Arnar, sóttum í hennar félagsskap
og við fengum að gista hjá afa og
ömmu við hin ýmsu tækifæri. Þegar
ég hugsa til baka skil ég ekki þolin-
mæðina sem þau höfðu alltaf. Við
krakkarnir lékum okkur öllum stund-
um á lóðinni hjá þeim, með allt hverfið
með okkur í alls konar boltaleikjum
fram eftir kvöldi á sumrin. Alltaf var
það bara sjálfsagt. Einnig byggðum
við kofa á lóðinni hjá þeim með til-
heyrandi brölti og gauragangi. Amma
bakaði bara pönnukökur handa öllum
skaranum og ég man ekki eftir neinu
nema jákvæðu viðhorfi gagnvart okk-
ur krökkunum.
Fjölbreytt handavinna var ömmu
alla tíð hugleikin. Hún saumaði föt,
saumaði út, prjónaði sokka og vett-
linga á öll barnabörnin. Hún var al-
gjör snillingur í að hekla. Heilu dúk-
arnir duttu út úr höndunum á henni
án nokkurrar fyrirhafnar. Uppskrift-
irnar voru alltaf á sænsku og ég man
þegar ég var að reyna að lesa þær. Ég
skildi hvorki upp né niður. Amma
heklaði líka kjóla á dúkkurnar og þær
voru alltaf jafn fínar í nýju kjólunum
frá henni. Hún vildi endilega kenna
mér að hekla en ég hafði ekki þroska
til að þiggja þá kennslu. Ef ég fengi
annað tækifæri núna mundi ég ekki
láta það fram hjá mér fara.
Amma og afi fluttu aftur í Keflavik
eftir nokkur ár. Amma var ekki með
bílpróf og vildi geta labbað niður í bæ
þegar henni hentaði. Það var of langt
að labba úr Njarðvík fyrir hana enda
orðin fullorðin og ekki alltaf heilsu-
hraust. Þau fluttu á Blikabraut 11 al-
veg við Fjölbrautaskólann. Þegar við
frændsystkinin fórum í þann skóla
var mjög stutt að koma við hjá ömmu
og fá sér að borða. Hún bjó til svo góð-
ar samlokur, steikt brauð með hangi-
kjöti, osti og spældu eggi. Við vorum
að rifja þetta upp við frænkurnar um
daginn og fengum vatn í munninn við
tilhugsunina. Þegar ég var ófrísk
mjög ung, 17 ára gömul, og var ennþá
í skólanum dugði ekki að gefa barns-
hafandi stelpu einhverjar samlokur í
hádeginu. Þá var eldaður alvöru ís-
lenskur matur, kjötbollur, fiskur og
annað sem var hollt og gott. Þegar
strákurinn fæddist var hann hraust-
ur, alltof stór og sterkur, búinn að fá
góða og holla næringu í móðurkviði,
sem amma átti stóran þátt í að útbúa.
Þegar ég byrjaði að búa voru amma
og afi tíðir gestir. Amma sá til þess að
ég eignaðist dúka á borðin bæði hekl-
aða og saumaða. Það þótti bara
ómynd að eiga ekki fallega dúka til
þess að leggja á borð við hátíðleg
tækifæri. Ég átti kringlótt borð til að
byrja með og eitt er víst að dúkarnir
sem hún gaf mér á það borð voru
mjög margir, jóla-, páska- og matar-
dúkar. Ég á þá enn og ætla alltaf að
eiga þá.
Amma fylgdist vel með sænginni
minni þó að ég væri orðin fullorðin og
farin að búa. Ef hún var orðin of þunn
að hennar mati fór hún og keypti fiður
og dún í poka og kom því fyrir í sæng-
inni. Það var bara opnaður saumurinn
og dúni og fiðri hellt ofan í sængina
þangað til hún var orðin þykk og fín.
