Morgunblaðið - 06.05.2006, Síða 52
52 LAUGARDAGUR 6. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ GuðmundurGuðmundsson
Lúðvíksson fæddist
á Raufarhöfn 9. jan-
úar 1941. Hann lést
á Dalvík 29. apríl
síðastliðinn. For-
eldrar hans voru
Sigurveig Jóhann-
esdóttir húsmóðir, f.
21.2. 1905 á Gras-
hóli í Presthóla-
hreppi, d. 9.1. 1988,
og Magnús Mar-
teinn Lúðvík Ön-
undarson, sjómaður
og bátasmiður, f. 1.8. 1904 í
Kumblavík á Langanesi, d. 10.3.
1995. Systkini Guðmundar voru
Björn, f. 15.1. 1929, kvæntur
Björgu Hrólfsdóttur, Ása, f. 4.11.
1931, gift Einari Guðmundssyni,
Helga, f. 31.7. 1935, gift Guðmundi
Friðrikssyni, og Sigríður, f. 20.8.
1938, gift Guðbirni Yngvarssyni.
Guðmundur eignaðist dótturina
Ölmu Jennýju, f. 13.1. 1959. Móðir
hennar er Katrín Oddsteinsdóttir
húsmóðir, f. 14. desember 1939, en
foreldrar hennar voru Alma Jenný
Sigurðardóttir og Oddsteinn
Gíslason. Alma á soninn Kolbein
Huga, f. 3.4. 1979 með Höskuldi
Má Haraldssyni og soninn Arnald,
f. 28.1. 1993 með fyrrv. eigin-
manni sínum, Sigurði H. Karls-
syni.
Árið 1962 kvæntist Guðmundur
Kristbjörgu Hallsdóttur húsmóð-
ur, f. 13.2. 1943. Foreldrar hennar
voru Kristín Haraldsdóttur og
Hallur Þorsteinsson. Guðmundur
og Kristbjörg eignuðust þrjár dæt-
ur. Þær eru 1) Ása, hársnyrtir, f.
4.12. 1960. Hún eignaðist tvö börn
öndru Perez, f. 11.1. 2002. 2) Berg
Lúðvík, sjávarútvegsfræðing, f.
14.7. 1977. Sambýliskona hans er
Andrea Ásgrímsdóttur. Þau eiga
saman Ásu Bríeti, f. 21.9. 2003, og
Helga, f. 20.6. 2005.
Guðmundur ólst upp á Raufar-
höfn frá 1941. Hann gekk í barna-
og unglingaskólann á Raufarhöfn
til ársins 1955. 15 ára fór hann á
vertíð fyrst suður á nes og síðan til
Vestmannaeyja. Hann settist síðan
að á Raufarhöfn og vann þar ýmis
störf við sjóinn, vann á síldarplön-
um, reri á trillum, vann við báta-
smíðar og var verkstjóri í frysti-
húsinu Jökli h/f á árunum
1964–1973.
Hann reri á grásleppu og
þorskanet í nokkur ár en veiktist
þá í baki og þurfti að hætta sjó-
mannsstörfum um tíma. Hann setti
þá á stofn saumastofuna Úskála og
rak hana á árunum frá 1976–1986.
Á Útskálum unnu þegar flest var
15 starfsmenn og voru aðallega
saumaðar ullarflíkur fyrir Álafoss
og Sambandið. 1986 hætti Guð-
mundur rekstri saumastofunnar
og sneri sér að útgerð og keypti
fyrsta bátinn sinn Ásu Björgu sem
reyndist farsæll bátur. Guðmund-
ur átti marga báta eftir það og var
ávallt fengsæll sjómaður. Síðustu
árin var hann búsettur á Akureyri
og gerði út frá Dalvík. Hann var
einmitt að gera sig kláran á sjóinn
þegar hinsta kallið kom.
Guðmundur sinnti félagsmálum
í mörg ár. Hann var um tíma for-
maður Verkalýðsfélags Raufar-
hafnar, sat í hreppsnefnd og stjórn
frystihússins Jökuls á Raufarhöfn.
