Náttúrufræðingurinn - 1939, Side 34
28 NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN
iiimiiiiiimmmiiiimiimiimiiiiiiiiiHiiiiiiimiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiMiiiimiiiiiimiimimiiiiiiimiiiiimiiiiiiiiiiiiiiiimiti
bleikju-tegundarinnar. Eigi er heldur vafi á því, að þær eru báðar
komnar af hinni eiginlegu bleikju, þær eru yngri en hún. Bleikj-
an er það upprunalega-, þær það afleidda. Ef gert er ráð fyrir, að
Þingvallavatn hafi verið einangrað frá sjó í 5000 ár, þannig, að
fiskur úr sjó hafi ekki komizt í vatnið á þessu tímabili, þá hefir
það orðið að búa að sínum eigin silungs-stofni í 5000 ár. Á þess-
um tíma hafa þá murtan og svart-murtan myndazt út frá bleikj-
unni. En hvers vegna? Hvers vegna gat ekki bleikjan haldið sín-
um séreinkennum einum óbreyttum, alveg eins og urriðinn hefir
gert, án þess að bæta nýjum við og mynda afbrigði? Skýringin mun
vera sú, að urriðinn er „fastari“ tegund, „stabílli", en bleikjan,
eins og líka breytileikinn á hryggjarliðafjöldanum í báðum sýnir.
Bleikjan hefir því betur verið fær um að svara hinum sérstöku
áhrifum hins nýja heimkynnis, eftir að leiðin til sjávar lokaðist,
heldur en urriðinn. Eins og kunnugt er, er Þingvallavatn stærsta
vatn á íslandi, og óvenju djúpt. Það er því mjög auðugt að svifi
(einkum vatnsflóm og krabbaflóm), uppi við yfirborðið, og í efstu
vatnslögunum, sem botnfiskur eins og bleikjan nær ekki til.
Sumt af bleikjunni hefir því, ef til vill fyrir 5000 árum, tekið upp
á því að breyta lifnaðarháttum. í stað þess að lifa að mestu leyti
við botninn, að háttum forfeðranna, hefir þetta brot, sem breytti
lifnaðarháttum, uppgötvað matargnægðina við yfirborðið, þar sem
keppinautar voru auk þess fáir eða engir. Við þetta breyttist
smám saman útlitið nokkuð, fiskar þessir fóru að ganga í torfum
og höfuðið færðist nær því að vera yfirmynnt, til þess að sam-
lagast sem bezt hinu nýja umhverfi. Á þennan hátt hefir murtan
sennilega orðið til. Hvort hinn aukni hryggjarliðafjöldi stafar
beinlínis af þessum nýju lifnaðarháttum, eða af því, að murtan
hrygnir seinna- en bleikjan (sumt af bleikjunni hrygnir í júlí—
ágúst) og hrognin klekjast þannig í kaldara vatni, skal látið ósagt.
En hitt er víst, að í murtunni hefir bleikjunni tekizt að skapa af-
brigði, sem er sérstaklega vel lagað fyrir lífið í Þingvallavatni,
sem er stórt að flatarmáli, með miklu dýpi og auðugu yfirborðslífi.
Um svart-murtuna er allt erfiðara að segja. En hún er grein
út frá bleikjunni í þá áttina, sem frá murtunni veit. Hún virðist
sérstaklega vel löguð fyrir lífið á botninum, en af hvaða ástæðum
bleikjan hefir myndað hana, þar sem hún má sjálf teljast botn-
fiskur, skal látið ósagt. Hugsazt getur þó, að svart-murtan sé eins
konar „grunnsævis“-afbrigði af bleikjunni, einkum samlagað harða
botninum uppi við löndin, og á það bendir m. a. liturinn.