Morgunblaðið - 19.01.2008, Síða 20
20 LAUGARDAGUR 19. JANÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ
AKUREYRI
LANDIÐ
Þórunn Elísabet Sveinsdóttir
opnar sýninguna Blíðlyndi í Galleríi
BOXI í dag kl. 16.
Dagrún Matthíasdóttir, sem er á
myndinni að ofan, opnar í dag kl. 17
sýningu sína, Lífið er saltfiskur, á
Veggverki og í DaLí Gallery.
Guðrún Pálína Guðmundsdóttir
opnar í dag málverkasýninguna
Andlit í Jónas Viðar Galleríi kl.
14.30.
Sýningin Búdda er á Akureyri
verður opnuð í Listasafninu kl. 15 í
dag. Nánar er fjallað um sýninguna
í Lesbók Morgunblaðsins í dag.
Þorvaldur Þorsteinsson opnar í
dag kl. 14 myndlistarsýninguna
Leikmyndir í Populus tremula. Um
leið kemur út bókin Mónólógar eft-
ir Þorvald. Sýningin er bara opin í
dag og á morgun, kl. 14-17.
Ástralska listakonan Amy Rush
opnar sýninguna Rainbow Holo-
grams í Deiglunni í dag kl. 14.
Einnig verður Djonam Saltani,
listamaður frá Frakklandi, með
opna gestavinnustofu á sama tíma.
Í tilefni af 180 ára starfsafmæli
Amtsbókasafnsins á Akureyri í
fyrra eru nú til sýnis 180 bækur, ein
frá hverju starfsári safnsins á ár-
unum.
Ólafur Páll Jónsson heimspek-
ingur verður með fyrirlestur í dag
kl. 13.30 í Bókaverslun Eymunds-
sonar í Hafnarstræti og á morgun
verður hann á heimspekikaffihúsi á
Bláu könnunni kl. 11.
Árvakur/Skapti Hallgrímsson
Saltfiskur og
heimspeki
DAGNÝ Linda Kristjánsdóttir úr
Skíðafélagi Akureyrar var kjörin
íþróttamaður Akureyrar fyrir nýlið-
ið ár. Þetta var kunngjört í hófi sem
Íþróttabandalag Akureyrar hélt í
samstarfi við íþróttaráð Akureyrar í
Ketilhúsinu í vikunni.
Dagný Linda hefur verið fremsta
skíðakona Íslendinga undanfarin ár.
Kynnir hófsins í vikunni sagði m.a.
um Dagnýju: „Stærsta verkefni
hennar á árinu 2007 var heimsmeist-
aramótið í Åre í Svíþjóð þar sem hún
stóð sig með miklum ágætum í
harðri keppni. Þar varð Dagný í 26.
sæti bæði í bruni og risasvigi og 45.
sæti í stórsvigi. Dagný Linda varð
tvisvar í hópi 20 bestu á Evrópubik-
armótaröðinni og tók alls þátt í 18
heimsbikarmótum á árinu. Hún náði
frábærum árangri á sænska meist-
aramótinu þar sem hún varð í þriðja
sæti í bruni og fimmta sæti í tví-
keppni. Þá varð hún þrefaldur Ís-
landsmeistari.“ Dagný Linda er er-
lendis við æfingar og keppni og
móðir hennar, Kolbrún Ingólfsdótt-
ir, tók við viðurkenningu hennar.
Annar í kjörinu að þessu sinni
varð Davíð Búi Halldórsson, blak-
maður í KA. Fram kom í hófinu að
Davíð Búi hefði um árabil verið einn
albesti leikmaður KA í blaki. „Síð-
astliðið ár var þó óvenjuglæsilegt hjá
honum og er það samdóma álit
flestra að hann hafi verið besti leik-
maður Íslandsmótsins 2006-2007 og
hann var kjölfestan í liði KA í úrslita-
leik bikarkeppninnar þá um vorið.
