Morgunblaðið - 03.04.2007, Blaðsíða 27

Morgunblaðið - 03.04.2007, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 3. APRÍL 2007 27 Það kvað vera fallegt í Kína. Keisarans hallir skína hvítar við safírsænum. En er nokkuð yndislegra – leit auga þitt nokkuð fegra – en vorkvöld í vesturbænum? Svo fagurlega kvað Tómas skáld Guðmundsson forðum og sannaði þar hið fornkveðna, að glöggt er gests augað. En það voru þó ekki kvöldin ein, sem hér var um að ræða. Stundum gerðist það, sem kalla má kraftaverk í íslenzkri veðráttu, að góðviðrið hélzt langt á sumar fram. Það var á einum slíkum sólskins- morgni, er hanar Vesturbæinga höfðu hafið morgunsöng sinn, að lítill sjó- mannssonur lá vakandi við hlið móður sinnar og varð þess brátt áskynja, að einnig hún var glaðvakandi og hlust- aði sem hann. Var nú forvitni pilts vakin, og dirfðist hann að spyrja móð- ur sína, hvort hún heyrði hið ókenni- lega hljóð. Svo reyndist vera, og kvað hún það koma frá lítilli dóttur systur sinnar, sem fætt hafði fyrsta barn sitt þá um morguninn. Á þessum fagra sólskinsmorgni fæddist sem sé ágæt frænka mín, sem í skírninni hlaut nafnið Jónína Vigdís, með ættarnafni föður síns, Kristjáns Schram skip- stjóra. Allt er þetta nú löngu liðið og ævi þessarar frænku minnar verður að teljast hafa verið hamingjutími, bæði í uppvexti og allt til loka. Ung gekk hún að eiga drengskaparmann, Ragnar Tómas Árnason, sem meðal annars var um skeið einn af þulum Ríkisút- varpsins. Eignuðust þau saman fimm mannvænleg börn, sem öll hafa reynzt nýtir borgarar, hvert á sínu sviði. Sendum við fjölskylda mín þeim öll- um, börnum þeirra og öðrum vanda- mönnum innilegar samúðarkveðjur í sorg þeirra. Jón S. Guðmundsson. Langt, langt er síðan ég hitti hana Nennu fyrst. Í fjölskylduboði í föður- húsum á Vesturgötunni, þar sem systkini pabba, makar þeirra og börn hittust við hátíðleg tækifæri. Þetta var um miðja síðustu öld. Þær voru tvær dætur Kristjáns heitins, Magdalena og Jónína Vigdís, alltaf kallaðar Magda og Nenna. Magda var líkari föður sínum, Nenna ljóslifandi eftir- líking af Láru mömmu sinni. Þar var heldur ekki leiðum að líkjast. Foreldr- ar þeirra systranna voru eins og ar- istókratar í útliti, eins og þeir gerast bestir. Höfðingleg, falleg og háttvís. Mæðgurnar Lára og Nenna höfðu þetta sama andlit, glaðvært og geisl- andi, og það ljómaði af þeim gleðin og glettnin í augunum og öllu fasi. Þær gátu verið háværar og hláturmildar en það kom enginn að tómum kofun- um í rausn og reisn. Það voru forrétt- indi að umgangast slíkar manneskjur. Ég labbaði mig niður í Austurstræti seint á síðustu Þorláksmessu og hver stendur þar á miðju fortóvinu nema hún Nenna frænka, prúðbúin drottn- ing gömlu Reykjavíkur, og tók mér fagnandi eins og jafnan. Það var ekki að sjá að hún væri á förum, konan sú. Það reyndist í síðasta skipti sem ég hitti Nennu. Hún kvaddi þetta líf með sæmd og í sátt. Og með henni er genginn fulltrúi þeirrar reykvísku kynslóðar sem reisti þessa borg og skóp hana. Með lífi sínu og athöfnum setti Nenna svip sinn á umhverfi sitt og með Bonna eignaðist hún fimm mannvænleg glæsileg börn