Morgunblaðið - 01.05.2007, Blaðsíða 34

Morgunblaðið - 01.05.2007, Blaðsíða 34
34 ÞRIÐJUDAGUR 1. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Hún Emilía tengda- móðir mín er dáin. Veikindi hennar hefðu kannski átt að undirbúa okkur fyrir þessa staðreynd en samt gerðist þetta allt, allt of fljótt. Minningar um fyrstu heimsóknir mínar í Víðihvamminn kalla fram hlýju og gleði. Ég man hvað ég dáðist að Emilíu sem hélt utan um hópinn sinn með yfirvegun og jafnaðargeði því jafnan var afar líflegt á heimilinu. Sá hetjuskapur sem hún sýndi í veik- indum sínum var alltaf til staðar þó að ég hafi svo sem ekki verið að velta því fyrir mér þá. Hún kvartaði ekki þó að stundum hafi stakkurinn verið þröngt skorinn, heldur voru útsjónarsemi, nægjusemi og hugmyndaauðgi á með- al hennar aðalsmerkja. Umhyggja hennar fyrir sínum var augljós. Barnahópurinn fékk afar gott atlæti og kjarngóða hollustu sem þau búa að enn í dag. Hún var töfrakona í elda- mennsku og hannyrðum og öllu því sem hún tók sér fyrir hendur og byggðist á sköpun og alltaf nutum við hin góðs af. Hún undi sér vel við saumavélina þar sem hún töfraði fram endalausar gersemar fyrir sína nánustu. Barnabörnum sínum gaf hún góðan tíma og voru þau óþrjót- andi uppspretta gleðisagna og gull- mola sem hún var óspör á að miðla með okkur hinum. Það var alltaf stutt í brosið og hláturinn. Hún átti enda- laus ráð við hinum ýmsu kvillum þar sem hún var afar vel lesin um mátt og virkni náttúrulyfja. Hún hafði græna fingur og bar bæði garðurinn í Víði- hvamminum sem þau hjónin nostruðu í sameiningu og síðar blómstrandi stofuglugginn í Hamraborginni þessu glöggt vitni. Hún var stolt kona, dug- leg og ósérhlífin og hún bar ekki til- finningar sínar á torg. Hún hafði ríka réttlætiskennd og lét ekki vaða ofan í sig. Hún tók málin í sínar hendur eins og glöggt sást þegar hún var kosin formaður Hamraborgarráðsins. Hún kunni líka þá list að taka tillit til ólíkra sjónarmiða. Okkur þótti öllum svo undurvænt um hana og missir okkar allra er mikill en sérstaklega þó Sæ- mundar sem sér á eftir lífsförunaut sínum í nær 60 ár. Ég bið algóðan Guð að vaka yfir eftirlifandi eiginmanni og afkomend- um og styrkja þau í sorginni. Faðir og vinur alls, sem er, annastu þennan græna reit. Blessaðu, faðir, blómin hér, blessaðu þau í hverri sveit. Vesalings sóley, sérðu mig? Sofðu nú vært og byrgðu þig. Hægur er dúr á daggarnótt. Dreymi þig ljósið, sofðu rótt! (Jónas Hallgrímsson.) Elsku Emilía, takk fyrir allt og allt. Þín tengdadóttir, María J. Hauksdóttir. Elsku Emilía, ekki datt mér í hug að þegar ég talaði við þig í símann á afmælisdaginn þinn væri okkar síð- asta símtal. Það er svo margt sem ég hefði viljað segja þér og þakka þér fyrir. Ég hefði viljað segja þér hversu yndisleg tengdamóðir þú reyndist mér, við urðum strax miklar vinkonur og ég gat alltaf leitað til þín, hvort sem það var aðstoð með börnin eða bara til að spjalla. Þú varst börnunum okkar yndisleg amma og munu þau búa að því alla ævi. Það fyrsta sem ég heillaðist af í fari þínu þegar við kynntumst var hversu mikil móðir og amma þú varst. Í hverri heimsókn sem við Kiddi komum í Hamraborg- ina sýndir þú mér eitthvað nýtt sem Emilía Guðrún Baldursdóttir ✝ Emilía GuðrúnBaldursdóttir fæddist í Reykjavík 18. apríl 1930. