Vikan


Vikan - 12.11.1964, Blaðsíða 7

Vikan - 12.11.1964, Blaðsíða 7
Svo það var ekki erfiðara en þetta, að slást í fylgd með árum helvítis? Ótti? Hvað var ótti? Tilfinning, sem ekki var til. Tilfinning, sem til- heyrði þeim Parisarbúum, sem skulfu, þegar þeir heyrðu betlara und- irheimanna fara framhjá húsum þeirra, á leið til kirkjugarðsins við Saint-Innocents til fundar við prins þeirra, stóra Coesre. — Hverjum tilheyrir hún? spurði einhver enn einu sinni. — Okkur! æpti Trjábotn. — Og takið allir eftir því! Enginn betlaranna, ekki einu sinni þeir fótfráustu, reyndu að ráðast á þennan afskræming. Og þegar fór að halla á fótinn, þustu fram tveir af gervihermönnunum, hinir svokölluðu drilles, lyftu skál aumingjans og báru hana upp. Óþefurinn í þessu hverfi var óþolandi. Kjöt, ostur og rotnandi græn- meti lá hvarvetna, og rotnunardaunninn lá yfir öllu. Þetta var mark- aðshverfið og hér var holdgleypirinn mikli, kirkjugarðurinn í Saint- Innocents. Angelique hafði aldrei komið til Saint-Innocents, þótt þessi hryllilegi staður væri einn vinsælasti stefnumótsstaður í París. Hérna var jafnvel hægt að hitta hefðarfrúr, sem komu til að velja sér bækur og undirföt í búðunum á neðstu hæð gleðihúsanna. Um hábjartan daginn var al- gengt að sjá glæsilega aðalsmenn og ástmeyjar þeirra spásséra um göturnar, og aðalsmennirnir ýttu kæruleysislega frá sér beinum og höfuðkúpum með göngustöfunum, meðan syngjandi líkfylgd gekk fram- hjá. Samkvæmt erfðavenjunni var ekki hægt að handtaka neinn á þessum stað, og á nóttunni var þetta aðsetursstaður fanta og flakkara og hór- karlarnir komu hingað til að velja sér svallfélaga úr hópi gleðikvenn- anna. Þegar þau nálguðust kirkjugarðinn með hrörlegum veggjum, sem hægt var að komast í gegnum á mörgum stöðum, kom dauðahróparinn út um aðalhliðið með síða, svarta skikkjuna, sem var útsaumuð með hauskúpum og krosslögðum beinum og silfurtárum. Þegar hann sá hóp- inn, sagði hann tilbreytingarlausri röddu: — Ég get upplýst ykkur um, að það er dauður maður í rue de la Ferronnerie. Það er óskað eftir fólki í Ukfylgdina á morgun. Hver og einn mun fá tíu sols og svarta yfirhöfn. — Við skulum fara. Við skulum fara, hrópuðu nokkrar tannlausar nornir. Þær voru í þann veginn að rjúka i átt til heimilisfangsins, sem gefið hafði verið upp, en hinir vörnuðu þeim vegarins og Trjábotn öskraði: — Djöfullinn hirði þig! Hver í andskotans nafni heldurðu að þú sért, að reka þin auðvirðilegu viðskipti, meðan Stóri-Coesre bíður? Og hvern andskotann hef ég að gera við hóp af svona ófyrirleitnum kerlingarnorn- um? Hvaða mannasiðir eru þetta....? Kerlingarnar drúptu höfði skömmustulegar og hökur þeirra titruðu. Svo gekk öll hersingir. inn i kirkjugarðinn, í gegn um götin í veggnum. Angelique varð stóreyg, þegar hún gekk inn á þetta svæði, sem notað- hafði verið sem greftrunarstaður um aldaraðir. Hér og þar stóðu opnar fjöldagrafir, þegar hálffullar af líkum í líkklæðum, og biðu eftir fleiri líkum áður en þeim yrði lokað. Klunnalegir steinar á jörðinni sýndu hinztu hvíldarstaði betur stæðra fjölskyldna. En þetta var greftrunar- staður hinna fátæku. Hinir göfugu voru jarðaðir í Saint-Pauls