sem hvert um sig hafa haldið merki þessarar fjölskyldu á lofti. Kiddi, Lára Magga, Ásta, Árni og Hallgrímur. Öll hafa þau tekið í arf gáfur foreldra sinna, athafnagleði og persónuleika. Enda var Nenna stolt af börnunum sínum og afkomendum, naut þeirra og elskaði þau og skilaði arfi og eiginleikum fjölskyldunnar, rétt eins og hún sjálf skilaði keflinu frá foreldrum sínum, afa og ömmu, okkur öllum frændsystkinum hennar til vegsauka og virðingar. Þessi lífsglaða og yndislega kona er nú horfin yfir móðuna miklu. Farin með sögurnar sínar og minningarnar, nærveru sína og fróðleikinn, birtuna og kraftinn. En eitt sinn skal hver deyja og um leið og við söknum henn- ar gleðjumst við yfir farsælu lífi henn- ar og þeim tengslum sem hún batt milli stórfölskyldunnar. Ég, Ágústa og börnin mín flytjum börnunum hennar Nennu innilegustu samúðarkveðjur með þakklæti fyrir langa og giftudrjúga samleið. Ellert B. Schram. Jónína Vigdís Schram lést á falleg- um degi, það var vor í lofti og sólin baðaði hauður og haf geislum sínum. Ég minnist margra góðra stunda með Nennu, þær voru alltaf skemmti- legar. Í hugann kemur dagstund sem við áttum saman í New York fyrir rúmum tveim áratugum, þar sá ég hvað Nenna var flott heimskona. Ég minnist þess að á ættarmóti hjá Schram-fjölskyldunni hélt Nenna ræðu og fræddi niðja Ellerts og Magdalenu um frændgarðinn sem er öllum mikilvægt að þekkja. Þá kemur í hugann ferðin sem farin var í tilefni af áttræðisafmæli hennar, austur um Þingvelli í Grímsnesið þar sem forfeður hennar bjuggu. Mikið naut Nenna sín í þeirri ferð, hún þekkti sögu og staðhætti svo unun var á að hlýða. Langafi Nennu, Kristján Gynther Schram og langamma hennar, Hall- björg Guðmundsdóttir, bjuggu í Önd- verðarnesi á árunum 1860–1870. Sonur þeirra Ellert Kristófer Schram, skipstjóri í Reykjavík, gaf veglega peningaupphæð árið 1943 til minningar um foreldra sína sem skyldi notuð til þess að stuðla að skóg- rækt í Grímsnesinu til ánægju og prýði. Nenna bar mikla umhyggju fyrir gamla ættarhúsinu sem við búum núna í og fagnaði með okkur íbúum á Stýrimannastígnum aldarafmæli hans. Ég sé Nennu fyrir mér skellihlæj- andi í fertugsafmæli mínu í desember síðastliðnum, hún kunni að gleðjast með góðum. Nenna var fróð, hafði mikla frásagnargáfu og var óþreyt- andi að fræða um liðna tíð. Hún var skemmtileg, hrein og bein og hafði hlýja nærveru. Elska hennar og vinátta við mig og fjölskyldu mína er dýrmæt og er ég er þakklát fyrir að hafa kynnst þessari heiðurskonu og hafa átt að vini. Ég sakna hennar sárt og sendum við fjöl- skyldan ástvinum hennar öllum inni- legar samúðarkveðjur. Kveð Nennu með virðingu og þakklæti fyrir allt og allt. Blessuð sé minning Jónínu Vigdísar Schram. Laufey Böðvarsdóttir. Við fráfall Nennu Schram er stórt skarð höggvið í raðir okkar skóla- systkinanna. Nenna var glæsileg dugnaðarkona, félagslynd og skemmtileg, enda hafði hún frá mörgu að segja. Einkum var hún ættfróð og svo minnug að oft var viðkvæðið hjá okkur ef vita þurfti deili á einhverjum: „Spyrjum Nennu.