Morgunblaðið - 02.03.2007, Qupperneq 37
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 2. MARS 2007 37
ÞAÐ er skoðun okkar í Samfylk-
ingunni að menntun eigi að vera eitt
helsta fjárfestingarverkefni næstu
ríkisstjórnar. Fjárfesting í menntun
þarf að fela í sér aukin framlög
stjórnvalda til kennslu og rann-
sókna, aukna áherslu á einstaklings-
miðaða þjónustu við nemendur og
aukið sjálfstæði skólastjórnenda.
Bætt kjör kennara á öllum skóla-
stigum eru mikilvægur liður í
menntasókn þjóðarinnar. Sú staða
sem nú er komin upp í samninga-
viðræðum milli samninganefndar
grunnskólakennara og launa-
nefndar sveitarfélaga sýnir okkur
að það er ennþá verk að vinna.
Ég er þeirrar skoðunar að samn-
ingsaðilar þurfi að vera tilbúnir
hverju sinni að endurrýna samning-
inn ef tilefni er til. Það er mín skoð-
un að sú staða hafi verið komin upp
þegar síðastliðið haust, samanber
grein 16.1 í kjarasamningi Félags
grunnskólakennara og launa-
nefndar sveitarfélaga þar sem segir
að ef „almenn efnahags- og kjara-
þróun gefi tilefni til viðbragða“ beri
að „ákveða þær ráðstafanir sem
þeir verða sammála um“. Lýsti ég
þá þegar opinberlega yfir að það
bæri strax að byrja að tala saman
með samningsmarkmið að leið-
arljósi.
Að hafa áhyggjur
af núverandi stöðu
Bæjarráð Hafnarfjarðar hvatti
Samband ísl. sveitarfélaga, á fundi
sínum 7. des. sl. í framhaldi af er-
indi frá Félagi grunnskólakennara í
Hafnarfirði og trúnaðarmönnum
kennara í Hafnarfirði, til að efna til
skólamálaráðstefnu þar sem m.a.
yrði fjallað um kjaramál grunn-
skólakennara með viðkomandi að-
ilum.
Nú í febrúar er orðið ljóst að
samninganefnd grunnskólakennara
og launanefnd sveitarfélaga hafa
ekki náð fram tillögu að lausn sem
aðilar geta orðið sammála um. Að
þeim sökum óskaði bæjarráð Hafn-
arfjarðar eftir því 22. feb. sl. að
stjórn Sambands íslenskra sveitar-
félaga héldi fund um launamál
grunnskólakennara, þannig að
sveitarstjórnarmenn gætu fjallað
um launamálin á breiðum grunni og
leitað leiða til samkomulags.
Vel má vera að samningsaðilar
eigi að horfa til þess að ná fram
stuttum samningi út árið 2008, þar
sem tekið verði tillit til almennrar
efnahags- og kjaraþróunar. Slíkur
samningur gæfi báðum aðilum svig-
rúm til kröftugrar áframhaldandi
vinnu, en skapaði um leið stöð-
ugleika í grunnskólanum.
Ríkið ætlar sér enn
og aftur að sitja hjá
Stór hluti af rekstrarkostnaði
sveitarfélaga er launakostnaður,
eða 60–70%. Langstærstur hluti af
þeim kostnaði er laun þeirra sem
starfa í fræðslugeiranum, leik- og
grunnskólum. Nú er það svo að vel
flest sveitarfélög landsins hafa á
umliðnum árum átt erfitt með að
láta enda ná saman. Þar er ekki því
um að kenna að laun þeirra sem
starfa í skólasamfélaginu séu of há
heldur hinu að tekjugrunnur sveit-
arfélaga er svo veikburða að ekki
næst að standa undir lögbundnum
verkefnum og þjónustu sveitarfé-
laganna.
Sveitarstjórnir hafa bent á það á
umliðnum árum að við þær breyt-
ingar sem urðu á skattkerfinu árið
2000, þegar tekjuskattar fyrirtækja
voru lækkaðir, hafi ýmislegt breyst.
Í framhaldi af breytingunum greiði
ákveðinn hluti íbúa sveitarfélaganna
mun lægra útsvar en ella. Tekju-
stofnarnir hafa rýrnað, það er óum-
deilt. Ekki hvað síst hafa sveit-
arfélög á landsbyggðinni borið
skarðan hlut frá borði.
Það skiptir því miklu að þeim
fjölgi sem hafa skilning á því að
tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga
sé ekki sanngjörn og eðlileg. Hér
þurfa bæði starfsmenn sveitarfélag-
anna og íbúar að tala í takt við ráða-
menn þeirra. Til þess að sveit-
arfélögin geti boðið starfsmönnum
sínum betri kjör og íbúum um leið
ennþá meiri og betri þjónustu þarf
að styrkja tekjugrunninn. Samræð-
urnar um breytt launaumhverfi
grunn- og leikskólakennara hverju
sinni verða því að haldast í hendur
við samræður sveitar-
félaga við ríkið um
breytta tekjuskipt-
ingu. Dropinn holar
steininn í þeim efnum
og sveitarstjórnarfólk
mun ekki gefast upp
fyrr en viðunandi
lausn hefur náðst.
Nýlega yfirlýsingu
forsætisráðherra á Al-
þingi má hinsvegar
skilja sem svo að málið
komi ríkisstjórninni
ekki við. Þó að rík-
isstjórnin sé ekki beinn samnings-
aðili þá kemur málið okkur öllum
við, ekki hvað síst ríkisstjórninni
sem á að vera leiðandi í umræðu um
tekjustofna ríkis og sveitarfélaga og
skilning á veikri stöðu sveitarfélaga
vítt og breitt um landið. Grunn- og
leikskólinn og tekju-
stofnar sveitarfélaga
koma okkur öllum við.
Tökum höndum
saman
Það er mikilvægt að
gott traust ríki milli
launþega og atvinnu-
rekenda. Slíkt traust
innan sveitarfélaganna
tryggir það að aðilar
sameinast hverju sinni
um það markmið að
bæta kjör starfsmanna
sveitarfélaganna þannig að þau séu
ekki lakari en almennt gerist hér á
landi. Það er því áskorun mín til
samninganefnda, sveitarstjórn-
armanna, grunnskólakennara og
ríkisstjórnarinnar að taka höndum
saman og ná fram ásættanlegri
lausn sem tryggir okkur stöð-
ugleika og frið í vinnuumhverfi
grunnskólanna. Það er ósk sam-
félagsins því velferð barnanna okk-
ar er í húfi.
Af launamálum
grunnskólakennara
Gunnar Svavarsson skrifar um
launamál kennara
» Vel má vera aðsamningsaðilar eigi
strax að ná fram stutt-
um samningi út árið
2008, þar sem tekið
verði tillit til almennrar
efnahags- og
kjaraþróunar.
Gunnar Svavarsson
Höfundur er oddviti Samfylking-
arinnar í Suðvesturkjördæmi og
bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.