Morgunblaðið - 24.09.2006, Blaðsíða 39
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. SEPTEMBER 2006 39
trúarhreyfing kristinna manna var ekki tengd eina
stórveldi jarðar í hugum múslíma.
Með dómgreindarlausri tilvitnun sinni hættir
Benedikt páfi nú á það að þessi vandlega skilgreindi
greinarmunur verði óljós og þurrkist jafnvel út. Ali
Khameini erkiklerkur, æðsti leiðtogi Írans, sem
hefur nokkur áhrif meðal þeirra 230 milljóna sjíta-
múslíma, sem eru í heiminum, greip ummæli páfa á
lofti. Hann hélt því fram að þau væru nýjasta skref-
ið í „krossferðinni gegn íslam“, sem Bush hefði
hrundið af stað.
Slíkar ásakanir munu því miður virðast allt of
trúverðugar í hugum margra múslíma vegna ferils
páfa. Annars vegar er hann ákafur talsmaður þeirr-
ar skoðunar að Evrópa sé að upplagi í grundvall-
aratriðum kristin. Árið 2004, á meðan hann var enn
kardináli, lýsti hann yfir því að ekki ætti að hleypa
Tyrklandi í Evrópusambandið. Hins vegar hefur
hann eftir að hann varð páfi ítrekað gefið til kynna
að hann hafnaði skilyrðislausum samræðum [trúar-
bragðanna], sem forveri hans var hlynntur.“
Í vikuritinu Der Spiegel er því haldið fram að
Benedikt páfi hafi aldrei verið sáttur við afstöðu
forvera síns til íslams. „Benedikt XVI. fordæmdi
jihad og sagði guðlaust og sennilega hefur hann
þess vegna aldrei tekið undir samræðuvilja forvera
síns af heilum hug. Jóhannes Páll II. átti ekki í
vandræðum með að stíga inn í mosku.
Í fyrstu Afríkuferð sinni talaði Jóhannes Páll II. í
Naíróbí um „sameiginleg gildi“ katólsku og íslams.
Hvor tveggja trúarbrögðin tilbæðu „lifandi, náð-
ugan og almáttugan skapara himins og jarðar“,
bænir, gjafir, ölmusa og fasta gegndu lykilhlutverki
í hvorum tveggja.
Fyrir nokkurn veginn 20 árum, í október 1986,
bauð Karol Vojtyla fulltrúum trúarbragða heimsins
til fundar í Assisí. Þangað komu síkar, rabbínar og
zaraþústratrúarmenn, sem sátu við heilagan eld,
Dalai Lama kom ásamt súnnítum og sjítum og
baháíum og meira að segja erkibiskupinn og bók-
stafstrúarmaðurinn Marcel Lefebvre sást dreifa
flugritum. Þarna var samankominn hópur 200
trúarleiðtoga, sem áttu að „vera saman og biðja“
fyrir friði í heiminum að ósk þáverandi páfa.
Í hugum bókstafstrúarmannanna í Páfagarði var
þessi „andi frá Assisí“ upphafið að endinum, innreið
afstæðishyggju, sem öllu sýndi skilning, í „una
sancta et catholica“ [hið heilaga og katólska].
„Þetta getur ekki verið fyrirmynd,“ sagði Joseph
Ratzinger kardináli þá.“
Lítið hefur farið fyrir anda samræðunnar í sam-
skiptum íslams og kristni í aldanna rás. Upphaf
trúarbragðanna má raunar rekja að sama brunni
og það sama á við um gyðingdóm. Útþensla íslams
hófst á sjöundu öld og náði út fyrir Arabíuskagann
eftir að Múhameð spámaður dó árið 632. Sókn
múslíma inn í Evrópu var ekki stöðvuð fyrr en þeir
voru komnir að Tours og Poitiers. Þegar komið var
fram á miðja áttundu öld náði íslam frá Pakistan til
norðurhluta Spánar. Í veldi íslams blómstruðu listir
og vísindi og var lagður grunnur að stærðfræði,
stjörnufræði og efnafræði. Rekin voru opinber
sjúkrahús og skólar. Blómaskeið íslams er talið ná
frá 11. til 13. aldar. Áhersla var lögð á landvinninga,
en innan veldisins var boðað umburðarlyndi í garð
gyðinga og kristinna manna, þótt tilvera þeirra
væri háð ýmsum skilyrðum og máttu þeir til dæmis
hvorki bera vopn né ríða hestum.
