Morgunblaðið - 24.09.2006, Blaðsíða 12
12 SUNNUDAGUR 24. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
F
á máltæki eru íslensku
þjóðinni tamari en
„heima er best“ og
„vinnan göfgar mann-
inn“. Þau eru í eðli sínu
mótsögn. „Heima er best“ vísar til
þess að flesta dreymir um fjöl-
skyldulíf og fallegt heimili. „Vinnan
göfgar manninn“ er aftur á móti stað-
festing á dugnaði og sjálfsbjarg-
arviðleitni þjóðar sem um aldir hefur
boðið höfuðskepnunum byrginn.
Sjaldan eða aldrei hefur tog-
streitan milli þessara tveggja póla,
vinnu og heimilis, verið meiri á Ís-
landi. Það er gömul saga og ný að
heimilisfeður vinni myrkranna á milli.
Þeir voru um langt skeið yfirleitt eina
fyrirvinnan og tekjuöflunin hvíldi á
þeirra herðum. Hlutverk heim-
ilismóðurinnar hefur aftur á móti tek-
ið miklum breytingum á umliðnum
áratugum. Fram eftir síðustu öld
voru þær upp til hópa heimavinnandi
en í dag er atvinnuþátttaka íslenskra
kvenna með því mesta sem um getur í
heiminum og í langflestum nútíma-
fjölskyldum eru báðir foreldrar virkir
á vinnumarkaði.
Það má heldur ekki gleyma því að
hlutfall barna sem alast upp hjá ein-
stæðu foreldri hefur hækkað á und-
anförnum áratugum.
Samkvæmt tölum frá 2004 er at-
vinnuþátttaka karla á höfuðborg-
arsvæðinu 84% og kvenna 77%.
Vinnutíminn er líka langur í al-
þjóðlegu ljósi, 46 tímar á viku hjá
körlum og 36 tímar hjá konum.
Önnur breyting er sú að dregið
hefur úr mikilvægi þess að eignast af-
kvæmi. Um langt skeið hefur það ver-
ið svo að hér á landi fæðast fleiri börn
á hverja konu en í nágrannalönd-
unum, auk þess sem íslenskar mæður
eru að jafnaði yngri þegar þær eiga
sín börn. Á undanförnum árum hefur
á hinn bóginn dregið saman með Ís-
landi og samanburðarlöndunum.
Barneignartíðni hefur lækkað ört og
meðalaldur mæðra sem eru að eiga
sitt fyrsta barn hefur hækkað.
Enginn til að sjóða ýsuna
Leiða má að því líkur að þessi þró-
un sé m.a. afleiðing af aukinni þátt-
töku kvenna á vinnumarkaði. Þær
eru ekki lengur heima til að hlúa að
börnum og búi og þar af leiðandi eru
forsendur fyrir barneignum breyttar.
Af þeim sökum eignast hjón að með-
altali færri börn en áður.
Foreldrar hafa líka minni tíma fyr-
ir börn sín og heimili. Þegar báðir að-
ilar snúa heim eftir langan og strang-
an vinnudag getur heimilishald á
köflum virkað íþyngjandi. Getur ver-
ið að síðustu kraftarnir séu oftar en
ekki nýttir til að elda matinn og taka
til frekar en að verja tíma með börn-
unum?
Það er af sem áður var. Íslensk
börn hafa raunar vanist því gegnum
áratugina að sjá lítið af feðrum sínum
vegna vinnu en aðgengi þeirra að
mömmu og e.t.v. ömmu var löngum
gott. Tekið var á móti þeim með soð-
inni ýsu eða nýsteiktum kleinum þeg-
ar þau komu heim úr skólanum. Í dag
halda börn ýmist rakleitt í dagvistun
eða þau koma að tómu heimili. Hug-
takið „lyklabarn“ hefur fyrir margt
löngu rutt sér til rúms. Hvað taka þau
þá til bragðs? Leita líklega til vina og
kunningja ellegar láta sjónvarpið eða
tölvuna stytta sér stundir.
Á móti þessari skerðingu á sam-
verustundum fjölskyldunnar kemur
að veraldlegt ríkidæmi hefur ekki í
annan tíma verið meira, gildir þá einu
hvort horft er til heimilanna eða sam-
félagsins í heild.
Höfum það mjög gott
Við þá staðreynd staldrar umboðs-
maður barna, Ingibjörg Rafnar.
