Morgunblaðið - 07.11.2006, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 07.11.2006, Blaðsíða 33
við hefðum átt að gera. Hún hefur verið, er og verður í huga mínum. Mér finnst ég vera svo innilega heppin og á svo margan hátt að hafa verið hluti af lífi hennar. Sharon Sachs. Elsku Ásta mín, þá er kveðju- stundin komin. Maður stýrir víst sjaldnast at- burðarásinni sjálfur og alltaf er maður jafn óviðbúinn þegar að kveðjustundinni kemur, samt fæ ég ekki skilið að þú sért raunverulega farin frá okkur. Ég trú því samt varla að þú sért farin svo langt og ég ætla að hugga mig við það að þú sért í raun eigi svo fjærri og vænt- anlega í góðum félagsskap fjölda góðra vina og ættingja sem gengnir eru burt úr okkar sýnilega heimi. Ég ætla að leyfa mér að trúa því að mamma og fleiri góð skyldmenni og vinir hafi tekið vel á móti þér. Ég er sérstaklega hamingjusam- ur og þakklátur, elsku frænka mín, fyrir að þú gast heiðrað okkur með nærveru þinni þegar við Birna ákváðum að gifta okkur hér fyrr á árinu. Þá var gaman, eins þegar ég og Emil litli komum í heimsókn til þín fyrir um það bil mánuði. Þá varstu ótrúlega hress og kát og tókst svo vel á móti okkur, brosmild og hlý eins og þú varst okkur jafnan – alltaf jafn elskuleg og gefandi. Sjálf hefur þú þurft að reyna margt, já, og ekki allt jafn auðvelt eða sjálf- gefið. Þú misstir elskulegan eigin- mann þinn í blóma lífsins. Her- mann, eins og hann var jafnan nefndur, var í huga allra sannur heiðursmaður enda reyndist hann öllum, þar með talinni móður minni, svo kær að hún ákvað að skíra mig í höfuðið á honum. Ég náði því miður aldrei að hitta þann sómamann né sjá en mér finnst samt eins og ég þekki hann í hjarta mínu, þannig voru jafnan lýsingar fólks á honum hver sem nefndi hann á nafn, og var hann sérstaklega virtur og dáður af ömmu minni og afa, þeim Jónu og Gesti. Þau töluðu oft um hann Her- mann, hvað hann hefði nú verið mikill öðlingur, hversu mikið hann hefði elskað litlu fjölskylduna sína, landið okkar og þjóð. Ef allir hefðu nú verið eins og hann þá væri heim- urinn víst eitthvað öðruvísi og betri. Blessuð sé minning hans og ykkar beggja. Ekki var missirinn minni í fyrra þegar augasteinninn þinn og einka- sonurinn, hann Mundi frændi eins og ég hafði alltaf leyft mér að kalla hann, lést mjög skyndilega, langt fyrir aldur fram. Þú fólst mér þá ábyrgð að bera ösku hans síðustu metrana ég er í rauninni þakklátur fyrir í hjarta mínu að hafa fengið að axla þá ábyrgð. Ég sá það, mín kæra frænka, hversu sárt það hlýt- ur að vera að þurfa að horfa á bak sonar yfir móðuna miklu með brott- hvarfi Munda. Þar var stórt skarð fyrir skildi, maður á svo oft erfitt með að skilja tilgang lífsins þegar það birtist manni svona í sínum dul- arfullu og oft óskiljanlegu myndum. Þegar ég var hjá þér fyrir um það bil mánuði sagðir þú mér að góð vinkona þín frá barnæsku hefði kvatt þennan heim nokkrum vikum áður. Ég sá og heyrði glöggt að söknuðurinn var mikill en í huga mér er þó einn ljós punktur í þessu öllu, þó ég þurfi að kafa djúpt eftir honum, en hann er sá að nú ert þú í raun komin í faðm Guðs og allra þeirra fjölmörgu sem við höfum þurft að kveðja í gegnum tíðina. Ég ætla að hugga mig við það að í hóp englanna bætist nú einn ljós- berinn enn sem gæta mun okkar úr ríki Guðs. Takk fyrir kærleiksríka samfylgd og allt gamalt og gott, Ásta mín. Elsku Toby frænka, Gunni, Kalli og Zakki og öll þið sem stóðuð Ástu frænku nærri: Guð gefi ykkur styrk við fráfall hjartahlýrrar og góðrar manneskju. Hermann frændi, Birna Rut og Emil Ísar.  