Morgunblaðið - 17.11.2006, Síða 34

Morgunblaðið - 17.11.2006, Síða 34
34 FÖSTUDAGUR 17. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN H ann virðist ætla að hefjast enn á ný, söngurinn um að jól- in séu hátíð kaup- manna, sem setji jólaskrautið allt of snemma upp, drekki öllum í auglýsingum og telji fólki trú um að það sé algjörlega bráðnauðsynlegt að eignast alls konar óþarfa. Og nú hefur enn einu sinni verið gerð könnun á því hve miklu Ís- lendingar muni eyða í jólahaldið. Rannsóknarsetur verslunarinnar segir að það verði um 8 milljarðar króna. Reiknað er með að þessi mikla verslun fari á skrið á nýbyrj- uðu kortatímabili. Íslendingar ætla víst flestir að kaupa jólagjafir fyrir um 26 til 50 þúsund krónur, en tæpur fjórðungur þjóðarinnar reiknar með að nota 51 til 75 þús- und krónur í gjafir. Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Þau eru hátíð barnanna. Það má vel vera að sumum þyki þau líka vera hátíð kaupmanna og að þann- ig séu þau slæm birtingarmynd neyslusamfélagsins. Þar er ég al- gjörlega ósammála. Í desember vil ég fara á jóla- tónleika, sjá jólakvikmyndir, kaupa jólaskraut og skreyta allt hátt og lágt heima hjá mér. Ég vil kaupa sérstakt jólaskraut til að punta nýja herbergið stelpnanna minna og útbúa fallegan aðventukrans á stofuborðið. Ég vil fara með stelp- urnar mínar á jólaleikrit og kaupa handa þeim fín og falleg jólaföt. Ég vil hlaupa á milli verslana og finna þessa einu réttu jólagjöf handa konunni, dætrunum, vinum og vandamönnum. Ég vil rogast með hvern innkaupapokann á eftir öðr- um út úr matvöruversluninni, með hangikjöt og hamborgarhrygg. Ég vil kaupa stóru úthafsrækjurnar af samstarfskonu minni, því þær verða girnilegur forréttur. Ég vil hafa uppi á honum Ævari og kanna hvort hann fer til rjúpna, svo veislumaturinn á aðfangadags- kvöld verði eins og hann hefur allt- af verið, allt frá því að pabbi minn fór á fjöll með haglabyssuna sína. Ég vil norpa í kuldanum við jóla- tréssöluna, mæla og spá þar til ég hef fundið fallegasta tréð í stofuna heima. Ég vil sitja fram á nótt, skoða jólakortin sem ég fékk í fyrra og skrifa ný til fólks um allan heim, sem ég sinni því miður ekki sem skyldi aðra mánuði ársins. Ég vil koma heim úr vinnunni og sjá lítinn bunka af jólakortum á mott- unni undir póstlúgunni. Ég vil fara í ÁTVR og kaupa gott púrtvín til að sötra með köldum gestum sem kíkja í aðventuheimsókn. Ég vil skúra allt og skrúbba, svo heimilið verði glansandi fínt um jólin. Ég vil eyða einum degi í piparkökubakst- ur með Kötu og stelpunum. Ég vil líka baka smákökur eins og mamma mín bakaði alltaf. Ég vil kaupa fínasta pappír og kort til að jólapakkarnir verði glaðlegir og fallegir. Og þessa aðventuna vil ég líka fara til Kaupmannahafnar og eiga náðuga stund í julefrokost með Kötu á Det Lille Apotek. Auðvitað sýnir flest í þessari upptalningu botnlausa neyslu- hyggju, ef fólk kýs að líta svo á. Kona, sem búsett er í útlöndum og hefur sjálf yfirdrifið að bíta og brenna, sagði eitt sinn við mig að hún væri fegin að vera ekki hér á landi í desember, því hérna væri svo brjálað stress. Hún treysti sér bara ekki til að horfa upp á þetta innkaupabrjálæði, þar sem fólk stundaði hamslausa eyðslu í tilefni jólanna. Við þessu á ég bara eitt svar: Ég kýs að eyða mínum eigin pen- ingum, sem ég hef aflað á heið- arlegan hátt, í mína þágu og fjöl- skyldu minnar á jólunum. Mér er gjörsamlega fyrirmunað að skilja, hvers vegna annað fólk hefur svo þungar áhyggjur af innkaupum mínum í desember. Sjaldnast gerir þetta sama fólk athugasemdir þeg- ar ég kaupi mér flík, eða þegar fjöl- skyldan fer í sumarfrí. Af hverju í ósköpunum er þá opið veiðileyfi á mig og aðra neytendur í desember? Er kannski