Vikan


Vikan - 09.06.1960, Blaðsíða 35

Vikan - 09.06.1960, Blaðsíða 35
Þeirra segla, sem festingu hafa á bug- spjóti, gat varla ráðið þar úrslitum, en þó fer það nokkuð eftir reiðalagi skipsins og seglabúnaði. En hvað um það; samkvæmt fangaskrám kemur Sigurður Gottsvinsson í „rasphúsið" í Brimarhólmi hinn 22. apríl 1830, og hefst þar með lokaáfanginn á ævi- ferli hans. Eftir að Sigurður kom í rasphúsið, virðist hegðun hans hafa verið að minnsta kosti sæmileg. Þó er þess get- ið í íangaskrám, að einu sinni hélt hann vöku fyrir samföngum sínum lengi nætur með guðsorðalestri og sálmasöng; lýsir það vel hve kald- rifjaður og kænn hann var, því að eflaust hefur honum gengið það eitt til að koma þannig fram hefndum fyrir eitthvað, sem honum hefur mis- líkað, og valið til þess guðsorðið með tilliti til þess, að ekki yrði eins strangt á háreysti hans tekið, — því að ólíklegt er að honum hafi gengið iðrun til, enda ekkert sem bendir til þess að hann hafi bugazt eða tekið sinnaskiptum. Ekki var hann þó lengi í rasphúsinu, þvi að hann tók hand- armein og var þá fluttur í tyftunar- hús, þar sem vinna var léttari. Þar gerðist það að kvöldi hins 18. okt. 1833, að Sigurður lenti í sennu við danskan fanga, Anders Broe. Kom svo, að Sigurður kvaðst geta lagt Anders; veðjuðu þeir um það og lögðu undir 16 skildinga, eða sem svaraði helming vikukaupsins, sem föngum var þá goldið, en, ekki kom þó til átaka, því að fangaverðir skár- ust í leikinn. Samkvæmt fangaskrá verður ekki séð til hlítar hvað þeim tveim bar á milli, en sá danski virðist hafa átt upptökin, taldi Sigurður hann hafa ögrað sér og kallað sig farlama, þegar Sigurður færðist und- an að ganga á hólm við hann og bar við handarmeininu; þá frýjun stóðst Sigurður ekki. Seinna um kvöldið ávítaði einn af fangavörðunum, Johan Frederik Reimann, Sigurð hai'ðlega fyrir það, að hann espaði samfanga sína, en ekki eru tilgreind svör Sigurðar. Varla mun fangaverðinum þó hafa fundizt hann bljúgur viðskiptis, þvi að morguninn eftir kærði hann Sig- urð fyrir Holmberg, verkstjóra fang- elsisins, og sakaði hann um áreitni við fangana. Þetta varð til þess að Holmberg boðaði Sigurð á sinn fund, lagði ríkt á við hann að forðast allar útistöður við fangana, skipaði honum síðan til vinnu og bannaði honum að hreyfa sig frá henni. Um ellefuleytið kom Reimann enn að máli við Sig- urð og skipaði honum að hjálpa til við matreiðsluna, en Sigurður afsak- aði sig með handarmeininu, og er Reimann vildi ekki taka gilda afsök- un hans, kvað Sigurður verkstjóra hafa bannað sér að hverfa frá vinn- unni og það bann mundi hann virða. Gerðist Reimann þá reiður og hreytti út úr sér: „Sleppirðu í dag, skaltu fjandakornið ekki sleppa á morgun.“ Snaraðist að svo mæltu á brott og inn til verkstjóra. Að vörmu spori kom Reimann til baka og skipaði Sigurði að fylgjast með sér á fund verkstjórans. „Fyrst þú vilt, að ég komi, skal ég korna," varð Sigurði að svari um leið og hann stökk á Reimann og lagði hann hnífi í síðuna. Er Reimann gaf ekki hljóð frá sér, hugði Sigurður að hnífurinn hefði ekki gengið gegnum fötin, lagði hann því enn hnífi sínum og sló til hans um leið, svo að hann féll til jarðar. Stóð Reimann þó upp aftur og gekk inn til verkstjórans, en þaðan var hann svo fluttur í sjúkra- hús andartaki síðar. Það var líflátssök að ráðast á fanga- vörð og beita áhaldi, sem að bana gat orðið, eða stofna lífi hans í hættu, og það eins Þótt sannaðist að ekki hefði verið ætlun fangans að drepa hann og fangavörðurinn lifði af árás- ina. Mál Sigurðar var tekið til rann- sóknar tafarlaust. Sýna yfirheyrslur, að verkstjóri lét vel yfir framkomu Sigurðar yfirleitt, enda þótt honum