Morgunblaðið - 24.09.2006, Side 6

Morgunblaðið - 24.09.2006, Side 6
6 SUNNUDAGUR 24. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is V ið Guðni Ágústsson og Össur Skarphéðinsson sem erum í nefnd- inni gerum okkur ljóst að afar var- lega verður að fara í allri uppbygg- ingu á Þingvöllum, þessum stað sem er helgur í huga þjóðarinnar,“ segir Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og formaður Þingvallanefndar. Markviss en jafn- framt varfærin og hófstillt uppbygging hefur átt sér stað á Þingvöllum á undanliðnum árum og í ráði er að bæta þar aðstöðu á næstunni. Á meðal þess sem til álita þykir koma er að reisa nýja brú yfir Öxará og er komin fram tillaga í því efni sem Þingvallanefnd vill nú leitast við að kynna fyrir þjóðinni og fá fram viðbrögð við (sjá mynd). Tímamót urðu 2. júlí 2004 þegar heims- minjanefnd UNESCO, Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, samþykkti samhljóða að taka Þjóðgarðinn á Þingvöllum inn á heims- minjaskrá fyrstan íslenskra svæða. Þetta var einkum gert með tilliti til þess sérstaka sögu- lega menningargildis sem Þjóðgarðurinn hefur. Björn Bjarnason segir að langt og strangt ferli hafi búið að baki því að fá fram þessa samþykkt UNESCO. Og nú sé í ráði að nýta þá þekkingu í því skyni að freista þess að fá Þingvelli einnig skráða á heimsminjaskrána sem einstæðar náttúruminjar. Björn Bjarnason segir að á síð- ustu árum hafi augu manna, hér á landi sem er- lendis, opnast fyrir því hversu einstakir Þing- vellir séu í náttúrufræðilegu tilliti. „Ef til vill hefur sýn Íslendinga og viðhorf einkum mótast af þeirri sérstöðu sem Þingvellir njóta í sögu ís- lensku þjóðarinnar. Nú sýnist mér að breyting sé að verða þar á,“ segir nefndarformaðurinn. Hann kveður það sérstakt viðfangsefni að kynna Þingvelli sem einstakar náttúruminjar og nefndarmenn hafi mikinn áhuga á því að það starf verði hafið gagnvart UNESCO. Ferlið er sem fyrr segir nokkuð langt en fyrsta skrefið er fólgið í því að ríkisstjórn Íslands setji Þingvelli á skrá þá yfir verðugar heimsminjar sem hún leggur fyrir heimsminjanefnd UNESCO. Mál þetta verður nú tekið upp við íslensku heims- minjanefndina sem starfrækt er samkvæmt reglum UNESCO. Sérstaða Þingvallavatns Björn vísar sérstaklega til Þingvallavatns sem hann segir algjörlega einstakt náttúru- fyrirbrigði. Vatnið sé talið eitt það fengsælasta í Evrópu og þar sé að finna merkan urriðastofn sem einn nefndarmanna, Össur Skarphéðinsson alþingismaður, sé sérfróður um. „Þessi stofn er alveg einstakur. Hann er talinn hafa lokast inni í Þingvallavatni fyrir um 10.000 árum og er óvenju stórvaxinn. Eitt af verkefnum Þingvalla- nefndar hefur verið að móta stefnu varðandi uppbyggingu urriðastofnsins en á tímabili var talið að hann myndi jafnvel deyja út. Það verk hefur skilað tilætluðum árangri. Stofninn er nú á mikilli uppleið og það er mun meira af urriða í vatninu en áður,“ segir Björn. Þá hafa rann- sóknir Jóhannesar Sturlaugssonar fiskifræð- ings á vegum nefndarinnar varpað nýju ljósi á lífshætti tegundarinnar. Þannig hefur t.a.m. komið fram að urriðinn sem talinn var halda sig einkum í efstu lögum vatnsins tekur á stundum fyrirvaralausar rokur niður á mikið dýpi, allt að 100 metrum. Í vatninu er og að finna sérstakan stofn smávaxinnar bleikju og Þingvallamurtuna þekkja vísast flestir. Groddalegar veiðiaðferðir Björn segir að Þingvallanefnd hafi á hinn bóginn áhyggjur af ýmsum veiðiaðferðum gagn- vart stórurriðanum sem ábendingar hafi borist um. „Menn fara um vatnið á bátum með ná- kvæm fiskileitartæki og leita uppi stóra urriða. Þeir egna síðan fyrir hann með groddalegum beitum, sem minna munu einna helst á útlendar geddubeitur með mörgum þríkrækjum og húkka hann jafnvel upp úr vatninu. Þetta er ekki forsvaranlegur veiðiskapur og við hyggj- umst taka upp viðræður við veiðifélagið í sveit- inni um að slíkur veiðiskapur verði bannaður. Aðferðir sem þessar geta fljótt gengið nærri urriðanum