Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.1952, Side 44
Páfakjör í gamla daga
Það var sumarið 1623 og það var óró í mönnum í
Róm. Sagt var, að Gregor XV. páfi, sem ríkt hafði
í tvö ár aðeins, væri dauðsjúkur og því mætti búast
við nýju „interregnum" (millibilsstjórn) og páfakjöri,
sem borgarar Rómar kviðu ætíð mjög fyrir — og ekki
að ástæðulausu.
Óróinn og kvíðinn reyndist líka ekki ástæðulaus.
Gregor XV. dó og kardínál-kammerherrann gekk
með gullkylfu sína og silfurkylfu sína inn í herbergi
páfa. Hann drap á dyr með gullkylfunni og kallaði nafn
páfa þrisvar sinnum. Enginn svaraði. Þá gekk hann
inn í svefnherbergið, þar sem Gregor lá í rúmi sínu.
Með silfurkylfunni snart hann enni páfa þrisvar sinn-
um og kallaði nafnið. Og þar eð honum var engu
anzað, féll hann á kné og kallaði upp, að páfi væri
sannlega andaður. Svo gaf hann einum hinna kardí-
nálanna merki, og sá skundaði til Kapitól og lét hringja
stóru klukkunni þar og boða íbúum Rómar, að páfi
væri sálaður.
í þá tíð, er hér um ræðir, var páfi ekki einasta and-
legur leiðtogi katólsku kirkjunnar, hann var einnig
veraldlegur fursti og var einvaldur í kirkjuríkinu Róm,
auk stærri eða smærri landsvæða hér og þar á Ítalíu.
Hann var ásamt kónginum í Neapel og Medicifurstan-
um í Florenz voldugasti þjóðhöfðingi Ítalíu. í sömu
andrá og páfi lézt, tók kardínál-kammerherrann æðstu
stjórn ríkisins í sínar hendur, og honum bar nú að
sjá um, að allir kardínálarnir kæmu saman á þeim stað,
er hinn síðasti páfi hafði andazt, til að kjósa nýjan.
En sá tími, sem leið þar til nýr páfi væri kjörinn,
nefndist „interregnum", og það var skelfingatími
fyrir íbúana. Til að gera interregnum sem styzt, og til
þess að kardínálarnir skyldu ekki tefja tímann og
nota tækifærið til að auðga sig allt of mikið, stanzaði
ríkismaskínan algerlega þetta tímabil. Jafnvel dóm-
stólarnir störfuðu ekki, og frá þeirri stundu, er hringur
hins sálaða páfa hafði verið sundur brotinn, ríkti í
rauninni taumlaust stjórnleysi, þar sem hver og einn
slóst upp á eigin spýtur.
„Enginn getur sagt, að hann hafi verið í Róm og
þekki borgina, hafi hann ekki verið hér við páfakjör“,
skrifaði klerkur einn, þegar Gregor XV var kjörinn
árið 1621. Þá hafði verið líf í tuskunum. En langtum
verra varð það þó eftir tvö ár, þegar kardínálinn
Maffeo Barberini var kjörinn páfi undir nafninu Urban
VIII.
Sérhver páfi hafði leiguher, og hver kardínáli, sem
kom til „konklavsins“, páfakjörsins, hafði með sér til
öryggis flokk fótgönguliða. Þegar páfi var dauður,
notuðu þessir leigusveinar tækifærið til að krefjast
þeirra launa, sem þeir oftast áttu inni, og hvort sem
þeir nú fengu þau eður ei, tóku þeir til að ræna, þar
sem þeir komu því við. Um ástandið í Róm í „konkla-
vinu“ árið 1623, skrifar Gigli nokkur:
„Enginn dagur líður án fyrirsátra, morða og rána.
Menn og konur finnast drepin á ýmsum stöðum, sum
höfuðlaus, sumum drekkt í Tíber, og þeir „sbirrar"
(lögreglumenn), sem halda eiga uppi ró og reglu, eru
oft drepnir sjálfir. Hinir páfalegu fótgönguliðar, sem
eru samantínd mannhrök úr öllum heimi, allir með
áberandi rándýrseðli, eru allra skelfing, fyrst og fremst
kardínálanna, sem ekki geta verið án liðveizlu þeirra,
og verða því að ausa í þá peningum, þar næst borgar-
anna, sem eru öldungis ofurseldir náð þeirra og
miskunn". ,
Hver aðalsmaður tók sér rétt til að girða hverfi
sitt járnkeðju og og láta vopnaða liðsmenn sína gæta
þess, því á lögregluna gátu menn ekki treyst. Lögreglu-
liðið átti í innbyrðis erjum, venjulega út af því, hvaða
hverfi þessi eða hinn yfirmaður hefði rétt til að gæta
og ræna, og í páfakjörinu 1623 gekk það svo langt, að
lífvörður kardínálans af Savoyen drap lögreglufor-
ingjann í Traslevere-hverfinu. Á mörkum Leontiner-
hverfisins, þar sem Vatikanið er, voru reist götuvígi
til að vernda kardínálana, er þeir færu til að kjósa
hinn nýja páfa.
Þegar kardínálarnir voru komnir til Vatikansins
heilir á húfi, voru þeir fyrst leiddir fyrir lík páfa.
Það var klætt drifhvítum líkklæðum og þar utanyfir
purpurakápu með útsaumi og gullborðaleggingum. í
kistuna var látinn skinnpoki með peningum og perga-
mentsstranga, hvar á voru skráð öll góðverk páfa.
Stundum var líkið borið niður í kirkju af rómverskum
betlurum, stundum af hermönnum, og þá gat komið til
heiptarlegra slagsmála milli hermannanna um réttinn
til að bera fremstu blysin. Þeim rétti fylgdi gjöf,
hundrað scudi. Þegar kista Gregors, eftir hina lögmætu
níu daga, var komin í grafhvelfingu, komu kardínálar
saman til páfakjörs. Þeir komu saman í stóru her-
bergi, sem var lokað og læst og innsiglað á allar hliðar.
Á því var aðeins einn gluggi og á einum veggnum
var hleragat, þar sem skotið var inn viðurværi til
hinna geistlegu höfðingja. Þeir fengu mat tvisvar á dag,
en ef svo liðu þrír dagar, að þeir gætu ekki komið
sér saman um kjörið, áttu þeir aðeins að fá mat einu
sinni á dag. Skyldi nú, mót vonum, enn líða fimm
dagar, án þess samkomulag næðist, fengu kardínálarn-
ir einungis brauð, vatn og vín sér til lífsviðurværis.
44
V í K I N □ U R