„Efnahagslegar aðstæður hér á landi
eru með því besta sem gerist í heim-
inum. Í því tilliti hafa íslensk börn
aldrei haft það betra,“ segir hún. „Við
búum við góða leikskóla og öflugt
grunnskólakerfi. Heilsugæsla er
óvíða betri í heiminum og ung-
barnadauði hvergi minni. Þjónusta
við börn er á mjög háu stigi. Að því
leyti er Ísland án efa barnvænt sam-
félag. Það væri vanþakklæti að halda
öðru fram.“
Ingibjörg segir velmegunina blasa
við. „Það var hérna fundur umboðs-
manna barna á Norðurlöndunum í
sumar og kollegar mínir höfðu orð á
því hvað velmegunin virtist mikil. Það
kom þeim á óvart hvað við höfum það
gott.“
Ingibjörg telur eigi að síður brýnt
að efnishyggjan fari ekki úr böndum.
„Menn vilja eignast allt og það helst í
gær. Ég ætla svo sem ekki að setja
mig á háan hest, ég hef tekið þátt í
þessari efnishyggju eins og aðrir. Ég
er samt ekki frá því að kynslóðin sem
nú er að koma út á vinnumarkaðinn
sé meira efnishyggjufólk en mín kyn-
slóð. En hver ber ábyrgð á því? Við.
Þannig að við þurfum að líta í eigin
barm, hvert og eitt.“
Meiri virðing og tillitssemi
Efnahagslegar aðstæður íslenskra
barna eru almennt ákjósanlegar en
þegar kemur að tilfinningalegu atlæti
telur Ingibjörg að við gætum gert
betur. „Við Íslendingar erum óhemju
duglegt fólk. Við værum ekki hérna
annars, þrjú hundruð þúsund hræð-
ur, á hjara veraldar. Við vinnum mik-
ið og höfum fyrir vikið kannski ekki
alltaf nægan tíma fyrir börnin okkar.
Samkvæmt upplýsingum Hagstofu
Íslands dvelur 71% barna átta
klukkustundir eða lengur á leikskóla
á degi hverjum en það er lengri tími
að meðaltali en hjá starfsfólkinu.
Heilt á litið held ég að við gætum
bætt okkur hvað þetta varðar, sýnt
börnum meiri virðingu og tillitssemi.
Gefið þeim meiri tíma. Þá er ég ekki
bara að tala um foreldra barnanna,
heldur samfélagið allt. Fjölskyldan er
auðvitað grunneining samfélagsins
og því eðlilegt að þessi naflaskoðun
hefjist þar. Atvinnulífið og hið op-
inbera má samt sem áður ekki skor-
ast undan sinni ábyrgð og þá er ég
ekki bara að tala um fjárframlög.
Þetta er líka spurning um viðhorf og
tillitssemi.“
Ingibjörg hvetur foreldra til að
verja meiri tíma með börnum sínum,
tala við þau og fræða. Þá megi for-
eldrar ekki gleyma hlutverki sínu
sem fyrirmynd barnsins. „Við erum
fyrirmynd og það er ekki nóg að
fræða börnin um hvað er vont og
óhollt ef við förum ekki eftir því sjálf.
Börn eru einstaklega næm á það og
atferli þeirra, viðhorf og afstaða mót-
ast af þeim sem standa þeim næst.“
Hraðinn er stóra vandamálið
Það getur verið þrautin þyngri að
sameina erilsamt starf og heim-
ilishald. Margir foreldrar eru fyrir
vikið í stöðugu kapphlaupi við tímann.
Samfélagið fer ekki varhluta af þessu.
Hraðinn hefur að líkindum aldrei ver-
ið meiri.
Eyjólfur Magnússon Scheving
grunnskólakennari segir þetta
áhyggjuefni. „Íslensk börn hafa ekk-
ert breyst í áranna rás. Þau vilja hafa
aga, öryggi og skjól. Nálgunin nú til
dags er hins vegar önnur. Stóra
vandamálið í samfélaginu sem við bú-
um í er hraðinn. Það eru allir að flýta
sér, fullorðnir og börn. Foreldrar
vinna mikið og eru fyrir vikið alltaf á
síðasta snúningi, allt þarf að gerast í
gær. Af þessum sökum eru börn upp
til hópa rótlaus í dag. Það eru alltof
mikil læti í kringum þau og alltof mik-
ið framboð af afþreyingu. Börnin vita
ekki í hvorn fótinn þau eiga að stíga.“
Góðir hlutir gerast hægt og Eyjólf-
ur segir að fólk verði að gefa sér tíma
til að staldra við, hlúa að sjálfu sér og
því dýrmætasta sem við eigum –
börnunum.