“ Á síðari árum festi hún á blöð ýmsar upplýsingar um ætt- menni sín og Ragnars manns síns, til fróðleiks fyrir afkomendur sína, enda í sumum dæmum um mjög athyglis- verðar sögur að ræða. Við kveðjum Nennu með söknuði og þökk fyrir langa og ánægjulega samfylgd. Börn- um hennar og öðrum aðstandendum vottum við innilega samúð. Skólasystkinin. Kveðja frá Thorvaldsensfélaginu Frú Vigdís Kristjánsdóttir Schram hafði verið félagskona í Thorvaldsens- félaginu í mörg ár þegar hún lést. Vig- dís var glæsileg kona og sópaði að henni hvar sem hún fór. Hún var góð- um gáfum gædd og mikil félagsvera. Hún sýndi félagi sínu mikinn áhuga og lét sig ekki vanta á fundi, í ferðalög og á skemmtanir á þess vegum gæti hún því við komið. Það var ávallt líf og fjör þar sem hana var að finna og upp- byggilegt og skemmtilegt að eiga við hana orðræður. Hennar verður því sárt saknað. Við kveðjum nú trausta og góða fé- lagskonu með virðingu og þökk fyrir samverustundirnar á liðnum árum. Fjölskyldu hennar sendum við inni- legar samúðarkveðjur. Sigríður Sigurbergsdóttir formaður. ✝ Hjálmtýr Jóns-son fæddist á Fossi í Arnarfirði 18. janúar 1923. Hann lést á Heil- brigðisstofnun Suð- urnesja 24. mars síðastliðinn. For- eldrar hans voru Jón Sumarliðason, útvegsbóndi á Fossi, f. 21.6. 1885, d. 4.5. 1957, og Ingibjörg Guðlaugsdóttir hús- móðir, f. í Auðkúlu- hreppi í Vestur- Ísafjarðarsýslu 17.11. 1896, d. 23.2. 1979. Systkini Hjálmtýs eru Gunnbjörn Eysteinn, f. 19.9. 1919, d. 20.6. 1986, Áslaug Valgerður, f. 19.4. 1925, d. 9.5. 2003, Þorleifur, f. 12.10. 1930 og Margrét, f. 15.8. 1932. Hjálmtýr var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðlaug Jóhanns- dóttir, f. 31.1. 1916, d. 3.9. 1981, þau skildu. Börn þeirra eru Viðar, f. 20.6. 1945, Reynir Gunnar, f. 21.9. 1946 og Jensína, f. 13.4. 1951. Eiginkona Hjálmtýs er Kristín Guðmundsdóttir, f. 24.4. 1920. Börn Kristínar og fyrri manns hennar, Em- ils Guðmundssonar, f. 11.3. 1981, d. 5.9. 1978, eru Valgerður Elsý, f. 1.7. 1938, Emilía Súsanna, f. 3.10. 1940, Edda, f. 15.10. 1941, Kol- brún, f. 13.2. 1944, Guðmundur Óskar, f. 5.8. 1946, Valur, f. 26.10. 1947, Sigrún, f. 13.12. 1948, Ómar, f. 7.7. 1951, d. 16.3. 1996. Dóttir Hjálmtýs og Kristínar er Helena, f. 17.6. 1957. Hjálmtýr fluttist til Keflavíkur upp úr 1954 og var símaverkstjóri á Suðurnesjum þangað til að hann lét af störfum 1993, þá sjötugur að aldri. Hjálmtýr og Kristín bjuggu saman í Hornbjargi þangað til síð- ustu fimmtán mánuði ævi hans, en þá dvaldi hann á Sjúkrahúsi Keflavíkur vegna heilsubrests. Útför Hjálmtýs verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Elsku pabbi. Ég sit hér og er ennþá hálfdofin og mér finnst þú vera ennþá hjá okkur. En kallið er komið og hinn sári raun- veruleiki hellist yfir mig. Ég hugga mig við að þú sért sáttur og kominn þangað sem ljósið er. Ég hef svo margs að minnast. Þegar ég var lítil stelpa gat ég aldrei skilið af hverju ég þurfti alltaf að brjóta saman fötin mín og leggja þau slétt og strokin frá mér, og biðja bænirnar fyrir nóttina. En akkúrat þetta skipti þig svo miklu máli. Þú varst alltaf svo snyrti- legur og trúaður, þú kenndir mér svo margt sem þér var kennt sem barn. Ég man eftir okkur