Heima er bezt - 01.08.1963, Blaðsíða 12

Heima er bezt - 01.08.1963, Blaðsíða 12
BÖÐVAR MAGNÚSSON, LAUGARVATNI: Draumar SAMNINGUR VIÐ DÁNA MENN. GEIR í MÚLA. Ég hafði gert samning við þrjá vini mína, á meðan við vorum allir á lífi, að hver okkar sem fyrst dæi, skyldi láta hina vita, ef mögulegt væri, eitthvað sem sannað gæti, að líf væri til eftir þetta líf og hægt væri að ná sambandi við þá, sem farnir væru á undan. Þessir menn voru: Geir Egilsson, bóndi að Múla í Biskupstungum, dáinn..........., Bjöm Bjarnarson, hreppstjóri á Brekku í Biskupstungum, dáinn 10. sept. 1920, og Gunnlaugur Þorsteinsson, hreppstjóri að Kiðja- bergi í Grímsnesi, dáinn 3. maí 1936. Ekki get ég sagt, að sambandið hafi gengið greitt, og hefi ég þó haft allan hug á því að ná sambandi við þá, ekki sízt eftir að þeir voru nýlátnir. Að vísu hefur mig dreymt þá alloft, einkum Björn, en langoftast hefur það verið svo óljóst, að ég hefi ekki getað ráðið í, hvað þeir hafa meint eða viljað fræða mig um. Þó verð ég að halda því fram, að stundum hafi verið hægt að ráða suma þessara drauma fyrir því, sem bráð- lega átti að koma fram. Nokkru eftir dauða Geirs í Múla dreymdi mig, að ég sé hann ganga fyrir baðstofugluggann, sem ég svaf við, og á eftir honum sé ég ganga sex menn, sem báru lík- kistu á milli sín. Þykist ég þá kalla til konu minnar og biðja hana að taka á móti þessum sex mönnum og hafa fyrir þeim og gera þeim gott frammi í boðstofunni, en ég ætli að taka á móti Geir sjálfur og hafa tal af honum. Ég vissi strax, að hann var sá eini af þessum mönnum, sem dáinn var. Fer ég svo til dyra að hitta þessa menn og bjóða þeim í bæinn, sem siður var. En ég hugsa samt einungis um Geir. Þykist ég fara með honum gegnum baðstofuna og inn í svefnherbergi okkar hjóna og bjóða honum til sætis á rúmi konu minnar, eins og ég hafði stundum gert, meðan hann lifði, því hjá því var orgel á vetrum, en Geir var söngelskur og söng vel — eins og fleiri ætt- menn hans, svo sem Geir Sæmundsson, vígslubiskup o. fl. Hafði hann sjaldan komið hér og staðið við, svo að við ekki rauluðum saman eitthvert nýtt lag, sem annar hvor var þá nýbúinn að læra. En nú hafði ég allan huginn á því að fræðast af hon- um, hvemig honum liði, síðan hann dó. Ekki er hann fyrr setztur, en hann spyr mig, hvar Ragnheiður, elzta dóttir mín sé, og hvort ég ætli ekki að láta hana spila fyrir okkur eitt lag, en það hafði hún einatt gert, þegar hann var á ferð. Taldi ég það sjálfsagt og þóttist láta kalla á hana. En á meðan fer ég að tala við hann og segi: „Mikið áttu gott, Geir, að geta komið til mín.“ „Það er nú ekki lengi, Böðvar. Það er aðeins tæp vika,“ segir hann. „Hvernig líður þér þarna hinum megin?“ spyr ég. „Jæja, svona. En það er vel sungið og spilað hjá okkur.“ í því þykir mér Ragnheiður vera komin til að spila, og þykist ég segja við Geir, að nú skuli hann ráða því, hvað hún spili á orgelið. Þykir mér hann ákveða, að það skuli vera upphafið á sálminum: „Mín lífstíð er á fleygiferð, ég flýti mér til grafar. Að litlum tíma liðnum verð ég lagður nár án tafar. Þú, dauðleg vera, dvel ei þá þinn dauða fljótt að minnast á. Það ráð er þörf að hafa.“ Ekki man ég, hvort við sungum fleiri versin. Þegar hér var komið, gat ég ekki notið lengra samtals við Geir, sökum samtals og skvaldurs frá ferðamönnunum, sem mér þótti tala svo mikið við heimilisfólkið í bað- stofunni, og þóttist ég harma það. Draumurinn var því ekki lengri.------ Daginn eftir komu sex Biskupstungna-bændur með dauðveikan mann, sem þeir voru að flytja til Reykja- víkur til að leggjast inn á spítala til lækninga. Þá voru ekki bílar komnir, og fluttu þeir manninn á kviktrjám. Báru þeir manninn vestur hlaðið að bæjardyrunum, sömu leiðina og ég sá mennina bera líkkistuna í draumn- um. Þeir gistu svo allir hér um nóttina. En það er af þessum bónda að segja, að hann dó á sjötta degi, eftir að þeir fóru með hann héðan til Reykjavíkur, — eða eftir tæpa viku, eins og Geir kvaðst hafa tíma til að vera hér. Ég leit svo á þegar, að Geir hefði verið að fræða mig á þessu, þótt í dálitlum líkingum hefði verið, eins og einatt vill verða í draumum, og þannig lít ég enn á þetta. 272 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.