„Ég er alls ekki að skella skuldinni
á heimilin. Foreldrar reyna að sjálf-
sögðu að gera sitt besta. Ég er meira
að segja sannfærður um að ungt fólk
hugsar að mörgu leyti betur um börn-
in sín í dag en fyrir fjörutíu eða fimm-
tíu árum. Fólk vann líka mikið þá.
Feður sinna börnum sínum t.d. meira
í dag. Það er þjóðfélagið sem leggur
þessar kvaðir á herðar fólki. Það
krefst þess að allir séu á útopnu. Það
er ekki nóg fyrir barn að leggja bara
stund á íþróttir með námi, það verður
líka að vera í tónlistarnámi, skátunum
og helst einhverju fleiru. Svo er það
» Og sunnudags-
steikin? Veit
ungt fólk um hvað
ég er að tala?
Morgunblaðið/Golli
Umboðsmaðurinn „Við eigum að ala börnin okkar upp í kærleiksríkum aga. Það kemur þeim best í lífinu,“ segir
Ingibjörg Rafnar umboðsmaður barna.
Íkönnun sem Gallup gerði fyrr á þessu árikom í ljós að 36,5% starfandi fólks áaldrinum 25-65 ára á höfuðborgarsvæð-
inu kveðast oft hafa takmarkaðan tíma fyrir
fjölskylduna eða aðra mikilvæga aðila í sínu
lífi vegna vinnu. 28,5% svöruðu sömu spurn-
ingu játandi árið 2000 og er aukningin mark-
tæk.
Tómas Bjarnason sérfræðingur hjá Capa-
cent, sem látið hefur þessi mál sig varða, segir
að margir þættir hafi áhrif á jafnvægi vinnu
og einkalífs. „Hið opinbera, fyrirtækin og svo
auðvitað einstaklingarnir sjálfir geta haft
áhrif á þetta jafnvægi til góðs og ills,“ segir
Tómas. „Þátttaka hins opinbera í umönnun
barna er t.d. vaxandi ef miðað er við tölur um
hlutfall og fjölda barna á leikskólum. Sum fyr-
irtæki hafa einnig brugðist við vaxandi kröf-
um um jafnvægi vinnu og einkalífs með ýms-
um hætti og ýmislegt bendir til að framsækin
fyrirtæki bjóði starfsmönnum í vaxandi mæli
lausnir til að samræma vinnu og einkalíf. Ein-
staklingarnir sjálfir geta síðan brugðist við
með margskonar hætti til að draga úr
árekstrum vinnu og einkalífs. Fólk getur t.d.
leitað leiða til að geta sinnt ólíkum hlut-
verkum „samtímis“ eða flytja skuldbindingar
sínar til í tíma og rúmi með því að sveigja
vinnutíma sinn að þörfum sínum eða fjöl-
skyldunnar, eða fá aðstoð frá öðrum til að
sinna skuldbindingum sínum á einum stað til
að geta sjálft sinnt skuldbindingum sínum á
öðrum stað.“
Þetta kallar Tómas „að kaupa sér tíma“.
Fjölmörg önnur úrræði þekkjast við að draga
úr árekstrum milli vinnu og einkalífs s.s. að
draga úr vinnutíma tímabundið eða var-
anlega, eða draga úr starfsábyrgð.
Í könnun IMG Gallup sem gerð var í októ-
ber 2003 kom fram að 70% starfandi fólks
telja vinnuálag sitt vera mjög eða frekar mik-
ið og margir (44%) telja að vinnuálag hafi
aukist á síðastliðnu ári. Vinnuálag eykst með
vinnutíma, sérstaklega verður vart við aukið
vinnuálag þegar vinnutími fer yfir 54 tíma á
viku.
Tæpum þriðjungi finnst vinna og einkalíf
frekar eða mjög oft rekast á og árekstrum
fjölgar eftir því sem vinnuálag eykst og vinnu-
tími lengist. Þó ekki sé munur á tíðni árekstra
meðal karla og kvenna, upplifa konur sem eru
stjórnendur, atvinnurekendur eða sérfræð-
ingar mun meiri árekstra milli vinnu og
einkalífs en karlar sem sinna sömu störfum.
„Þetta bendir til að aukið starfstengt álag
bætist við það álag sem konur búa við á heim-
ilinu og í einkalífi en það eigi í minna mæli við
um karla,“ segir Tómas.