Fleiri minningargreinar um Ást- hildi Sveinbjörgu Friðmundsdóttur Herman bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höf- undar eru: Steinunn Marteinsdóttir og Bryndís Marteinsdóttir. MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. NÓVEMBER 2006 33 MINNINGAR ✝ Jón Guðmunds-son fæddist í Sveinungsvík í Þistilfirði 30. janúar 1931. Foreldrar hans voru hjónin Sigurbjörg Björns- dóttir frá Svein- ungsvík, f. 25.11. 1906, d. 24.5. 1992, húsmóðir, og Guð- mundur Eiríksson frá Grasgeira, f. 11.5. 1898, d. 24.6. 1980, skólastjóra á Raufarhöfn. Þau bjuggu fyrst í Sveinungsvík, síðan á Bakka á Raufarhöfn. Systkini Jóns eru Málfríður Anna, f. 1929, Þorbergur, f. 1932, Björn, f. 1933, d. 1998, Gissur, f. 1936, d. 1943, og Eiríkur, f. 1941. Eftirlifandi eiginkona Jóns er Hrefna Friðriksdóttir, f. 12.4. 1936. Hún er dóttir hjónanna Guðrúnar Hansdóttur húsmóður, f. 20.8. 1903, d. 14.7. 1989, og Friðriks Guðmundssonar, verka- manns, f. 24.9. 1887, d. 13.8. 1957, Stafnesi á Raufarhöfn. Börn Jóns og Hrefnu eru: 1) Sigurbjörg, f. 7.8. 1956, maður hennar er Þór- arinn Stefánsson, f. 1945, börn þeirra eru: a) Hafþór, f. 1976, maki Ingveldur Sturludóttir, f. 1979, dætur þeirra eru Harpa Mjöll, f. 2001, og Lotta Karen, f. 2004; b) Petrína Soffía Eldjárn, f. 1977, maki Hlynur Björn Pálma- son, f. 1970, börn þeirra eru Pálmi Hrafn, f. 2002, og Rebekka Hrönn, f. 2004; c) Jón, f. 1980, d. 1980; d) Jón, f. 1981; e) Þorbergur, f. 1988. 2) Friðrik, f. 25.10. 1957, kona hans er Steinunn Leósdótt- ir, f. 1958, börn þeirra eru: a) Stein- þór, f. 1981, maki Nanna Steinunn Höskuldsdóttir, f. 1983, sonur þeirra er Auðunn Elí, f. 2005; b) Rannveig Hrefna Frið- riksdóttir, f. 1983, maki Vignir Már Garðarsson, f. 1979; c) Þorri, f. 1993. 3) Gissur, f. 24.12. 1958, dóttir hans og Fjólu Leósdóttur er Monika, f. 1977, maki Sigurður Árnason, f. 1979, börn þeirra eru Fjóla Guðrún, f. 1996, Gunnar Hilmar, f. 1998, og Gissur Snær, f. 2001. Sonur Gissurar og Báru Ingvarsdóttur er Auðunn Rúnar, f. 1991. 4) Guðrún, f. 29.10. 1962, d. 20.4. 1989. 5) Auður, f. 27.11. 1965, d. 19.4. 1989. Jón og Hrefna bjuggu lengst af á Raufarhöfn þaðan sem Jón stundaði sjómennsku auk annarra starfa. Þau fluttu til Akureyrar árið 2001 í kjölfar veikinda Jóns en hann dó af völdum Alzeimer- sjúkdóms. Útför Jóns verður gerð frá Raufarhafnarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Við systkinin vorum svo heppin að eiga Jón fyrir afa. Enn betra var að hann bjó rétt hjá æskuheimili okkar og áttum við í raun annað heimili hjá ömmu og afa í Jónshúsi þar sem við áttum margar góðar stundir. Hann var góður afi og hafði einföld lífsgildi, hann fór ekki fram á margt af öðrum en gaf hins vegar meira af sér. Hann hafði gaman af prakkarastrikum og uppátækjum okkar þó svo að hann léti ekki á því bera svona rétt á eftir heldur minntist þeirra löngu seinna, jafnvel þegar við vorum sjálf búin að gleyma þeim. Eins og hann sagði mjög oft sjálfur þá þekkti hann sitt heimafólk