Morgunblaðið - 31.05.2006, Side 14

Morgunblaðið - 31.05.2006, Side 14
14 MIÐVIKUDAGUR 31. MAÍ 2006 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT KRÖFUR um afsögn John Presc- otts, aðstoðarforsætisráðherra Bretlands, verða sífellt háværari, eftir að hann viðurkenndi skömmu fyrir sveitastjórnarkosningarnar 4. maí að hafa haldið framhjá með einkaritara sínum. Til að gera illt verra birtu bresku götublöðin um helgina myndir af Prescott sem sýndu hann leika sér í krokket, þegar hann átti að vera að leysa af Tony Blair forsætisráðherra í fjar- veru hans í Washington. Þessi fjarvera Prescotts frá embættisskyldum sínum er kald- hæðnisleg í ljósi þess að stjórn- málaskýrendur segja að afsögn hans myndi grafa undan stöðu Blairs, sem sjálfur hefur neitað að gefa upp um hvenær hann muni láta af embætti. Þá hefur Prescott verið gagn- rýndur fyrir að halda himinháum launum og ýmsum ráðherrafríð- indum eftir að Blair stokkaði ræki- lega upp í stjórn sinni eftir slæma útreið í sveitastjórnarkosningun- um, þótt ekki sé lengur sérstakt ráðuneyti undir hans stjórn. Þess í stað fer Prescott nú fyrir níu þing- nefndum og leysir Blair af hólmi í fjarveru hans, en hvorugt veitir sérstök fríðindi umfram venjulega þingmenn. Hrekur frá atkvæði kvenna Christine McCafferty, þingkona og samflokksmaður Prescotts, tjáði sig um stöðu hans í gær. Sagði hún að Verkamannaflokk- urinn gæti ekki endurnýjað samband sitt við mikilvæga kjós- endur úr röðum kvenna nema að Prescott yrði refsað fyrir framhjá- haldið með ritaranum. „Ég tel að hann ætti að segja af sér,“ sagði McCafferty í samtali við breska útvarpið, BBC, í gær. Prescott á sér hins vegar enn sína bandamenn og sagði Des Browne, varnarmálaráðherra, að hann væri „ennþá mikilvægur samstarfsmaður“ og að án hans hefði flokkurinn ekki unnið þrenn- ar kosningar í röð. Á hinn bóginn birti dagblaðið Daily Mirror frétt þess efnis að Blair hygðist ræða við Prescott, sem er 68 ára, um framtíð hans næsta sunnudag, eftir að hann snýr til baka úr fríi á Ítalíu. Þá birtist um helgina frétt í breska blaðinu Independent þess efnis að þrír reyndir þingmenn hefðu áhuga á stöðu Prescotts, en það er talið geta komið flokknum til góða að skipa konu í embætti hans. Í samtali við breska útvarpið, BBC, í gær sagði Colin Brown, vinur Prescotts og höfundur ævi- sögu hans, að ekki væri í spilunum að Prescott hætti á undan Blair og að þeir væru tengdir sterkum böndum. Ian Gibson, sem er háttsettur þingmaður stjórnarinnar, var ósammála og sagði helmingslíkur á að Prescott mynda hætta innan viku. Segir Prescott af sér? Vilji fyrir því að kona taki við embætti aðstoðar- forsætisráðherra Bretlands Eftir Baldur Arnarson baldura@mbl.is John Prescott í gær. Reuters BRYNVARÐIR hervagnar og afg- anskir hermenn voru við öllu búnir í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í gær en til óeirða kom í borginni á mánu- dag sem taldar eru hafa kostað fjór- tán manns lífið. Ekki kom hins vegar til frekari átaka og var minna um fólk á götum og torgum borgarinnar en venjulega og virtist útgöngubann, sem stjórnvöld fyrirskipuðu í fyrra- kvöld, skipta þar miklu. Afganska þingið ræddi atburði mánudagsins á fundi í gær og krafðist þess að hinir ábyrgu yrðu handteknir, bæði bandarísku hermennirnir sem voru valdir að tólf bíla árekstrinum sem varð til þess að óeirðirnar brut- ust út, sem og þeir sem gengu ber- serksgang í kjölfarið, rændu og rupl- uðu, kveiktu í bílum og eyðilögðu önnur verðmæti. Sumir óttast að atburðir mánu- dagsins séu til marks um að harðn- andi átök milli talibanahreyfingarinn- ar og Bandaríkjahers í suðurhluta landsins séu að breiðast út; en Banda- ríkjamenn réðust m.a. á vígi talibana í Kandahar-héraði í fyrradag og segja að hátt í fimmtíu hafi fallið þá. Aðrir telja hins vegar að skýring- anna sé að leita í því að reiði kraumi undir niðri meðal Kabúl-búa vegna aðstæðna þeirra, sem lítt hafa batnað síðustu ár þrátt fyrir að alþjóðleg samtök og erlend ríki hafi dælt pen- ingum inn í landið. „Menn höfðu svo miklar væntingar 2002 að það hefði alltaf verið útilokað að uppfylla þær,“ hafði AFP-frétta- stofan eftir Paul Barker, yfirmanni hjálparsamtakanna CARE Inter- national, en höfuðstöðvar CARE voru eyðilagðar í óeirðunum. Um tólf milljörðum Bandaríkja- dala, um 850 milljörðum ísl. króna, hefur skv. blaðinu The Guardian verið beint til Afganistans til þróunarað- stoðar síðustu fjögur árin en meiri- hluti Afgana lifir þó enn án rafmagns og góðs drykkjarvatns. Þá skortir um sjö milljónir manna mat, skv. tölum Sameinuðu þjóðanna, og 53% lands- manna draga fram lífið á minna en einum dollara, 72 krónum, á dag. Á móti kemur að útlendingar í borginni hafa flestir himinhá laun og Afgönum er fullkunnugt um það. Ungmennin eins og byssupúður Aðrir telja reiði mótmælenda á mánudag hins vegar fyrst og síðast beinast gegn þeim hroka sem banda- rískir hermenn hafi sýnt í Kabúl og víðar í landinu. Var tilefni óeirðanna enda tólf bíla árekstur sem banda- rískur hervagn varð valdur að, líkt og áður sagði, en Bandaríkjamenn hafa tileinkað sér aksturslag í Kabúl sem fullyrða má að skapi öðrum í umferð- inni stórhættu. Loks eru margir á því að mótmæl- endur hafi flestir verið ótíndir glæpa- menn, öfl eða einstaklingar sem stjórnist af glæpahneigð. „Mörg ung- mennanna í borginni eru eins og byssupúður – þau þurfa bara eitthvað til að kveikja í þeim og þegar það ger- ist þá springa þau allrækilega,“ sagði Afganinn Bahram Sarwary í samtali við AFP. Vonbrigði Afgana kveikjan að óeirðunum Eftir Davíð Loga Sigurðsson david@mbl.is Reuters Afganskir hermenn á verði í Kabúl.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.