Heima er bezt - 01.08.1967, Blaðsíða 27

Heima er bezt - 01.08.1967, Blaðsíða 27
En faðir minn var staðfastur og ekki varð móður minni frekar haggað. Þau höfðu ákveðið að Hrefna yrði í eigu þeirra, svo lengi sem óviðráðanleg atvik ekki bönnuðu það. Hennar þurfti líka við. Jörðin okkar var erfið dalajörð, langræði mikið og fyrirhafnasöm fénað- arferð og þurfti góðan hestakost í smalamennsku og önnur ferðalög. Auk þess þurfti faðir minn oft að vera á ferð vegna félagsmála. — Starfa fyrir sveit sína o. fl. En um þessar rnundir var aðal-reiðhross hans orðið ónógt vegna brjóstveiki og annað reiðhross á heimilinu, sem eignað var móður minni, var tekið að eldast og þreytast. Hrefnu beið því stórt hlutverk og hennar var vissulega rík þörf. Tamningamaðurinn skilaði henni um haustið, skóluðu reiðhrossi og með loflegum vitnisburði. Og víst var henni tekið tveim höndum, sem annaðhvort var. Annars var ekki laust við að mér fyndist hún ofurlítið framandi og eins og stolt og stór með sig eftir þessa fjarveru og menntun. Og nú brá líka svo við að hún var stundum stygg í haga og lét ekki hvern sem var hafa hendur í faxi sínu. Hún var ekki heldur alveg laus við ýmsa við- kvæmni, eins og sjónfælni og átti til hik og hálfgerðan tepruskap. Samt sem áður fannst mér hún fyrirmyndar- hross og ég naut þess að hafa hana aftur heima, enda þótt mér væri með öllu forboðið að koma henni á bak og hafa ein ábyrgð á taumhaldinu. Mér var sagt að hryssan væri of fjörug til að ég gæti setið hana, svo ung sem ég var. Þetta þótti mér heldur hart og ég hét því að hnekkja svo móðgandi vantrausti. Og einu sinni, þegar ég hélt að enginn sæi til, stal ég Hrefnu. Ég lokkaði hana til mín með blíðmælum og brauðbita og mér gekk vel að beizla hana og með aðstoð góðrar þúfu komst ég á bak. En samstundis greip Hrefna rokna sprett og enda þótt hún væri svo mjúkgeng, að maður haggaðist lítið í sæti var flugið of mikið fyrir mig og ég féll af baki, en hryssan hljóp langt úti á engi og saup hátt hreggið. Ég hafði ekki meitt mig neitt og brölti því fljótt á fætur og reyndi að ná Hrefnu til að taka af henni beizl- ið og þakka fyrir sprettinn, en hvernig sem ég fór að komst ég ekki nálægt henni, og um kvöldið kom hún heim með hinum hestunum með slitur af beizlinu á sér. Þá varð uppvís verknaður minn. Einhverjar ávítur mun ég hafa fengið og enda þótt tillitssemi og hlýðni væru ekki ríkar dyggðir í fari mínu á þeim tíma, lærði ég af reynslunni — og víst var um það, að ég snerti ekki Hrefnu það sem eftir var haustsins til að ríða henni ein. En ég hlakkaði til næsta vors. Hrefna fékk gott eldi um veturinn, og vorið eftir var hún mjög falleg og spilandi fjörug. Allir sem komu henni á bak höfðu af því ríka ánægju og hún varð á orði — sérstaklega fyrir gangmýktina, sem var einstök. Sumir orðuðu það svo, að þegar þeir sætu á baki Hrefnu, fyndist þeim sætið minna á fjaðrasóffa, og sá sem ekki þoldi að sitja Hrefnu, myndi vart þola nokk- urn hest. Aðalgangur Hrefnu var skeið, en auk þess brokk, sem var mjög lipurt og skemmtilegt. Stökkferðin var mikil og sérkennilega mjúk, en tölt var Hrefnu aldrei eigin- legt, enda mun ekki hafa verið gert mikið af því að æfa hana á þeim gangi. Enn sannaðist á mér í sambandi við Hrefnu, að ekki verða allar vonir að veruleika. Þetta sumar leið svo, að ég kom henni varla nokkru sinni á bak. Hún var mér ofjarl. Það varð ég að viðurkenna, þótt mér þætti það sannarlega súrt í broti. En löngum horfði ég hrifin á fótaburð hennar og öfundaði hvern, sem naut hennar á sprettinum. Hrefna varð aðalreiðhross föður míns, og er stundir liðu, flestra á heimilinu. Þó reið kvenfólk henni ekki mikið til að byrja með, því að hún kunni því ekki vel, að á hana væri lagður söðull, en smám saman var hún þó þjálfuð í að þola það, og varð síðar eitt hið bezta söðul- hross og eftirlætis frarskjóti kvenþjóðarinnar. En örlög Hrefnu urðu þau að njóta sorglega stutt fullrar orku sinnar og færni. Eftir tiltölulega skamman tíma fór að bera á því, að hún var veil í fótum. Hún ju-eyttist fljótt og þoldi ekki harða reið á erfiðum veg- um, né að bera þunga menn. Dýralæknir úrskurðaði þetta sinaskeiðabólgu, sagði að sýna þyrfti hryssunni mikla hlífð í brúkun og vísast væri hún búin að vera sem reiðhross, er treysta mætti á. Þetta fannst okkur öllum heima þungur dómur — lít- ið eitt betri en dauðadómur. Hrefna lifði samt allmörg ár eftir þetta, en var aldrei fullhraust og stundum svo hölt að ekki kom til mála að misbjóða henni með vinnu. Samt voru aðstæðurnar þannig, að oft varð að leggja á hana meira erfiði, en sæmilegt gat talizt, miðað við veilu hennar. En áreiðanlega hefði það ekki verið gert, ef önnur ráð hefðu verið fyrir hendi. Ástæður bænda þá voru stundum slíkar, að þeir áttu ekki alltaf hægt með að kaupa sér hest, því að þeir hafa löngum verið háir í verði. Svo var Hrefna á ágætum aldri, fín og fær, þrátt fyrir allt, og auk þess eftirlæti allra á heimilinu, svo að eigendunum kom ekki til hugar að fella hana fyrr en í fulla hnefana. Talsverð tímaskifti voru að veikindum Hrefnu og framan af árum fékk hún alltaf notið sín á köflum. En fljótt eftir að fæturnir biluðu missti hún svo fjör sitt, að hún var oft ekki nema rétt þægilega viljug. Fótfimin var aftur á móti lengi vel mjög furðuleg. Seinni árin varð þó Hrefna hnotgjörn og hikandi og um leið ótraust í vötnum og á vondum vegum. Allt um það, fannst ýms- um, að þeir væru vel ríðandi, hvenær sem þeir sætu á baki Hrefnu, því að gangmýktin breyttist ekki né fín- leikinn í hreyfingum, þrátt fyrir fjötur þrauta. Eftir að hann lagðist á Hrefnu urðu örlög hennar samantvinnuð mínum, svo að ég minnist vart bernsku minnar og æsku, þannig að hún komi mér ekki í hug. Ur ysi þéttbýlisins, þar sem hávær, sálarlaus ferlíki á hjólum þjóta um steinlögð stræti, flýgur hugur minn löngum á léttum væng — heim í fagran dal, þar sem áður var lifað og starfað, liðið og notið, lúðzt og hvílzt. Heima er bezt 283-

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.