og vissi að hverju hann gekk þar. Hann fylgdist með því sem um var að vera í fjölskyldunni og gladdist þegar vel gekk en vildi ekki dvelja við það sem illa gekk. Hann talaði þegar hann hafði eitthvað skemmtilegt að segja, um hitt talaði hann sjaldnast, heldur dvaldi við góðu stundirnar þrátt fyrir að hafa upplifað sínar sorgir eins og aðrir. Lífið gaf og lífið tók og þannig leið það áfram. Hann var maður sem allt- af var gott að hafa nálægt sér og heima hjá þeim ömmu gátu allir verið þeir sjálfir. Afi hafði sínar skoðanir á málum og stóð við þær, hann fylgdi sinni sannfæringu án þess að koma illa við aðra og oft voru þau amma ekki alveg sammála. Það var gott að vera í Jónshúsi, hann stóð ekki í stappi við barna- börnin, við máttum borða það sem okkur langaði í og pylsur og cocoa puffs urðu oft fyrir valinu. Hann var líka sannfærður um að ef við fengjum bara að éta yfir okkur af sælgæti í eitt skipti þá myndum við fá nóg af því og ekki biðja um það aftur, hann leyfði okkur að gera nokkrar árang- urslausar tilraunir í þessum efnum. Þrátt fyrir að hann væri ekki mikið fyrir reglur bárum við virðingu fyrir honum og reyndum okkar besta til að hafa hljótt þegar hann var að hlusta á veðurspána eða fréttatímann. Þá sjaldan hann byrsti sig hrukkum við í kút og datt ekki í hug annað en að hlýða. Því miður fengu börnin okkar varla að kynnast langafa sínum, rétt að hitta hann, en við sem fengum að njóta hans sjálf sem börn vitum hve mikið þau hefðu notið þess. Afi var af þeirri kynslóð sem hafði fyrir lífinu og gerði ekki miklar kröf- ur. Hann borðaði það sem var í mat- inn og klæddi sig í það sem hann átti. Hann kvartaði ekki yfir neinu og leit- aði helst ekki til lækna þrátt fyrir kvalir. Þess vegna var það enn erf- iðara þegar fyrstu einkenni hins hræðilega sjúkdóms, alzheimer, létu á sér kræla og innst inni vissi hann hvað beið þrátt fyrir að eiga mjög erfitt með að sætta sig við það. Það reyndi líka mjög á ömmu og aðra sem stóðu honum næst, bæði að reyna að láta honum líða vel og svo að horfa upp á hann hverfa inn í sinn eigin heim þaðan sem hann átti ekki aft- urkvæmt. Það er varla hægt að hugsa sér hræðilegri örlög fyrir mann sem vildi ekki vera upp á aðra kominn með neitt og hafði séð um sig sjálfur frá unga aldri. Það er langt síðan við misstum afa eins og við þekktum hann. Nú loks fáum við að kveðja hann með virð- ingu. Hafþór, Petrína S. Eldjárn, Jón og Þorbergur Þórarinsbörn. Hin langa þraut er liðin nú loksins hlaustu friðinn og allt er orðið rótt, nú sæll er sigur unninn og sólin björt upp runnin á bak við dimma dauðans nótt. (V. Briem) Hann Jón afi minn hefur yfirgefið þetta líf. Það er í raun furðuleg til- finning að geta loks syrgt manninn sem kvaddi okkur fyrir svo löngu, til- finningarnar eru blendnar þegar samhliða söknuði eftir góðum manni fylgir gleði yfir því að þessi lega skyldi ekki hafa verið lengri og að þessi stóri og stolti maður skuli ekki lengur vera algjörlega upp á aðra kominn. Afi í Jónshúsi var sterkur maður og fjölskyldunni mjög hjartfólginn. Ég ásamt hinum barnabörnunum fékk að njóta þess að alast upp ná- lægt honum og kynnast honum vel. Hann var mikil barnagæla og hafði gaman af smáfólkinu alveg fram til síðustu stundanna þegar hann var hjá okkur, jafnvel þegar við