Samvinnan - 01.12.1981, Blaðsíða 29
Eiginkonan
í orlofi
Nú er konan farin frá mér,
fremur illa liggur á mér.
Hana í sæng ég hvergi finn.
Þar er ekkert eftir hjá mér
annað heldur en náttkjóllinn.
Hann er reyndar hörundsbleikur,
hefur blæ sem drauminn eykur,
skerpir minni mitt og þrár.
Þetta er annars enginn leikur
eftir nærri tíu ár.
Annars þarf ég ekki að kvarta:
Allskyns föng á borði skarta
og vel er hirt um húsið mitt.
En það er eins og augu og hjarta
alltaf vilji hafa sitt.
Gott er að aðrar orlofs njóti,
alla hvíld og skemmtun hljóti.
Þetta tel ég sómasið.
En að hún að heiman þjóti
hef ég aldrei sætt mig við.
Veit ég samt að vikan líður,
vond og erfið þeim sem bíður
uns hún ber sitt endurgjald.
Þá mun dagur þykja blíður,
þá fær náttkjóll innihald.
Guðmundur Ingi Kristjánsson,
skáld á Kirkjubóli, sendir frá sér
nýja ljóðabók um þessar mundir
og er það hin fimmta í röðinni.
Sólfar heitir hún, en allar ljóða-
bækur Guðmundar Inga eru
kenndar við sólina: Sólstafir
(1938). Sólbráð (1945), Sóldögg
(1958) og Sólborgir (1963). —
Guðmundur Ingi skipar sérstak-
an sess í bókmenntasögunni;
hann er skáld búskapar og
sveitalífs. Ljóð hans eru einföld
og auðskilin, en alltaf fáguð og
sniðföst. Hann hefur góða kímni-
gáfu, sem nýtur sín vel I mörg-
um kvæða hans — til dæmis
ljóðinu um eiginkonuna í orlofi,
sem hér birtist.
■a
29