Morgunblaðið - 10.04.2008, Qupperneq 4
4 FIMMTUDAGUR 10. APRÍL 2008 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
Eftir Andra Karl
andri@mbl.is
SEX VORU fluttir á slysadeild
Landspítalans eftir harðan árekst-
ur tveggja bifreiða á Reykjanes-
braut í gærmorgun. Síðdegis í gær
lágu enn þrír á gjörgæsludeild –
allir þó með meðvitund – en aðrir
slösuðust minna.
Slysið varð skammt hjá Vogaaf-
leggjara, við hjáleið sem lögð var
vegna framkvæmda við tvöföldun
brautarinnar. Framkvæmdir hafa
legið niðri svo mánuðum skiptir og
fjöldi slysa átt sér stað á svæðinu.
Einar Magnús Einarsson, verkefn-
isstjóri hjá Umferðarstofu, segir
að bæta verði ástandið hið snar-
asta. „Það verður að búa svo um
hnútana varðandi umferðarmann-
virki, og ég tala nú ekki um fram-
kvæmdasvæði, að ef og þegar við
gerum mistök þá hljótist ekki al-
varleg slys af. Við verðum að krefj-
ast þess að þarna verði bætt úr til
þess að koma í veg fyrir svona lag-
að.“
Vegagerðin sendi frá sér til-
kynningu í gær þar sem fram kom
að „þrátt fyrir verulegar merking-
ar á svæðinu hefur Vegagerðin nú
ákveðið að aðskilja akstursstefn-
urnar“. Verður það gert með gát-
skiltum milli akreina.
G. Pétur Matthíasson, upplýs-
ingafulltrúi Vegagerðarinnar,
sagði í samtali við fréttavef Morg-
unblaðsins, mbl.is, að Vegagerðin
firrti sig ekki ábyrgð á því sem af-
laga hefði farið við framkvæmdirn-
ar, aðstæður hefðu þó ekki verið
fyrirsjáanlegar og alltaf væri auð-
velt að vera vitur eftir á. Þá hefði
Vegagerðin ítrekað varað vegfar-
endur við að svæðið gæti verið var-
hugavert.
Umferðarslys á þeim kafla sem
unnið hafði verið við, þ.e. rétt aust-
an við vegamót Vogaafleggjara og
vestur að Njarðvík, hefur fjölgað
mikið. Þannig urðu 24 slys á veg-
arkaflanum frá ágúst 2004 til jan-
úar 2005 – fyrir framkvæmdir – en
þau voru 55 frá ágúst á síðasta ári
og til janúarloka sl. Áætlanir Jarð-
véla ehf., sem sögðu sig frá verkinu
í desember, gerðu ráð fyrir að tvö-
földun kaflans yrði lokið í ágúst sl.
Farþegum brugðið
Annað umferðarslys varð í gær-
morgun, á Vesturlandsvegi rétt
norðan við Grundarhverfi á Kjal-
arnesi. Þar rákust saman strætis-
vagn og vörubifreið í fljúgandi
hálku. Engan sakaði en að sögn
ökumanns strætisvagnsins var far-
þegum eðlilega brugðið. Hann seg-
ist ósáttur við að ekki hafi verið bú-
ið að salta veginn þegar vagninn
átti leið hjá, en það hafi verið meg-
inorsök slyssins.
Þrír á gjörgæslu eftir alvar-
legt slys á Reykjanesbraut
Nauðsynlegar úr-
bætur boðaðar
Ljósmynd/Víkurfréttir
Hætta Umferðarslys hafa verið tíð við Vogaafleggjara að undanförnu.
NEMENDUR í Menntaskólanum í
Reykjavík hafa í ár unnið hverja
þá keppi sem þeir hafa tekið þátt
í. Þessu var fagnað með athöfn
við skólann í gær.
„Hugmyndin á bak við þessa
athöfn var að þakka okkar af-
reksfólki fyrir það sem það hefur
gert fyrir skólann,“ segir Gísli
Baldur Gíslason, scriba scholaris
í MR.
