Morgunblaðið - 19.01.2008, Side 19
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 19. JANÚAR 2008 19
MENNING
Í LISTASAFNI Reykjavíkur, Hafn-
arhúsi, stendur nú yfir sýning á inn-
setningu Steingríms Eyfjörð sem var
framlag Íslendinga á Feneyja-
tvíæringnum síðastliðið sumar. Stein-
grímur er þjóðinni vel kunnur enda
verið ötull og áberandi í íslensku lista-
lífi í meira en þrjátíu ár. Hann er
þekktur fyrir verk í anda kons-
eptlistar sem lagði meiri áherslu á
hugmyndina sjálfa í formi texta, út-
skýringa, ljósmynda, teikninga og
verkferla en hefðbundin endanlega
útfærð myndverk. Aðferðafræði
konseptlistarinnar er í útvíkkaðri
mynd orðin eitt helsta einkenni sam-
tímamyndlistarinnar þar sem hún
hefur blandast áherslum póstmódern-
ismans. Til dæmis áherslum á kenni-
mörk sjálfsmynda, hvort heldur sem
einblínt er á þjóðir, kynþætti, kyn-
ferði, kyngervi, eða annarra þátta
sem byggja upp samsemd.
Sýning Steingríms ber hinn bjart-
sýna titil „Lóan er komin“ og inni-
heldur margvísleg verk sem virðast
innbyrðis óskyld en tengjast þó öll
einhverjum mýtum sem eiga þátt í
sameiginlegri sjálfsmynd íslensku
þjóðarinnar. Þótt þrívíddarmyndverk
á borð við risavaxna lóu, heldur minni
spóa steyptan í brons og stíu fyrir
ósýnilega álfakind virðist vera í aðal-
hlutverki á sýningunni þá eru þau
frekar eins og sjónrænn viðbótar-
lúxus við alla handskrifuðu textana,
prentuðu sögurnar, ljósmyndir og út-
skýringar sem eru burðarásinn í sýn-
ingunni.
Þjóðarsálin íslenska sem hér birtist
er málum blandin, gefur sig út fyrir
að vera rannsakandi og gagnrýnin á
sjálfa sig um leið og sjálfsupphafn-
ingin skín í gegn. Eins og þegar yf-
irsjálfið lekur yfir í gyllisjálf. Þótt
áherslan sé á að áhorfandinn lesi sýn-
inguna vitsmunalega samkvæmt
konseptlistahefðinni sem leggur mest
í orð og texta þá felur hún einnig í sér
sjónrænar fagurfræðilegar skírskot-
anir sem krefjast tilfinningalegrar
skynjunar.
Þessi samsláttur hins rökrétta og
órökrétta, texta og myndar er áber-
andi og meðvitaður þáttur í sýning-
unni. Hugmyndin um Lógosið sem
mystískt samband orðs og myndar er
það leiðarstef sem sýningin hverfist
um. Hvernig á að lesa mynd og hvern-
ig á að sjá orð. Lógó á morgunkorns-
pökkum leika stórt sjónrænt hlutverk
um leið og pakkarnir sjálfir eru not-
aðir sem Camera Obscura myndavél
til að soga í sig ímyndir af Þingvöllum.
Broddur pólitískrar gagnrýni litaður
samsæriskenningum gefur ákveðinn
tón. Sýningin sem heild gefur í skyn
að hún búi yfir einhverju meiru held-
ur en samanlögð einstök verk hennar
fela í sér. Upphafinn gregorískur
söngur sem heyra má á myndbandi
ýtir undir hugleiðsluástand og gerir
áhorfandanum kleift að dvelja lengur
og lesa meira í von um að finna ein-
hvern sannleikskjarna sem verkin öll
virðast gefa fyrirheit um.
Tilfinning fæst fyrir því að dulin
skilaboð leynist í sýningunni, einhver
samnefnari, einhver kenning eða
heimspeki eða trú. Þetta er eins og að
vera eða horfa á alkemista sigta
hverja sandhrúguna á fætur annarri í
leit að gullkorni eða reyna að skapa
það með því að eima eða blanda sam-
an ódýrum málmum.
