Heima er bezt - 01.05.1960, Page 25
Ingibjörg Sigurðardóttir:
ANNAR
HLUTI
/
I pjónustu Meistarans
SKÁLDSAGA
Ég tók boði hans með þökkum, og við fylgdumst að
heim til hans. Þar var mér vel tekið, og dvaldist ég þar
í góðu yfirlæti, þangað til við fórum á sjóinn aftur.
Skipstjórinn átti dóttur yngsta barna, sem nú var orðin
gjafvaxta stúlka en dvaldist enn í föðurgarði. Líney var
nafn hennar. Hún var mjög kát og alúðleg við mig
strax við fyrstu kynni. Og þegar ég fór aftur á sjóinn
eftir fyrstu dvöl mína á heimili skipstjórans, sagði hún
brosandi við mig, um leið og ég kvaddi hana:
— Þú kemur aftur hingað, þegar skipið losar hérna
næst? Ætlarðu ekki að gera það?
Ég þakkaði henni fyrir, lofaði að koma aftur og fór
síðan á brott. En orð hennar og bros fylgdu mér á haf-
ið. Eftir þetta varð ég brátt fastur gestur á heimili skip-
stjórans í hvert sinn, er ég kom að landi. Ég varð brátt
ástfanginn af Líney, og hún gaf ást minni byr undir
báða vængi. Ég var óumræðilega hamingjusamur. Störf-
in á hafinu urðu mér eins konar leikur, og ég brosti
hugdjarfur við hverri hættu. Vegna stúlkunnar minnar
skyldi ég verða hetja og mikilmenni, og ég ákvað að
sækja um skólavist á stýrimannaskólanum, strax og ég
hefði tök á því.
Ég sagði Líney frá þessari fyrirætlun minni, og hún
virtist fagna henni. Við vorum heitbundin hvort
öðru, en hún bað mig að láta foreldra sína ekki vita
neitt um það fyrst um sinn. Og ég var fús til að varð-
veita leyndarmál okkar, svo að enginn vissi neitt nema
við tvö.
En svo var það einu sinni, þegar skipið var að sigla
hingað inn með mikinn afla, og hjarta mitt barðist af
sælli tilhlökkun yfir væntanlegum endurfundum með
stúlkunni minni, sem var vön að fagna mér á heimili
foreldra sinna, að skipstjórinn segir við mig ásamt fleir-
um af áhöfninni:
— Ég verð einum degi lengur í landi að þessu sinni,
en ég er vanur. Síðan brosir hann góðlátlega til okkar
og bætir við:
— Ég ætla sem sé að sitja brúðkaup dóttur minnar í
kvöld.
Ég greip andann á lofti.
— Elvaða dóttur? lmaut mér af vörum.
— Hennar Líneyjar. Hinar eru allar giftar fyrir
löngu.
Eg spurði ekki um fleira. En þessari stund gleymi ég
aldrei.
Skipið lagðist að hafnargarðinum, og við losuðum
fiskinn úr því. Ég vann starf mitt eins og í Ieiðslu. Ég
gat ekki trúað orðum skipstjórans. Að Líney hefði
brugðizt mér, nei, því gat ég ekki trúað.
Strax og affermingu skipsins var lokið, fór skipstjór-
inn heim, án þess að bjóða mér með sér, eins og hann
var vanur að gera. Eitthvað bjó undir því. Skipsfélagar
mínir tíndust allir á burt. Hver fór heim til sín. Ég varð
brátt einn eftir niður við höfnina. Nú var komið kvöld,
og ég tók þá ákvörðun að fara heim að húsi skipstjór-
ans og grennslast eftir, hvers ég yrði vísari. Enn trúði
ég ekki orðum hans um giftingu Líneyjar.
Ég gekk hröðum skrefum heim að húsinu. Það var
allt uppljómað, og nokkrar bifreiðar stóðu fyrir utan.
Ég nam staðar við næsta hús í götunni og beið þar um
stund. Og ekki leið á löngu þar til bifreið ók heim að
húsi skipstjórans og staðnæmdist þar. Og út úr henni
steig engin önnur en Líney, klædd dýrindis brúðar-
skarti, og með henni ungur maður, sem auðsjáanlega var
brúðgumi hennar. Þau leiddust þegar inn í húsið og
hurfu mér sjónum.
Orð skipstjórans voru þá sönn. Líney hafði brugðizt
mér. Sársauka mínum á þeirri stund ætla ég ekki að
reyna að lýsa, um hann á ég engin orð.
Ég reikaði niður í bæinn og inn í veitingahús. Það
kvöld tók ég fyrsta staupið á ævinni, og síðan hefur
líf mitt verið óslitin þyrnibraut myrkustu ógæfu og
niðurlægingar.
Þegar ég hafði drukkið nokkur staup þetta örlagaríka
kvöld, varð ég sem allur annar maður, kaldur og kæru-
laus fyrir öllu. Hugur minn snerist stöðugt um Líney
og brúðguma hennar, og nú var eins og illur andi settist
að í sál minni. Ég hætti að hugsa af nokkurri skynsemi.
Hefnd! Hefnd! bergmálaði í sál minni. Ég hætti að
hugsa af nokkurri skynsemi, mig þyrsti blátt áfram í
að hefna mín. Ég drakk nokkur staup til viðbótar og
reikaði síðan út úr veitingahúsinu. í fyrstu vissi ég ekk-
ert hvað gera skyldi. En svo var sem hinn illi andi næði
algeru valdi yfir mér.
Ég fór í skyndi heim að húsi skipstjórans og gekk
óboðinn inn í stofu. Þar stóð yfir dýrlegasti fagnaður.
Fyrir enda skrautlegs veizluborðs sat Líney og virtist
vera mjög sæl við hlið brúðguma síns. Ég snaraðist að
borðinu, án þess að veita nokkru öðru athygli, og
greiddi brúðgumanum þungt högg. Það varð uppi fót-
ur og fit í veizlusalnum, og ég var þegar tekinn hönd-
um af mörgum mönnum. Eftir það yissi ég lítið af mér.
Var bæði orðinn ofurölva og lamaður af reiði og sálar-
kvöl.
Heima er bezt 169