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi föstudag- inn 20. apríl síðast- liðinn og var útför hennar gerð frá Digraneskirkju 30. apríl. þú varst að sauma á eitthvað af barnabörn- unum og vildir fá mitt álit á hvernig flíkin ætti að vera og eins og þú veist stóð aldrei á svör- um frá mér. Þegar Davíð Nói greindist með glútenóþol lagðist þú strax í að safna að þér uppskriftum, prófa að baka úr því hráefni sem í boði var, og eins og allt annað sem þú tókst þér fyrir hendur þá heppnaðist það vel. Davíð Nói fékk brauð, kökur, skonsur og alls kyns kræsingar heim með reglulegu millibili. Þegar Þorbjörg Oddný fæddist með hjartagalla þá varst þú að sjálfsögðu til staðar og hefðir gengið heiminn á enda ef þess hefði þurft. Eiði Orra sýndir þú alltaf eins og hinum skilyrðislausa ást og hlýju. Ég get endalaust setið og skrif- að yndislegar minningar um þig en ég á þær allar í hjarta mínu. Ég veit þú hefðir viljað að við yrðum sterk og myndum hugsa vel um Sæmund, sem við að sjálfsögðu glöð gerum. Elsku Emelía, ég á eftir að sakna þín mikið og þú munt alltaf eiga stórt pláss í hjarta mér. Þín tengdadóttir Unnur. Elsku amma, ég trúi því varla að þú sért farin. Mér fannst þetta gerast allt svo snöggt. Ég hélt að ég hefði all- an tímann í heiminum til að tala við þig en ég hefði átt að nýta hann betur. Missir okkar er mikill en ég veit að þér er nú ætlað annað hlutverk, á betri stað þar sem þú vakir yfir okkur öllum. Ég mun sakna danska jóladaga- talsins sem þú hengdir upp á vegg og við barnabörnin fengum alltaf að opna, dönsku blaðanna og að fara út í Hamraborg og ná í blaðið en konurn- ar voru farnar að þekkja okkur sem barnabörn ykkar afa. Ég mun sakna þín svo. Þú hjálpaðir mér alltaf svo mikið, ekki síst þegar ég var búsett í Danmörku. Símleiðis leiðbeindir þú mér í eldamennskunni, þvottinum og mörgu öðru. Það sem mér þykir verst er þó að Halli og bumbubúinn skuli ekki hafa fengið að kynnast þér. Í staðinn mun ég leggja mig alla fram við að leyfa þeim að kynnast þér í gegnum mig, gamlar minningar og myndir sem ég geymi. Elsku amma, nú ert þú komin í aðra og betri veröld þar sem þú og Emelía Agnes haldið í sameiningu verndarhendi yfir okkur öllum sem eftir sitjum. Minningin mun alltaf lifa í hjarta mínu. Þó að kali heitur hver, hylji dali jökull ber, steinar tali og allt hvað er, aldrei skal ég gleyma þér. (Úr vísumVatnsenda-Rósu.) Þín Sara Björk. Elsku amma mín. Ég vissi að það kæmi að þessari stund einhvern tímann en hún kom fyrr en ég hafði vonað. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma með þér undir lokin sem ég fékk. Áttum við saman þarna mjög góða stund sem ég gleymi aldrei. Og það var einmitt þessi stund sem var minn styrkur í þessu öllu saman, ég finn enn hlýjuna frá lófa þínum á vanga mínum. Ég elska þig alveg rosalega mikið og mun alltaf gera, þú varst besta amma í heimi og það var ynd- islegt að eyða með þér öllum þessum árum sem við áttum saman, þú hefur kennt mér margt um lífið og tilver- unna. Og mikið kenndirðu mér um saumaskap því það var það sem við áttum sameiginlegt og eyddum við miklum tíma saman fyrir framan saumavélina. Ég hef lofað mér því að hitta þig aftur og það ætla ég mér að gera og með þeirri hugsun sigraðist ég á þeim ótta sem ég hafði gagnvart dauðanum og í hjarta mínu veit ég að þú ert hjá okkur öllum og fylgist með og veitir okkur styrk þegar við þurfum á því að halda. Sjáumst aftur. Þín Erla María. Það er ekki hægt að ímynda sér lífsglaðari konu en hana ömmu mína, Emilíu Baldursdóttur. Þegar við bræðurnir komum í heimsókn til afa og ömmu í Víðihvamminn, og síðar Hamraborg, var eitt sem við gátum treyst á; skilyrðislaus ást ömmu okk- ar og hennar rosalega lífsgleði sem smitaði