Að því loknu hristi hún sængina vel og
hraustlega og var ánægð með árang-
urinn. Hún vildi svo sannarlega sjá til
þess að Björkinni hennar eins og hún
kallaði mig yrði alltaf hlýtt á nóttunni.
Hún hafði óbilandi trú á mér og lét
það í ljós í hvert skipti sem við hitt-
umst. Ef maðurinn minn hafði ein-
hverjar efasemdir um ágæti mitt fór
hann bara til ömmu og kom alsæll til
baka eftir nokkrar mínútur. Við vor-
um einmitt að grínast með þetta.
Hvað hann ætti núna að gera í slíkum
tilfellum.
Þegar ég var að verða þrítug fannst
henni ómögulegt að ég ætti ekki
postulínskaffistell. Hún fór í Reykja-
vík og valdi stell sem hún byrjaði að
gefa mér smátt og smátt. Á endand-
um eignaðist ég allt stellið og er langt
komin með að eignast martarstell í
stíl. Mér þykir mjög vænt um stellið,
sérstaklega af því að hún valdi það
handa mér. Þegar nóg var komið af
kaffistellinu til þess að leggja fallega á
borð með fallegum dúk og öllu til-
heyrandi var ömmu og afa að sjálf-
sögðu boðið í kaffi. Hún var mjög stolt
og ánægð og fannst árangurinn afar
góður. Í hvert sinn sem stellið er not-
að er hún alltaf með í huganum.
Amma og afi fylgdust vel með upp-
eldi strákanna minna og við fjölskyld-
an fórum oft í heimsóknir til þeirra og
þau til okkar. Þau voru stór þáttur í
okkar lífi. Leikföngin sem þeir áttu
heima hjá þeim eru enn í sömu skúff-
unni. Fyrir nokkrum dögum náði ég í
þau til þess að leyfa barnabarni mínu
að leika sér með þau. Það var sérstök
upplifun.
Ég kveð þig, amma mín, með mikl-
um söknuði. Þú varst ekki bara amma
heldur góður og traustur vinur. Við
gátum talað um allt sem kom upp á og
ég gat alltaf treyst því að þú gæfir þér
tíma til að ráðleggja og hlusta. Ég
vona að ég beri gæfu til að verða mín-
um barnabörnum eins amma og þú
varst mér. Þú varst fullkomin amma.
Guð blessi þig, amma mín. Nú ertu
komin til afa og verður hraust á ný.
Ég hitti ykkur aftur þegar minn tími
kemur.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn ú heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Björk Árnadóttir.
Gott fordæmi er betra en þúsund
ræður. Þennan málshátt heyrði ég nú
um páskana og varð hugsað til ömmu
Tobbu. Hún trúði á mátt þess að ræða
við börn og innprenta þeim ekki með
hörðu heldur með því að leiða þeim
fyrir sjónir hvað væri rétt og rangt.
Umfram allt trúði hún á gott for-
dæmi. Hún sagði mér sem barni, sem
einatt hékk yfir henni og gat talað við
hana um allt milli himins og jarðar, að
til þess að öðlast fyrsta flokks líf
þyrfti maður að lifa fyrsta flokks líf-
erni. Þegar maður væri reiður út í
einhvern ráðlagði hún mér að skrifa
viðkomandi bréf. Tilgangurinn með
bréfinu var ekki að senda það heldur
að lesa það þegar mér væri að renna
reiðin og ímynda mér að ég hefði ver-
ið að fá það frá öðrum. Ef ég hefði ver-
ið sanngjörn og réttlát fyndist mér
trúlega ekkert athugavert við bréfið
en ef ekki þyrfti ég að líta í eigin
barm. Einnig innprentuðu hún og afi
mér að ef manni líkaði ekki sú stefna
sem líf manns væri að taka ætti mað-
ur einfaldlega að breyta um stefnu.