Hann bar ávallt sterkar taugar til
Raufarhafnarkirkju og sat í sókn-
arnefnd í fjöldamörg ár. Hann sat
í stjórn Landssambands smábáta-
eigenda á árunum 1996–2006.
Útför Guðmundar verður gerð
frá Raufarhafnarkirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 14.
með fyrrv. eigin-
manni sínum Karli
Ingvasyni, Særúnu
Björgu, f. 25.11.
1985, sambýlismaður
hennar er Jón Óskar
Gunnlaugsson, og Al-
exander, f. 6.11.
1991. 2) Kristín,
stýrimaður, f. 14.5.
1962. Hún á tvær
dætur: A) Ásu
Björgu, f. 22.2. 1980.
Faðir hennar er Árni
Heiðar Árnason. Ása
Björg er gift Ko-
styantin Yakovliev. B) Sylvíu
Mekkín, f. 8.7. 1988. Faðir hennar
er Anton Narvaez. 3) Sigurveig,
flugfreyja, f. 12.6. 1964. Sambýlis-
maður hennar er Önundur Jó-
hannsson. Árið 1971, skildu þau
Guðmundur og Kristbjörg.
Hinn 15. október 1972 kvæntist
Guðmundur Líneyju Helgadóttur,
kennara, f. 22.6. 1949. Hún er dótt-
ir Líneyjar Jóhannesdóttur og
Helga M. Bergssonar. Guðmundur
ættleiddi og gekk í föðurstað dótt-
ur Líneyjar, Helgu Þórdísi, tónlist-
arkennara, f. 24.2. 1969. Eigin-
maður hennar er Ólafur Magnús
Birgisson og eiga þau þrjár dætur,
Líneyju Rögnu, f. 2.4. 1996, Gunn-
laugu Margréti, f. 23.12. 1997, og
Birgittu, f. 6.9. 2003. Ólafur átti
áður soninn Daníel Má, f. 14.1.
1992. Saman áttu Guðmundur og
Líney synina: 1) Friðmund Helga,
sjómann, f. 6.7. 1974. Hann kvænt-
ist Borghildi Freyju Rúnarsdóttur
og eiga þau Guðrúnu Jóhönnu, f.
24.11. 2001. Núverandi sambýlis-
kona Friðmundar er Merrizel Inot
Perez og á hún dótturina Kass-
Faðir minn, Guðmundur Lúðvíks-
son frá Raufarhöfn, varð bráðkvadd-
ur laugardaginn 29. apríl sl.
Með þessum orðum vil ég minnast
ákaflega góðs föður og afa, mikils vin-
ar og ekki síst stórbrotins manns.
Ég var orðin 11 ára gömul þegar
ég hitti hann fyrst. Það var ekki að
vilji stæði ekki til þess að við hitt-
umst, heldur voru aðstæður þannig
að leiðir foreldra minna skildi og ég
ólst upp hjá mömmu og stjúpa mín-
um í Stykkishólmi. Fyrir 40 árum og
rúmlega það voru löng ferðalög miklu
meira mál en þau eru í dag, alla leið til
Raufarhafnar að fara og þá að „hlut-
irnir voru bara svona“.
Ég átti mynd af honum og man
hvað mér þótti hann fallegur og hugs-
aði gjarnan um það hvers konar
mann hann hefði að geyma.
Þegar sá dagur rann upp að við
hittumst var ég óskaplega feimin við
hann en jafnframt forvitin.
Upp frá þeim tíma sem við hitt-
umst fyrst fór ég nokkuð reglulega til
Raufarhafnar og fannst það ævinlega
mikið ævintýr. Strax fyrsta sumarið
mitt fann ég að hér var á ferðinni ák-
flega hlýr og skemmtilegur pabbi.