skemmtilegra að varpa skugga á jólagleðina en venjulega, hégómlega gleði yfir einhverju öðru? Og hvers vegna þarf ég að sitja undir því að þessi „eyðsla“ mín í desember varpi á einhvern hátt skugga á tilefni sjálfra jólanna? Fær það staðist að innkaupaferð- irnar mínar rýri gildi trúarinnar, dragi úr mikilvægi aðfangadags og jóladags? Er ekki hægt að gera sér dagamun, en minnast þess samt af hverju við höldum jól? Ég þarf vonandi ekki að taka það sérstaklega fram, en geri það nú samt, að ég tala ekki fyrir hönd þeirra sem eiga á einhvern hátt um sárt að binda eða geta ekki notið jólanna sem skyldi, hvort sem það er vegna veikinda, fátæktar eða af öðrum ástæðum. Sá hópur er held- ur ekki sá sem hæst hefur í desem- bermánuði um „kaupmannajól“ og „neyslubrjálæði“. Og auðvitað eru fjölmargir sem láta eitthvað af hendi rakna í desember til þeirra sem standa verr að vígi. Og gera það ekki síst af því að það er sjálfur jólamánuðurinn. Ég ætti nú ekki að eyða öllu púðrinu í að býsnast yfir þessu tuði margra um eyðslu og neyslukapp- hlaup fyrir jólin. Líklega ætti ég að spara eitthvað fyrir nýárið. Því þá eru Íslendingar víst svo ægilega vitlausir að þeir eyða milljónum á milljónir ofan í alls konar flugelda og blys. Og kaupa enn á ný veislu- mat. Ég geri það svo sannarlega og læt fara alveg ægilega í taugarnar á mér alla þá sem segja, drjúgir á svip, að þeir ætli nú bara að fylgj- ast með nágrönnunum brenna pen- ingunum sínum. Ekki yrði nú ljósa- dýrðin mikil ef allir hugsuðu svona. Ég harðneita því að ég sé í ein- hverju kapphlaupi við Mammon í desember. Hins vegar sakar dálítið skemmtiskokk með honum ekki nokkurn mann. Þvert á móti, í des- ember lífgar það skokk upp á sál og líkama og fátt fær slegið á gleði mína. Nema fólkið sem sífellt sér sig knúið til að býsnast yfir hvernig aðrir kjósa að eyða eigin peningum. Veiðileyfi í desember »Ég kýs að eyða mínum eigin peningum, semég hef aflað á heiðarlegan hátt, í mína þágu og fjölskyldu minnar á jólunum. Mér er gjör- samlega fyrirmunað að skilja, hvers vegna annað fólk hefur svo þungar áhyggjur af innkaupum mínum í desember. rsv@mbl.is VIÐHORF Ragnhildur Sverrisdóttir STAKSTEINAR vekja í dag, 16/ 11, máls á sögu sem Morgunblaðið hafði eftir mér í gær í viðtali vegna nýrrar bókar minnar um Gunnar Gunnarsson og Þórberg Þórðarson. Sagan snýst um heimsókn banda- rísks hermanns og íslensks túlks á Skriðuklaustur til Gunnars í stríðs- lok 1945 til að leita að Hitler. Dálkahöfundurinn telur – eins og ég – þennan atburð fáránlegan og dregur síðan mjög í efa að hann sé frásagnarverður, heimildamaður sé aðeins einn og íslenskir fjölmiðlar myndu ekki taka mikið mark á slíku núna. Sjálfur rek ég þennan atburð í bók minni fremur sem táknræna dæmisögu, tragíkóm- ískan hápunkt og lokapunkt á sam- skiptum Gunnars og Þýskalands. Hins vegar er rétt að geta þess að það leikur enginn vafi á þessari heimsókn og að tilefni hennar voru sögusagnir í sveitinni um að ein- hverju hefði verið varpað úr flugvél í Fljótsdal og létu sumir sér detta í hug, einsog túlkurinn vottar, að það hafi verið Hitler. Francis Spalding, starfsmaður bandaríska sendiráðs- ins í Reykjavík, bað Gunnar afsök- unar á þessum atburði, kallar heim- sóknina klaufalega og tillitslausa, en segir tilgang hennar ljósan: „heimsókn mannanna í dal þinn var án nokkurs vafa tilraun til að kanna sannleiksgildi þessara sögusagna“ (Francis Spalding til Gunnars Gunnarssonar, 23/5 1945, Lands- bókasafnið). Sjálfur tók Gunnar þessa heimsókn alvarlega og reidd- ist henni ákaflega. Í mínum huga er hún tvímælalaust frásagnarverð og varpar ljósi á gremju Gunnars eftir stríð og mér er óskiljanlegt af hverju Staksteinar telja að ekki hafi mátt segja