Morgunblaðið - 10.04.2008, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 10. APRÍL 2008 11
ALÞINGI
UTANRÍKISRÁÐHERRA virðist
hafa tekið þá eindregnu stefnu að
auka umsvif Íslands í Afganistan
frekar en hitt. Þetta sagði Stein-
grímur J. Sigfússon, formaður
Vinstri grænna, í umræðum um
skýrslu utanríkisráðherra á Alþingi í
fyrradag og þótti lítil innstæða fyrir
þeim fögru fyrirheitum að mannrétt-
indi, aukin þróunarsamvinna og frið-
samlegar lausnir deilumála væru ný-
ir hornsteinar íslenskrar
utanríkisstefnu.
Steingrímur var ósáttur við stuðn-
ing Íslands við „bandaríska harð-
línustefnu“ um stækkun Atlants-
hafsbandalagsins (NATO) til austurs
og gagnrýndi einnig harðlega aukin
hernaðarútgjöld. „Eini efnislegi
hluturinn sem ég hef nokkurn tíma
heyrt menn benda á, sem gæti rétt-
lætt einhver aukin umsvif Íslands að
þessu leyti, eru siglingar olíuskipa.
Það er það eina sem menn hafa getað
komið með þegar þeir eru spurðir:
Hver er óvinurinn, hver er hættan af
þessu tagi?“ sagði Steingrímur og
vildi fremur að fjármunum væri var-
ið í að búa almennilega að lögregl-
unni og björgunarsveitum, efla al-
mannavarnir o.s.frv.
Ísland leggi sitt af mörkum
Kristinn H. Gunnarsson, þing-
maður Frjálslynda flokksins, var
hins vegar á þeirri skoðun að Ísland
ætti að halda áfram að taka þátt í
starfi NATO í Afganistan. „Ég tel
það rétta ábendingu að þarna sé
griðastaður fyrir uppvaxandi
hryðjuverkamenn og hryðjuverka-
samtök. Þær þjóðir sem þurfa öðrum
fremur að varast slíkt eiga hiklaust
að beita sér fyrir því að torvelda slík-
um samtökum og aðilum störf sín,
jafnvel þótt það sé í fjarlægum lönd-
um,“ sagði Kristinn og lagði einnig í
máli sínu áherslu á þátttöku Íslands í
alþjóðastarfi en þó ávallt með sjálf-
stæðið í huga þannig að ákvarðanir
væru teknar út frá íslenskum hags-
munum.
Magnús Stefánsson, þingmaður
Framsóknarflokksins, áréttaði að
utanríkismál væru í reynd innanrík-
ismál, enda snerti það sem ætti sér
stað á alþjóðavettvangi daglegt líf og
störf Íslendinga, og var á þeirri
skoðun að Ísland ætti fullt erindi í
öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
„Við erum hluti af hinni stóru mynd
og eigum ekki að sitja í skjóli sem
eitthvert smáríki. Við eigum að taka
virkan og fullan þátt,“ sagði Magnús
og áréttaði einnig mikilvægi aðildar
Íslands að NATO.
Sigling olíuskipa eina ógnin?
Vinstri græn eru ósátt við þátttöku Íslands í friðargæslu NATO í Afganistan en Framsókn og
Frjálslyndir eru jákvæðari Griðastaður fyrir uppvaxandi hryðjuverkamenn, segir Kristinn H.
Morgunblaðið/Frikki
Olíuógn Steingrímur J. er ósáttur við aukin hernaðarútgjöld og segir að
eina ógnin sem menn hafi getað bent á sé sigling olíuskipa við landið.
EINU tækifærin sem boðuð upp-
stokkun lögreglustjóraembætt-
isins á Suðurnesjum felur í sér
eru tækifæri til að eyðileggja
gott verk og gott samstarf, sagði
Kristinn H. Gunnarsson, þing-
maður Frjálslynda flokksins, á
Alþingi í gær.
Honum þótti ekki mikið koma
til orða Bjarkar Guðjónsdóttur,
þingmanns Sjálfstæðisflokks, um
að boðaðar breytingar gætu
skapað ný tækifæri til þess að
efla löggæslu á svæðinu. „Ég er
undrandi á því að það skuli heyr-
ast það sjónarmið frá Sjálfstæð-
isflokknum, og það frá þingmanni
kjördæmisins, að þessi skemmd-
arstarfsemi sé tækifæri,“ sagði
Kristinn og spurði hvort þetta
væru kannski tækifæri til að fá
annan sýslumann með „betra
flokksskírteini“.