Systur mínar sem ég var einnig að sjá
fyrsta sinni, Ása, Stína og Sibba,
leiddu mig líka mjög fljótlega í sann-
leika um það að skemmtilegri pabba
væri eflaust hvergi að finna, svo
rammur væri hann. Ég öðlaðist full-
vissu um það strax þetta fyrsta sum-
ar að þær vissu sínu viti. Þarna
kynntist ég einhverjum mesta sagna-
manni sem ég hef kynnst fyrr og síð-
ar. Það voru hátíðlegar stundir á
hverju kvöldi, ef ég man rétt, og mik-
ið tilhlökkunarefni, þegar við vorum
háttaðar og … framan úr eldhúsi fór
að heyrast: „Jæja,“ með þungri
áherslu, „er þá ekki kominn tími á
eina sögu?“ Og hvílíkar sögur – alger-
lega ekta, langar, dró seiminn þegar
við átti, öll smáatriði með og maður
fann að hann var staddur á sögustað
og var að lýsa því sem þar fyrir bar.
Það var annað mjög sterkt ein-
kenni á pabba og þá ekki síst gagn-
vart okkur börnunum hans sem og
barnabörnum að hann fékk mann til
að finnast maður mjög sérstakur og
búa yfir alveg stórmerkilegum eigin-
leikum. Sérstaklega tók maður eftir
því þegar hann var að tala við barna-
börnin að það tognaði ævinlega úr
þeim og þau komu auga á hluti sem
urðu oft í þeirra augum að hreinu
gulli. Við urðum öll svo rík á því að
vera í kringum hann.
Ríkidæmi í huga pabba var náttúr-
an í öllu sínu veldi, samferðafólk og
litróf mannlífsins.
Hann las einhver ósköp og var
mjög fróður um land, lönd og sögu en
merkilegast fannst honum þó mann-
lífið í allri sinni mynd. Það speglaðist
svo undur vel í sögunum hans því
hann hafði yndi af því að segja sögur.
Það sem einkenndi þær var hvað hon-
um virtist þykja smæstu hlutir í lífinu
merkilegir og hvað hann bar mikla
virðingu fyrir söguefni sínu, sem oft-
ar en ekki snerist um fólk og atvik því
tengd. Þær persónur, atburðir og
hlutir sem okkur virðast alla jafna
venjulegir og ekkert sérstaklega eft-
irtektarverðir urðu að hinum mergj-
uðustu sögum og eftir stóð hjá manni
svo mikil virðing fyrir „hinu litla og
smáa“ í daglegu lífi okkar mannanna.
Pabbi hafði mikið yndi af lífinu, var
mikið í pólitík á sínum yngri árum,
sveitarstjórnarmálum, og alls kyns
félagsmálastörfum. Hann naut góðra
bókmennta, var mikill djassáhuga-
maður. Seinna meir þegar hann var
fluttur á Akureyri gekk hann í Fær-
eyingafélagið, Harmonikufélag og fé-
lag djassáhugamanna með meiru.
Hann gegndi trúnaðarstörfum fyr-
ir stjórn smábátaeigenda um alllangt
skeið og svo mætti áfram telja.
Hann hafði svo holla sýn á lífið. Það
var mikið gott að tala við hann um líf-
ið og tilveruna. Ef hún vafðist eitt-
hvað fyrir manni þá var enginn betri
að tala við en hann.
Ég man að einhverju sinni sem
mér fannst óþægilega mikill mótbyr
að ég sagði honum að ég væri orðin
svo þreytt á því að velja mér á köflum
svo erfiðar leiðir í lífinu. Svar hans til
mín var það að ég skyldi ævinlega
muna það að það væru alltof margir
sem veldu sér aldrei neina sérstaka
leið, flytu með straumnum og það
gæti aldrei orðið ávísun á hamingju
til langframa.
Pabbi og Líney, eftirlifandi eigin-
kona hans, voru eitt í mínum huga.
Þau höfðu að mörgu leyti mjög lík
viðhorf til lífsins og voru náin. Þau
áttu saman Helgu, Mumma og
Begga.
Strákunum mínum, Kolbeini Huga
og Arnaldi Smára, þótti svo undur
vænt um afa sinn og líkt og mér þótti
þeim mikið til hans koma og þær
stundir sem við höfum átt með hon-
um gersemar einar. Hann gaf okkur
svo fallegt veganesti út í lífið með við-
horfum sínum og viðmóti. Við mun-
um halda í heiðri minningu hans með
því að tileinka okkur eitthvað af öllu
því góða sem hann gaf okkur.