Sýningin er ákaflega flókin um leið
og ekkert krefst þess að maður skilji
hana því það er í sjálfu sér nóg að
undrast eða brosa. Eða samsama sig
hinni meðvituðu bernsku nálgun
listamannsins sem setur sig í stell-
ingar þess sem spyr og lærir af öðr-
um í hinum fjölmörgu viðtölum sýn-
ingarinnar. Það vísar í hið hreina
hjarta sem er forsenda þess að fá að
sjá inn í hina huldu heima. Trúarleg
stef eru áberandi, jatan, vatnið, saltið
af veginum, ósýnilega kindin, fisk-
urinn og leynda vopnið gætu falið í
sér vísun um yfirnáttúrulega eða fag-
urfræðilega útvalningu þjóðarinnar
eða fulltrúa hennar.
Steingrímur hefur í samvinnu við
fjölmarga aðila náð að skapa einstaka
og eftirminnilega sýningu sem snert-
ir nauðsynlega tilurð óra fyrir sjálfs-
mynd, hvort heldur er einstaklings
eða þjóðar. Ágætri sýningarskrá
hefði þó mátt fylgja stækkunargler.
Fagurfræðileg skák
MYNDLIST
Listasafn Reykjavíkur, Hafnarhús
Opið alla daga vikunnar 10:00 – 17:00.
Aðgangur ókeypis. Sýningin stendur til
2. mars.
Steingrímur Eyfjörð – Lóan er komin
Þóra Þórisdóttir
Lóan „Sýning Steingríms ber hinn
bjartsýna titil „Lóan er komin“.“
VOLDUGIR tónar orgelsins í Hall-
grímskirkju sköpuðu málverkunum í
anddyrinu dramatískan bakgrunn
þegar undirrituð var þar á ferð, en þar
sýnir Arngunnur Ýr myndir sínar.
Arngunnur hefur um árabil þróað
margræð málverk sem hafa skýjafar
að myndefni. Í því trúarlega samhengi
sem kirkjan skapar verkum hennar
verða þau dálítið upphafin og skýin
sem sum eru bleikrauð, fjólublá eða
gullin, auðveldlega séð sem hluti af
þróun málverksins allt frá miðöldum,
þegar listin tengdist kirkjunni hvað
mest, manni detta t.d. í hug kandíflos-
legir skýjabólstrar umhverfis bústna
engla. Skýjafarið á málverkum Jacob
van Ruysdael á 17. öld kemur einnig
upp í hugann en ekki síst rómantík 19.
aldar sem er uppfull af alls kyns birt-
ingarmyndum himinsins með Turner í
fararbroddi. Impressionistarnir leit-
uðust líka við að fanga hverfula birtu.
Það er eðlileg þróun að málarar haldi
áfram að horfa til himins, og á hverj-
um tíma er það sem þeir sjá og sýna
háð heimsmynd okkar og tíðaranda.
Í Gallerí Turpentine sýnir Arn-
gunnur sömuleiðis stór málverk, einn-
ig minni myndir sem gætu verið skiss-
ur en eru þó fullunnin verk.
Skýjamyndir hennar hafa undantekn-
ingarlaust jarðtengingu, fjallatoppa
eða eyjar. Bestu myndirnar eru marg-
ræðar og áleitnar, þegar horft er á
þær er eins og fótunum sé kippt und-
an manni og himinn og jörð verða eitt,
forgrunnur og bakgrunnur, hvað snýr
upp og hvað niður brenglast, ef til vill í
samræmi við rómantíska hugmynd
um smæð mannsins gagnvart hinni
stóru náttúru. Á móti þessari róm-
antísku hugmynd kemur síðan gagn-
rýnin og nútímaleg vinnuaðferð mál-
ara sem tekst á við myndflötinn af
vísindalegri nákvæmni, rífur svolitla
skænu af hér, leyfir litunum að bland-
ast þar, setur saman fínlegar og flæð-
andi litasamsetningar sem koma stöð-
ugt á óvart.