Ég gæti orðið svo ótrúlega margt, ég
yrði bara að vilja leggja á mig vinnuna
til þess. Ég var vön að stríða henni á
því að hún ætti að heita Hallgrímur
Pétursson. Stærsta gjöfin frá ömmu
hefur reynst vera þessi heilræði sem
og það að reyna að setja mig í spor
annarra og skoða málin frá öllum hlið-
um. Ég held ég hafi gleymt þessum
heilræðum um stund á lífsleiðinni en
er nú farin að reyna að nota þau að
nýju.
Fyrstu minningar mínar um ömmu
eru allar um faðmlög, hvernig hún
þrýsti manni kraftalega að sér og
knúsaði og kyssti. Þegar ég fékk
frekjuköst vegna einhverra boða eða
banna frá henni, sem kom nokkuð oft
fyrir þegar ég var barn, hló hún bara
og faðmaði mig og sagði að bráðum
yrði ég jafn stór og skapið í mér en
orð hennar stóðu samt alltaf. Það var
alltaf yndislegt að koma til þeirra
ömmu og afa. Eftir að ég varð full-
orðin og eignaðist mín börn var alltaf
gott að koma við og fá smá hláturs-
sprautu því einatt var mikið hlegið við
eldhúsborðið og ég á eftir að sakna
kímninnar í afa, sem dó aðeins sex
vikum á undan henni, og hláturs-
kastanna hennar ömmu. Ég vona
bara að mér muni auðnast sú lukka að
lifa lífinu á jafn jákvæðan og ham-
ingjusaman hátt og þau tvö. Nú ætla
ég að taka myndbandsupptöku af
heimilinu þeirra til að geyma mynd
þess eins lengi og hægt er nú þegar
komið er að þessum kaflaskilum.
Verst að ekki er hægt að taka upp
lykt, hlýju og andrúmsloft. Ömmu og
afa vil ég þakka gott veganesti og lofa
að reyna eftir bestu getu að flytja það
með mér á mínu ferðalagi gegnum líf-
ið því aðeins þannig geymi ég hluta af
þeim.
Adda Þorbjörg.
Það hefur verið skammt stórra
högga á milli í fjölskyldu okkar á
þessu ári. Fyrst kveður afi og nú
amma rúmum mánuði síðar. Þau
skilja eftir sig stórt skarð sem seint
verður fyllt.
Tobba amma var svona ekta amma,
eins og ömmur gerast bestar. Hún
var alltaf til staðar fyrir fólkið sitt,
alltaf tilbúin að gefa af tíma sínum og
spjalla við okkur um hvað það sem
okkur lá á hjarta. Aldrei upplifði ég
asa á ömmu, aldrei stress eða að hún
hefði ekki tíma fyrir mig. Heimili
ömmu og afa stóð öllum opið og þar
voru allir velkomnir. Alltaf var mér og
vinkonum mínum sem ég dró með í
heimsókn til ömmu og afa tekið opn-
um örmum og undantekningarlaust
átti amma eitthvað gott í gogginn,
pönnsur, jólaköku eða annað góðgæti.
Heimili hennar var fallegt og ávallt
skínandi hreint, en samt hafði hún
alltaf tíma til að spjalla, elda, baka,
hekla, baka svolítið meira og spjalla.
Skil ekki alveg hvernig hún fór að
þessu, mætti halda að hún hefði haft
tíu álfa í vinnu hjá sér við þrif og snur-
fus. Ég þarf að reyna að ráða þá til
mín, eða taka mér ömmu til fyrir-
myndar í þessum efnum.
Amma og afi tóku mig að sér í
nokkra mánuði, þegar ég var um eins
árs, vegna veikinda mömmu og sú
saga hefur oft verið sögð, sérstaklega
virtist hún vera ofarlega í huga ömmu
hin síðari ár, hvernig ég smá fór að
braggast og lærði að brosa á ný í
þeirra umsjá. Fyrir það verð ég æv-
inlega þakklát og þar var lagður
grunnur að fallegu sambandi sem
aldrei bar skugga á.
