Heima er bezt - 01.05.1960, Side 10
nokkur hross á hverjum bæ, því að ekki voru þá komnir
bílarnir og aðrar vélar.
Nokkuð misjafnt reyndist, hve menn voru ákveðnir
með að létta á fóðrunum. Héldu sumir, að askan myndi
brátt eyðast, fjúka burt og renna af jörðinni, svo að hagi
kæmi á ný; myndi þá mega treysta eitthvað á beit, eins
og vant var. En ekki fór vel fyrir þeim, sem þessu höfðu
treyst, því raun varð sú á, að mjög lítið sá til jarðar
þann vetur, og þótt verið væri að hleypa fénu í ræsi,
sem úr var runnið, voru strá og kvistur sá, sem upp úr
stóð, svo óhrein af sandi og ösku, að kindurnar litu
varla í það og rásuðu og runnu í allar áttir. Hefði þeim
verið betra að vera kyrrar í húsunum, því þær gerðu
ekkert annað en að níða af sér holdin á þessu sífellda
randi og rennsli. Kæmi slíkt fyrir aftur, ætti enginn að
ætla á útbeit að vetri til.
Afleiðingar þessa Kötlugoss urðu geigvænlegar, svo
að sumir bændur biðu þess aldrei bætur. Nokkrir flýðu
jarðir sínar og fóru til sjávarþorpanna, Víkur og Vest-
mannaeyja, en aðrir skiptu um jarðir og fóru af eyði-
lögðum jörðum á aðrar, sem minna voru skemmdar,
þar á meðal Jóhannes á Söndum, sem fyrir mestu tjóni
varð á skepnum sínum í hlaupinu, því það fór yfir mikið
af Sandahólmanum og tók þar með sér bæði hross og
sauðfé, eins og skýrt er frá í riti Gísla sýslumanns. Þetta
mikla höfuðból var meira og minna í kafi í sandi og
leðju eftir hlaupið, en hús sakaði lítið. Þó flutti þangað
þegar um vorið bóndinn frá Búlandsseli, Páll Pálsson, og
hefur þó varla verið álitlegt að flytja þangað, úr því að
Jóhannes fór þaðan. En húsin stóðu uppi, og gat Páll
einhvern veginn fengið þau, og það sagði hann síðar,
að hátíð hefði verið að sjá jörðina þar, móts við það sem
var í Búlandsseli, er hann fór þaðan, öskufallið miklu
minna, þar sem hlaupið hefði ekki farið yfir, heldur en
norður frá, þar sem allt var kolsvart og meira en það,
enda hefur það oftast verið í eyði síðan, og nú fyrir
löngu alger eyðijörð.
Langmest varð öskufallið yfir norðurhluta Tungunn-
ar suður fyrir miðja sveitina, eins og bezt má sjá á lýs-
ingu jarðanna við endurmat það, er fram fór um vorið
eftir. Einnig náði þessi mesta öskudvngja yfir vestustu
bæi Síðunnar, Skaftárdal og Á. Miklu minna varð ösku-
fallið í Suðurbyggðunum, Meðallandi og Álftaveri, en
þar skemmdi hlaupið nokkrar jarðir. Minnst varð ösku-
fallið í Mýrdal af þessum öskusveitum. Þar lagði mökk-
inn sjaldnast yfir, var átt of suðvestlæg, meðan á gosinu
stóð, og lagði þá mökkinn yfir Tunguna, mest efri
hluta hennar, og varð oft almyrkt, þótt um hábjartan
dag væri, og kyngdi niður öskunni. Fylgdu reiðarslögin
og þrumugnýrinn alltaf mökknum, og var maður far-
inn að venjast þessu, svo að því var að lokum veitt lítil
eftirtekt.
Ekki er ég viss um, hve þykkt öskulagið hefur verið,
ef það hefði verið jafnfallið, því óðara fauk það af hæð-
um og börðum, en sennilegt þætti mér, að það hafi ekki
verið undir hálfri alin, og ef til vill ríflega það, hefði það
verið jafnfallið.
