Morgunblaðið - 27.03.2008, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 27.03.2008, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. MARS 2008 29 Þegar tilkynningin um andlát Stellu barst mér leitaði hugur minn 38 ár aftur í tímann, þá var ég 21 árs, nýbyrjaður að vinna fyrir eiginmann hennar, Pálma í Hagkaup. Stella sat þá með yngstu dóttir sína Lilju í kjöltu sér, þá 2 ára. Stella og Pálmi voru þá búin að eignast 4 börn, bráð- efnileg og falleg. Stella var fríð og myndarleg kona, bar sig vel og alltaf óaðfinnanlega klædd. Stella var mik- ill fagurkeri og heimilið bar þess vott. Eftir síðasta barnsburð hennar fór að bera á hjartakvilla er ágerðist með árunum, heimilið stórt og börnin orð- in 4. Stella þurfti oft að fara inn á spítala á þessum árum, mikið álag var á henni og heimilinu öllu. Enginn kunn lækning var þá til við þessum kvilla. Hlutverk Stellu að vera við hlið Pálma var mikið, það vissu fáir hver hún var, reyndar voru þau bæði lítið fyrir að láta á sér bera. Pálmi var því- líkur atorkumaður að við félagar hans áttum oft erfitt með að fylgja honum. Oft var slagurinn harður, enda margar hindranirnar í íslensku viðskiptalífi þá, ríkisforsjá í flestu og kerfið barðist af lífi og sál við að við- halda sér. Margt minnti á selstöðukaupmenn á fyrri öldum. Pálmi og Stella stóðu dyggilega saman við að skapa hér heiðarlegri umgjörð fyrir frjáls við- skipti landsmönnum til betri lífs- kjara, sem þau sannarlega gerðu, sagan á eftir að sýna fram á það. Pálmi var fljótlega byrjaður að hugsa um uppbyggingu á stórverslun með fjölda smáverslana og þjónustu- kjarna með yfirbyggða göngugötu. Flestir töldu þetta algjöra firru og vonlaust að fjármagna þessa stór- framkvæmd. Enginn bilbugur var á þeim hjónum, allt var lagt undir til að koma Kringlunni upp og ekkert til sparað. Það tókst þeim frábærlega þrátt fyrir allar hrakspár. Ég tel að afrek þeirra og framsýni við þetta verkefni sé það stærsta í ís- lenskri verslunarsögu. Kringlan hef- ur sýnt sig og sannað á sínum 20 ár- um. Staðist tímans tönn og er glæsilegur minnisvarði þeirra. En trúlega hefur álagið verið of mikið á Pálma, hann fékk alvarlegt hjartaáfall í Flórída en snarræði Stellu hefur trúlega bjargað lífi hans. Veikindi Pálma ágerðust á seinni byggingartíma Kringlunnar. Ekki kom til álita af þeirra hálfu að tefja framkvæmdir, Stella sýndi nú hvað í henni bjó. Hún stóð fast við hlið Pálma, hjúkraði og hlúði að honum eins og best var á kosið. Stella og Pálmi sáu draum sinn rætast, en því miður fengu þau allt of stuttan tíma til að njóta efri áranna saman. Pálmi lést 4.4. 1991. Ég hef verið í stöðugu sambandi við Stellu fram undir það síðasta. Hún var ekki mikið fyrir að bera til- finningar sínar á torg. Hennar missir var mikill er hún missti Pálma, og enn átti hún eftir að verða fyrir mik- illi sorg er sonardóttir hennar Guð- rún Elísabet Jónsdóttir lést af slys- förum. Stella bar harm sinn í hljóði, andlát Guðrúnar Elísabetar var henni og allri fjölskyldunni mjög erf- itt. Stella var mjög stolt af börnum sínum og barnabörnum. Ég fékk allt- af fréttir reglulega af þeim, en hún fylgdist eins vel og hún gat með þeim. Stella mín, nú er komið að kveðju- stund, ekki hringir þú oftar í mig. Við áttum oft gott spjall saman um lífið og tilveruna. Ég