fyrst þegar við vorum að fara niður í skrúðgarð sautjánda júní og ég var svo fín í bleikri kjóldragt og þú í teinóttum jakkafötum með hatt. Þú beygðir þig niður og nældir í mig gyllta nælu og sagðir: nú erum við sko fín. Ég var ekki meira en fjögurra ára þá. Mig langar að lýsa þér aðeins elsku pabbi minn. Þú varst einstakt snyrtimenni, alltaf vel til hafður með hatt alveg sama þótt það væri fár- viðri þá var hatturinn alltaf á höfðinu á þér. Ég spurði þig oft hvernig þú færir að því að láta hann tolla í þessu veðri en ég fékk bara góðlátlegt glott. Þú varst alltaf á fallegum bíl- um, stífbónuðum. Þú varst trúaður, kannski ekkert sérlega mannblend- inn, en afskaplega traustur þeim sem þú tókst. Einu skiptin sem ég sá þig verulega pirraðan eða reiðan var þegar fólk var óstundvíst eða stóð ekki við gefin loforð. Þú varst mikill sóldýrkandi og voru þær margar ferðirnar sem þið mamma fóruð til Ameríku en þið voruð búin að ferðast mikið um heiminn. Heimilið ykkar mömmu er afar fallegt og margir fallegir munir úr ferðum ykkar prýða það. Ég man hvað þú varst stoltur þegar ég átti börnin mín, Emil Hjálmtý og Þórdísi Maríu, þú varst þeim mjög góður afi. Elsku pabbi minn ég þakka þér fyrir allt. Ég elska þig og mun alltaf gera. Þú varst mér svo mikils virði í lífinu, kenndir mér svo margt. Ég veit ekki hvernig allt verður í framtíðinni, því ég gat alltaf talað við þig og fengið góð ráð. Haddi og krakkarnir gerðu oft grín að mér því að ég væri svo mikil mömmu- og pabbastelpa en það er bara þannig. Ég bið algóðan guð að taka vel á móti þér elsku besti pabbi minn og styrkja mömmu í sinni miklu sorg. Guð blessi þig elsku pabbi minn. Þín dóttir, Helena. Kæri tengdapabbi. Mig langar til að kveðja þig með fáeinum orðum. Ég vil þakka þér fyrir góð kynni í gegnum árin, þú varst börnum okkar Helenu góður afi og henni góður faðir. Þú komst mikið á okkar heimili, þá var oftar en ekki talað um bíla, nýjasta bónið á markaðnum og fleira í þeim dúr. Síð- astliðna fimmtán mánuði dvaldir þú á Sjúkrahúsinu í Keflavík og kom ég oft til þín á þeim tíma, stundum sát- um við bara saman og sögðum fátt, en aðrar stundir gast þú spjallað um allt mögulegt. Ég þakka þér Hjálm- týr minn fyrir að vera mér ávallt góður. Guð blessi þig. Tengdamóður minni votta ég mína dýpstu samúð og megi guð styrkja þessa góðu konu í sinni miklu sorg. Kveðja, Hafsteinn. Elsku afi. Það er komið að kveðjustund, kall- ið stóra er komið. Þegar við sitjum hér hellast yfir okkur minningarnar. Minnumst við hans afa sem alltaf var svo góður við okkur. Við minnumst hans sem manns sem var alltaf fínn í tauinu og á stífbónuðum bílnum. Kallinn með hattinn eins og við sögð- um oft. Amma og afi voru mjög dugleg að ferðast og eyddu þau oft á tíðum lunganum af vetrunum í Ameríku í sólinni. Alltaf kom afi heim færandi hendi með ýmislegt gotterí frá Am- eríkunni og ávallt var hann kaffi- brúnn og í nýrri Hawaiiskyrtu. Einnig voru þær ófáar sumarbústa- ðadvalirnar sem við áttum saman í Ölfusborgum og símabústöðunum við Apavatn sællar minningar. Elsku afi, við viljum þakka þér fyrir að hafa verið stór hluti af lífi