kirkju- garðinum. Tunglið var nú komið upp og skein á heiðum himni og lýsti upp þunnt snjólagið, sem lá yfir þökum kirkjunnar og bygginganna í kring. Croix des Bureaux, hár málmkross stóð skammt frá predikunarstóln.um í miðj- um kirkjugarðinum, og endurvarpaði daufum glampa í tunglsljósinu. Svalt loftið dró úr dauninum. Reyndar virtist enginn taka eftir honum og Angelique skeytti því engu, þótt hún, andaði að sér sætum rotnunar- þefnum. Það sem héit athygli hennar óskiptri, voru háir yfirreftir pallar, sneisafullir af beinum. Þúsundir á þúsundir ofan af beinagrindum og höfuðkúpum hafði verið hlaðið á þessa palla. Loftið þurrkaði beinin og tíminn muldi þau í duft, en stöðugt komu nýjar birgðir upp úr jörð- inni. Hvert sem hún leit um garðinn, sá hún hópa af beinum, hvítar höfuð- kúpur og aðrar leifar mannlegs líkama. — Hvað.... er þetta? stamaði Angelique. Hún trúði ekki sínum eig- in augum, og hafði á tilfinningunni, að hún væri ekki með sjálfri sér. Dvergurinn Barcarole sat á legsteini og horfði striðnislega á hana. — Beinagarðurinn, svaraði hann. — Beinagarðurinn, i Innocents. Bezti beinagarður í París. Svo bætti hann við eftir stundarþögn: — Hvaðan ertu eiginlega, stúlka mín? Hefurðu aldrei séð þetta áður? Hún gekk til hans og settist við hlið hans. Síðan hún hafði næstum óafvitandi klórað andlit gervihermannsins með nöglunum, hafði hún verið látin í friði og enginn hafði ávarpað hana. Þegar einhver leit forvitnis eða girndaraugum í áttina til hennar, var alltaf einhver fljótur að segja: — Trjábotn segir, að hún sé okkar. Látið hana vera, strákar. Hún tók ekki eftir því, að allt svæðið umhverfis hana, sem var næst- um autt þegar þau komu, var smám saman að fyllast af einkennilegum hóp. Beinagarðurinn hélt henni eins og töfraðri. Hún vissi ekki, að þessi siður að hlaða upp beinagrindum, var sérstæður fyrir Paris. Allar stærstu kirkjurnar eyndu að keppa við kirkjugarðinn í Saint-Innocents. Angelique fannst þetta skelfilegt, en dvergnum Barcarole fannst þetta stórkostlegt. Hann muldraði: .... dauður í garðinn fer. Hefur enginn hugmynd um, hvað hinum megin er?“ Angelique snéri sér hægt að honum: — Ertu skáld? — Þetta er ekki eftir mig, heldur eftir Litla Rennusteinsskáldið. Reiðin vall í henni á ný. — Þekkirðu hann? — Hvort ég geri! Hann er skáldið í Pont-Neuf. — Hann verð ég lika að drepa. Dvergurinn stökk upp eins og froskur. — Hæ! Farðu nú rólega! Hann er vinur minn! Hann litaðist um, barði með krepptum hnefa á ennið á sér og sagði: — Uún er brjáluð! Hún vill kála öllum! I sama bili varð nokkur þys, og hópurinn gliðnaði til að hleypa undar- legri hirð í gegn. I fararbroddi var mjög há og grönn vera, sem þrammaði berfætt í krapakenndum snjónum. Geysimikið hvítt hár hékk niður á axlir hennar, en andlitið var hárlaust. Kannske var þetta karlmaður, en það hefði verið auðvelt að halda að þetta væri gömul kona. Kannske var þetta ekki karlmaður, þrátt fyrir buxurnar og tötralega yfirhöfnina. Með holdskörp kinnbeinin, mött, útstæð og fljótandi augu, var hann eins og kynlaus beinagrind, og í fullu samræmi við dauðalegt umhverfið. Hann bar langt sverð og á öðrum enda þess hékk gegnumrekið hræ af hundi. Næstur honum