Að auki skoraði hann flest sóknar-
stig á Íslandsmótin og vann reyndar
heildarstigakeppnina með yfirburð-
um. Blaksamband Íslands valdi hann
blakmann ársins 2007,“ sagði kynnir
kvöldsins um Davíð Búa.
Þriðja í kjörinu að þessu sinni var
Audrey Freyja Clarke úr Skauta-
félagi Akureyrar. Fram kom í hófinu
að listskautaíþróttin væri ung á Ak-
ureyri; þegar Audrey Freyja Clarke
hóf ferilinn á útisvelli árið 1997 voru
6 iðkendur en eru nú yfir 130 og það
væri ekki síst fyrir góða fyrirmynd
hennar sem iðkanda, keppanda og
þjálfara. „Hún hefur orðið Íslands-
meistari í Juniorflokki fimm sinnum
á síðustu sex árum og í haust varð
hún bikarmeistari í Seniorflokki.
Síðastliðið vor var Audrey Freyja
valin í fyrsta landslið Íslands í þess-
ari íþrótt,“ var sagt um skauta-
konuna.
Íþróttaráð Akureyrar veitti fjórar
heiðursviðurkenningar á hátíðinni.
Helga Sigurðardóttir og Benedikt
Sigurðarson fengu viðurkenningu
fyrir störf sín í þágu sundíþróttar-
innar, Guðmundur Brynjarsson fyrir
starf og uppbyggingu skotíþróttar-
innar og Gunnar Hallsson fékk við-
urkenningu fyrir störf og uppbygg-
ingu siglingaíþrótta á Akureyri.
Dagný Linda íþrótta-
maður Akureyrar
Ljósmynd/Þórir Tryggvason
Kjörið Viðar Jónsson með viðurkenningu Audreyjar Freyju Clarke, Davíð
Búi Halldórsson, Kolbrún Ingólfsdóttir, móðir Dagnýjar Lindu, Sigrún
Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri og Þröstur Guðjónsson, formaður ÍBA.
Í HNOTSKURN
»Fjórtán voru tilnefndir í kjör-inu. Auk þriggja efstu: Andri
Snær Stefánsson, Baldvin Ari
Guðlaugsson, Baldvin Þór Gunn-
arsson, Bjarki Gíslason, Bryndís
Rún Hansen, Björn Guðmunds-
son, Haukur Svansson, Kristján
Skjóldal, Óðinn Ásgeirsson, Sig-
urður Áki Sigurðsson og Stefán
Thorarensen.
Best Dagný Linda Kristjánsdóttir.
MÆLINGAR við Glerárgötu á Ak-
ureyri sýna að svifryk í andrúmslofti
var a.m.k. 40 daga yfir heilsuvernd-
armörkum á nýliðnu ár, og liggja þó
enn ekki fyrir tölur vegna síðustu
viku ársins. Þess ber einnig að geta
að mælirinn, sem staðsettur er á
mótum Tryggvabrautar og Glerár-
götu, var bilaður frá maí til septem-
ber en ástandið er þó jafnan talið
best yfir sumarið.
Ástandið var skárra í fyrra en árið
þar áður þegar svifrykið var yfir
heilsuverndarmörkum 50 daga (en
þá var mælirinn reyndar líka bilaður
yfir sumartímann).
Leyfilegur fjöldi yfir mörkunum
var þá að hámarki 29 dagar en 23 í
fyrra. Lögum samkvæmt verður há-
marksfjöldi kominn niður í 7 daga
árið 2010.
„Það er auðvitað ánægjulegt að
dögum yfir heilsuverndarmörkum
fækki en ástandið er samt alls ekki
nógu gott,“ sagði Alfreð Schiöth,
heilbrigðisfulltrúi Norðurlands
eystra í samtali við Morgunblaðið.