Arngunnur hefur ekki haft sig mjög
í frammi hérlendis enda lengst af ver-
ið og er enn búsett erlendis. Hún á þó
fullt erindi inn í íslensku listasöguna
með sérstakan myndheim sinn, þar
sem á stundum nær sykursætt yf-
irborðið leynir töluvert á sér.
Huliðsbirta
MYNDLIST
Forkirkja Hallgrímskirkju og
Gallerí Turpentine
Sýningin í Hallgrímskirkju stendur til 29.
feb. Opið er alla daga 9–17.
Sýningin í Gallerí Turpentine stendur til
19. jan. Opið mán. til fös. frá kl. 12–18
og 12–17 lau.
Arngunnur Ýr Gylfadóttir
Ragna Sigurðardóttir
Skýjafar „Arngunnur hefur um árabil þróað margræð málverk...“
AÐSÓKNIN að fyrstu sinfóníutón-
leikum ársins í rauðu röðinni var
mjög góð og furðuóháð fannferginu
er gerði smábílaeigendum úthverf-
anna örðugt um vik.
Í tilefni af sextugsafmæli hins ást-
sæla konsertmeistara SÍ, Guðnýjar
Guðmundsdóttur, hófst dagskráin á
verki Þorkels Sigurbjörnssonar
Ljósbogar (11’), samið til fimmtugs-
afmælis hennar 1997, og flutt af
sameinuðum fiðlarahópum hljóm-
sveitarinnar eða um 27 manns. Pip-
armyntuferskt þrástefjaskotið en
kliðfagurt verkið ku öðrum þræði
hafa verið hugsað fyrir sístækkandi
nemendaskara Guðnýjar, enda sló
það mann við fyrstu heyrn sem fyr-
irtaks upphitunaretýða fyrir jafnt
langt komna nemendur sem at-
vinnumenn. Í því sambandi væri
kannski athugunarvert fyrir verk-
efnavalsnefnd að grennslast eftir
gagngerum „æfingum“ fyrir sinfón-
íuhljómsveit, ef einhverjar bitastæð-
ar fyrirfyndust í heimstónbók-
menntum, og bera á borð fyrir
tónleikagesti. A.m.k. kom þessi
bráðfallega út í vel samstilltum leik
1. og 2. fiðluleikara SÍ undir innblás-
inni stjórn Rumons Gamba.
Rannveig Fríða Bragadóttir var
greinilega á heimavelli í fimm Rüc-
kert-ljóðum Gustavs Mahlers frá
1902, jafnvel þótt neðra tónsvið
hennar lyti stundum í lægra haldi
fyrir hljóðfæramargnum í afleitum
sönghljómburði Háskólabíós. Þó að
síðustu og lengstu tvö ljóðin héldu
varla sömu athygli og fyrri þrjú (du-
lítið a la „Wagner á valíum“ eins og
gárungi orðaði það), var leikurinn í
jafnháum klassa og fyrr, og Rann-
veig fór með alinlöngu úthaldskrefj-
andi hendingarnar af fagmannlegri
innlifun.
Látlaus andi þjóðlagsins er sjald-
an langt undan hjá brezka tónskáld-
inu Ralph Vaughan-Williams (1872-
1958), og fjórþætt 5. sinfónía hans
frá 1938-43 er þar engin undantekn-
ing. Að friðsælu og heiðtæru heild-
aryfirbragði viðbættu er ekki laust
við að líta megi á verkið sem frið-
arákall á viðsjárverðum tímum.
Ljóst var frá upphafi að stjórn-
andinn þekkti ópusinn í bak og fyrir,
enda leikurinn afbragðsgóður,
styrkbrigðaramminn míluvíður
(pppp niðurlag Rómönzunnar (III)
var t.a.m. engu líkt), og náttúrulýr-
ísk litbrigði tréblásturs og viðhafn-
arglampi látúnsins veittu hlust-
endum unað af því hríslandi tagi er
réttlætir til fullnustu ómakið við að
bregða sér burt frá hljómflutnings-
tækjum heimilisins á vettvang lif-
andi spilamennsku. Og hafi höf-
undur ekki alveg haldið
sambærilegum dampi til enda í síð-
ustu þáttum, þá má samt óhætt
flokka þessa tónleika meðal hinna
betri á hálfliðinni vertíð.
