Morgunblaðið - 09.05.2007, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 09.05.2007, Blaðsíða 22
22 MIÐVIKUDAGUR 9. MAÍ 2007 MORGUNBLAÐIÐ AKUREYRI SÖNGTÓNLEIKAR með heitinu Ljóðalög Jóns Hlöðvers verða haldnir í Ketilhúsinu á Akureyri í kvöld. Eins og nafnið gefur til kynna eru á söngskránni eingöngu lög eftir Akureyringinn Jón Hlöð- ver Áskelsson en með tónleikum þessum vill tónskáldið heiðra Sig- urbjörgu Hlöðversdóttur móður sína 85 ára og einnig minningu Ás- kels Jónssonar föður síns, sem um árabil var mikil driffjöður í söng- og tónlistarlífi á Akureyri. Aðgangseyri og frjálsum fram- lögum á tónleikunum verður óskiptum varið til Orgelsjóðs Gler- árkirkju, en þann sjóð stofnuðu Ás- kell og Sigurbjörg árið 1986. Flytjendur á tónleikunum eru Margrét Bóasdóttir – sópran, Daníel Þorsteinsson á píanó, ásamt kammerkórnum Hymnodia undir stjórn Eyþórs Inga Jónssonar. Á efnisskránni er söngvaflokk- urinn „Vísur um draum“ við 12 ljóð eftir Þorgeir Sveinbjarnarson og les Þráinn Karlsson leikari ljóðin upp á und- an. Einnig verð- ur fluttur þriggja laga söngvasveigur, „Mýrarminni“ við ljóð eftir Jón Bjarman, Sverri Pálsson og Snorra Hjartarson. Tónleikunum lýkur með kórverk- inu „Í fjallasal“ við ljóð Sverris Pálssonar, sem samið var í minn- ingu Áskels Jónssonar. Tónleikarnir hefjast kl. 20.30. Tekið er við aðgangseyri, 1.000 krónum, og frjálsum framlögum, við innganginn. Gefur móður sinni tónleika í afmælisgjöf Jón Hlöðver Áskelsson SEGJA má að senn hefjist fyrir al- vöru vertíð hjá Siglingaklúbbnum Nökkva eins og öðrum sambæri- legum félögum hér á landi. Aflinn sem kemur að landi er ekki hefð- bundinn og ekki mældur í kílóum eða tonnum heldur brosi á andliti ungmennis, gleði og ánægju eftir vel heppnaða siglingu. Þegar sól hækk- ar á lofti og sumarið minnir á sig fjölgar litlum seglbátum á Pollinum, fáeinir svifu þar seglum þöndum síð- degis í gær og eitt vélknúið far- artæki að auki, til aðstoðar. Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson Siglt til móts við sumarið RES-Orkuskóli, alþjóðlegur skóli á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, verður stofnaður í dag; einkarekin mennta- og vísindastofnun sem verð- ur til húsa í nýjum vísindagörðum við Háskólann á Akureyri. RES mun byggja starfsemi sína á forystu Ís- lendinga á sviði orkumála. Engin hliðstæða í heiminum Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, stýrir opnunarhá- tíðinni en einnig ávarpa samkomuna Valgerður Sverrisdóttir utanríkis- ráðherra og Halldór J. Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans. „Stofn- un Orkuskólans er stór dagur í ís- lensku menntakerfi og í raun á heimsvísu enda á skólinn sér ekki hliðstæðu í heiminum. Skólinn hefur þegar fengið verulega kynningu er- lendis og eru fyrstu nemendur hans væntanlegir á komandi vikum,“ seg- ir í frétt frá stofnendum. RES-skólinn stofnaður Sauðárkrókur | Hinn 23. febrúar síðastliðinn voru eitt hundrað ár lið- in frá því að sjúkrahús var tekið í notkun á Sauðárkróki. Í tilefni þess- ara merku tímamóta er efnt til veg- legrar afmælisdagskrár