veit að þú ert farin í lendurnar miklu, þar finnur þú Pálma þinn, berðu honum kveðju mína. Blessuð sé minning þín. Ólafur Hjaltason. Fingurnir trommuðu nett á fund- arborðið þangað til við tókum eftir því og skildum að það var ætlast til að við þögnuðum. Ættmóðirin hafði fundið ástæðu til að láta mig og syni sína tvo vita af sér með þessum kurt- eislega hætti. Við þögnuðum og hlustuðum. Kannski kom athuga- semd um háleit áformin sem til um- ræðu voru: „Ég er nú ekki viss um að honum pabba ykkar hefði líkað þetta.“ Stundum bara brosandi setn- ing um að við værum nú meiri vitleys- ingarnir. Oft voru systurnar líka og þá var ákafinn meiri, hlátrasköllin hærri, hugmyndirnar fleiri og handapatið mikið. Þá brosti Stella, sagði ekki neitt en ég fann að hún var stolt og ánægð með börnin sín. Tóku sumt frá henni, annað frá Pálma. Fullu nafni var hún yfirleitt ekki kölluð. Ættmóðurnafngiftina heyrði ég bara notaða þegar synirnir iðr- uðust og þóttust vera hátíðlegir en annars var hún ævinlega Stella. Hún var einstaklega mótfallin sviðsljósinu. Hógværð og nægjusemi einkenndi hana á alla lund. Fyrir mörgum árum lagði Jónína S. Gísla- dóttir Landspítalanum til hundruð milljóna sem með naumindum mátti skýra frá. Ekki mynd, ekki viðtal. Fæstir vissu raunar hver hún var. Aldrei síðar mátti með neinum hætti vekja athygli á því sem þessi stóra gjöf kom til leiðar og það er sjálfsagt ekki í Stellu þökk að minnast yfir- leitt á þetta hér. Aðstæður nú auka mér kjark. Hlutverk Stellu við áhættusama og erilsama uppbyggingu fyrirtæk- isins var á heimilinu. Þar vantaði ekki verkefnin, börnin, uppeldið, eig- inmaðurinn, vinir og fjölskylda. Þar var grunnurinn lagður. Það gerir enginn út frá ónýtri höfn, brotinni bryggju. Þegar ég réð mig til starfa hjá Hagkaupum varð um það samkomu- lag að ég fengi frið og sjálfstæði frá bræðrunum sem báðir störfuðu við ýmsan rekstur fjölskyldunnar. Gekk það eftir. Við Stellu gerði ég sem betur fer engan slíkan samning. Hún hafði oft samband við mig út af stóru og smáu en í matvöruverslun skipta smáatriðin miklu ef ekki öllu. Hún átti það til að flytja mér athuga- semdir um reynslu vinkvenna sinna í búðunum hjá okkur, ýmist til að hrósa eða benda á það sem betur mætti fara. Samtölin voru ýmisleg. Hún hafði skoðanir á því hvernig framkoma mín var opinberlega; vel gert eða lakara, auglýsingarnar, góðar eða vondar. Synirnir og dæt- urnar. Allt var þetta í hófi gert, þó að stundum hafi verið kveðið fast og jafnvel háðulega að orði um menn og málefni. Þá gat manni brugðið harkalega. Fyrir mig var ómetanlegt að eiga þennan þráð og fá hreinskiln- islega yfirferð annað slagið. Af þess- um samtölum okkar urðu góð kynni, vinátta og traust sem ég finn fyrir nú. Eftir stendur virðing og þakk- læti. Dætrunum og sonunum og börn- unum öllum sendi ég samúðarkveð- ur. Megi hún hvíla í friði. Óskar Magnússon. Jónínu Sigríði Gísladóttur (Stellu) kynntist ég fyrst á áttunda áratug síðustu aldar þegar ég hóf að vinna lögfræðistörf fyrir hinn ágæta eig- inmann hennar, Pálma Jónsson at- hafnamann og forstjóra Hagkaups. Þó ég hefði ekki hitt hana fyrr, vissi ég þau deili á henni, að afi hennar Sigurður Gíslason, húsasmíðameist- ari á Eyrarbakka, hefði verið bróðir Hallgrímu Gísladóttur ömmu minn- ar. Það varð strax gott