Flokksbróðir Kristins, Grétar
Mar Jónsson, var einnig harð-
orður og sagði Alþingi hafa verið
lítilsvirt af dómsmálaráðherra
með þessum boðuðu breytingum
og Steingrími J. Sigfússyni, for-
manni VG, þótti undarlegt að
sundra ætti embættinu með sömu
rökum og það var sameinað.
Tækifæri til
að eyðileggja
gott samstarf
ÁRMANN Kr. Ólafsson, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, hefur lagt fram
fyrirspurn til samgönguráðherra
um slit flutningabíla á vegum lands-
ins. Hann vill vita hversu miklu
meira hlutfallslega flutningabíll,
með 80% hleðslu, slítur en með-
alfólksbíll sem sé 1.800 kg.
Mismunandi
slit á vegum?
ÍSLAND hefur ráðist í fullmörg ný
verkefni í þróunarsamvinnu og fyr-
ir vikið er tiltölulega lágum fjár-
hæðum varið til verkefnanna. Þetta
er mat Bjarna Benediktssonar, for-
manns utanríkismálanefndar Al-
þingis, en í umræðum um skýrslu
um utanríkismál sagðist hann vilja
láta skoða gaumgæfilega hvernig
auknum fjármunum til þróunar-
aðstoðar verði ráðstafað.
Hugsanlega ætti að veita fjár-
munum í færri verkefni og fram-
lögin yrðu þá hærri á hverjum stað
fyrir sig. Þá kallaði hann eftir því
að Alþingi hefði virkara eftirlit með
þróunarverkefnum.
Of mörg þróun-
arverkefni
ÞAÐ ER lífsins ómögulegt fyrir
sveitarfélögin að reka framhalds-
skóla ef þau geta ekki leyst úr ein-
földum álitaefnum varðandi rekst-
ur tónlistarskóla, sagði Þorgerður
Katrín Gunnarsdóttir mennta-
málaráðherra á Alþingi í gær og
vísaði til vandræðagangs með
skólagjöld fyrir tónlistarnema sem
sækja nám í öðrum sveitarfélögum.
Bjarni Harðarson, þingmaður
Framsóknarflokks, sagði of mörg
dæmi þess að nemendur þyrftu að
greiða háar fjárhæðir fyrir tónlist-
arnám ættu þeir ekki lögheimili í
viðkomandi sveitarfélagi og spurði
ráðherra hvenær „átthagafjötrum“
yrði létt af tónlistarnemendum
landsins
Þorgerður sagði aftur á móti að
ákvörðunin væri ekki á hendi rík-
isins heldur sveitarfélaganna enda
væru tónlistarskólar á þeirra
ábyrgð. „Það er hins vegar alveg
ljóst að breytingar á núverandi fyr-
irkomulagi verða ekki gerðar nema
með breytingum á lögum um fjár-
hagslegan stuðning við tónlist-
arnema,“ sagði Þorgerður og árétt-
aði skoðun sína að grunn- og
miðstig listnáms ætti að vera á for-
ræði sveitarfélaga en framhalds-
stigið á forræði ríkisins.
Tónlistarnemendur
bundnir átthagafjötrum?
Morgunblaðið/Golli
Dýr sláttur Það getur verið misdýrt fyrir framhaldsskólanemendur að
ganga tónlistarmenntaveginn eftir því hvar þeir eiga heima.
Eftir Höllu Gunnarsdóttur
halla@mbl.is
ÞAÐ ER nauðsynlegt fyrir sjálf-
stæði þjóðarinnar að áfram verði
tryggt að Íslendingar geti byggt upp
sinn iðnað með umhverfisvænum
orkugjöfum og þannig lagt sitt af
mörkum til umhverfismála á heims-
vísu. Þetta sagði Höskuldur Þór Þór-
hallsson, þingmaður Framsóknar-
flokksins, í utandagskrárumræðum
um samningsmarkmið ríkisstjórnar-
innar í loftslagsmálum á Alþingi í
gær og vildi skýrar yfirlýsingar frá
stjórnvöldum um hvort íslenska
ákvæðið svonefnda yrði meðal mark-
miða.
Þórunn Sveinbjarnardóttir um-
hverfisráðherra sagði engin ríki hafa
formlega lagt fram tillögur með tölu-
legum skuldbindingum við samn-
ingaborðið enda væri samningaferlið
rétt að hefjast. Það væri stefna Ís-
lands að vera í hópi þeirra ríkja sem
vilja að iðnríkin fari fram með góðu
fordæmi á næsta skuldbindinga-
tímabili, þ.e. fram til 2020.
