Náttúrufræðingurinn - 2006, Blaðsíða 60
Heimasíða HÍN: www.hin.is
Ný og endurgerð heimasíða Hins íslenska náttúrufræðifélags var tekin í gagnið með formlegum
hætti 28. nóvember síðastliðinn í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla íslands. Formaðurinn Kristín
Svavarsdóttir opnaði heimasíðuna að viðstöddu fjölmenni. Að lokinni opnunarathöfn flutti dr.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur erindi um sprengigos í vatni og jökli, ísbráðnun og
upptök jökulhlaupa.
A heimasíðurmi er að finna ýmsar upplýsingar um starfsemi og málefni félagsins, svo sem um
fræðslufundi og ágrip af erindum, fræðsluferðir, lög félagsins, skipan stjórnar og ritstjórnar, ágrip af
baráttusögu félagsins í þágu Náttúruminjasafns íslands og fróðleiksgreinar um íslenska frumkvöðla á
sviði náttúrufræða, auk upplýsinga um Náttúrufræðinginn.
Einn helsti kostur heimasíðunnar er vafalítið leitarsíðan þar sem hægt er að leita að útgefnu efni sem
birst hefur í Náttúrufræðingnum frá upphafi. Útgáfa Náttúrufræðingsins hófst 1931 og til ársins 2005
hafa komið út 73 árgangar, samtals 292 hefti. Til að byrja með er hægt að kalla fram upplýsingar
um höfund, heiti greinar, útgáfuár, árgang, tölublað og blaðsíðutal með hliðsjón af leitarorði, t.d.
höfundarnafni eða efnisorði (dæmi: hraun). Þegar fram í sækir er stefnt að því að hægt verði að
kalla fram ágrip greina og hugsanlega heilu greinarnar í eldri árgöngum.
Við uppsetningu heimasíðunnar naut félagið liðsinnis Jóhanns ísbergs og lagði hann auk þess til
ljósmyndaefni. Kann félagið Jóhanni bestu þakkir fyrir framlag hans. Dýrateikningar sem birtast efst
til hægri á heimasíðunni eru úr verkinu Dýraríki íslands eftir Benedikt Gröndal skáld, náttúrufræðing
og fyrsta formann Hins íslenska náttúrufræðifélags. Teikningarnar vann Benedikt á árunum
1874-1905 en þær komu fyrst fyrir almenningssjónir 1975 þegar bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
prentaði viðhafnarútgáfu með teikningunum. Tilefni útgáfunnar var 150 ára afmæli Benedikts þann
6. október 1976. Formennsku í félaginu gegndi Benedikt á tímabilinu 1889-1900.
Stjórn HÍN væri fengur í því að fá ábendingar frá félagsmönnum um hvaðeina sem lýtur að gerð
heimasíðunnar. Ábendingar til stjórnar má senda á netföngin stjorn@hin.is og hin@hin.is.