Áhrifamáttur orðsins
Í lok 11. aldar sker Úrban páfi II. upp herör gegn
múslímum og hvetur til þess að helgustu stöðum
kristindóms verði náð úr höndum múslíma. Kross-
ferðirnar hefjast og standa fram á 15. öld. Krossför-
unum er heitið stríðsgóssi og aflausn synda. Talið
er að gróflega áætlað hafi fimm milljónir múslíma,
gyðinga og kristinna manna fallið á meðan kross-
ferðirnar stóðu sem hæst á milli 1096 og 1291.
Í hugum vestrænna manna eru krossferðirnar
sagnfræði, en meðal múslíma vekur blóðbað kross-
ferðanna enn heitar tilfinningar. „Þær hurfu aldrei
úr sögulegu minni múslíma,“ segir í fréttaskýringu
Der Spiegel. „Í hugum margra er þar að finna ræt-
ur hins heilaga stríðs gegn vestrinu, íslamistar tala
nú líka um krossfara, sem að nýju vilji leggja undir
sig Austurlönd nær og að bandamenn þeirra, síon-
istarnir, hafi hernumið helga staði. Þessi heimshluti
átti aldrei eftir að jafna sig af lostinu eftir þetta
blóðbað ofbeldis. Allir árekstrar milli tilfinninga-
lega bældra múslíma og Vesturlandabúa, sem sér-
staklega eftir lok kalda stríðsins líta á sig sem sig-
urvegara mannkynssögunnar, verða því æ líklegri
til að nálgast allsherjarátök. Páfinn hefði átt að vita
betur.“
Ástæðan fyrir því að tilvitnunin, sem hann not-
aði, er svo eldfim er að hún er dæmigerð fyrir það
hvernig kristnir menn hafa talað um íslam og músl-
ímar um kristindóm. Hún færir mönnum heim
sanninn um það að ekkert hafi í raun breyst. Sagn-
fræðingurinn Andrew Wheatcroft hefur skrifað
bókina „Heiðingjar“ (Infidels) þar sem hann rekur
sögu átaka kristindóms og íslams. Í formála bók-
arinnar veltir hann fyrir sér áhrifamætti orðanna.
„Þegar Úrban II. páfi stóð fyrir utan dómkirkjuna í
Clermont árið 1095 og skoraði á kristna menn að
bjarga Jerúsalem, hafði hann ekki „krossferðirnar“
í huga,“ skrifar hann. „Hann varpaði fram hug-
mynd og treysti á guðlega forsjá. En Úrban hafði
enga stjórn á áhrifum orða sinna. Þau bergmáluðu
og endurvörpuðust í margar aldir, löngu eftir að
hann var allur.“
Rauður þráður í bók Wheatcrofts er hið illa um-
tal kristinna manna og múslíma hvorra í garð ann-
arra. Þar hafi kristnir menn haft forskot, en nú sé
dæmið að snúast við og í þeim efnum snúist allt um
tímasetningu. „Á 21. öldinni deila vestur og austur
mörgum af sömu vörunum og gæðunum, sérstak-
lega útvarpi, sjónvarpi, bíómyndum og Netinu, sem
og bókum, tímaritum og dagblöðum,“ skrifar hann.
„En notkun þeirra hófst ekki á sama tíma. það var
munur á, sem var í því fólginn að í vestrinu þróuð-
ust nýjar leiðir samskipta og í austrinu voru þær
teknar upp síðar. Fjórar aldir liðu áður en ímyndir
og hið prentaða orð varð jafn algengt í hinu músl-
ímskra austri og í vestrinu. Þegar kvikmyndir, út-
varp og sjónvarp komu til sögunnar liðu nokkrir
áratugir á milli, en aðeins munaði fimm árum þegar
Netið hóf göngu sína. Hin langa töf, sem varð á því
að prentbyltingin yrði viðurkennd hafði miklar af-
leiðingar,“ skrifar hann og bætir við síðar: „Í þess-
ari bók eru færð rök að því að bæði kristnir heið-
ingjar og íslamskir heiðingjar hafi verið fullir
tortryggni hvorir í garð annarra í aldanna rás. Þeir
hafa bölvað og skammast hvorir út í aðra eins og
búast mátti við. Hið illa umtal hefur hins vegar ekki
verið af alveg sama toga. Eftir að prentverkið var
fundið upp og notkun mynda varð útbreidd hefur
hið illa umtal í vestrinu verið áhrifaríkara og út-
breiddara. En nú hefur austrið lært sína lexíu. „Ísl-
am“ notar nú prentverkið og sjónræna og elektrón-
íska fjölmiðla af sömu hæfni og fágun og vestrið og
hefur einnig áttað sig á því hvernig hin nýja tækni
getur borið illt umtal austursins lengra og með
meiri árangri en penni skrifarans.“
Wheatcroft hefur mikið til síns máls og próf-
steinninn á það hvert framhaldið verður er hvernig
þeir, sem ráða yfir þeim miðlum, að því leyti sem
hægt er að tala um yfirráð, fara með vald sitt. Munu
þeir beita fjölmiðlunum til þess að ala á sundrungu
og tortryggni eða til þess að ýta undir samræður,
skilning og nálgun kristinna manna og múslíma. Í
raun má segja að með því að vitna aðeins í hin
klaufalegu ummæli Benedikts páfa án þess að setja
þau í samhengi hafi allir fjölmiðlar – og þar er ekki
hægt að undanskilja þá vestrænu – dottið í þá
gryfju að ala á tortryggni á röngum forsendum.