og eyðilagt það vel heppnaða upp- byggingarstarf sem við erum að vinna,“ segir Björn. Þingvallanefnd ráði ekki yfir vatninu, um það sé sérstakt veiðifélag. „Þingvallanefnd hefur hins vegar ýtt undir veiðiskap ungs fólks í vatn- inu með því að bjóða því ókeypis veiði, sem líf- eyrisþegum stendur einnig til boða. Við höfum einnig tekið upp samstarf við aðstandendur Veiðikortsins svonefnda þannig að handahafar þess geta nú veitt ótakmarkað í Þingvallavatni,“ segir Björn og nefnir einnig uppbyggingu á að- stöðu í Vatnskoti þar sem fatlaðir geta nú ásamt öðrum stundað veiði. Björn segir mikið í húfi að vernda lífríki þessa einstæða og fengsæla vatns auk þeirra fiskteg- unda, sem hann hafi nefnt, beri einnig að líta til kuðungableikju í Ólafsdrætti norðan Arnarfells, en stofn hennar sé talinn aðeins 22 tonn. Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor í Kaupmannahöfn, hafi vakið athygli sína og ann- arra á því, að aukin umferð bíla á veginum rétt ofan við Ólafsdrátt eftir nýja vegagerð yfir Lyngdalsheiði gæti stefnt framtíð kuð- ungableikjunnar í hættu. „Þingvallanefnd hefur lýst skoðun sinni á hinum væntanlega nýja vegi, ljóst er að þungaflutningar verða aldrei um þjóðgarðinn og þar verður hraði ávallt takmark- aður. Ég er þeirrar skoðunar að leggja eigi nýja veginn enn sunnar yfir heiðina en fyrirhugað er og beina umferðinni suður fyrir Þingvallavatn, það stytti í senn leiðina til Reykjavíkur, dragi úr umferð um þjóðgarðinn og hættu á að lífríki vatnsins raskist. Þá er sá hluti vatnsins, sem er innan þjóðgarðsins á heimsminjaskránni – eitt þriggja vatna í heiminum – hin eru Bækalvatn í Síberíu og Malavívatn í Afríku.“ Sama ár og Þjóðgarðurinn var tekinn á heimsminjaskrá UNESCO gengu í gildi ný lög um hann. Við þá breytingu fimmfaldaðist hann því sem næst að stærð og mælist nú 237 ferkíló- metrar. Sama ár var birt stefnumörkun Þing- vallanefndar varðandi Þjóðgarðinn sem nær allt til ársins 2024. Tenging við íslenska og erlenda sögustaði Auk þess að fá Þingvelli viðurkennda sem einstakt svæði í náttúrfræðilegu tilliti kveður Björn nefndina hafa áhuga á að staðurinn teng- ist heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem einn fornra þingstaða. „Þá erum við að hugsa um þingstaðinn á eyjunni Mön og þingstaðinn að Gulaþingi í Noregi. Í sumar fóru þeir Össur Skarphéðinsson og Sigurður K. Oddsson þjóð- garðsvörður á fund Norðmanna til að ræða m.a. hugmynd þessa og verður unnið áfram að henni. Þeir sem reka heimsminjaskrána eru áhuga- samir um slíkar tengingar staða í huga nútíma- mannsins til að menn átti sig betur á heims- myndinni í sögulegu ljósi – í fljótu bragði liggur ekki í augum uppi að tenging sé milli Gulaþings, Manar og Þingvalla. Þar sem Þingvellir hafa nú þegar öðlast þennan sess á heimsminjaskránni gætu þeir orðið eins konar „flaggskip“ og þann- ig greitt fyrir því að fleiri fornir þingstaðir fái slíka viðurkenningu,“ segir Björn. Þingvallanefnd hefur einnig rætt tengingu Þingvalla við aðra sögustaði í nágrenninu og hvaða tækifæri kunni að felast í að rækta slík tengsl. Er þá einkum horft til Skálholts og Reykholts. Björn nefnir að þarna sýnist honum blasa við augljósir og stórbrotnir kostir á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Öll aðstaða í Reykholti sé til fyrirmyndar og þar starfi Snorrastofa af miklum krafti, en sveitarstjórn Borgarbyggðar kaus Björn nýlega til setu í stjórn hennar. Nú séu uppi áform að bæta alla aðstöðu fyrir ferðamenn í Skálholti og nefnir formaðurinn að til gæti orðið eins konar „sögu- legur þríhyrningur“ þangað sem ferðamenn og aðrir þeir sem áhuga hafa á efninu gætu sótt sér fróðleik um þessa merku staði og tengda í sögu þjóðarinnar; sagnahefðina í Reykholti, stjórn- arhætti á Þingvöllum og kirkjuna í Skálholti. „Og þegar horft er til Þingvalla sem nátt- úruundurs mætti ímynda sér sérstakar teng- ingar við Gullfoss og Geysi þannig að fróðleik um náttúru og jarðfræði þessara staða yrði miðlað til almennings með heildstæðum og markvissum hætti.