Heimurinn er fátækari við fráfall
hans.
Alma Guðmundsdóttir.
Elsku besti pabbi minn, nú þegar
þú ert farinn í ferðina löngu sem kom
eins og reiðarslag 29. apríl síðastlið-
inn sit ég hér með sjálfri mér og
hugsa. Þá koma upp svo margar góð-
ar minningar í huga mér um okkar
samverustundir í gegnum tíðina. Þú
varst svo skemmtilegur og góður
karakter og frásagnarlist þín var
engu lík, þú varst alltaf hrókur alls
fagnaðar þar sem þú komst. Þegar ég
var lítil stelpa á Raufarhöfn var alltaf
svo spennandi að bíða eftir sögu-
stundum frá þér á kvöldin og voru
þar tröllasögurnar þínar um Fettir-
ófu, Blátönn og Depilrössu í miklu
uppáhaldi hjá okkur systrum og ekki
vantaði þig hugmyndaflugið í sögurn-
ar. Mín börn voru svo lánsöm að fá að
kynnast þessari frásagnarlist þinni
þegar þú komst í heimsókn suður eða
við til þín norður.
Aðskilnaður okkar þegar ég var 11
ára var mér oft erfiður og ég saknaði
þín oft mikið, en með tímanum lærði
ég að njóta augnablikanna þegar við
hittumst og ég geymi þessi augnablik
í huga mér eins og hin dýrustu djásn.
Eftir að við dæturnar urðum full-
orðnar fannst okkur mikið til þess
koma þegar þú komst suður í heim-
sókn og fórst með okkur út að borða.
Þá sagðir þú alltaf: „Nú halda allir að
ég sé olíufursti með kvennabúrið
mitt,“ og við hlógum. Það var alltaf
stutt í húmorinn hjá þér.
Elsku pabbi, ég er svo þakklát fyr-
ir að hafa fengið að fagna nýju ári
2006 með þér og Líneyju ásamt hluta
af okkur systkinum og barnabörnum
þínum.
Það hafði ég ekki upplifað í 34 ár og
áttum við skemmtilega kvöldstund
saman sem endaði með glæsilegri
danssýningu þér til heiðurs, og ég
sem hafði hugsað mér að geyma hana
þangað til síðar.
Ég bið góðan Guð um styrk okkur
aðstandendum þínum til handa og ég
veit að heimurinn er fátækari við frá-
fall þitt. Þín verður sárt saknað.
Sum ykkar segja: „Í heimi hér er meira af
gleði en sorg, og aðrir segja: „Nei, sorgirnar
eru fleiri.“ En ég segi þér: Sorgin og gleðin
ferðast saman að húsi þínu, og þegar önnur
situr við borð þitt, sefur hin í rúmi þínu.
(Kahlil Gibran.)
Elsku pabbi minn, hvíl þú í friði.
Þín
Ása.
Laugardaginn 29. apríl, snemma
morguns, sat ég um borð í seglskútu í
Tyrklandi og var að ræða um þig við
vini mína, upplýsa þá um þig og þína
hagi. Mér hlýnaði um hjartarætur
þegar ég hugsaði til þess að þegar ég
kæmi heim til Íslands yrði það mitt
fyrsta verk að hringja til þín og bjóða
þér að koma með í siglingu í Tyrk-
landi í sumar.
Ég sá þig fyrir mér, á sjónum, sem
var þinn vettvangur eins og kastali er
fyrir konung, í léttri bómullarskyrtu,
með kaskeiti jafnvel, gleypandi í þig
allt það nýja og framandi sem fyrir
augu myndi bera.
Alsæll, forvitinn um hag fólksins,
opinn, eins og þér var einum lagið.
Þér yrði tekið opnum örmum hvar
sem við færum. Ég hlakkaði mikið til
þessarar viku.
Hugsaði með mér, nú fáum við gott
tækifæri til að vinna upp tapaðan
tíma sem orsakaðist hér áður fyrr af
fjarlægð og seinna meir af tíma-
skorti.