út frá sér hvert sem hún fór. Amma Milla og afi Sæmi breiddu út sinn hlýja faðm mót okkur og um- vöfðu okkur með kærleika. Hún tók á veikindum sínum eins og við mátti búast, með bros á vör sama hvað á bjátaði og dæmalausu hug- rekki. Eftir erfiða baráttu laut hún að lokum í lægra haldi fyrir sjúkdómn- um og má segja að hún hafi látist langt fyrir aldur fram. Hún skilur eft- ir sig níu börn, 24 barnabörn, þrjú barnabarnabörn og ógrynni yndis- legra minninga um fórnfúsa og ein- staklega góðhjartaða konu sem sá alltaf til þess að öllum liði vel í kring- um sig. Ég sakna hennar nú þegar en veit þó að hún horfir yfir á okkur öll og passar okkur eins og hún hefur alltaf gert. Hvíl í friði amma mín, við hittumst einhvern tímann aftur. Steinn Ingi. Okkur finnst ótrúlegt að amma Milla sé dáin. Hún var alltaf svo góð við okkur, við fengum alltaf ís hjá henni og hún bakaði brauð handa Davíð Nóa. Hún saumaði líka á okkur föt og gaf okkur á jólunum, prjónaði sokka handa okkur, prjónaði peysur á Þorbjörgu Oddnýju. Alltaf fylgdist hún amma Milla vel með okkur og vildi hvort við værum ekki alltaf hress og kát og gengi vel í skólanum og þannig. Það var svo gaman að koma til hennar og afa Sæma í Hamraborgina, fullt af dóti, litum og litabókum og svo tók amma upp á video úr sjónvarpinu, fullt af Tomma og Jenna-þáttum sem við máttum alltaf horfa á hjá þeim. Amma var alltaf eitthvað að föndra og búa til eitthvað sniðugt. Einu sinni bjuggum við til jólasveina á skíðum úr íspinnastöngum. Stundum fengum við líka að mála með vatnslitunum hennar. Og þegar við bjuggum á Digranesheiðinni og vorum í Kópavogsskólanum komu amma og afi stundum og sóttu okkur og þá fórum við í Hamraborgina og gerðum eitthvað skemmtilegt saman áður en mamma og pabbi sóttu okkur. Alltaf vildu amma og afi gera eitthvað fyrir okkur. Við söknum ömmu Millu mjög mikið en við vitum að hún er nú hjá Guði og henni líður vel. Við biðjum góðan Guð að passa afa Sæma því að hann saknar ömmu líka mjög mikið. Hvíldu í friði, elsku amma Milla okkar. Þín ömmubörn: Eiður Orri, Davíð Nói og Þorbjörg Oddný. Þegar ég hugsa til baka til ömmu Millu þá stendur einkum tvennt of- arlega í huga mér, í fyrsta lagi hversu einstaklega skemmtileg og húmorísk manneskja hún var og í öðru lagi sú staðreynd að maður virtist aldrei hitta öðruvísi á hana en að hún væri að malla eitthvað í eldhúsinu. Það fylgdi því þess vegna alltaf mikil gleði að kíkja í heimsókn til afa og ömmu í Kópavogi, því maður gat gengið að því vísu að halda heim aftur með bros á vör og magann fylltan af góðgæti. Amma mín var einstök, kraftmikil og barngóð kona, og því var mér nokkuð brugðið við fregnir af veikindum ömmu, en ég var alltaf handviss um að ef einhver gæti sigrast á veikindunum þá væri það hún. Amma mín var ein- stakt hörkutól og sást það best í því hvernig hún tókst á við veikindi sín, af æðruleysi og hljóðum innri styrk. Þessi innri styrkur kom einkar vel í ljós þegar hún harkaði af sér illa líðan og þó nokkurn sársauka til þess að mæta til skírnar sonar okkar um páskana. Þau fengu að eiga saman góða stund, enda var amma barngóð með eindæmum og drengurinn áfjáð- ur að sækjast í hjartahlýju hennar. Áður en við héldum aftur til Dan- merkur fórum við í heimsókn í Kópa- voginn, þar sem amma fór eftir sem áður á kostum og við héldum að venju heim södd og kát. Ég styrktist við heimsóknina enn frekar í trúnni að amma væri öll að braggast og því var það ennþá sárara að heyra að veik- indin hefðu að lokum sigrað hana. Það virkar hálfóraunverulegt að sitja hér í vorblíðunni í Danmörku og skrifa minningargrein um hana ömmu mína. Fuglarnir syngja, sólin skín og mennirnir eru glaðir. Náttúr- an vaknar til lífsins, kveður kaldan veturinn og fagnar komu vorsins. Í Prédikaranum segir: „Öllu er afmörk- uð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma. Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma.“ Þó svo ég eigi erfitt með að sætta mig við það, þá var stund ömmu minnar runnin upp. Eftir stutt og erf- itt haust í hennar æviskeiði kom að vetri. Megi hún hvíla í friði. Haukur S. Þorsteinsson. Ég vil minnast Emilíu Guðrúnar Baldursdóttur, þakka henni vinskap og velvild og votta fjölskyldu hennar samúð. Hún stýrði stóru heimili og kom hópi barna til manns. Eftir stendur stór og samhent fjölskylda sem nú syrgir og minnist mildrar móður. Kynni mín af Emilíu hófust með vinskap við einn af sonum henn- ar fyrir nær 30 árum og naut ég um leið þeirrar gæfu að fá að kynnast fjölskyldu hennar og eiginmanni, Sæ- mundi Þorsteinssyni sem lifir konu sína. Að henni standa gildir stofnar: Ættir Sigurlínar Jónsdóttur (d.1953), móður Emilíu má m.a. rekja til Páls Torfasonar, sýslumanns á Núpi í Dýrafirði. Hann var einn af afkom- endum séra Björns Jónssonar á Mel- stað, Arasonar Hólabiskups. Kona Björns á Melstað var Steinunn Jóns- dóttir Magnússonar „ríka“ á Sval- barði í Eyjafirði. Þá má rekja ættir Sigurlínar til Arngríms Jónssonar, hins lærða er má telja meðal mestu fræðimanna á Íslandi á siðskiptaöld. Ættirnar má rekja víða um Vestfirði og til nokkurra höfuðbýla á Barða- strönd og í Dali. Til er saga af því hvernig einn af mestu dýrgripum Árnasafns, skinnhandrit frá 15. öld, komst í eigu Árna Magnússonar. Bókina hafði einn af forfeðrum Emil- íu, Björn Magnússon, sýslumaður í Bæ á Rauðasandi gefið Árna eftir að hafa látið binda hana inn með mikilli viðhöfn. Bókin mun komin frá Egg- erti Hannessyni, sýslumanni Ísfirð- inga, en hann var afi Björns. Faðir Emilíu, Baldur Guðmunds- son (d.1947) var sömuleiðis kominn af mörgu merku fólki sem þekkt er úr sögu Íslands. Má þar nefna Björn „ríka“ Þorleifsson, hirðstjóra á Skarði á Skarðsströnd og Björn Jórsalafara Einarsson. Báðir voru þeir komnir út af Þórdísi Snorradóttur Sturlusonar. Eignkona Björns á Skarði var Ólöf, dóttir Lofts „ríka“ Guttormssonar, riddara, hirðstjóra og skálds á Möðruvöllum í Hörgárdal. Aðrir for- feður Baldurs sátu margar kynslóðir í Ljárskógum í Laxárdal, margir þeirra virtir embættismenn. Leið mín lá oft á hið hlýlega heimili Emilíu og Sæmundar sem lengi stóð í Víðihvammi 38 í Kópavogi. Það gladdi gest að heimilisbragur var líkari því sem gerðist á stórum sveitaheimilum fyrr á tímum frekar en því sem vand- ist í ys borgarlífsins. Gestum mætti hlýtt og glaðvært viðmót og margt var skrafað og mikið hlegið. Hús- freyjan tók á öllu með hógværð og af öryggi en skopið var aldrei langt und- an. Fátt bifaði henni og bar þó margt til á heimili stórfjölskyldu eins og þeirrar sem hún mótaði. Hún stýrði heimili sínu af festu og jafnaðargeði; hæglát og hlý í viðmóti, snögg til svars og föst fyrir ef þurfti en lét smá- muni lönd og leið. Hún vann sitt starf af festu og styrk sem skapað hefur börnum hennar þá gerð sem vel mun duga í lífsins ólgusjó. Fátt er betra veganesti en að hafa notið þeirrar festu og hlýju sem hún miðlaði börn- um sínum og afkomendum. Ég votta vinum mínum, fjölskyldu Emilíu og eiginmanni dýpstu samúð. Áfram lifir minningin um heilsteypta konu sem