Alfreð segir Akureyrarbæ hafa
gripið til ráðstafana til að minnka
svifryk, til dæmis með því að auka
þrif á götum og von sé á nýjum, fær-
anlegum svifryksmæli sem Akureyr-
arbær og ríkið kaupi saman. Með því
að geta mælt á mismunandi stöðum í
bænum gefist betri heildarmynd af
ástandinu.
Eins og áður hefur komið fram er
svifryk slæmt fyrir fólk með lungna-
sjúkdóma og Alfreð segir sænska
rannsókn sýna fram á að svif-
ryksmengun verður fleiri Stokk-
hólmsbúum að aldurtila en umferð-
arslys í borginni; svifryk er sem sagt
hættulegra en bílaumferð. Þá segir
hann svifryk geta aukið hættu á
heilablóðfalli og hjartaáföllum.
Svifryk
enn allt
of mikið
Eftir Björn Björnsson
Sauðárkrókur | Ekki liggur fyrir
hvort hægt verður að endurbyggja
húsið við Aðalgötu 16 á Sauðárkróki
en það stórskemmdist í eldi í fyrri-
nótt. Húsið er tæplega 120 ára gamalt
og eitt af merkustu húsum Sauðár-
króks. Þar var lengi rekin verslun en
veitingastaðurinn Kaffi Krókur síð-
ustu árin.
Rétt eftir klukkan hálf eitt aðfara-
nótt föstudags barst til Neyðarlín-
unnar tilkynning frá vegfaranda um
að reyk legði frá suðurgafli hússins á
Aðalgötu 16 á Sauðárkróki. Þegar var
kallað út allt lið Brunavarna Skaga-
fjarðar á Sauðárkróki, og síðar var
kallað út viðbótarlið frá Hofsósi og
Varmahlíð. Að sögn Vernharðs
Guðnasonar slökkviliðsstjóra reynd-
ist erfitt að komast að eldinum, en eft-
ir að það tókst, náðist fljótlega að
slökkva eldinn og var lögreglu afhent-
ur vettvangur á fimmta tímanum.
Vernharð sagði að ljóst hefði verið
að eldur var laus á efri hæð hússins en
illa hefði gengið að komast að honum
með þeim tækjum sem liðið hafði yfir
að ráða. Þá var brugðið á það ráð að fá
kranabíl með krabba og með honum
tókst að rjúfa þekjuna og eftir það var
eftirleikurinn auðveldari, og var
slökkvistarfi að mestu lokið rétt um
klukkan þrjú. Vernharð sagðist mjög
ánægður með störf sinna manna, allt
hefði gengið eins vel og mögulegt hafi
verið, utan það að einn liðsmaður á
vettvangi varð fyrir því óhappi að
járnstoð féll á öxl hans og bak og var
sá fluttur á Heilbrigðisstofnunina, en
meiðsl hans voru óveruleg og var
hann útskrifaður að morgni.
Sögufrægt hús
Húsið Aðalgata 16 er talið eitt af
merkari húsum á Sauðárkróki, en það
var byggt af Vigfúsi Guðmundssyni á
árunum 1887 til 1890 og þjónaði á
byggingartíma sínum ýmsum hlut-
verkum, meðal annars sem geymslu-
hús, en auk þess voru í því hálfbyggðu
haldnar ýmsar samkomur og settir
upp sjónleikir.
Fullbyggt var húsið selt Jóhannesi
Ólafssyni sýslumanni, föður dr. Alex-
anders Jóhannessonar síðar háskóla-
rektors, sem fluttist til Sauðárkróks
frá Gili í Borgarsveit. Um alllangt
skeið varð húsið aðsetur sýslumanna
Skagafjarðar, skrifstofa embættisins
og fangelsi. Auk Jóhannesar bjuggu á
Aðalgötu 16 sýslumennirnir Eggert
Ólafur Briem, þá Páll Vídalín Bjarna-
son og loks Guðmundur Björnsson.