kom feitur, lítill karlmaður, einnig skegglaus og bar fyrir sér kúst. Á eftir þessum tveim einkennilegu verum kom lírukassaleikari og hamaðist við að snúa lírukassanum sínum. Hann var sérkennilegur að því leyti, að hann var með geysistóran stráhatt, sem náði niður á axlir hans. En að framan hafði hann gert göt á hattinn, og þar skinu hæðnis- augu hans i gegn. Á eftir honum kom barn, sem barði með miklum há- vaða á botninn á koparkeri. — Viltu að ég segi þér nöfn þessara frægu herramanna? spurði dverg- urinn Angelique. Svo bætti hann við um leið og hann drap tittlinga: Þú þekkir merkið, en ég veit að þú ert ekki ein af okkur. Þessir, sem fara fremst, eru Stóri-Geldingur og Litli-Geldingur. Stóri-Geldingur hefur verið hér um bil dauður i mörg ár, en drepst aldrei alveg. Litli- Geldingur sér um konurnar hans Stóra-Coesres. Hann ber tákn konungs undirheimanna. — Kústinn? —- Uss! Gerðu ekki grín að því. Það er hægt að hreinsa vel með kústi. Fyrir aftan þá er Thibault lírukassaleikari og sveinninn hans Linot. Og hér kemur kvennablómi undirheimanna. Hann benti á hóp kvenna, og undir sóðalegum höfuðfötum þeirra mátti sjá skvapmikil andlit og blábauguð augu skækjanna. Sumar litu enn- þá vel út, en aðeins ein þeirra, unglingur, næstum barn, var fersk enn- þá. Þrátt fyrir kuldann voru brjóst hennar nakin, og hún var stolt af reisn þeirra. Þesu næst komu kyndilberar. Hópur hermannaklæddra manna með sverð, gervipílagrímarnir frá Saint-Jacques, og loks kom í ljós risi með tóm augu og slapandi neðrivör. Hann ýtti á undan sér hjólbörum með vælandi öxli. — Þetta var Bavottant, fíflið hans Stóra Coesres, tilkynnti dvergurinn. Að lokum, á eftir fíflinu, kom mannvera með mikið hvítt skegg, klædd í svarta skikkju og vasar skikkjunnar voru úttroðnir af pergament- vafningum. Við belti hans héngu þrir vendir, blekhorn og nokkrar gæsa- fjaðrir. — Þetta er Jean Gráskeggur, hægri hönd Stóra Coesres. Sá sem sem- ur lög undirheimanna. — Og hvar er Stóri Coesre sjálfur? — 1 hjólbörunum. — 1 hjólbörunum? át Angelique upp eftir honum, og vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið. Hún reis upp til að sjá betur. Risinn hafði stöðvað hjólbörurnar fyrir íraman predikunarstólinn, í miðjum kirkjugarðinum. Hann tók eitt- hvað upp úr hjólbörunum, klöngraðist upp í stólinn og settist með byrði sina í kjöltunni. — Almáttugur Drottinn! andvarpaði Angelique. Hún sá Stóra Coesre. Þetta var afskræmd vera með yfirgengilega stóran kvið, sem endaði í ferlegum, hvítum fótleggjum, sem hefðu hæft tveggja ára barni. Stórt höfuðið var skreytt með miklu dökku og úfnu hári og um rætur þess hafði verið vafið skítugum klút til þess að hylja rauðan svörðinn. Nástæð augun undir loðnum augnabrúnunum voru hörkuleg. Hann hafði þykkt svart yfirskegg, klóbeygt í endana. — Hí, hi, hí, tísti i Barcarole, þegar hann sá undrun Angelique. — Þú átt eftir að sjá það góða mín að hér hjá okkur, ráða hinir litlu yfir hinum stóru. Veiztu hver verður Stóri Coesre, þegar feiti Rolin geispar golunni? Hann hallaði sér nær henni og hvíslaði að henni: — Trjábotn. Framhald á bls. 45. VIKAN 46. tbl. — rj

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.