Viðureignirnar sem skólinn
hefur unnið í vetur eru Morfís,
Gettu betur, keppnisdagur MR
og Verslunarskóla Íslands og
námsgreinakeppnir en í þeim var
keppt í eðlisfræði, efnafræði,
stærðfræði, þýsku og frönsku.
Gísli Baldur segir skólann
styðja vel við hæfileikafólkið sem
keppir í hans nafni. Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Unnið
hverja
keppni
Góður árangur hæfileikaríkra nemenda í MR í vetur
Eftir Rúnar Pálmason
runarp@mbl.is
ÞORGERÐUR
Katrín Gunn-
arsdóttir
menntamála-
ráðherra ætlar
að öllu óbreyttu
að vera viðstödd
opnunarhátíð
Ólympíuleik-
anna í Bejing í
ágúst. Vel verði
fylgst með þró-
un mála en ef aðstæður breytist til
hins verra, komi til greina að fara
ekki.
„Það er alveg ljóst að við fordæm-
um öll þau mannréttindabrot sem
eru viðhöfð af hálfu kínverskra
stjórnvalda, bara þannig að það sé
skýrt,“ sagði Þorgerður Katrín. Að
öllu óbreyttu yrði hún við opnun-
arhátíðina í Bejing líkt og hún var
viðstödd opnunarhátíðina í Aþenu
árið 2004. „Þar var ég ekki í boði
grískra stjórnvalda, heldur í boði
íþróttahreyfingarinnar sem fór
fram á að ég yrði viðstödd og það
sama á við núna. Ég verð fyrst og
fremst þarna til að styðja við bakið á
okkar íþróttafólki og hvetja það til
dáða en ekki til að strjúka Kínverj-
um. En að sjálfsögðu er það þannig
að maður fylgist náið með hvernig
mál þróast,“ sagði hún.
SUS vill ekki senda
Þorgerður Katrín sagði að mik-
ilvægt væri að alþjóðaólympíu-
nefndin stæði í lappirnar gagnvart
kröfum stjórnvalda, kínverskra sem
annarra. Hún bætti við að hún teldi
að það hefði hingað til ekki skilað
árangri að sniðganga Ólympíuleika,
t.d. þegar Bandaríkin og sumir
bandamenn þeirra sóttu ekki Ól-
ympíuleikana í Moskvu árið 1980 en
Austurblokkin galt í sömu mynt í
Los Angeles árið 1984.
Samband ungra sjálfstæðis-
manna er meðal þeirra sem hafa
hvatt íslenska stjórnmálamenn til
að sniðganga opnunar- og lokahátíð
Ólympíuleikanna og sýna með þeim
hætti andstöðu við meðferð kín-
verskra stjórnvalda á þegnum sín-
um. Ungir sjálfstæðismenn telja
sjálfsagt að senda íslenska íþrótta-
menn en segja að það sé „algjör
óþarfi að íslensk stjórnvöld sendi
sína fulltrúa á leikana. Slíkar heim-
sóknir verða að áróðursvopni í
höndum þarlendra stjórnvalda.
Þegnar Kína, sem beittir eru harð-
ræði og sviptir mannréttindum,
eiga ekki að fá þau skilaboð að kúg-
arar þeirra njóti sérstakrar virðing-
ar og velvilja leiðtoga lýðfrjálsra
þjóða,“ segir í tilkynningu SUS.
Mennamálaráðherra fer í boði íþróttahreyfingarinnar en ekki stjórnvalda
Fer á opnunarhátíðina en
ekki til að strjúka Kínverjum
Í HNOTSKURN
» Hefð er fyrir því aðmenntamálaráðherra, sem
jafnframt er ráðherra íþrótta-
mála, fari á opnunarhátíð Ól-
ympíuleika og hitti íslensku
keppendurna.
» Björn Bjarnason, þámenntamálaráðherra, var
viðstaddur opnunarhátíðir Ól-
ympíuleikanna í Atlanta 1996
og Sydney 2000 og Þorgerður
Katrín var viðstödd opn-
unarhátíðina í Aþenu árið 2004.