En skjótt skipast veður í lofti.
Þennan sama dag lagði ég upp að
bryggju rétt búin að koma landfest-
um fyrir þegar hringt var og mér til-
kynnt að þú hefðir dáið um morgun-
inn.
Í fyrstu hugsaði ég með mér
hvernig á því stæði að þú hefðir verið
svona ofarlega í huga mér þennan
morgun. Var það tilviljun? Var ég
skyggn? Nei, því fer fjarri. Ég var
bara svo oft að hugsa til þín. Næstum
því daglega, stundum meira, stund-
um minna, oftast með miklum sökn-
uði.
Leiðir okkar skildu fyrir mörgum
árum. Skilnaður sem var okkur báð-
um mjög sár. Lítil hnokka, klædd í
rautt heimaprjónað sjal, á flugvellin-
um á Raufarhöfn. Við kvöddumst og
vissum bæði að þessi kveðjustund var
þung og erfið þótt við reyndum að
láta lítið á því bera. Seinna meir vissi
ég að þessi stund var þér miklu erf-
iðari heldur en nokkurn mann grun-
aði.
Við töluðum um þetta fyrir nokkru
og þá ákváðum við að við yrðum að
bæta okkur þetta einhvern veginn
upp, vinna upp töpuð ár, tapaðan
tíma, kynnast hvort öðru.
Það var nú samt ekki alveg sam-
bandslaust. Ég kom alltaf í heimsókn
á sumrin.
Það var alltaf gott að koma norður,
svo mikil ævintýri. Útilegur, sjóferð-
ir, útivera, svo óendanlega gaman að
vera með þér. Þú varst svo fróður um
umhverfið þitt, með svo næmt auga
fyrir fegurðinni í náttúrunni, varst
ólatur við að miðla öllu því góða sem í
þér bjó, nema sósuuppskriftunum.
Sælkeri í hástert og þegar kom að
sósugerðinni voru allir reknir út úr
eldhúsinu því röðin var komin að sós-
unni og þá gat enginn verið að flækj-
ast fyrir.
Þú ert það mesta náttúrubarn sem
ég þekki. Jarðbundinn og laus við allt
heimsins prjál.Fyrir þig var mikil-
vægt að lifa í sátt og samlyndi við
bæði menn og dýr.Þú hafðir ótrúlegt
jafnaðargeð, varst góður sögumaður,
ég hafði yndi af að hlusta á þig.
Ég sá þig aðeins einu sinni reiðan,
verulega reiðan. Ég var aðeins fimm
ára gömul og ákvað að gera smágagn
og „flikka aðeins upp á“ gamla vöru-
bílinn þinn, með ljósgrænni báta-
málningu sem ég fann inni í bílnum
og málaði ég allt innanstokks í stýr-
ishúsinu og var viss um að þér þætti
þetta flott. En það var nú öðru nær.
Elsku pabbi. Nú er komið að ann-
arri skilnaðarstund í lífi okkar, ekki
síður erfiðri en þeirri fyrstu en þó vit-
andi það að öll eigum við eftir að
kveðja þetta jarðlíf, fyrr eða seinna.
Með það fyrir augum ætla ég að
„græja“ mér heimaprjónað, rautt
sjal, sem ég mun klæðast þegar minn
tími kemur. Við tökum þá upp þráð-
inn þar sem frá var horfið.
Gildi lífsins verður ekki metið eftir
lengd þess heldur hvernig því er lifað.
Ég kveð þig með söknuði.
Þín dóttir
Sigurveig (Sibba).
Nú sárnar það, vinur, hve veik eru hljóð
og vanmáttug orðin á tungu;
en flestum er ofætlun, íslenska þjóð
að eiga að kveða þeim skilnaðar ljóð,
sem lengi’ og svo ljómandi sungu.
Þó nú hafi skuggarnir skeiðið þitt stytt,
þá skína þó ljóðin í heiði;
þau breiða’ yfir næturnar norðurljós sitt
á nafnið þitt kæra, og á ættlandið þitt
og verða þér ljómi’ yfir leiði.