Alvirkjun Íslands
Þórunn sagði að hér á landi ætti að
draga úr losun gróðurhúsaloftteg-
unda um 50-70% fyrir árið 2050. „Sú
áætlun stendur,“ sagði hún og blés á
rök sem fram komu í umræðunum
um að Íslandi bæri hnattræn skylda
til að virkja. Það væri ábyrgðarlaus
málflutningur að halda því fram að
„einhvers konar alvirkjun Íslands til
álframleiðslu“ væri kostur.
Illugi Gunnarsson, þingmaður
Sjálfstæðisflokks, sagði það hljóta að
vera stefnu ríkisstjórnarinnar að
byggja á íslenska ákvæðinu, sem
hann benti þó á að væri ekki sérstakt
íslenskt ákvæði. Það næði til fleiri
ríkja og byggði á kröfu um endurnýj-
anlega orku og að notkun hennar
leiddi til samdráttar í losun gróður-
húsalofttegunda í heiminum.
Kolbrún Halldórsdóttir, þingmað-
ur Vinstri grænna, efaðist um að
hugur fylgdi máli hjá ríkisstjórninni
þegar kæmi að góðum markmiðum í
loftslagsmálum enda væri ósam-
ræmi milli yfirlýsinga Þórunnar og
annarra ráðherra. Flest annað en að
draga úr losun hér heima fyrir virtist
talið mikilvægt, ef marka mætti orð
ráðherranna.
Deilt um hvort halda
eigi í „íslenska ákvæðið“
Hlýtur að eiga að byggja á því, segir Illugi Gunnarsson
ÞETTA HELST …
Breytir engu um tolla
Innleiðing Evrópu-
sambandslög-
gjafar um land-
búnaðarmál er
ekki sú grundvall-
arstefnubreyting á
landbúnaðar-
stefnu Íslands
sem ætla mætti
af ræðu Einars K.
Guðfinnssonar í
Valhöll sl. helgi,
sagði Valgerður Sverrisdóttir, Fram-
sókn, á þingi í gær. „Með þessum
breytingum mun frelsi til innflutnings
búfjárafurða aukast. Breytingin hefur
þó engin áhrif á það fyrirkomulag
sem er við lýði á innflutningi búfjár-
afurða að því er varðar tolla,“ áréttaði
hún.
Menga meira
Helga Hjörvari,
þingmanni Sam-
fylkingar, þótti
málflutningur
Framsóknar-
flokksins í um-
ræðum um lofts-
lagsmál á þingi í
gær undarlegur.
„Skilaboð hans til
heimsins eru ein:
Mættum við fá að menga meira?“
sagði Helgi og fannst talið ábyrgð-
arlaust nú þegar alþjóðasamfélagið
stæði frammi fyrir þeirri ógn sem
loftslagsbreytingar væru.
Lítil áhrif á EES
Formleg staða sveitarfélaga til að
fylgjast með rekstri EES-samningsins
og taka þátt í umræðu um framvindu
hans er ekki fyrir hendi. Þetta kemur
fram í skýrslu utanríkisráðherra um
skuldbindingar íslenskra sveitarfé-
laga í EES-samningnum sem var unn-
in að beiðni Árna Þórs Sigurðssonar,
VG, og fleiri þingmanna. Í skýrslunni
kemur fram að margar óformlegar
leiðir séu til að hafa áhrif, m.a. í gegn-
um skrifstofu Sambands íslenskra
sveitarfélaga í Brussel.
Öfugur endi
Varnarmálafrumvarpið er nú komið til
þriðju umræðu en atkvæðagreiðsla
eftir aðra umræðu fór fram í gær.
Frumvarpið verður því fljótlega að lög-
um en vinstri græn vildu heldur
senda það aftur til ríkisstjórnarinnar
sem ætti að standa við gefin loforð
um samráð. Byrjað hefði verið á öfug-
um enda og engin þarfagreining eða
hættumat farið fram.
Dagskrá þingsins
Þingfundur hefst kl. 10.30 í dag með
óundirbúnum fyrirspurnum en einnig
á að ræða frumvarp um Veðurstofu
Íslands og lagabreytingar varðandi
verðbréfaviðskipti.
Valgerður
Sverrisdóttir
Helgi Hjörvar