“ Ný brú yfir Öxará? Uppbygging á Þingvöllum hefur verið af ýmsum toga á síðustu árum. Fræðslumiðstöð var reist á Hakinu og er í ráði að stækka hana og bæta aðstöðu alla til sýninga, fyrirlestra- halds og sölustarfsemi. Stígar hafa verið lagðir um vellina og eldri endurbættir. Þá var í sumar komið upp upplýsingaskiltum eftir Gylfa Gísla- son myndlistarmann á nokkrum merkustu sögustöðum Þingvalla, við Lögberg, Drekking- arhyl og víðar, þar sem margvíslegum sögu- legum fróðleik er miðlað. Að auki eru í fyrsta skipti hafnar á Þingvöllum vísindalegar forn- leifarannsóknir á vegum Fornleifastofnunar Ís- lands sem sýnast ætla að skila athyglisverðum niðurstöðum og gætu orðið til þess að breyta ýmsu varðandi hefðbundna sýn Íslendinga til þessa merka sögustaðar. Auðveldara er því nú en áður að fara um Þjóðgarðinn en miklu skiptir í þessu viðfangi að með þessu móti er viðkvæmri náttúrunni hlíft. Víða mátti áður sjá að ágangur var tekinn að spilla umhverfi nokkurra þekktustu kennileita Þingvalla. Björn kveður Þingvallanefnd umhug- að um að hvergi verði slakað á í þessu efni enda stefnir nú í að um 200.000 manns komi í fræðslumiðstöðina á Hakinu á þessu ári. Áhug- inn á Þingvöllum fer vaxandi. Í tengslum við skráningu Þjóðgarðsins á heimsminjaskrána var bent á að brúin yfir Öx- ará er orðin gömul. Fyrir liggur hugmynd að nýrri brú eftir Manfreð Vilhjálmsson arkitekt (sjá mynd og texta). Þingvallanefnd hefur nú ákveðið að hefja eins konar „grenndarkynn- ingu“ á hugmynd þessari til að kanna hvern hug þjóðin ber til hennar, hvort almenningur er hlynntur því að ný brú rísi eða hvort krafan er afdráttarlaust sú að engin breyting verði þar gerð á. „Við höfum engan hug á að taka einhliða ákvörðun um þessa brúarsmíði. Við viljum fá fram viðbrögð almennings. Vilji þjóðin t.a.m. af- dráttarlaust halda í gömlu brúna hyggst Þing- vallanefnd ekki ganga á svig við þá skoðun. Myndir og upplýsingar um tillöguna að nýrri brú verða settar inn á vefsíðu Þingvallanefndar, thingvellir.is, og mun almenningi gefast tæki- færi til að tjá sig um tillöguna á vefsíðunni,“ seg- ir Björn. Hann bætir við að ljóst sé að gera þurfi end- urbætur á gömlu brúnni komi fram eindregin andstaða þjóðarinnar við að ný rísi yfir Öxará. „Verndun Þingvalla er mér afar hugstæð. Allt það sem gert er á Þingvöllum er ákaflega við- kvæmt. Þar má engu breyta nema að vel yf- irlögðu ráði, gamla brúin er eitt af kennileitum Þingvalla og við viljum ekki að hún hverfi án þess að fólkið í landinu fái tækifæri til að velta því fyrir sér.“ Björn upplýsir að komi ekki fram sterk og eindregin andmæli gætu framkvæmdir við nýja brú ef til vill hafist næsta vor. Tíminn sé því næg- ur og mönnum muni gefast nokkrar vikur til að kynna sér tillöguna og tjá sig um hana, kjósi þeir svo. „Jafnframt er þetta ákveðin tilraun af hálfu nefndarinnar til að vekja umræðu um málefni Þingvalla og vonandi sýnir fólkið í landinu málinu áhuga,“ segir Björn Bjarnason að lokum. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra og for- maður Þingvallanefndar, seg- ir ljóst að afar varlega verði að fara í öllu er lýtur að upp- byggingu og breytingum á Þingvöllum. Nefndin kynnir nú tillögu að nýrri brú yfir Öxará og jafnframt eru uppi hugmyndir um að Þingvellir verði teknir á skrá SÞ yfir einstæðar náttúruminjar. Morgunblaðið/ÞÖK Verndun Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og formaður Þingvallanefndar, leggur áherslu á að varlega verði farið í öllum breytingum og uppbyggingu á Þingvöllum. Morgunblaðið/Golli Kennileiti Verði niðurstaðan sú að brúin yfir Öxará skuli áfram standa er ljóst að á henni þarf að gera endurbætur. „Verndun Þingvalla er mér afar hugstæð“ Ný brú Tillaga Manfreðs Vilhjálmssonar arkitekts að nýrri brú yf- ir Öxará sem Þingvallanefnd vill nú kynna fyrir þjóðinni.

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.