frá henni. Staksteinar halda síðan áfram og spyrja hvort allar sögurnar um Gunnar og nasista séu ekki ámóta fjarstæðukenndar. Þvert á móti hafi Gunnar, rétt einsog Hamsun, stundað nútíma markaðssetningu í Þýskalandi. Þessi tilgáta er fráleit, reyndar um þá báða (Hamsun var eindreginn stuðningsmaður þýskra stjórnvalda allt frá dögum fyrri heimsstyrjaldar og tvíefldist í þeirri afstöðu eftir valdatöku nas- ista). Um þetta nægir að vísa til ít- arlegra athugana á samskiptum Gunnars og þýskra stjórnvalda á dögum Hitlers í bókinni; marg- víslegra stuðningsyfirlýsinga við foringjann og hin nýju stjórnvöld, við hernaðaruppbyggingu Þýska- lands og hernámsaðgerðir landsins, fjárframlaga til Winterhilfswerk (Vetrarhjálpar) þýska hersins og þar fram eftir götum allt til loka mars 1940, en sumt af þessu hefur Þór Whitehead áður rakið í bók sinni, Milli vonar og ótta, og Sveinn Skorri Höskuldsson í greininni „Gegn straumi aldar“ (TMM 1988). Það getur líka verið fróðlegt fyrir ritstjóra Morgunblaðsins að lesa í bók minni um samskipti Gunnars og Jóns Stefánssonar listmálara, sem ekki vildi sýna í Þýskalandi 1936 vegna liststefnu Hitlers og Görings, og viðbrögð Gunnars við því. Í bókinni sýni ég einnig fram á að sú skýring Gunnars síðar, að hann hafi farið í upplestrarferð sína til Þýskalands 1940 til að liðsinna Finnum í baráttu við Rússa, stenst trauðla þar sem hann boðaði komu sína og undirbjó hana áður en inn- rás Sovétmanna hófst. Sjálfur taldi Gunnar það beinlín- is svívirðilegt (einsog fram kemur í dönsku blaði 1938) þegar stuðn- ingur hans við þýsk stjórnvöld var sagður eiga markaðslegar rætur. Og staðreyndin er sú að með þessu er höfundur Staksteina að gera lítið úr Gunnari Gunnarssyni. Gunnar var merkilegur höfundur, húm- anisti og stórbrotinn sögumaður. En hann var líka einlæglega sann- færður stuðningsmaður þýskra stjórnvalda á fjórða áratugnum. Stundum getur verið gott að kynna sér staðreyndir máls áður en maður skrifar, jafnvel þótt Stak- steinar eigi í hlut. Halldór Guðmundsson Allt eintóm markaðssetning? Höfundur er rithöfundur. NÚ ER hægt að fá sjúkraliða- réttindi í gegnum sjúkraliðabrú. Munurinn á sjúkraliðabrú og full- gildu námi felst í því að felldar eru niður 60 einingar af 120, nemandi þarf að vera orðinn 23 ára, hafa 5 ára starfsreynslu, meðmæli vinnuveit- anda og hafa lokið starfstengdum nám- skeiðum á vegum stéttarfélaga, sveitar- félaga eða annarra aðila að lágmarki 230 stundir. Sjúkraliðafélag Ís- lands stóð fremst í flokki að þessari brú- arsmíð. Starfshópur var myndaður með fulltrúum Landlæknisemb- ættisins, Sjúkraliðafélags Íslands, LSH, Fjölbrautar í Ármúla, sjálf- eignarstofnana í öldrunarþjónustu og starfsgreinaráðsins og var Birnu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra Sjúkraliðafélagsins, falið að hafa forystu fyrir hópnum. Markmið sjúkraliðabrúarinnar var að bregð- ast við skorti á sérmenntuðu starfsfólki með því að veita fólki tækifæri til að ljúka sjúkralið- anámi án þess að þurfa að ljúka öllum áföngum sem tilgreindir eru í námskrá fyrir sjúkraliða. Birna Ólafsdóttir bendir á í grein Sjúkraliðablaðsins í desem- ber 2005 að fyrirmynd að brú er til staðar hjá félagsliðum og verið sé að búa til brýr fyrir læknarit- ara og móttökuritara. Ekki finnst mér þetta til eftirbreytni. Það er betra að efla námið og í framhald- inu að auka kröfur til stéttarinnar. Rök Birnu fyrir því að taka hluta af námsgreinunum úr sjúkraliða- brúnni voru ansi niðrandi og úrelt en þau voru að þetta væru greinar sem fólk ætti erfitt með að læra þegar það væri komið á fertugs- aldurinn (Sjúkraliðablaðið, des. 05). Nýleg dæmi sýna allt annað því fólk er að útskrifast úr námi á öllum aldri og reynslan er sú