skilaði ævistarfi sínu með reisn og höfðingsskap. Guðmundur Kjartansson. Emilía eða Milla eins og við köll- uðum hana er fallin frá. Það kemur alltaf á óvart þegar kallið kemur þrátt fyrir að hafa vitað af veikindum henn- ar. Ég ólst upp í næsta húsi við Sæma og Millu niðri í Víðihvammi. Það fyrsta sem ég man úr hverfinu var að við vorum alltaf eitthvað að brasa strákarnir hennar, Jakob, Gulli og Baldur og við Örn bróðir, en við erum allir á svipuðum aldri. Alltaf var Milla þolinmóð þótt við hefðum komið illa til reika, skítugir, með rifna buxnaskálm eftir ævintýraferð niður á læk. Það er líka ljóst að oft hefur tekið á að vera með stórt heimili á þeim tíma sem við vorum að alast upp. En öllu tók Emilía með miklu jafnaðargeði og gerði létt grín að öllu saman. Ég minnist Emilíu með hlýhug og fyrir hönd fjölskyldu minnar sendi ég Sæmundi og börnum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Rögnvaldur Pálmason. Emilía vinkona okkar lést hinn 20. apríl eftir erfið veikindi. Við minnumst hennar með þakk- læti fyrir að hafa fengið að kynnast henni og starfa með henni til margra ára á Skóló (Skóladagheimilinu í Dal- brekku sem var síðan flutt í Skóla- gerði) og fengið að njóta visku hennar og umhyggju. Emilía var myndarleg í allri framgöngu, dugleg til verka og hugmyndarík. Það var góður matur- inn hennar Emilíu og nutu hans allir, bæði börn og fullorðnir, enda lagði hún allt sitt í að gera hann sem best- an, hráefni gott, engin aukefni og fullt af kærleika. Það var gott að sjá börn- in í eldhúsinu hjá henni að borða eða eitthvað að sýsla, Emilía gat spjallað við þau og hjálpað þeim að leysa lífs- gátuna. Það var gott að leita ráða hjá henni enda vel lesin og fróð, hafði ráð undir rifi hverju eins og sagt er. „Spyrjum Emilíu,“ var viðkvæðið, „hún kann örugglega ráð við þessu.“ Emilía var hlynnt óhefðbundnum lækningum og vel lesin um þau mál- efni og var oft spennandi að fá útskýr- ingar á þessu eða hinu hjá henni, við gleyptum þessi fræði í okkur. Þær voru minnisstæðar margar kaffipásurnar á Skóló eða „frímínút- urnar“ eins og við kölluðum þær. Þá kom Sæmundur gjarnan með súkku- laði handa okkur og þökkum við hon- um kærlega fyrir það og kátínuna sem fylgdi honum. Hann stoppaði ekki lengi, vildi leyfa Emilíu að njóta stundarinnar með okkur hinum. Þetta voru nauðsynlegar stundir og treystu vináttubönd okkar sem hafa haldið þótt við höfum farið sín í hvora áttina. Við höfum hist reglulega og höfum átt saman sérstakar stundir með ýmsu matarkyns, sérríi, kaffi og að sjálfsögðu var spáð í bolla en Em- ilía var góð í því og hafði gaman af. Við þökkum Emilíu fyrir stundirnar sem við áttum með henni og þó sér- staklega erum við þakklátar fyrir að hafa átt með henni stund fyrir u.þ.b. mánuði en þá var hún sæmilega hress. Þá var spjallað um heima og geima og eins og alltaf rifjuðum við upp margt skemmtilegt af Skóló. Em- ilía var bjartsýn þá og horfði til fram- tíðar og var ekkert á því að gefast upp fyrir sínum veikindum. Við lítum til þessarar stundar með þakklæti þegar við kveðjum þig, kæra Emilía og þökkum fyrir samfylgdina, viskuna og kærleikann sem þú sýndir okkur. Megi guð styrkja og vernda fólkið þitt á erfiðum stundum. Nú er sál þín rós Í rósagarði Guðs kysst af englum döggvuð af bænum þeirra sem þú elskaðir aldrei framar mun þessi rós blikna að hausti (Ragnheiður Pála Ófeigsdóttir.) Kær kveðja. Guðrún, Sóley Gyða, Eygló, Ásdís, Erla og Þórey Birna á Skóló.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.