Sveigjanlegur vinnutími
Starfandi fólk nýtir ýmis úrræði til að sam-
ræma vinnu og einkalíf. Könnunin sem gerð
var 2003 sýndi að rúmur helmingur starfandi
fólks hafði unnið sveigjanlegan vinnutíma til
að koma til móts við þarfir sínar eða fjölskyld-
unnar, helmingur hafði unnið heima að vinnu-
tengdum verkefnum, tæpur helmingur hafði
sinnt einkalífi eða fjölskyldu í vinnutímanum,
rúmur þriðjungur hefur nýtt sér aðstoð ætt-
ingja eða vina við heimilisstörf eða umönnun
barna og 10% hafa keypt aðstoð við hrein-
gerningar á heimilinu á tólf mánaða tímabili.
Kaup á hreingerningum tengjast einkum
starfstengdum þáttum og eru algengust með-
al þeirra tekjuhæstu. „Það að sinna fjöl-
skyldu/einkalífi í vinnutímanum tengist bæði
fjölskylduaðstæðum sem og starfstengdum
þáttum. Þeir sem sinna fjölskyldu/einkalífi í
vinnutímanum eru frekar karlar, frekar ungt
fólk með ung börn, þó er það einnig algengara
meðal stjórnenda, atvinnurekenda og sér-
fræðinga. Það að vinna sveigjanlegan vinnu-
tíma til að koma til móts við eigin þarfir eða
fjölskyldunnar tengist bæði fjölskyldu-
aðstæðum sem og starfstengdum þáttum. Það
er algengara í hópi atvinnurekanda, sérfræð-
inga og stjórnenda en í öðrum starfshópum,
og algengara meðal ungs fólks og þar sem
ung börn eru á heimilinu,“ segir Tómas.
Úrræði háð efnum og aðstæðum
Heimavinna er algengari í hópi atvinnurek-
enda, sérfræðinga og stjórnenda en í öðrum
starfshópum, algengari meðal giftra og sam-
búðarfólks en einhleypra, algengari meðal
tekjuhærri einstaklinga en tekjulægri og hún
eykst einnig eftir því sem vinnutími lengist,
vinnuálag eykst og árekstrar vinnu og einka-
lífs aukast. Þeir sem nýta aðstoð ættingja og
vina eru helst ungt fólk og fólk með ung börn.
„Þau úrræði sem fólk nýtir eru því bæði
háð efnum og ástæðum og mótast bæði af
þörfum fólks, fjölskylduaðstæðum sem og að-
stæðum í vinnu. Þannig tengjast úrræðin sem
fólk nýtir oft fjölskylduábyrgð viðkomandi,
svo sem börnum á heimili og aldri þeirra, og
einnig starfsaðstæðum, svo sem starfsstétt,
vinnuálagi og vinnutíma. Mun algengara er að
ýmis þau úrræði sem spurt var um væru nýtt
í hópi stjórnenda, sérfræðinga og atvinnurek-
enda en í öðrum starfsstéttum og meðal há-
skólamenntaðra starfsmanna en meðal starfs-
manna með aðra menntun,“ segir Tómas.
Álag og kröfur aukast
Í könnun sem IMG Gallup gerði fyrr á
þessu ári kom fram að þrátt fyrir að sveigj-
anleiki fólks hafi aukist frá árinu 2000, virðist
sem árekstrar vinnu og einkalífs séu einnig
vaxandi.
„Ástæðurnar geta verið margvíslegar, svo
sem að kröfur fólks um gott jafnvægi hafi
aukist,“ segir Tómas. „Álag og kröfur fólks í
vinnu kunna einnig að hafa aukist og það
myndi þá skýra þessa breytingu. Þriðja
mögulega ástæðan er að sveigjanleikinn hafi
mótsagnakennd áhrif. Sumir geta og hafa
nýtt sveigjanleikann til að koma til móts við
þarfir fjölskyldunnar og bætt jafnvægi milli
vinnu og einkalífs, en hjá öðrum verður
sveigjanleikinn til þess að vinnan „elti“ þá
heim. Sveigjanleikinn verður þá til þess að
þessir einstaklingar eru aldrei alveg heima og
það kemur þá niður á lífsgæðum þeirra og
veldur vaxandi ójafnvægi vinnu og einkalífs.“
36,5% hafa oft takmarkaðan tíma fyrir fjölskylduna
Morgunblaðið/Eyþór
Úrræði „Einstaklingarnir sjálfir geta brugð-
ist við með margskonar hætti til að draga úr
árekstrum vinnu og einkalífs,“ segir Tómas
Bjarnason sérfræðingur hjá Capacent.