hin átt- um orðið erfitt með að ná til hans virtist hann allur lifna við þegar lítil börn komu í heimsókn til hans. Það fylgja svo margar góðar minningar allri tilhugsun um hann afa, hann ólst upp nálægt og á Raufarhöfn, þar lágu hans rætur alla tíð og ævistarfið, sjó- mennskuna, stundaði hann eins lengi og hann gat. Hann tók fólki eins og það var og annaðhvort komst það í náðina eða ekki, helst var það vinnu- semi sem hann kunni að meta hjá fólki og kunni hann vel að meta menn sem kunnu og nenntu að vinna en hafði ekki eins mikla trú á mennta- fólkinu sem aldrei hafði unnið hand- tak, það þurfti að sanna sig fyrir hon- um. Afi var glaðlyndur maður og stríð- inn og kunni margar skemmtilegar sögur af sér og samferðamönnum sínum þar sem hreinskilni hans kom skýrt fram, hann sagði hlutina eins og þeir komu honum fyrir sjónir, var ekkert að fegra hlutina og þótti gam- an að segja frá, sérstaklega gömlum prakkarastrikum, og hló þá við. Þess vegna var líka gaman að hlusta á hann jafnvel þótt maður hefði heyrt söguna áður eða þótt honum og ömmu bæri ekki alveg saman um hvernig þetta hefði nú verið. Hann stóð alltaf við sitt og gekk ekki á bak orða sinna. Hann hafði góða nærveru og við barnabörnin vildum vera ná- lægt honum, hann var stoltur og vildi ekki láta hafa fyrir sér og þess vegna var mjög erfitt fyrir fjölskylduna að horfa á eftir honum inn í sjúkdóm sem hlaut að enda þannig að hann yrði alveg upp á aðra kominn. Það var líka mjög erfitt fyrir hann á með- an hann gerði sér grein fyrir því sem framundan var og það voru örlög sem hann vildi ekki hljóta. Þess vegna finnst mér gott að baráttunni skuli vera lokið, að við getum nú syrgt manninn sem er farinn án þess að hugsa til þess að hann sé í raun enn á lífi. Hann kvaddi okkur fyrir löngu, hvarf smátt og smátt án þess að ráða við nokkuð og núna loks get- um við með sanni brosað við tilhugs- unina um hann, hugsað eingöngu með gleði til yndislega mannsins sem við áttum og munað eftir öllum góðu minningunum. Þær eru margar og einnig eru þær margra. Með blandinni sorg og gleði kveð ég þennan góða mann. Petrína Soffía Eldjárn. Jón Guðmundsson Fallegir legsteinar á góðu verði í sýningarsal okkar Englasteinar Helluhrauni 10 220 Hafnarfjörður Sími 565 2566 www.englasteinar.is Elskulegur eiginmaður minn, faðir, tengdafaðir, afi og langafi, EINAR JÓNSSON fyrrv. útfararstjóri, Melgerði 8, Kópavogi, lést á Landspítalanum við Hringbraut föstudaginn 27. október. Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 8. nóvember kl. 15.00. Hulda Jóhannsdóttir, Margrét Einarsdóttir, Guðmundur Þ. Gíslason, María Einarsdóttir, Karl Gunnar Gíslason, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskuleg eiginkona mín, móðir, tengdamóðir, amma og langamma, LAUFEY STEFÁNSDÓTTIR, Brekkuhúsi 1, Hjalteyri, lést sunnudaginn 5. nóvember. Jarðarförin verður auglýst síðar. Karl Sigurðsson, börn, tengdabörn, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, MAGNEA I. SIGURÐARDÓTTIR, (Maddý), hjúkrunarheimilinu Vífilsstöðum, áður til heimilis í Engihjalla 11, lést föstudaginn 3. nóvember. Jarðarförin auglýst síðar. Fyrir hönd aðstandenda, Jóhanna Ágústsdóttir, Ólafur Hermannsson, Linda Ágústsdóttir, Jón Þorkelsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.