okkar og gleymum við aldrei stolta svipnum þínum þegar þú hélst á Þóri og Hafsteini litla í fyrsta skiptið. Þetta eru ómetanlegar stundir. Elsku amma, megi Guð styrkja þig í gegnum þessa erfiðu tíma. Elsku afi sem okkur var svo kær, minning þín mun lifa með okkur allt- af. Guð geymi þig. Þín afabörn, Þórdís María og Emil Hjálmtýr. Eftir átta áratugina þú ferð og heimsækir guðina, lygnir aftur augum og leggst til hvílu, þar til þú endurfæðist að nýju. Nú kominn ertu á betri stað og öll við innilega vonum að þér líki vel þarna uppi með hinum, afa Rúdda, ættingjum og gömlum vinum. Hvíl í friði, Edda Rós Skúladóttir. Góður og grandvar maður er genginn á fund feðra sinna. Ég kynntist Hjálmtý ekkert að ráði fyrr en við eignuðumst íbúð í sama sam- eignarhúsi. Þar sem Hjálmtýr fór, fór ákaflega virðulegur maður, kurt- eis, klæddist fallegum fötum og var alltaf mjög snyrtilegur til fara. Að- alstarf Hjálmtýs var símaverkstjórn og geri ég ráð fyrir að hann hafi not- ið sín vel þar með sín smekklegheit og lagni. Hann átti sínar æskustöðv- ar vestur við Arnarfjörð og þær voru honum ákaflega kærar, enda blund- uðu í hug hans sterkar tilfinningar til fjarðarins sem er umlukinn fögrum fjallahring með rennandi lækjum og fossandi ám sem steypast fram af flúðum og mynda tilkomumikla fossa. Í þessu umhverfi ólst Hjálm- týr upp til 8 ára aldurs niðri við ströndina á bænum Fossi. Þarna var fæðingarstaður hans og þarna steig hann sín fyrstu spor í þeirri kyrrð og fegurð sem ströndin og dalurinn höfðu upp á að bjóða. Ekki efa ég að það umhverfi sem Hjálmtýr naut þarna hafi mótað framkomu hans sem var alveg sérstök. Hjálmtýr varð að þola erfið veikindi sem urðu til þess að hann varð að dvelja lang- tímum saman á sjúkrahúsi. Aldrei heyrði ég hann kvarta yfir veru sinni þar. Ekki efast ég um að þegar erf- iðustu stundirnar sóttu hann heim í veikindum hans þá hafi hann látið hug sinn dvelja vestur í firðinum fagra. Ég vona að þar sem bústaður hans er nú megi hann hvílast við Sumar hug og sumar þrá sumar vakna nætur sumar á auga, sumar á brá sumar við hjartarætur. Hjálmtýr var gæfumaður í einka- lífi, átti myndarkonu sem var honum samstiga í lífinu en því miður misstu þau heilsuna bæði um svipað leyti og geri ég ráð fyrir að það hafi verið þeim báðum erfitt að geta ekki stutt hvort annað þegar þess þurfti mest með. En þegar svona var komið áttu þau góða stoð í börnum sínum sem gerðu það sem í þeirra valdi stóð til að létta þeim byrðina. Meinabætur margar minningarnar geyma. Til eru ljós, sem lýsa langt inn í æðri heima. Hvíld er hverjum heitin hvað sem yfir dynur, Guð og góðir englar gæti þín elsku vinur. (Davíð Stefánsson.) Og nú þegar Hjálmtýr er frá okk- ur sambýlisfólkinu farinn sendum við hugheilar samúðarkveðjur til allra aðstandenda hans. Magnús Þór. Hjálmtýr Jónsson REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST Þegar andlát ber að höndum Önnumst alla þætti útfararinnar ÚTFARARSTOFA KIRKJUGARÐANNA Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is Minningarkort 535 1825 www.hjarta.is 5351800

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.