(Þ. Erl.)
Hafðu þökk fyrir allt, elsku bróðir
og mágur.
Ása og Einar.
Horfinn er af sjónarsviðinu vinur
okkar, mágur og svili, Guðmundur
Lúðvíksson frá Raufarhöfn. Hann
varð bráðkvaddur að morgni laugar-
dagsins 29. apríl aðeins sextíu og
fimm ára gamall. Ljúfur maður og
hæglátur, en dugnaðarforkur og
ósérhlífinn. Hann var tilfinningarík-
ur, bókelskur og listfengur. Glettnin
var sjaldan fjarri og hann átti ein-
staklega auðvelt með að sjá hinar
skoplegu hliðar lífsins. Hann hafði
góða frásagnarhæfileika og kunni
býsn af sögum af samferðamönnum
sínum, lífs og liðnum. Hann talaði
kjarnmikið, fallegt mál sem margir
Norður-Þingeyingar hafa enn á valdi
sínu án þess þó að vottaði fyrir nokk-
urri tilgerð í framburði eða orðavali.
Hann var ævinlega kallaður Gvendur
af vinum sínum og fjölskyldu og til
aðgreiningar frá öðrum nöfnum sín-
um á Raufarhöfn var hann kallaður
Gvendur Lúlla.
Sjómennskan var ævistarf Guð-
mundar. Hann var að vísu verkstjóri í
frystihúsinu um tíma og einnig rak
hann saumastofu á Raufarhöfn í
nokkur ár, en sjómennskan blundaði
alltaf í honum og síðustu árin stund-
aði hann sjóinn svo til eingöngu á
trillunni sinni.
Fyrr á árum var Guðmundur ákaf-
lega pólitískur, fylgdi Alþýðubanda-
laginu hart að málum og sat í hrepps-
nefnd Raufarhafnarhrepps fyrir
þann flokk. Hann beitti sér fyrir ýms-
um framfaramálum í þágu sveitarfé-
lagsins og honum sveið ef hann þurfti
að lúta í lægra haldi fyrir pólitískum
andstæðingum. Hann var einlægur
talsmaður þeirra sem minna mega
sín í þjóðfélaginu og varð fljótt heitt í
hamsi þegar rætt var um auðsöfnun,
einkavæðingu og ýmsa aðra fylgi-
fiska hins frjálsa hagkerfis. Um-
hverfismál og verndun hinnar villtu
náttúru voru honum hugleikin og lítil
var hrifning hans á yfirstandandi
virkjunarframkvæmdum. Með árun-
um dofnaði áhugi hans á flokkspóli-
tík, en alla tíð var hann staðfastur
vinstri jafnaðarmaður og hafði óbeit
á þeirri óheftu einkavæðingarstefnu
sem nú er rekin.
Líf Guðmundar var ekki alltaf dans
á rósum. Það skiptust á skin og skúrir
eins og gengur, en hann átti góða fjöl-
skyldu, sem hann unni og sem unni
honum. Heilsan var löskuð þótt fáir
vissu en hann lét það ekki aftra sér í
baráttunni. Hann unni sér sjaldan
hvíldar og var við vinnu sína þegar
kallið kom.
Guðmundur fæddist á Raufarhöfn
og þar var hans heima. Örlögin hög-
uðu því hins vegar svo að þau hjónin,
Líney og hann, fluttu sig til Akureyr-
ar fyrir nokkrum árum og settust þar
að. Hann stundaði hins vegar sjó frá
Dalvík því mun lengra er á mið frá
Akureyri en þaðan. Hann saknaði
hins vegar alltaf Raufarhafnar.
Nú þegar komið er að leiðarlokum
snýr Gvendur Lúlla aftur heim og
mun hvíla í kirkjugarðinum á Rauf-
arhöfn.
Í rúmlega þrjátíu ár höfum við ver-
ið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera
samferðamenn Guðmundar Lúðvíks-
sonar. Þegar horft er til baka eru
þessi ár eins og örskot, en því miður
GUÐMUNDUR G.
LÚÐVÍKSSON