samband okkar í milli og við áttum síðar eftir að ræða heilmikið saman um skyld- menni okkar og fjölda sameiginlegra ættingja. Vorum við sammála um að of lítil samskipti hefðu verið, en svona vill það vera í hraða nútímans. Samræð- ur okkar snerust einnig mikið um þjóðfélagsmál almennt, því á þeim hafði Jónína ákveðnar skoðanir. Ekki síst var henni umhugað um heilbrigðismál. Fannst henni að þar mætti bæta um betur, bæði hvað varðaði starfsaðstöðu starfsfólks og stjórnenda Landspítalans vegna skorts á nauðsynlegum tækjum og húsbúnaði og ekki síður fannst henni aðstaða og þjónusta við sjúklinga á ýmsan hátt ófullnægjandi. Það var því að vel ígrunduðu máli að hún stofnaði í júní árið 2000 sjóð undir nafninu „Gjafa- og styrktar- sjóður Jónínu S. Gísladóttur“. Sjóð- urinn hefur meðal annars það hlut- verk að stuðla að bættri þjónustu við hjartasjúklinga á Landspítalanum, styrkja tækjakost spítalans, styrkja vísindastörf á sviði hjarta- og æða- sjúkdóma og vinna almennt að vel- ferð hjartasjúklinga í landinu. Framlag Jónínu til sjóðsins hefur alls numið 217 millj. kr. og hefur sjóðurinn stuðlað að kaupum spítal- ans á margvíslegum tækjum, fyrst á árinu 2000 með 40 millj. kr. framlagi til kaupa á hjartaþræðingartæki, sem tekið var í notkun í ágúst 2001. Þá hefur sjóðurinn stuðlað, með tuga milljóna króna framlagi. að kaupum spítalans á fjölda annarra tækja svo sem raflífeðlisfræðibúnaði til rann- sókna og meðferðar á hjartsláttar- truflunum, ómtækjum fyrir hjarta- skurðlækningadeild og bráðamót- töku og vöktunarbúnaði á hjarta- lækningadeild spítalans. Þá tók sjóðurinn þátt í að sett væri á fót göngudeild fyrir hjartasjúklinga. Á næstu vikum er gert ráð fyrir að sjóðurinn ráðstafi allt að 75 millj. kr. til endurnýjunar á hjartaþræðingar- tæki spítalans. Ekki hefur borið mikið á þessum framlögum Jónínu á opinberum vett- vangi, enda var það ekki hennar vilji, en víst er að hennar framlag hefur gert mörgum manninum lífið bæri- legra og á hún einlægar þakkir skilið fyrir það. Mesta umhyggju bar Jónína Sig- ríður þó fyrir eiginmanni sínum, meðan hann lifði, og var hans stoð og stytta í annasömum störfum hans. Þá bar hún mikla umhyggju fyrir börnum sínum og fjölskyldum þeirra og átti þær óskir heitastar að þau yrðu góðir þegnar þessa lands. Við fráfall Jónínu sendum við Ingibjörg börnum hennar og fjöl- skyldum þeirra innilegar samúðar- kveðjur. Blessuð sé minning hennar. Helgi V. Jónsson. Elsku Jónína mín, ég kveð þig nú með söknuði í hjarta en veit að þú ert á góðum stað núna. Þegar við kynnt- umst fyrir um sex árum síðan mátti kannski líkja þér við hörpuskel en það var erfitt í fyrstu að komast inn- fyrir skelina, en þegar hún opnaðist kom í ljós perlan sem þú varst í raun. Ég leit eina lilju í holti, hún lifði hjá steinum á mel. Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk – en blettinn sinn prýddi hún vel. Ég veit það er úti um engin mörg önnur sem glitrar og skín. Ég þræti ekki um litinn né ljómann en liljan í holtinu er mín! Þessi lilja er mín lifandi trú, þessi lilja er mín lifandi trú. Hún er ljós mitt og von mín og yndi. Þessi lilja er mín lifandi trú! Og þó að í vindinum visni, á völlum og engjum hvert blóm. Og haustvindar blási um heiðar, með hörðum og deyðandi róm. Og veturinn komi með kulda og klaka og