sem stend- ur dagana 6. til 29. maí. Við upphaf þessara hátíðahalda, á sunnudaginn, var boðið til samsætis í hátíðarsal Fjölbrautaskólans á Sauðárkróki þar sem Örn Ragnars- son yfirlæknir setti samkomuna en Herdís Klausen hjúkrunarforstjóri stýrði dagskrá. Ávörp fluttu Sveinn Magnússon, starfsmaður heilbrigð- isráðuneytis, í forföllum Sivjar Frið- leifsdóttur heilbrigðisráðherra, og Birgir Gunnarsson, framkvæmda- stjóri Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki. Þá flutti Jón Ormar Ormsson „Nokkur orð um sögu“ úr samantekt sinni um sögu sjúkra- hússins á Sauðárkróki og fjallaði þar aðallega um undirbúning, byggingu og fyrstu árin í sögu sjúkrahússins, svo og nokkra þá menn sem mörk- uðu glögg spor í sögu heilbrigðis- mála í héraðinu. Þá sungu Álftagerð- isbræður og gestir þágu veitingar í boði Heilbrigðisstofnunarinnar. Síðar um daginn var opnuð glæsi- leg og mjög fróðleg sýning í hinum hundrað ára „Gamla spítala“ sem nú þjónar sem safnaðarheimili Sauðár- krókssafnaðar, en þar hefur verið komið fyrir skemmtilegum mynd- spjöldum sem sýna í texta og mynd- um sögu sjúkrahússins en einnig eru í sýningarskápum gömul lækninga- áhöld og á efri hæð er endurgerð sjúkrastofa sem líkust því sem var á upphafsárunum. Sigríður Sigurðar- dóttir, safnvörður í Glaumbæ, ann- aðist uppsetningu og hönnun. Verð- ur sýningin opin flesta daga út mánuðinn, en einnig eru sjö kvöld- dagskrár á „Gamla spítalanum“ þar sem Jón Ormar mun fjalla ásamt Sigríði K. Jónsdóttur um einstaka þætti í sögunni. Fjöldi gesta var við- staddur á sunnudaginn, m.a. ráð- herrar, alþingismenn og forstöðu- menn annarra heilbrigðisstofnana. Ljósmynd/Björn Björnsson Hátíðahöld Aldarafmælinu fagnað á Sauðárkróki sl. sunnudag. Friðrik Jens, fyrrv. héraðslæknir, til hægri, skoðar gömul lækningaáhöld með Óskari Jónssyni yfirlækni og Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra. Eitt hundrað ár frá stofnun sjúkrahússins MARGRA grasa kennir í veglegu riti, 100 ár í heilbrigði, sem kom út í tilefni afmælisárs Heilbrigðisstofn- unarinnar á Sauðárkróki og dreift hefur verið á öll heimili í Skagafirði. Jón Ormar Ormsson stiklar þar á stóru í sögu sjúkrahúss á Króknum. Jón Þorláksson, landsverkfræð- ingur, síðar forsætisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík, teiknaði sjúkrahúsið við Aðalgötuna sem reist var 1906-1907. Húsið var formlega tekið í notkun 23. febrúar 1907 en samkvæmt sjúkrahússkýrslum var farið að taka á móti sjúklingum í desember 1906. Tíu sjúkrarúm voru í húsinu en 1912 var það stækkað og þá voru þar fjórtán rúm. Stóð svo fram yfir 1920. Margir merkir menn koma við sögu, t.d. nafnarnir Guðmundur Hannesson og Magnússon, héraðs- læknar, Sigurður Pálsson og Jónas Kristjánsson, sem gegndu sama embætti. Grípum niður í frásögn Jóns Orm- ars: „Guðmundur Hannesson hér- aðslæknir hafði áður komið hreyf- ingu á sjúkrahúsmálið, eins og hann orðaði það en þegar Sigurður Páls- son tók við sem héraðslæknir, 1898, hófst hann þegar handa að hrinda byggingu sjúkrahússins, í fram- kvæmd.