Náttúrufræðingurinn - 1998, Page 4
Hverjir eiga
HÁLENDIÐ?
Um fátt hefur verið meira rætt undanfarna
mánuði og misseri en áform Landsvirkjunar
um virkjanir og tilheyrandi miðlunarlón á
hálendinu. Ekkert virðist áköfustu virkjunar-
mönnum heilagt. Það á ekki bara að sökkva
Eyjabökkum og Þjórsárverum; jafnvel Detti-
foss á að leggja í krana - og skrúfa svo bara
frá ef þjóðhöfðingja ber að garði!
Þessi áform eru leifar af úreltri stóriðju-
stefnu 7. og 8. áratugarins þegar fátt þótti til
bjargar vesælli þjóð annað en raforkusala til
stóriðju. Álverið í Straumsvík var reist 1967
eftir hatrammar pólitískar deilur, en þær
snerust ekki um Búrfellsvirkjun sem slíka.
Og enda þótt deilt hafi verið unr Járnblendi-
verksmiðjuna á Grundartanga, nýtt álver á
sama stað og stækkunina í Straumsvík, þá
snerust þær deilur ekki um virkjanirnar sem
að baki liggja, heldur um hugsanlega
mengun frá iðjuverunum, um atvinnustefnu
og um byggðapólitík.
Umræðan og viðhorf manna hefur breyst
mjög á tiltölulega stuttum tíma: Nú deila
menn um fórnarkostnaðinn - um það hvort
setja eigi verðmiða á íslenska náttúru. Um-
ræðan snýst ekki um það hvort reisa eigi
álver í Reyðarfirði eða á Keilisnesi, hversu
stórt það eigi að vera, hvort það eigi að vera
með þurr- eða vothreinsibúnaði eða hvort
það eigi að vera í 49 eða 51% eigu útlendra
auðhringa. Nei, nú er spurt hvort við - nú-
lifandi íslendingar - höfum leyfi til að
drekkja ósnortnum náttúruperlum á hálend-
inu og eyða þar með mikilvægum búsvæðum
plantna og dýra unr aldur og eilífð.
Höfum við leyfi til slíks? Nei, síður en svo.
Hálendið er ekki okkar eign. Við höfum ekki
fengið það í arf frá foreldrum okkar heldur
höfum við það aðeins að láni frá börnununr
okkar og börnum þeirra. Þess vegna höfum
við ekki leyfi til að fórna Dettifossi, Eyja-
bökkum og Þjórsárverum.
En hver er ástæðan fyrir þeirri almennu
viðhorfsbreytingu sem orðin er?
Batnandi efnahagur og ný tækni hafa gert
æ stærri hópi fólks kleift að njóta hálendis-
ins, ef ekki þar þá heima í stofu, í sjónvarp-
inu, í Morgunblaðinu og jafnvel í Kringl-
unni. Alkunna er að menn sakna ekki þess
sem þeir þekkja ekki. Til skamms tíma þekktu
fáir af eigin reynslu til þeirra staða sem í húfi
eru. Aukin útivist en ekki síður málefnaleg
og upplýsandi umræða um gildi þessara
stórbrotnu víðerna hefur snortið streng í
hjörtum landsmanna, streng sem nú er
þaninn. Æ fleiri vilja nú bjarga hálendinu, og
skila þessum einstöku og viðkvæmu svæð-
um ósnortnum til komandi kynslóða.
í sumar og haust höfum við orðið vitni að
árangursrfkri samvinnu útivistarfólks, lista-
manna og náttúrufræðinga, fjölmiðla, Ijós-
myndara og fréttamanna, sem tekið hafa
höndum saman um að kynna landsvæðin
sem á að sökkva. Greinaflokkur Morgun-
blaðsins um Landið og orkuna, þar sem
nýjustu tölvutækni var beitt til að sýna
hvaða breytingar munu verða á ásýnd
landsins, var til fyrirmyndar. Og nú hefur
enn bæst í safn upplýsinga um náttúru fyrir-
hugaðra virkjanasvæða norðan Vatna-
jökuls: Glettingur, tímarit um austfirsk
máeefni, er að þessu sinni helgaður fræðslu
um náttúru svæðanna og fyrirhugaðar
virkjanir.
Það verður þá ekki vegna þess að menn
vita ekki hvað þeir eru að gera...
Alfheiður Ingadóttir.
82