Samvinnan - 01.02.1981, Blaðsíða 11

Samvinnan - 01.02.1981, Blaðsíða 11
FORUSTIieitEllf Kaupfélögin eru miðstöðvar viðskipta og athafna hvert á sínum stað Verzlun og viðskipti breytast sífellt, eins og önnur svið daglegs lífs. Alls staðar gætir umskipta. Þótt viðj- ar vanans séu sterkar, hrökkva menn upp við það aftur og aftur á ævinni, að hið gamla er horfið og nýtt komið í þess stað. Ef litið er í sjónhendingu yfir sögu verzlunarinnar hin síðari ár, blasa við ótal staðreyndir, til dæmis eftir- farandi atriði: • Þegar fjöldaframleiðslan kom til sögunnar, urðu þáttaskil í verzlun og viðskiptum. Verkefni sölumanna verður þá að skapa þörf fyrir vörur jafnt og að full- nægja henni. Framleiðslan skapar sjálf sölumögu- leikana. • Með aukningu þéttbýlis myndast nýjar sölumið- stöðvar og ný sölutækni verður til, sem samsvarar betur kröfum tímans, svo sem kjörbúðir og stórmark- aðir. Og ef til vill er ný bylting í afgreiðsluháttum fram- undan með tilkomu tölvutækninnar. • Með bættum lífskjörum og aukinni velferð al- mennings koma nýjar vörur til skjalanna og nýjar þarfir skapast. Hin allra síðustu ár hefur þessi þróun orðið ekki sízt vegna aukinnar hlutdeildar kvenna í tekjuöflun heimilanna. Það gerist nú æ algengara, að konur starfi utan heimilisins, og við það eykst kaup- getan og þörf skapast fyrir nýja og breytta þjónustu af hálfu verzlunarinnar. Þannig mætti halda áfram að rekja sögu verzlunar- innar, en látið skal staðar numið hér við þessi fáu atriði. Óumdeilt er, að verzlun gegnir mjög mikilvægu hlutverki í nútímaþjóðfélagi og er ein af undirstöðum þeirrar velmegunar, sem allir sækjast eftir. Verzlun hér á íslandi er að ýmsu leyti erfiðari en með öðrum þjóðum og veldur því fámenni og strjál- býli. En þrátt fyrir erfiðar aðstæður höfum við íslend- ingar gert stórfenglegt átak í verzlun hinna dreifðu byggða landsins. Það átak er fyrst og fremst samvinnuhreyfingunni að þakka. Samtök fólksins sjálfs hafa skapað svo stórar heild- ir, að jafnvel í hinum fámennustu héruðum hafa kaup- félögin getað byggt upp verzlun og þjónustu við íbú- ana, sem vart á sinn líka í öðrum löndum við svipaðar aðstæður. Kaupfélögin eru miðstöðvar viðskipta og athafna hvert á sínum stað. Þau eru slagæðar héraðanna. Þau eru forsenda þess, að fámenn þjóð getur lifað í svo stóru og harðbýlu landi. En hver er skilningur stjórnvalda á þessari stað- reynd, sem allir hljóta að viðurkenna? í þessu hefti Samvinnunnar birtist viðtal við Erlend Einarsson forstjóra. Þegar hann var spurður um af- komu kaupfélaganna á árinu 1980, svaraði hann: ,,Það veldur miklum áhyggjum, að verzlun kaupfé- laga í dreifbýli hefur varla nokkurn rekstrargrundvöll. Hávaxtakostnaðurinn veldur gífurlegri aukningu á rekstrarkostnaði verslunarinnar. í dreifbýli, þar sem vörubirgðir þurfa að vera miklu meiri og veltuhraðinn er mjög lítill, er vaxtabyrðin sérstaklega mikil. Verð- lagsyfirvöld hafa ekki tekið neitt tillit til hávaxtanna, og ekki hefur verið leyfilegt að færa upp vörubirgðir á móti verðbólgunni. Mér virðist augljóst, að þessar ákvarðanir yfirvalda eiga enga stoð í lögum. Hvað myndi t.d. einstaklingur segja, ef hann væri skyldaður með boði þeirra að selja bifreið, sem hann keypti fyrir einu til tveim árum síðan, á sama verði og hann keypti hann á?“ Því verður ekki trúað, að stjórnvöld ætli sér að brjóta niður þá burðarása byggðarlaganna sem kaupfélögin eru — og það með ákvörðunum í verðlagsmálum, sem ekki fást staðizt lagalega séð. í lok svars síns krefst Erlendur þess fyrir hönd sam- vinnuhreyfingartnnar, að þetta hróplega ranglæti verði afnumið nú þegar. Sú sjálfsagða leiðrétting má ekki dragast deginum lengur. ♦ 7

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.