hríðar og snjó. Hún lifir í hug mér sú lilja og líf hennar veitir mér fró. (Þorsteinn Gíslason.) Elsku Jónína mín, takk fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Elsku Gísli, Jón, Ingibjörg, Lilja og aðrir aðstandendur, Guð gefi ykk- ur styrk á þessum erfiða tíma. Hlúið vel að hvert öðru. Þín vinkona Helga. Jónína Gísladóttir er nú fallin frá, mín góða vinkona til margra ára, og langar mig að minnast hennar með nokkrum orðum. Kynni okkar Stellu, eins og hún var kölluð, hófust fyrir nær 60 árum er við vorum saman í ár í París. Síð- an þá höfum við alltaf haft samband því vinátta sem myndast á ungum árum er oftast haldbest. Stella var afskaplega skemmtileg, opin og áhugsöm um samtímann og hafði ákveðnar skoðanir og vildi öll- um vel. Hún hafði yndislegt skop- skyn og mjög góðan bókmennta- smekk, var lítið fyrir reyfara, og ekki væri ég hissa þó bók eftir Dostoj- evsky hefði verið á náttborði hennar þegar kallið kom. Hún hefur nú fengið hvíldina og kveð ég hana með miklum söknuði og þakka samfylgdina. Far vel, kæra vinkona. Kristín Guðjohnsen. ✝ Ástkær sonur okkar, bróðir, barnabarn og frændi, ÞÓR WILLEMOES PETERSEN Arnarhrauni 40, Hafnarfirði, lést á Barnaspítala Hringsins að morgni mánudagsins 24. mars. Sigrid Foss, Guðmundur Jónsson, Per Willemoes, Laufey, Steinunn Ruth, Jón og Gobeline Willemoes, Þóra Antonsdóttir, Friðþjófur Sigurðsson, Tormod Willemoes, Kristín Erla Þorgeirsdóttir. ✝ Ástkær dóttir mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, EYGLÓ BRYNDAL ÓSKARSDÓTTIR, Hjalladæl 8, Eyrarbakka, lést sunnudaginn 23. mars á Landspítalanum við Hringbraut. Hún verður jarðsungin frá Seljakirkju mánudaginn 31. mars. kl. 13.00. Magnea Guðjónsdóttir, Jóhannes Klemens Steinólfsson, Hafdís Rósa Bragadóttir, Ástríður Björg Steinólfsdóttir, Hermann Þór Jónsson, Eysteinn Þór Bryndal Steinólfsson, Kristín A. Guðbjartsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, JÓNÍNA SIGRÍÐUR GÍSLADÓTTIR, Miðleiti 5, andaðist á St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði þriðjudaginn 18. mars. Útför hennar fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík, fimmtudaginn 27. mars kl. 16.00. Sigurður Gísli Pálmason, Guðmunda Þórisdóttir, Jón Pálmason, Elísabet Björnsdóttir, Ingibjörg Stefanía Pálmadóttir, Jón Ásgeir Jóhannesson, Lilja Sigurlína Pálmadóttir, Baltasar Kormákur Baltasarsson, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær eiginmaður minn, faðir okkar, tengdafaðir, afi, sonur og bróðir, JÓHANNES SÆVAR JÓHANNESSON frá Vestmannaeyjum, Suðurtúni 19, Álftanesi, lést fimmtudaginn 20. mars. Útförin auglýst síðar. Ágústa G.M. Ágústsdóttir, Svava Jóhannesdóttir, Alda Lára Jóhannesdóttir, Halldór Klemenzson, Jóhanna María, Þórunn Ágústa, Ella og Anna Lillý, Þórunn Alda Björnsdóttir og systkini hins látna. ✝ Hjartkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, HREFNA MAGNÚSDÓTTIR, Fremri Hundadal, Dalasýslu, lést á heimili sínu þriðjudaginn 25. mars. Snæbjörg R. Bjartmarsdóttir, Ólafur Ragnarsson, Kristján H. Bjartmarsson, Halldóra Guðmundsdóttir, Jónína Þ. Bjartmarsdóttir, Benjamín G. Bjartmarsson, Ólöf A. Steingrímsdóttir, Fanney H. Bjartmarsdóttir, Bert Y. Sjögren, Hrefna S. Bjartmarsdóttir, Aðalsteinn Jónsson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.