þætti fanginn á stundum tala helzt til drýgindalega um afl sitt. Sigurður taldi Reimann fangavörð jafnan hafa komið ilia fram við sig, talið handar- meinið uppgerð að mestu og dregið mjög í efa, að hann væri eins sterkur og hann vildi vera láta. Þá hafði hann Reimann og grunaðan um að hafa valdið því, að hann hefði verið sviptur mjólkurskammtinum, taldi það þó ekki víst, Þar eð sér hefði borizt til eyrna, að einn fanganna hefði látið svo um mælt í kansellíráð- inu, að Sigurður væri svo ramur að afli að hann þyrfti ekki mjólk, Ekki kvaðst hann hafa ætlað að drepa Reimann, en bætti þvi við, að sér hefði fundizt hann eiga skilið að hann blakaði við honum; gilti sig og einu hvort líflát kæmi fyrir eða ekki. Einn fanganna bar það, að Reimann hefði sífellt verið að stríða Sigurði. Reimann var orðinn rólfær eftir nokkrar vikur, en yfirlæknirinn lýsti yfir því, að sár hans hefðu engu að siður verið lífshættuleg. Var Sigurð- ur siðan dæmdur til dauða af sér- stakri, þriggja mann dómnefnd hinn 18. nóvember. Lögum samkvæmt var dómsúrskurði þessum skotið til hæsta- réttar, og var líflátsdómurinn stað- festur þar hinn 22. janúar, en þó greiddu tveir af tíu dómendum at- kvæði gegn því. Annar þeirra, Schiönning hæstaréttardómari, byggði gagnatkvæði sitt á því, að Sigurður mundi ekki hafa skilið reglugerðina, er honum var lesin hún á dönsku, Þegar hann kom í fangelsið, og olli sú röksemdafærsla hans miklum heilabrotum í réttinum, en þau urðu Þó úrslitin, að sú ástæða þótti ekki næg til linkindar. Enn kvað Schiönn- ing verknaðinn unninn í skammvinnri geðshræringu, og hefði fanginn iðr- azt af heilum hug, og loks hefði fram- koma hans í fangelsinu alltaf verið eftirbreytniverð; lagði hann til að Sigurður yrði dæmdur í rasphúsið ævilangt. Hinn dómarinn, sem greiddi sératkvæði, vildi að visu fallast á líflátsdóm, en með því skilyrði að lagt væri fyrir konung að náða Sig- urð. Kansellíið féllst á skoðun meiri- hlutans og skipaði með bréfi, dag- settu hinn 19. febrúar, að hálshöggva skyldi Sigurð á venjulegum aftöku- stað á Amager. Samkvæmt eigin- handarbréfi kóngsins fógeta í Kaup- mannahöfn hefur þvi boði verið fylgt að morgni hins 4. marz 1834. Þannig er skýrt frá ævilokum Sig- urður Gottsvinssonar í skjalfestum, opinberum heimildum. Að sjálfsögðu komu upp margar og ólíkar sögu- sagnir um ævilok hans, og voru sum- ar hafðar eftir þeim félögum hans, er þeir komu heim aftur. Ein er sú, að fangarnir hafi viljað fá Sigurð í félag við sig að myrða fangavörðinn, en hann eigi viljað og svarað þvi til, að á meðan hann legði ekki illt til sín, legði hann ekki heldur illt til hans, — „en geri hann það, er hann feigur." Hafi þá fangarnir rægt Sigurð við fangavörðinn, unz í brýnu sló á milli þeirra, og Sigurður þá drepið hann. Enn er sú saga, að Sigurður hafi tekið málstað fanga, sem vörður- inn misþyrmdi; hafi þeim þá lent saman i orði og Sigurður drepið fangavörðinn í reiði. Fleiri eru og Þær sagnir, en engin virðist hafa við rök að styðjast. Sagt var og, að Sigurður yrði vel við dauða sínum, berað háls sinn og lagzt sjálfur á höggstokkinn og neitað því, að bundið væri fyrir augu sér. Ekki eru þó fyrir því neinar áreiðan- legar heimildir. En svo er sagt, að Kristínu yrði það að orði, er hún fregnaði aftöku sonar síns: „Það var nú það, sem við var að búast, að hann viidi hafa mann fyrir sig, hann Sigurður." Lýsa þau orð betur en gert yrði í löngu máli, hver var heimanfylgja Sigurðar Gottsvinssonar, bæði að erfðum og uppeldi. '&ó’uScvóiÍA' fcjb&ky&Lunnúh feœfösteópur 1251«« H.f. Raftækjaverksmihjan HAFNARFIRÐI — SÍMAR: 50022 OG 50023 V I K A N 35

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.