Orð geta haft tilætluð áhrif og þau geta haft
þveröfug áhrif á við það, sem ætlað var.
Klerkurinn Omar al-Bakri í Líbanon er
einn af fylgismönnum Osama bin Ladens. Í
Der Spiegel er sagt frá prédikun hans í
Trípolí um ummæli páfa. Al-Bakri sagði að
páfi hefði haft bæði rétt og rangt fyrir sér.
Rangt sé það sem páfi hafi sagt um spá-
manninn, „hvort sem um hafi verið að ræða
tilvitnun eða hans meiningu eða hvaðeina“.
Rétt sé hins vegar að í trúmálum sé engin
kvöð. „Múslímar ganga ekki fram eins og
trúboðar kristninnar, sem segja takið okk-
ar trú eða við drepum þig!“ Í Kóraninum sé
ekki fjallað um það af ástríðu, einu gildi
hvort heiðingjarnir vilji vera áfram trúlaus-
ir og fara til heljar. Enginn ágreiningur sé
hins vegar um það um hvað jihad snúist og
þar sé um að ræða kvöð: „Kvöðin er sú að
knýja fram að íslam verði pólitísk skipan
með þeim hætti sem herir íslams lögðu
undir sig hluta rómverska og persneska
ríkisins,“ sagði hann og bætti við að því
markmiði yrði náð með sverðinu, en ekki
huganum. Hann sagði að páfinn hefði einn-
ig rétt fyrir sér um annað, kannski óafvit-
andi. Benedikt XVI. hefði látið í ljósi fyr-
irvara sína á samræðunni milli
trúarbragða: „Það gerum við líka: Við for-
dæmum þessa samræðu ... Okkur þykir lít-
ið til þessarar samræðu koma vegna þess
að eins og við vitum eru kristindómur okk-
ar tíma og gyðingdómur okkar tíma ekkert
annað en brenglaðar myndir hins eilífa,
guðdómlega sannleika.“
Hér er á ferð málsvari öfganna og orð
hans endurspegla vissulega ekki skoðanir
milljóna múslíma fremur en orð kristinna
bókstafstrúarmanna eru dæmigerð fyrir
viðhorf kristinna manna. Það sást hins veg-
ar í fárinu, sem varð vegna dönsku skop-
myndanna að þegar fárviðrið hefst er hætt
við því að raddir hófsemi hljóðni og verði
þaggaðar niður á meðan málsvarar öfg-
anna leggja undir sig sviðið. Þar liggur
hættan.
»Hér er á ferð málsvari öfganna og orð hans endurspeglavissulega ekki skoðanir milljóna múslíma fremur en orð
kristinna bókstafstrúarmanna eru dæmigerð fyrir viðhorf krist-
inna manna. Það sást hins vegar í fárinu, sem varð vegna
dönsku skopmyndanna, að þegar fárviðrið hefst er hætt við því
að raddir hófsemi hljóðni og verði þaggaðar niður á meðan mál-
svarar öfganna leggja undir sig sviðið. Þar liggur hættan.
rbréf
Reuters
Mótmæli Palestínskir múslímar söfnuðust saman á föstudag eftir bænastund í Al Aqsa í Jerúsalem og mótmæltu ummælum Benedikts páfa. Á blaðinu stendur: „Það sem þú sagðir er ekki fyrir víst.“