Síðla árs 1912 var húsið selt fyrir
átta þúsund krónur, og var kaupand-
inn Jörgen Frank Michelsen úrsmið-
ur og bjó hann í því ásamt fjölskyldu
sinni en rak auk þess úrsmíðaverk-
stæði og verslun.
Þá voru ýmsar verslanir auk úr-
smíðaverslunarinnar reknar í húsinu
um lengri eða skemmri tíma og má
þar nefna Sápuhúsið og verslun Jó-
hönnu Blöndal.
Þegar fjölskylda Franks Michelsen
flutti frá Sauðárkróki 1945 keypti
húsið Gunnþórunn Sveinsdóttir frá
Mælifellsá og stundaði þar verslunar-
störf. Gunnþórunn réðst í að byggja
við húsið til norðurs og jók þar með
verslunarrýmið.
Síðar komst Aðalgata 16 í eigu
Kaupfélags Skagfirðinga sem enn
byggði við húsið til austurs og rak þar
byggingavöru- og raftækjaverslun.
Á fyrri hluta níunda áratugar síð-
ustu aldar flutti Kaupfélag Skagfirð-
inga alla starfsemi úr húsinu og í um
áratug var húsið ónotað og lenti í
nokkurri niðurníðslu en þá keyptu
hjónin María Björk Ingvadóttir og
Ómar Bragi Stefánsson það, endur-
gerðu verulega og opnuðu veitinga-
staðinn Kaffi Krók hinn 24. maí 1994.
Núverandi eigendur eru Alda
Kristinsdóttir og Jón Daníel Jónsson
veitingamaður og eignuðust þau húsið
í nóvember 2001.
Hvatt til uppbyggingar
Ljóst er að tjón eigenda Aðalgötu
16 er mjög mikið og tilfinnanlegt, en
auk þess að hafa skapað veitinga-
húsinu enn betra orðspor, hafði Jón
Daníel nýverið gert samning við sveit-
arfélagið Skagafjörð um framleiðslu á
skólamáltíðum fyrir Árskóla á Sauð-
árkróki, sem átti að hefjast nú fyrsta
febrúar. Gert var ráð fyrir að hefja
uppsetningu á nýjum tækjum í eld-
húsi veitingastaðarins í byrjun næstu
viku svo unnt yrði að uppfylla samn-
inginn, en nú eru öll áform þar um í
verulegu uppnámi.
Jón Daníel sagði í samtali við
fréttavefinn mbl.is í gær að hann ætti
eftir að átta sig á framhaldinu. Hann
sagðist hafa skyldum að gegna við við-
skiptavini og þyrfti að keyra rekstur-
inn áfram.
Enginn sem haft var samband við
taldi unnt að segja fyrir um hvort unnt
væri að endurbyggja þetta hús, enda
unnu lögreglumenn enn að rannsókn
á upptökum eldsins síðdegis í gær og
þá hafði tryggingafélag eigenda ekki
átt þess kost að vinna tjónamat.
Unnar Ingvarsson skjalavörður
segir á heimasíðu sinni: „Aðalgata 16
er með sögufrægustu húsum Sauðár-
króks. Það er von þess er þetta skrifar
að húsið verði endurbyggt á uppruna-
legum stað. Væri vel við hæfi að Blön-
dalshús sem stóð við hlið Aðalgötu 16
fengi aftur þegnrétt sinn á lóðinni
norðan við. Þau hús endurbyggð yrðu
sannkölluð staðarprýði.“
Sögufrægt hús
stórskemmt
eftir eldsvoða
Morgunblaðið/Björn Björnsson
Brunarústir Húsið Aðalgata 16 er stórskemmt af eldi. Svona leit húsið út í
gærmorgun. Ekki liggur fyrir hvort hægt er að endurbyggja húsið.
Ljósmynd/Óli Arnar Brynjarsson
Kaffi Krókur Mikið líf var oft í og við Kaffi Krók en veitingastaðurinn var
rekinn í gömlu verslunarhúsi. Myndin var tekin sumarið 2004.