Sjómannablaðið Víkingur - 01.08.1988, Blaðsíða 5
RITSTJÓRNARGREIN
Við íslendingar höfum orðið fyrirþví óláni,
enn einu sinni, að fá yfir okkur góðæri.
Afleiðingarnar eru jafnvel enn verri nú en
oftast áður; útgerð og fiskvinnsla eiga í
verulegum erfiðleikum, fjöldi verslana og
annarra þjónustufyrirtækja eru gjaldþrota
og ríkisstjórnin sagði af sér. Framundan
blasir við óðaverðbólga með tilheyrandi
vaxtaokri sem setur enn fleiri vinnuvéit-
endur á hausinn, sem aftur skapar at-
vinnuleysi sem með góðri aðstoð hávaxt-
anna kemur fjölskyldunum í gjaldþrot — ef
ekkert verður að gert.
Fyrr á tíð var góðæri mikil gæfa. Þá
bjuggu hyggnir búmenn í haginn fyrir
mögru árin sem þeir vissu að hlutu að
fylgja. Þeir báru ábyrgð á velferð fjöl-
skyldu sinnar og vinnuhjúa. Oft var stór
hópur manna, kvenna og barna á einu
heimili sem heimilisfaðirinn veitti forsjá og
bar ábyrgð á velferð þeirra. Oftast reis
húsbóndinn undir þeirri ábyrgð, þess
vegna lifði þjóðin aldirnar af, í gegnum
góðæri og harðæri.
Nú á tímum ber enginn neina ábyrgð,
ekki í raun og veru, ekki einu sinni á af-
komu sjálfs sín. Þess vegna er svo komið
að góðærin eru okkur vond sending.
Þegar góðæri gengur yfir þjóðina, mikill
fiskur gengur á miðin, gæftir eru góðar og
verð er hátt á mörkuðum, þá tryllist þjóðin
öll. Fyrirtækjaeigendur hefja byggingu
stórra viðskiptahalla, launþegarnir
stækka við sig íbúðirnar, endurnýja bílana
og fjölga þeim og skipta um teppi og hús-
gögn. Fjárfestingargleðin veldur algleymi
líkt og örvandi lyf og hvergi sést skýhnoðri
á himni. Góðærið er komið og þá er um að
gera að láta drauminn rætast, drauminn
um að eiga mikið. Peningar eru hvar sem
litið er og enginn vandi að fá lán, hvort
sem er hjá bönkum eða seljendum
draumsins og stofnuð eru sérstök „fjár-
mögnunarleigufyrirtæki“ (þvílíkt orð) til að
auðvelda fólki að hnýta sérhengingaról til
nokkurra ára. Og því ekki það ? Nú ergóð-
æri og nú er lag og ég ber ekki ábyrgð á
framtíðinni. Ef eitthvað fer úrskeiðis
heimta ég bara „aðgerðir" af ríkisstjórn-
inni.
Fyrstir til að verða varir við góðæri eru
þeirsem veiða og vinna sjávarafla, og fara
fljótlega að bæta hús sín, skip og tækja-
kost. Þá komast kaupmenn og iðnaðar-
menn á bragðið og vilja líka virkja sinn
peningastraum til eignaaukningar, og ekki
síst ef það gæti orðið til að ekki þyrfti að
borga neina peninga í bölvaðan ekkisen
ríkiskassann. Og tilþess er um að gera að
vera nú stórtækur, enda erum við íslend-
ingar engir hokurkarlar, og góðærisgróði
næsta áratugs er bundinn strax, til að
tryggja framtíðina.
Svo kom fyrsta áfallið. Launalýðurinn
hafði gleymst, en nú kom hann og heimt-
aði sinn skerf í góðærinu og fékk hann
auðvitað eftir hefðbundið orðaskak. Þar
með var darraðardansinn kominn í al-
gleyming. Ríkisstjórnir góðæranna reyna
stundum að hafa svolítinn hemil á gleð-
inni, en hætta því fljótlega vegna þess að
mannagreyin missa bara vinnuna ef þeir
eru með eitthvert múður. Þeir ganga því í
dansinn með okkur hinum og byggja sér
kannski svolítinn minnisvarða á okkar
kostnað í leiðinni. Það er líka svo skolli
gaman að dansa.
Svo kom stóra áfallið. Fiskgengdirkom-
ust aftur í eðlilegt horf, verð á mörkuðum
okkar komst í eðlilegt horf og jafnvel veðr-
ið komst í eðlilegt horf. Eftir sitjum við með
ægilega timburmenn eftir dansinn og ást-
and eins og lýst var hér í upphafi. Við
leitum að einhverjum sem ber ábyrgð á
ástandinu, en finnum engan. Við ráðumst
að stjórnmálamönnum af heift og heimt-
um kraftaverk af þeim, sem þeir kunna
auðvitað ekki að gera. Heift okkar er enn
meiri vegna þess að við vitum að við eig-
um sökina öll. Við vitum að við áttum ekki
að fara á þetta fyllirí, og við höfum sam-
viskubit, við vitum að við áttum að læra af
síðasta góðæri og góðærinu þar á undan,
en við höfum svikist um að læra.
Skyldum við nokkurntíma geta lært?
Við skulum að minnsta kost biðja guð
okkar umað senda okkur ekki fleiri góðæri
fyrr en við höfum lært að bera ábyrgð, þó
ekki væri nema hver á sjálfum sér.
Sigurjón
Valdimarsson
ritstjóri
Það er
svo
gaman
að
dansa
VÍKINGUR 5