Þorgerður Katrín
Gunnarsdóttir
ÞRJÚ ungmenni slösuðust í bílveltu á Ak-
ureyri í hádeginu í gær. Ekkert þeirra er í
lífshættu en að sögn lækningaforstjóra
Sjúkrahússins á Akureyri eru þau öll bein-
brotin og tognuð.
Tveir karlar, ökumaður og farþegi í
framsæti, köstuðust út úr bílnum en hvor-
ugur var með bílbelti spennt. Stúlka var
föst í aftursætinu eftir slysið en sjúkra-
flutningamenn náðu henni út um það bil
klukkustund eftir óhappið.
Slysið varð með þeim hætti að bílnum
var ekið niður Borgarbraut á miklum
hraða að sögn sjónarvotta. Rétt neðan við
gatnamótin við Dalsbraut missti ökumað-
ur stjórn á bílnum sem rásaði um stund,
lenti því næst á ljósastaur og kastaðist á
hlaðinn grjótgarð sem liggur upp með
götunni. Þaðan þeyttist bíllinn áfram og
staðnæmdist á gangstíg við Borgarbraut-
ina. Mildi var að enginn var þar á ferð og
engin umferð á móti.
Þrír á sjúkrahús
eftir bílveltu
Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
MÁL ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri
Jóhannessyni, forstjóra Baugs, Tryggva
Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni
Baugs, og Jóni Geraldi Sullenberger,
fyrrverandi viðskiptafélaga Baugsmanna,
betur þekkt sem Baugsmálið, er á dag-
skrá Hæstaréttar 14. og 15. maí næst-
komandi.
Settur ríkissaksóknari í þessu máli er
Sigurður Tómas Magnússon og verj-
endur eru hinir sömu og þegar málið var
flutt í héraði, þ.e. Gestur Jónsson fyrir
Jón Ásgeir, Jakob R. Möller fyrir
Tryggva Jónsson og Brynjar Níelsson
fyrir Jón Gerald.
Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen,
Hjördís Hákonardóttir, Markús Sig-
urbjörnsson og Páll Hreinsson dæma
málið í Hæstarétti.
Baugsmálið flutt
í Hæstarétti
SÍMINN og Vodafone hafa fallist á til-
mæli talsmanns neytenda þess efnis að
tilkynna framvegis öllum neytendum
fyrirfram um verðhækkanir og aðrar
breytingar á skilmálum, neytendum í
óhag. Fresturinn, sem neytendur eiga
að hafa til þess að bregðast við, er einn
mánuður. Þetta kemur fram á vef tals-
manns neytenda (www.talsmadur.is).
Þar kemur fram að talsmaðurinn,
Gísli Tryggvason, hafi sent fjarskipta-
fyrirtækjunum Símanum og Vodafone
almenn tilmæli um að tilkynna við-
skiptavinum sínum framvegis persónu-
lega og með mánaðarfyrirvara um
hækkanir á verðskrá. Fram að þessu
hafi slíkar breytingar aðeins verið
kunngjörðar með fréttum og upplýs-
ingum á vefsíðum fyrirtækjanna auk til-
kynningar til Póst- og fjarskiptastofn-
unar (PFS).
Tilefni tilmælanna er að fyrirtækin
hafa frá áramótum breytt verðskrá
sinni til hækkunar án þess að tilkynna
neytendum hverjum og einum um breyt-
inguna með bréfi, tölvuskeyti eða öðr-
um hætti eins og talsmaður neytenda
telur rétt að gera.
Nova, sem einnig fékk tilmælin,
kveðst hafa fylgt þessari aðferð nýlega
þegar fyrirtækið breytti verðskrá sinni
þó að sú breyting hafi verið til lækk-
unar. Hive fékk einnig afrit af tilmæl-
unum svo og PFS.
Fallast á til-
mæli talsmanns
neytenda