að það er misgott til náms, eins og yngra fólk. Birna talar einnig um að ekki sé dregið úr faglegum kröfum en staðreyndin er hins vegar sú að verknámið í brúnni er stytt niður í 8 einingar, úr 15 ein- ingum. Starfsþjálfun okkar inni á deild eru 16 einingar og tekur 16 vikur að vinna fyrir þeim sem nemi en nemar á sjúkraliðabrúnni sleppa við starfs- þjálfun. Sjúkraliða- félagið talar um að þessi stytting á verk- og starfsnámi sé vegna þess að þarna sé á ferð raunhæfn- ismat á störfum fólks sem unnið hefur við aðhlynningu og sú reynsla er metin til jafns við að vinna á spítala. Það er ekki rétt og margir þeir sjúkraliðar sem unnið hafa við aðhlynningu fyrir og eftir sjúkraliðanám segja stóran mun á því. Annars vegar er að vinna verkin í óöryggi þess sem reynir að framkvæma verk sem honum er falið en hefur ekki skilning á en hins vegar að vera meðvitaður um það sem gera þarf, af hverju og geta tekið sjálfstæðar ákvarðanir grundvallaðar á menntun og reynslu. Sjúkraliðabrúin er keyrð á kvöldskólahraða til að sníða námið að fólki sem er í vinnu og getur ekki tekið sér frí og farið í skóla (Sjúkraliðablaðið, des. 05). Þetta er fáheyrt rugl því það er boðið upp á fullt sjúkraliðanám í kvöld- skóla. Það er hægt að mennta sjúkraliða án þess að stytta námið og draga úr kröfum. Fólk hefur lagt á sig að fara í kvöldskóla eða tekið námslán og farið í dagskóla, einnig hafa margir farið í fjarnám. Það að starfstengd námskeið séu inntökuskilyrði í sjúkraliða- brúna er óhæfa. Þótt námskeiðin sem slík séu góð er ekki hægt að meta þau inn í sjúkraliðanámið vegna þess að eina krafan er að þau hafi verið starfstengd en það þarf alls ekki að þýða það að sú þekking sem fékkst þar nýtist á nokkurn hátt í sjúkraliðanáminu. Kynning á gerð námskrár fyrir sjúkraliðabrúna var öðru hverju í Sjúkraliðablaðinu og sagt að hún væri í vinnslu. Það kom samt mjög á óvart að félagsmönnum skyldi ekki gefin kostur á að greiða atkvæði um það hvað þeir vildu. Ekki er nóg að halda trún- aðarmannafund þar sem örfáum prósentum af stéttinni var gefin kostur á að segja álit sitt. Þetta er stærri ákvörðun en það. Félagið vill meina að okkur hafi verið gef- inn kostur á að mótmæla á aðal- fundi félagsins undir liðnum önnur mál. Það er rétt en þar sem þetta mál er það alvarlegt og gjörbreyt- ing á öllu því sem snýr að sjúkra- liðum hefði verið rétt að tilgreina þetta í dagskrá aðalfundar og fá úr vilja félagsmanna skorið. Það var sett í gang algjör gjaldfelling á okkar menntun og störfum án þess að spyrja félagsmenn um þeirra álit. Nú eru í gangi undirskrift- arlistar til að gefa fólki færi á að láta álit sitt í ljós. Við sem skrif- um undir þá viljum hætta með brúna en þó þannig að þeir sem eru byrjaðir í henni muni ljúka sínu námi á þeim forsendum sem lagt var af stað með. Sjúkraliðar hafa átt erfitt með að ná launahækkunum fram og fá aukna ábyrgð í starfi. Til að eiga von um að geta fengið viðunandi laun og verkefni við hæfi er rétt að halda baráttunni áfram með því að efla einstaklingana. Það er gert með miklum kröfum í námi og vinnu en ekki með því að brjóta niður það sem búið er að byggja upp. Ef brúnni verður ekki lokað þurfum við að horfast í augu við það seinna meir að hafa gert sjúkraliðastarfið minna metið. Málið er ekki að vera á móti fólk- inu sem útskrifast af brúnni eða standa í vegi þess, heldur er um það ræða að námskröfurnar minnka, námið gjaldfellur og hæfi sjúkraliðans minnkar. Sjúkraliðabrúin burt Dagbjört Ósk Steindórsdóttir fjallar um málefni sjúkraliða » Sjúkraliðar hafa átterfitt með að ná launahækkunum fram og fá aukna ábyrgð í starfi. Dagbjört Ósk Steindórsdóttir Höfundur er sjúkraliði.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.