“ Sigurður þessi var Húnvetningur eins og þeir fyrirrennarar hans. Jón Ormar vitnar í Sögu Sauðárkróks, og segir: „Sigurður læknir naut svo óvenjulegra mannheilla, að slíks munu fá dæmi í Skagafirði. Sjúkling- ar hans gátu þess, að návist hans til aðgerða hefði orðið þeim mikill þrautaléttir, þó ekki kæma til að- gerða. Hann var hress í anda, þel- hlýr, bar með sér sólskin að sjúkra- beði. Hins vegar er í sögnum, að Guðmundur Hannesson og síðar Jónas Kristjánsson hafi bölvað hressilega, tvinnað og þrinnað, er þeir fengust við smærri aðgerðir, sjúklingunum til hugarléttis og gaf góða raun. Virðast því báðar aðferð- irnar gagnlegar, aðalatriðið að sýna ekki tilfinningaleysi.“ Jón Ormar greinir frá í riti sínu að Skagfirðingar nutu Sigurðar Páls- sonar ekki lengi eftir að sjúkrahúsið var risið. „Haustið 1910 fór Sigurður læknisferð vestur á Skagaströnd að ósk vinar hans Carls Berndsens kaupmanns. Ófús var Sigurðar þess- arar farar en vildi ekki neita þessum vini sínum, þótt annar læknir væri nær á Blönduósi. Það lýsir vel sam- gönguháttum þessa tíma að Sigurður tók strandferðaskipið Vestu, vestur til Skagastrandar, en þegar þangað kom var veðri þannig háttað að skip- ið hafnaði sig ekki heldur hélt inn til Blönduóss. Verða þessir atburðir ekki raktir frekar hér að öðru en því að þegar hann hugðist fara landveg til Skagastrandar var hann ekki vel til ferðalags búinn eins og rakið er í Sögu Sauðárkróks. Þegar kom að Laxá í Refasveit varð það slys að hann féll af hestinum og drukknaði í ánni. Þegar fréttir bárust af þessu slysi til Skagafjarðar var Skagfirð- ingum mjög brugðið. En þeir ákváðu að halda vestur Fjöll að sækja lík Sigurðar og gera þá för eft- irminnilega og bera líkkistuna á höndum sér austur Kolugafjall og segja heimildir að sú leið sem farin var sé um 40 kílómetrar. Fór Jón Ós- mann, ferjumaður á Vesturósi, einn kynlegasti kvistur í skagfirskum sögum seinni tíma fyrir göngumönn- um. Höfðu þeir Sigurður átt marga góða stund saman við veiðar, vín og ljóð, á Furðuströndum, byrgi Jóns við Vesturósinn. Þegar fréttist að lík- fylgdin væri komin að Gönguskarðsá hélt fjöldi fólks úr Króknum að fylgja lækninum síðasta spölinn utan frá Eyrinni og heim að læknishúsinu. Útförin var gerð frá Sauðárkróks- kirkju 31. október. Mikið fjölmenni var við athöfnina og hafa sumir getið þess til að fjölmennari jarðarför hafi ekki verið gerð í Skagafirði á seinni öldum. Theodór Friðriksson rithöf- undur var búsettur á Króknum þeg- ar þessi atburður gerðist og í sinni einstöku ævisögu, Í verum, segir hann frá þeim og lýkur frásögn á þessum orðum: „Hef ég aldrei séð fólki meira burgðið en við útför þessa vinsæla læknis. Einkum var það eft- irtektarvert, hve margar konur vildu gráta þennan fríða mann úr helju.“ Báru líkkistu læknisins 40 km Ljósmynd/Björn Björnsson Spítali og safnaðarheimili „Gamli spítalinn“ við Aðalgötu þjónar sem safnaðarheimili Sauðárkrókssafnaðar. Gamli tíminn Frá sýningunni í Gamla spítalanum; sjúkrastofa lík því sem var á upphafsárunum. Sigríður Sigurðardóttir hannaði og setti upp. LANDIÐ

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.