Mikið af skepnum fórst þegar í upphafi hlaupsins og
á meðan gosið stóð. Segir í riti Gísla sýslumanns, að 36
hross hafi farizt og mörg hundruð sauðfjár, hrossin ein-
göngu eða öll úr Álftaveri og frá Söndum, en sauðféð
úr öllum þremur hreppunum: Skaftártungu, Veri og
Meðallandi. Fórst það með margvíslegu móti, varð sumt
fyrir hlaupinu, í Álftaveri og Söndum, og sumt æddi
eitthvað út í buskann og sást aldrei síðan.
Þótt miklu væri fargað og fækkað fénaðinum um
haustið, var fyrirsjáanlegt, er kom fram á veturinn, að
heyleysi vofði yfir fyrir allar þær skepnur, sem eftir
voru, ef ekkert yrði að gert. En ekki var þá margra
kosta völ, því að um flutning fóðurbætis frá Vík var
ekki að ræða sökum þess, að eftir hlaupið var Sandurinn
ófær með vagna, og auk þess voru hestar orðnir sárfáir
heima, og ekki annað en saltsíld að fá í Vík, en hún var
mjög þung í flutningi.
Þetta frétti Gísli sýslumaður héðan um ástandið í
Tungunni. Skrifaði hann þá manni í Tungunni bréf og
taldi ekki óhugsanlegt, að koma mætti kúm fyrir í Mýr-
dalnum, ef fært revndist að koma þeim út yfir Sand.
Eitthvað yrði að gera til bjargar því, sem bjargað yrði.
Fól hann manni þessum að skoða heybirgðir manna og
athuga ástandið og ákveða síðan, hve margar kýr þyrfti
að losna við af fóðrum og senda sér síðan skýrslu um
þetta. Var þetta gert, og urðu það alls ellefu eða tólf
kýr, sem ég taldi þörf á að losna við. Kom hann þeim
öllum fvrir í Mýrdalnum. Voru Mýrdælingar þá, eins
og oft endranær, betur staddir með hey heldur en
Tungumenn, og hefur oft verið leitað til þeirra með
gripatöku, þegar illa hefur litið út í Tungunni. I þetta
sinn stóðu þeir líka vel að vígi með að bæta við sig
fóðurbæti þeim, sem til var í Vík, þar sem aðeins var
um stuttan flutning að ræða. Gekk Gísli sýslumaður
röggsamlega fram í að koma þessu öllu í kring með sín-
um alkunna dugnaði.
Ekki var það þrautalaust að koma þessum kúm út yfir
Mýrdalssand um hávetur í misjafnri tíð og færð, en ein-
hevrn veginn tókst það samt slysalaust, og komust allar
kvrnar lifandi út yfir Sand, en hægt varð að fara, og
lengi var verið með þær á leiðinni.
Þessi gripataka Mýrdælinga og Landeyinga (hrossin
um haustið) var langmesta hjálpin, sem Tungumenn
urðu aðnjótandi sökum gosplágunnar miklu. Var víst
ekki hart kallað eftir meðgjöf með gripum þessum. Mun
mjög lítið hafa verið tekið með hrossunum, sem fóru út
í Landeyjar, og hefur þessum sveitum báðum vart verið
þakkað þetta sem skyldi. Hefði gripum þessum ekki
verið komið þannig fyrir, myndi ekkert annað hafa
legið fyrir en að farga þeim, og hefði þá orðið fátt um
gripi eftir í Tungunni. Nokkrir bæir í Norður-Tung-
unni voru kýrlausir, frá því að kýrnar fóru á þorra og
góu (í tveim hópum) og þar til kominn var hagi sum-
arið eftir, en það varð harla seint sökum öskunnar.
Fjórir bæir fóru í eyði um vorið hér í Norður-Tung-
unni, sem sé Snæbýli, Ljótunnarstaðir, Búlandssel og
Svartinúpur. Eru tveir síðast töldu enn í eði, en hinir
tveir í ábúð og hafa oftast verið það, síðan flutt var í
þá aftur.
154 Hcima er bezt