Hríslandi unaður
TÓNLIST
Háskólabíó
Þorkell Sigurbjörnsson: Ljósbogar. Mahl-
er: Rückert-Lieder. Vaughan-Williams:
Sinfónía nr. 5. Einsöngur: Rannveig Fríða
Bragadóttir. Sinfóníuhljómsveit Íslands
u. stj. Rumons Gamba. Fimmtudaginn
17. janúar kl. 19:30.
Sinfóníutónleikarbbbmn
Ríkarður Ö. Pálsson
KAMMERKÓR Langholtskirkju
fær til liðs við sig suma af þekktustu
djasstónlistarmönnum landsins á
tónleikum annað kvöld. Þekkt söng-
lög eftir Jónas og Jón Múla Árna-
syni, vinsælir erlendir djassslagarar
á borð við „Route 66“ og Bítlalög eru
meðal þess sem kórinn hefur verið
að æfa að undarförnu. Píanóleik-
arinn Davíð Þór Jónsson, trommu-
leikarinn Einar Valur Jónsson, saxó-
fónleikarinn Sigurður Flosason og
kontrabassaleikarinn Valdimar Kol-
beinn Sigurjónsson spila bæði undir
hjá kórnum og leika tónlist án söngs.
Jón Stefánsson stjórnandi kórsins
segir tónleikana verða þrískipta,
fyrsti hluti þeirra verði helgaður ís-
lensku efni en síðan taka við verk
eftir sænska tónskáldið Nils Lind-
berg. „Í síðasta hlutanum syngur
kórinn svo flóknar útsendingar á vin-
sælum lögum sem voru gerðar fyrir
sænsku hljómsveitina Real Group.
Það sem er mest spennandi er verk
sem heitir Chili Con Carne sem er
algjör sprengja. Við höfum verið að
berjast við þetta, þetta er mjög
krefjandi og spennandi,“ segir Jón.
Listafélag Langholtskirkju
stendur fyrir tónleikunum, en það
var stofnað í haust til þess að halda
utan um menningarstarfið í kirkj-
unni. Björn Jónsson, talsmaður fé-
lagsins, segir starfið hafa farið vel
af stað og að um tvö hundruð manns
séu skráð í félagið. „Við erum með
fimmtán tónleika á starfsárinu og
þeir sem hafa verið haldnir hingað
til hafa heppnast mjög vel. Það hef-
ur verið bryddað upp á nýjungum í
hvert sinn og nú er komið að
Kammerkórnum og kirkjudjass-
inum.“
Tónleikarnir hefjast klukkan átta
í Langholtskirkju. Almennt miða-
verð er 2.500 krónur, en kórfélagar
og félagar í Listafélagi Langholts-
kirkju njóta afsláttarkjara.
Kórsöngur og kirkjudjass
Árvakur/Brynjar Gauti
Sveifla Kammerkór Langholtskirkju og nokkrir af helstu djasstónlistar-
mönnum landsins leika létta tónlist með djassívafi á sunnudagskvöld.
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar,
Laugarnestanga 70, 105 Rvk.
www.lso.is - lso@lso.is
SUMARTÓNLEIKAR
LISTASAFNS
SIGURJÓNS ÓLAFSSONAR
2007
Listasafn Sigurjóns Ólafssonar býður tónlistarfólki að sækja
um þátttöku í þriðjudagstónleikum sumarið 2008 sem
verða haldnir vikulega frá miðjum júlí til ágústloka.
Umsóknir skulu hafa borist fyrir 12. febrúar nk. með
drögum að efnisskrá, upplýsingum um flytjendur (CV) og
kjörtíma tónleika. Valið verður úr umsóknum og öllum
svarað.