Það leyndi sér ekki að amma var
stolt af börnunum sínum og barna-
börnum. Hún sýndi öllu því áhuga
sem hvert okkar var að kljást við á
hverjum tíma og talaði oft um hversu
lánsöm þau afi væru og þakklát fyrir
að eiga svona góðan og heilsteyptan
hóp. En elsku amma, það er ekki ein-
ungis heppni eða tilviljun sem ræður
því, heldur hafið þið sem sterkur og
öruggur bakhjarl spilað stórt hlut-
verk í þeirri þróun.
Amma og afi voru bæði mjög
hlynnt menntun og hvöttu okkur á
þeirri braut. Amma hefði gengið
menntaveginn ef aðstæður hefðu
leyft, það talaði hún oft um, enda átti
hún gott með nám. Eftir að ég valdi
sálfræðina sem fag sagði amma mér
að hún hefði viljað læra eitthvað slíkt.
Ég held þú hefðir orðið fyrirtaks sál-
fræðingur, amma mín, með þitt stóra
hjarta, jákvæðu og hrífandi lund og
hæfileikann til að hlusta án þess að
dæma. Það var gott að tala við þig og
ég fann alltaf að þú hafðir trú á mér
og samþykktir mig eins og ég er. Það
hefur verið mér dýrmætt veganesti.
Mér finnst ég hafa verið að kveðja
ömmu smám saman í nokkur ár en
samt var það reiðarslag þegar hún
kvaddi. Sérstaklega er það erfitt að
horfa á eftir henni yfir móðuna miklu
svo stuttu eftir að afi dó. Það sýnir
kannski best hversu sterk kærleiks-
böndin voru milli afa og ömmu að eftir
að amma fór á Garðvang fór baráttu-
þrek afa þverrandi og það virtist
slokkna á lífsneistanum. Þegar hann
svo kvaddi slokknaði smám saman á
neistanum ömmu megin. En nú ertu
frjáls, elsku amma, úr viðjum veik-
burða líkama og hefur hlotið friðinn,
sameinuð þínum heittelskaða. Ég sé
ykkur fyrir mér gangandi hönd í
hönd, fyrir austan auðvitað, heil og
sæl á ný, eða dansandi við lækjarnið-
inn eins og þið gerðuð forðum.
Það er sárt að þurfa að skilja við þá
sem við elskum og aðeins eitt sem í
mínum huga er huggun harmi gegn,
en það er sú trú að sálin lifi áfram á
æðra tilverustigi og að við munum
sameinast að nýju þegar okkar tími
kemur. Boðskapur páskanna er jú sá
að lífið hafi sigrað dauðann og við
hljótum eilíft líf hjá Guði. Ég kýs að
trúa því.
Ég trúi á Guð, þó titri hjartað veika
og tárin blindi augna minna ljós,
ég trúi, þótt mér trúin finnist reika
og titra líkt og stormi slegin rós,
ég trúi, því að allt er annars farið
og ekkert, sem er mitt, er lengur til,
og lífið sjálft er orðið eins og skarið,
svo ég sé varla handa minna skil.
Ég trúi á Guð. Ég trúði alla stund,
og tár mín hafa drukkið Herrans ljós
og vökvað aftur hjartans liljulund,
svo lifa skyldi þó hin besta rós.
Já, þó mér sífellt svíði dreyrug und,
Skal sál mín óma fram að dauðans ós:
„Ég trúi. Þó mig nísti tár og tregi,
ég trúi’ á Guð og lifi, þó ég deyi.
(M. Joch.)
Guð veri með þér, elsku amma.
Minning þín er ljós sem mun ætíð ylja
og skína skært í hjarta mínu. Takk
fyrir allt.
Erla.
Fleiri minningargreinar um Þor-
björgu Sigfúsdóttur bíða birtingar
og munu birtast í blaðinu næstu
daga. Höfundar eru: Jónína María.